Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Afgreiðsla landlæknisembættisins á beiðni um breytt læknisvottorð um óvinnufærni

Mánudaginn 12. apríl 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 18. október 2009, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins afgreiðslu landlæknisembættisins á máli hans sem lauk með álitsgerð 13. október 2009.

Kröfur

Samkvæmt kæru kvartar kærandi yfir því að landlæknir hafi ekki tekið afstöðu til óvinnufærni kæranda í álitsgerð sinni. Kærandi telur að óvinnufærni hans hafi varað lengur en samkvæmt vottorði læknis og fer fram á leiðréttingu á því.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 21. október 2009, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Greinargerð landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 22. október 2009. Kæranda var með bréfi dags. 2. nóvember 2009 send greinargerð landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 12. nóvember 2009. Landlæknisembættinu voru kynntar athugasemdir kæranda með bréfi dags. 26. nóvember 2009.

Málavextir

Kærandi sendi landlæknisembættinu kvörtun með bréfi dagsett þann 14. maí 2009 þar sem hann óskaði eftir breyttu læknisvottorði um óvinnufærni. Í bréfinu kom fram að hann hefði stungið sig á sporjárni á vinstri lófa þann 30. október 2008 og hlotið af því meiðsl. Læknisvottorð sem hann fékk útgefið 26. nóvember 2008 vegna þessa vottaði um óvinnufærni í 7-10 daga en kærandi telur sig hafa verið óvinnufæran í 9 vikur, en þá hafi hann fyrst treyst sér til að fullnota höndina. Var kæranda tilkynnt með bréfi landlæknis dags. 25. maí 2009 að málið yrði kannað af hálfu embættisins. Sama dag var Landspítalanum sent bréf og óskað eftir greinargerð hans í málinu ásamt afriti af sjúkraskýrslum. Barst bréf Landspítalans þann 7. júlí 2009 ásamt greinargerð B, skurðlæknis. Í þeirri greinargerð kemur fram lýsing á meiðslum kæranda og þeirri meðferð sem hann hlaut. Síðan segir: „Ég hef gefið vottorð um óvinnuhæfni út af þessu í kannski 10 daga eða svo þar sem hann var ekki með nