Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Kæra vegna synjunar Embættis landlæknis um veitingu starfsleyfis sem náttúrufræðingur

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 019/2015

Miðvikudaginn 18. nóvember 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, kærði A, hrl. fyrir hönd B, hér eftir nefnd kærandi, til velferðarráðuneytisins ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 9. júlí 2015, um að synja henni um starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu.

I. Kröfur.

Kærandi telur að nám hennar, bæði hér á landi og í Austurríki, uppfylli skilyrði til að hljóta starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu og krefst þess að ákvörðun Embættis landlæknis verði hrundið og henni veitt umbeðið starfsleyfi.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 14. ágúst 2015, eftir umsögn Embættis landlæknis og öllum gögnum varðandi málið. Með bréfi kæranda, dags. 19. ágúst 2015, bárust ráðuneytinu viðbótargögn í málinu, sem voru framsend til Embættis landlæknis með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. ágúst 2015. Umsögn embættisins ásamt gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. september 2015, og var kæranda með bréfi, dags. 14. september 2015, send umsögn embættisins ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærandi óskaði með tölvupósti, dags. 17. september 2015, eftir úrskurði ráðuneytisins, sem vísað var til í umsögn embættisins og var hann sendur með tölvupósti, dags. 19. september 2015. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 21. september 2015.

III. Málavextir.

Kærandi lauk diplomanámi frá F í Vínarborg hinn 13. nóvember 2009. Um er að ræða fjögurra ára nám í Biotechnology, sem í þýðingu ráðuneytisins er líftækni, á háskólastigi, sem samsvarar 240 ECTS-einingum. Lokaverkefni sitt vann kærandi í rannsóknarhópi C í X frá september 2008 til maí 2009. Í framhaldi af því hóf kærandi doktorsnám við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og lauk því samkvæmt útskriftarskírteini þann 15. júní 2013 sem Doctor of Philosophy in Biotechnology. Umsókn kæranda um starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu var synjað með bréfi Embættis landlæknis, dags. 9. júní 2015.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að sótt hafi verið um starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu til Embættis landlæknis þann 4. nóvember 2014. Embættið hafi í desembermánuði 2014 ítrekað haft samband við kæranda með tölvupósti vegna umsóknarinnar og tilkynnt að það teldi rétt að senda umsókn hennar til umsagnar til að fá menntun hennar metna. Þá hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum um nám kæranda við Háskólann í Reykjavík. Var kæranda gefinn frestur til 15. janúar 2015 til að skila umbeðnum gögnum og svara því hvort hún hefði áhuga á að fá námið metið. Kæranda var tjáð að diplomanám hennar væri ekki fullnægjandi. Kærandi sendi lýsingu D formanns Rannsóknarráðs tækni og verkfræðisviðis Háskólans í Reykjavík, á framgöngu náms hennar. Kærandi lauk doktorsnámi frá tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík í maí 2013. Í framangreindri lýsingu kom fram að kærandi hafi hafið nám haustið 2010 og úrskrifast með gráðu í „Applied Sciences“ (hagnýtri líffræði) vorið 2013 og bar ritgerð kæranda titilinn […]. Doktorsverkefni kæranda fólst í því að svara spurningum varðandi það „hvaða áhrif ýmsar kítin og kítósan afleiður hefðu á vöxt og sérhæfingu tiltekinna stofnfruma, hvernig nýta mætti slíkar afleiður í vefjaverkfræði, sérstaklega til húðunar á títan ígræðlingum sem mikið er notað í bæklunarskurðaðgerðum og þá að því hvernig enotoxinmengun getur haft áhrif á beinsérhæfingu þeirra stofnfruma sem rannsóknin beindist að“. Kæranda var með bréfi embættisins, dags. 9. mars 2015, tjáð að grunnskilyrði þess að kærandi fengi starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu væri að lokið hafi verið BS-prófi frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi með höfuðáherslu á greinar heilbrigðisvísinda, frumu og sameindalíffræði, eðlis- og efnafræði, lífeðlis- og lífefnafræði, erfðafræði og líftækni, örveru- og veirufræði, ónæmisfræði, blóðbankafræði, vefjafræði, meinafræði, faraldsfræði, tölfræði og kerfislíffærafræði eða aðrar sambærilegar greinar, ásamt eins árs starfsþjálfun á sérhæfðum rannsóknarstofum heilbrigðisstofnana eða hafa framhaldsmenntun í greinum heilbrigðisvísinda. Að mati embættisins varð ekki séð að diploma í „Biotechnologie“ uppfylli skilyrði um BS-próf. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn um starfsþjálfun. Skilyrði um framhaldsmenntun í grein heilbrigðisvísinda væri ekki uppfyllt með námi á sviði tækni- og verkfræðideildar háskóla. Kæranda hafi verið bent á rétt hennar til frekari rökstuðnings og hvort hún óskaði eftir mati sérfróðra aðila á námi gegn greiðslu 50.000 kr.

Kærandi mótmælti afstöðu Embættis landlæknis til umsóknar um starfsleyfi og benti á að lögð hefðu verið fram gögn um nám kæranda í líftækni frá austurrískum háskóla, yfirlit yfir námsgreinar og staðfestingu á að námi væri lokið, en um 240 ECTS-eininga nám væri að ræða. Nám kæranda væri mun meira en krafist væri samkvæmt íslenskum lögum, en þar sé gert ráð fyrir BS-prófi. Nám kæranda hafi verið metið og viðurkennt sem nægilegt sem undirstaða til doktorsnáms við Háskólann í Reykjavík. Að beiðni embættisins hafi verið aflað staðfestingar á störfum kæranda hjá X sem send hafi verið rafrænt þann 3. júlí 2015. Þar hafi verið staðfest af C, forstöðumanni rannsókna og nýsköpunar í X sem einnig er klínískur lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, dósent við tækni- og verkfræðisvið Háskólans í Reykjavík og aðalleiðbeinandi kæranda í doktorsnámi hennar, hver hafi verið starfstími kæranda og verkefni við X frá því í júlí 2009 er hún hóf þar störf, en þar starfar hún enn.

Ekki hafi verið dregið í efa að nám kæranda uppfylli þau efnisskilyrði sem sett séu fram í 2. gr. reglugerðar nr. 1220/2012, um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu, og skilyrði til að hljóta starfsleyfi né að skólinn sé ekki viðurkenndur sem háskólastofnun. Rök Embættis landlæknis lúti aðeins að því að námsgráða sú sem kærandi hefur lokið sé ekki BS-gráða. Kærandi hafi lokið prófi upp á samtals 240 ECTS-einingar á námsbrautinni Biotechnology (líftækni), sem sé verulega meira nám en BS-gráða í líffræði frá Háskóla Íslands, sem sé 180 ECTS-einingar.

Þann 9. júlí 2015 var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hún „hefði ekki lokið BS prófi í raungrein frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi. Landlæknir hefði ekki heimild til að meta hvort önnur menntun geti talist sambærileg BS-prófi sem nánar sé skilgreint í reglugerðinni. Þar sem ekki væri uppfyllt skilyrði um grunnmenntun yrði ekki fjallað frekar um önnur skilyrði starfsleyfis. Niðurstaða embættisins væri því sú að samkvæmt reglugerð nr. 1220/2012 væri ekki heimilt að víkja frá skilyrði um BS-próf og því yrði umsókn kæranda synjað.“

Krafa kæranda samkvæmt kæru byggist á því að túlkun Embættis landlæknis á 2. gr. reglugerðar nr. 1220/2012 sé of þröng og fari gegn ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn og sé embættið með svo þröngri túlkun að reyna að útiloka kæranda frá rétti sínum.

Þá er í kæru vísað til 7. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, en í 2. mgr. séu taldar upp viðurkenndar prófgráður sem háskólar miðið við. Þá vekur kærandi athygli á því að í greinargerð með lögum nr. 63/2006 sé fjallað sérstaklega um samstarf háskóla í Evrópu á grundvelli hinna svokölluðu Bolognayfirlýsingar, sem hafi það markmið að gera Evrópu að einu menntasvæði fyrir árið 2010 og hafi í samræmi við þá yfirlýsingu verið gerð breyting á lögum um háskóla hér á landi, m.a. til að unnt sé að bera saman nám milli landa. Sé 7. gr. laganna í samræmi við það og miði við ECTS-einingar. Hafi Austurríki og Ísland þegar gert breytingar á skipulagi nokkurra námsgreina. Námi kæranda sem lokið var árið 2009 hafi nú verið skipað til samræmis við Bolognaferlið. Ekki hafi að fullu verið búið að gera þessar breytingar þegar kærandi lauk sínu háskólanámi í Austurríki, en einingakerfið hafi þó verið tekið upp. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að bera nám kæranda saman við grunnnám sem BS- gráða hér á landi, enda fylgi prófskírteini fylgiskjal sem beri með sér hvaða námsgreinar séu að baki námi kæranda sem falli að öllu leyti að kröfum sem gerðar séu til náms náttúrufræðings. Að mati kæranda hafi því verið auðvelt fyrir embættið að meta hvort nám hennar frá Austurríki sé sambærilegt við nám sem liggur að baki BS-prófi í líffræði. „Bókstafstúlkun embættisins sé ekki í samræmi við lög og til þess fallin að skerða rétt kæranda til þess að njóta menntunar sinnar hér á landi og skerða þannig mikilsverð mannréttindi hennar, það er aflhæfi hennar og atvinnufrelsi sem varið sé í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins sbr. lög nr. 33/1944.“

Kærandi bendir á að um veitingu starfsleyfa fari samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Í 1. mgr. 5. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um skilyrði sem uppfylla skuli til að hljóta leyfi til að nota heiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi. Þá komi fram í 2. mgr. 5. gr. að gætt skuli að skuldbindingum sem íslenska ríkið hafi tekið á sig um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða annarra gagnkvæmra samninga. Í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu og skilyrði til að hljóta starfsleyfi nr. 1220/2012 sé í 2. mgr. 3. gr. sérstaklega fjallað um starfsleyfi til þeirra sem lokið hafi námi innan EES og fari um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi náttúrufræðings í heilbrigðisþjónustu sem uppfylli skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum samanber reglugerð nr. 461/2011. Í 14. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að veita megi starfsleyfi hér á landi, m.a. til náttúrurfræðinga í heilbrigðisþjónustu, leggi umsækjandi fram hæfisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist sé í öðru EES-ríki til að geta starfað þar innan löggiltrar heilbrigðisstéttar.

Þá kemur og fram í kæru að kærandi byggi á því að nám hennar í Austurríki hafi þegar verið metið og því ekki þörf á að meta það aftur á kostnað kæranda. Háskólinn í Reykjavík hafi tekið afstöðu til þess hvort nám hennar væri nægilegur grunnur undir doktorsnám. Kærandi hafi innritast í doktorsnám við Háskólann í Reykjavík haustið 2010 og stundað nám á sviði heilbrigðisverkfræði sem sé á sérsviði tækni- og verkfræðideildar háskólans samkvæmt skipulagi hans. Samkvæmt reglum skólans fái þeir einir inngöngu í doktorsnám sem hafi lokið MS-gráðu í fræðigrein sinni. Það sé því ljóst að þegar hafi verið lagt mat á nám kæranda í samræmi við 10. gr. laga um háskóla og niðurstaðan verið sú að námið væri fullnægjandi sem undirstaða doktorsnáms á sviði heilbrigðisvísinda. Því sé það mat kæranda að engin rök séu til þess að endurskoða það mat skólans né standi lög til þess.

Kærandi hafi lokið fullgildu doktorsprófi á sviði lífvísinda frá íslenskum háskóla undir leiðsögn sérfræðings hjá X og tveggja annarra fræðimanna. Það sé því að mati kæranda fráleitt að halda því fram að hún hafi ekki grunnnám á því sviði sem krafist sé til að hljóta starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu.

Hvað varði þá fullyrðingu Embættis landlæknis að skilyrði um framhaldsmenntun í greinum heilbrigðisvísinda séu ekki uppfyllt með námi á sviði tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík þá verði að mótmæla því sérstaklega. Fullyrðingin beri þess vitni að embættið hafi ekki kannað mál kæranda til hlítar. Af þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram megi vera ljóst hvert efnisinntak náms hennar var hjá Háskólanum í Reykjavík og hverjir hafi verið leiðbeinendur hennar. Því verði af þeim gögnum ekki annað ráðið en að nám hennar hafi verið á sviði heilbrigðisvísinda. Að mati kæranda verði að gera þá kröfu til embættisins að það kynni sér skipulag náms einstakra háskóla hér á landi þannig að grundvallarþekking sé fyrir hendi hjá embættinu.

Að mati kæranda hafi ekkert raunverulegt mat á námi hennar og hæfni farið fram hjá Embætti landlæknis. Öll bréf og samskipti við embættið frá því umsóknin var lögð fram beri þess merki að aldrei hafi staðið annað til en að senda gögnin til mats hjá Háskóla Íslands og krefja kæranda um greiðslu 50.000 kr. Ákvörðun um að krefjast mats með þeim kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir kæranda hafi í reynd að mati hennar legið fyrir frá því a.m.k. þann 9. desember 2014. Öll málsmeðferð embættisins hafi í reynd eftir það verið til málamynda. Að mati kæranda verði því ekki séð að embættið hafi virt málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Rannsókn embættisins á málinu hafi ekki verið fullnægjandi, meðalhófs hafi ekki verið gætt og í reynd hafi jafnræðisregla verið brotin.  Kærandi byggi á því að 10., 11., og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 34/1993, hafi verið brotin á kæranda með þeim afleiðingum að hún hafi ekki fengið notið þeirra réttinda sem nám hennar og starfsreynsla hér á landi hefði án nokkurs vafa átt að veita henni. Af þeim sökum gerir kærandi kröfu um að ráðherra hrindi hinni ólögmætu ákvörðun og veiti þau réttindi sem málið varðar og hún á rétt á samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu.

Í andmælabréfi kæranda, dags. 21. september sl., kemur fram hvað varðar rökstuðning embættisins varðandi afhendingu kæranda á gögnum að embættið beri því við að kærandi hafi ekki lagt fram vottorð skv. 21. gr. reglugerðar nr. 461/2011, án nánari skýringa á því hvaða vottorð sé átt við. Á umsóknareyðublaði embættisins sem kærandi skilaði komi fram hvaða gögn skuli fylgja umsókn um starfsleyfi og telji kærandi sig hafa skilað með umsókn öllum gögnum sem þar sé krafist. Embættinu hafi borið að kalla eftir frekari gögnum hafi þau vantað þar að mati þess. Embættið hafi ekki gert það og verði það að teljast brot á leiðbeiningarskyldu og rannsóknarskyldu stjórnvalds skv. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá kemur fram í framangreindu andmælabréfi að af umsögn embættisins verði ekki annað ráðið en að það telji að með úrskurði velferðarráðuneytisins frá 15. júlí 2015 hafi verið tekin ákvörðun sem hafi fordæmisgildi í máli kæranda. Í því máli hafi synjun um útgáfu starfsleyfis til handa heilbrigðisstarfsmanni, sem ekki hafði lokið MS-gráðu í sinni grein, heldur doktorsgráðu, verið hrundið.

Kærandi sé sammála því að framangreindur úrskurður hafi fordæmisgildi í málinu enda málin runnin af sömu rót. Embættið hafi kosið að líta framhjá því að í báðum tilvikunum hafi kærendur ekki einungis lokið sambærilegu, jafngildu námi, heldur mun meira námi en krafist sé.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Af hálfu Embættis landlæknis er greint frá ferli umsóknar kæranda en hún hafi sótt um starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu með umsókn, dags. 4. nóvember 2014. Með umsókninni fylgdi vegabréf frá Austurríki, Diploma frá F, dags. 13. nóvember 2009, F:H Diploma Degree Biotechnologie, prófskírteini frá Háskólanum í Reykjavík: Doctor of Philosophy in Biotechnology, dags. 15. júní 2013, bréf frá Háskólanum í Reykjavík, dags,. 4. nóvember 2014, og staðfesting á PhD in Applied Science and Engineering.

Kæranda hafi í ljósi stöðu umsagnar hennar verið gefinn kostur á að koma að frekari rökstuðningi eða andmælum áður en umsóknin yrði afgreidd og að embættið yrði látið vita ef hún óskaði eftir því að það leitaði umsagnar sérfróðra aðila til að meta umsóknargögn með tilliti til þess hvort hún uppfyllti skilyrði reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu og skilyrði til að hljóta starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 1220/2012. Þá hafi kæranda verið gerð grein fyrir gjaldi samkvæmt gjaldskrá vegna umsagnar.

Í bréfi kæranda, dags. 20. maí og 11. júní 2015, hafi komið fram að hún vildi ekki greiða fyrir að gögn yrðu send til umsagnar. Þá hafi borist bréf frá Z, dags. 3. júlí 2015, þar sem fram kom að kærandi hefði í X bæði unnið að grunnrannsóknarverkefnum og innleiðingu nýrra aðferða, t.d. til tölfræðilegra greininga í gæðaeftirliti og starfa á sviði gæðaeftirlits og gæðatrygginga. Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi Embættis landlæknis, dags. 9. júlí 2015.

Í umsögn embættisins kemur og fram að ákvörðunin hafi byggst á 5. og 6. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, svo og 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu og skilyrði til að hljóta starfsleyfi samkvæmt reglugerð  nr. 1220/2012.

Í rökstuðningi embættisins fyrir afgreiðslu málsins kemur fram að náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu sé ekki löggilt heilbrigðisstétt í Austurríki. Kærandi hafi ekki lagt fram vottorð skv. 21. gr. reglugerðar nr. 461/2011 eða hafi komið fram að hún hafi starfað í öðru EES-landi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu enda hafi kærandi hafið doktorsnám hér á landi strax að loknu námi í Austurríki. Kærandi hafi ekki viljað greiða fyrir mat á námi sínu í Austurríki samkvæmt gjaldskrá og taldi embættið því ekki grundvöll fyrir því að veita kæranda starfsleyfi samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1220/2012 sé skilyrði að umsækjandi hafi lokið BS-prófi í raungreinum frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi. Kærandi hafi lagt fram diploma í Biotechnologie (líftækni) en ekki BS-próf. Í reglugerðinni sé embættinu ekki veitt heimild til að meta hvort önnur menntun geti talist sambærileg BS-prófi og þar sem skilyrði um grunnmenntun hafi ekki verið uppfyllt var í synjun ekki fjallað frekar um önnur skilyrði.

Í frekari umfjöllun embættisins um kæru kemur fram að forsendur hafi breyst eftir að umsókn kæranda var synjað. Vísað sé til úrskurðar velferðarráðuneytisins, dags. 15. júlí 2015, þar sem ráðuneytið taldi kæranda í því máli uppfylla skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis þó kærandi í því máli hefði ekki lokið MS-prófi eins og áskilið sé í reglugerð um viðkomandi starfsstétt, heldur doktorsprófi. Hafi í því máli verið lagt fram vottorð frá Háskóla Íslands þar sem kom fram að kærandi hefði lokið námi sem jafngilti MS-prófi í viðkomandi grein auk meira náms eða doktorsprófs.

Þá kemur fram að eftir að kærandi hafi sent velferðarráðuneytinu kæru hafi verið lögð fram tvö bréf frá Z þar sem staðfest sé vinna kæranda sem náttúrufræðingur. Af efni bréfanna megi sjá að skilyrði reglugerðar nr. 1220/2012, um starfsþjálfun á sérhæfðri rannsóknarstofu heilbrigðisstofnunar, séu uppfyllt og þurfi því ekki að meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði reglugerðarinnar um framhaldsmenntun í greinum heilbrigðisvísinda.

Þá varpar embætti aftur því fram að grunnmenntun kæranda verði metin hjá Háskóla Íslands.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins.

Kæra þessi lýtur að synjun Embættis landlæknis á útgáfu starfsleyfis til handa kæranda sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu. Kærandi telur sig hæfa til að hljóta starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu enda uppfylli hún skilyrði 3. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur náttúrufræðings í heilbrigðisþjónustu og skilyrði til að hljóta starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 1220/2012.

Kærandi lauk Diplomanámi frá F í Vínarborg 13. nóvember 2009. Er hér um að ræða fjögurra ára nám í Biotechnology, á háskólastigi, sem samsvarar 240 ECTS-einingum. Lokaverkefni sitt vann kærandi í rannsóknarhópi C í X frá september 2008 til maí 2009. Í framhaldi af því hóf kærandi doktorsnám við tækni- og verkfræðideild háskólans í Reykjavík og lauk því samkvæmt úrskriftarskírteini, sem Doctor of Philosophy in Biotechnology með gráðu í „Applied Siences“ (hagnýtri líffræði) vorið 2013 og bar ritgerð kæranda titilinn […].

Kæranda var með bréfi embættisins, dags. 9. mars 2015, tilkynnt að grunnskilyrði þess að kærandi fengi starfsleyfi sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu væri að lokið hafi verið BS-prófi frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi með höfuðáherslu á greinar heilbrigðisvísinda. Að mati embættisins yrði ekki séð að diploma í „Biotechnologie“ uppfylli skilyrði um BS-próf. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn um starfsþjálfun. Skilyrði um framhaldsmenntun í grein heilbrigðisvísinda væri ekki uppfyllt með námi á sviði tækni- og verkfræðideildar háskóla. Kæranda hafi verið bent á rétt hennar til frekari rökstuðnings og hvort hún óskaði eftir mati sérfróðra aðila á námi gegn greiðslu 50.000 kr.

Kærandi bendir á að lögð hefðu verið fram gögn um nám hennar í líftækni frá austurrískum háskóla, yfirlit yfir námsgreinar og staðfestingu á að námi væri lokið, með 240 ECTS-eininga námi. Nám kæranda væri mun meira en krafist væri samkvæmt íslenskum lögum, en þar sé gert ráð fyrir BS-prófi. Nám kæranda hafi verið metið og viðurkennt sem nægilegt sem undirstaða til doktorsnáms við Háskólann í Reykjavík, en þar sé gerð krafa um að lokið hafi verið MS-gráðu. Að beiðni embættisins hafi verið aflað staðfestingar á störfum kæranda hjá X sem send hafi verið rafrænt þann 3. júlí 2015. Þar staðfesti C, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar í X, klínískur lektor við læknadeild Háskóla Íslands, dósent við tækni- og verkfræðisvið Háskólans í Reykjavík og aðalleiðbeinandi kæranda í doktorsnámi hennar, að starfstími kæranda og verkefni við X hafi verið frá því í júlí 2009 er hún hóf þar störf og að kærandi starfi þar enn.

Embætti landlæknis synjaði umsókn kæranda með þeim rökum að hún „hefði ekki lokið BS-prófi í raungrein frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi, landlæknir hefði ekki heimild til að meta hvort önnur menntun geti talist sambærileg BS-prófi sem nánar sé skilgreint í reglugerðinni. Þar sem ekki væri uppfyllt skilyrði um grunnmenntun yrði ekki fjallað frekar um önnur skilyrði starfsleyfis“.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar má veita leyfi skv. 2. gr., þeim sem lokið hafa BS-prófi í raungreinum frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi með höfuðáherslu á greinar heilbrigðisvísinda, frumu- og sameindalíffræði, eðlis- og efnafræði, lífeðlis- og lífefnafræði, erfðafræði og líftækni, örveru- og veirufræði, ónæmisfræði, blóðbankafræði, vefjafræði, meinafræði, faraldsfræði, tölfræði og kerfislíffræði eða aðrar sambærilegar greinar, ásamt eins árs starfsþjálfun á sérhæfðum rannsóknarstofum heilbrigðisstofnana eða hafa framhaldsmenntun í greinum heilbrigðisvísinda.

Þá megi einnig skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi náttúrufræðings í heilbrigðisþjónustu sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.

Eins og fram kemur í kæru er í 2. mgr. 7. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, taldar upp viðurkenndar prófgráður sem háskólar miði við og í greinargerð með lögum nr. 63/2006 er fjallað sérstaklega um samstarf háskóla í Evrópu á grundvelli hinna svokölluðu Bologna- yfirlýsingar, sem hafi það markmið að gera Evrópu að einu menntasvæði fyrir árið 2010. Hafi í samræmi við þá yfirlýsingu verið gerð breyting á lögum um háskóla hér á landi, m.a. til að unnt sé að bera saman nám milli landa. Ákvæði 7. gr. laganna er í samræmi við það og miðað við ECTS-einingar.

Í fylgiskjali með prófgráðu kæranda frá Austurríki kemur fram að þegar kærandi hafi útskrifast árið 2009 hafi verið tvö mismunandi prófgráðukerfi í gildi í Austurríki, eldra kerfi án tilvísunar til Bologna-kerfisins og nýrra kerfi í samræmi við það kerfi, diplomaprófgráða, sem samanstóð af frá 204 til 360 ECTS-einingum sem samkvæmt eldra kerfinu hafi veitti handhafa rétt til að hefja doktorsnám. Námi kæranda, sem lokið var árið 2009, hafi nú verið skipað til samræmis við Bologna-ferlið.

Prófskírteini kæranda ber með sér hvaða námsgreinar liggja að baki prófgráðu kæranda. Ráðuneytið hefur kynnt sér innihald diplomanáms kæranda og getur fallist á með kæranda að það falli að nánast öllu leyti að kröfum sem gerðar séu til BS-náms samkvæmt reglugerð nr. 1220/2012.

Í ljósi þess að kærandi lauk diplomanámi í EES ríki fer um meðferð umsóknar hennar skv. reglugerð nr. 461/2011. Í III. kafla reglugerðarinnar eru ákvæði um hið svokallaða almenna kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám. Í 1. mgr. 14. gr. eru taldar upp þær heilbrigðisstéttir er falla undir kerfið. Þar kemur fram að þær stéttir sem upp eru taldar eigi rétt á starfsleyfi hér á landi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar leggi umsækjandi fram hæfisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem krafist er í öðru EES-ríki til að geta starfað innan löggiltrar heilbrigðisstéttar.

Nám heilbrigðisstétta sem falla undir hið almenna kerfi tilskipunarinnar, svo og 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011, getur verið mismunandi bæði hvað varðar innihald og námslengd þannig að það sé ekki á færi Embættis landlæknis að meta nám þrátt fyrir að um lögverndaða stétt sé að ræða og leita þurfi eftir mati sérfróðra aðila á viðkomandi sviði. Kemur þá til að horfa þarf á hvernig menntunin er flokkuð í þrep samkvæmt 11. gr. tilskipunar 2005/36/EB, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011.

Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011 segir:

„Umsækjandi með nám sem er meira en einu þrepi neðar í þrepaskiptingu menntunar og hæfis skv. 11. gr. tilskipunarinnar, sbr. fylgiskjal II, en samsvarandi menntun á Íslandi á ekki rétt á starfsleyfi skv. 1. mgr. Sé nám á Íslandi a.m.k. fjögurra ára nám á háskólastigi sem samsvarar d-lið 11. gr. tilskipunarinnar þarf nám umsækjanda a.m.k. að samsvara c-lið 11. gr. tilskipunarinnar, sbr. fylgiskjal II.“

Í 15. gr. er kveðið á um kröfur er gera má ef starfsgrein er ekki lögvernduð í því ríki er umsækjandi kemur frá. Þar kemur fram að umsækjandi sem starfað hefur í öðru EES-ríki innan starfsgreinar sem nefnd er í 1. mgr. 13. gr., þar sem starfsgreinin er ekki lögvernduð, eigi rétt á starfsleyfi eða sérfræðileyfi hafi umsækjandi starfað innan starfsgreinarinnar í öðru EES-ríki í minnst tvö ár í fullu starfi eða samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum, að því tilskildu að hann leggi fram eitt eða fleiri hæfisvottorð eða vitnisburð um formlega menntun og hæfi til að inna starfið af hendi.

Fyrir liggur að starfsgreinin náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu er ekki lögvernduð starfsgrein í Austurríki, né í neinu öðru EES-ríki nema á Íslandi

Kærandi hefur lagt fram gögn er sýna fram á að hún hefur lokið fjögurra ára diplomanámi frá háskóla sem svarar til 240 ECTS-eininga. Slíkt háskólanám fellur undir d-lið 1. gr. fylgiskjals II með reglugerð nr. 461/2011, sbr. 11. gr. tilskipunar 2005/36/EB, með sama hætti og nám náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu. Þá hafa verið lögð fram tvö bréf frá Z þar sem staðfest er vinna kæranda sem náttúrufræðingur. Af efni bréfanna verður ráðið að kærandi uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 1220/2012 um starfsþjálfun á sérhæfðri rannsóknarstofu heilbrigðisstofnunar. Að mati ráðuneytisins er hér um að ræða hæfisvottorð, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011, og skilyrði 14. gr. reglugerðarinnar því uppfyllt.

Diplomanám kæranda hefur verið metið til doktorsnáms við Háskólann í Reykjavík, en þar er gerð krafa um að lokið hafi verið MS-gráðu. Er því að mati ráðuneytisins ljóst að kærandi hefur lokið grunnnámi sem er a.m.k. samsvarandi því BS-námi sem gerð er krafa um að lokið sé samkvæmt reglugerðinni. Þá getur ráðuneytið fallist á, samkvæmt lýsingu háskólans á doktorsverkefni kæranda, að umrætt doktorsnám hafi verið á svið heilbrigðisvísinda.

Hvað varðar kröfu Embættis landlæknis um að kærandi hafi ekki lagt fram vottorð skv. 21. gr. reglugerðar nr. 461/2011 eru í IV. kafla reglugerðarinnar ákvæði varðandi þjónustustarfsemi heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði kaflans eiga ekki við um umsókn kæranda um starfsleyfi hér á landi.

Að mati ráðuneytisins er ljóst að í námi kæranda felist ekki aðeins sambærilegt og jafngilt nám og BS-nám, sem krafist er samkvæmt reglugerð nr. 1220/2012, heldur jafnvel meira nám þegar tekið er tillit til doktorsnáms kæranda.

Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið að kærandi uppfylli skilyrði um veitingu starfsleyfis sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu skv. 3. gr. reglugerðar nr. 1220/2012, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 461/2011, og er því synjun Embættis landlæknis frá 9. júlí 2015, um útgáfu starfsleyfis til handa kæranda sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu, hér með felld úr gildi.

Lagt er fyrir embættið að taka umsókn kæranda fyrir að nýju og leggja til grundvallar framangreind sjónarmið og fyrirliggjandi gögn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Embættis landlæknis, um synjun á útgáfu starfsleyfis til handa B sem náttúrufræðingur í heilbrigðisþjónustu, er hér með felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka umsókn hennar fyrir að nýju á grundvelli framangreindra sjónarmiða og fyrirliggjandi gagna.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta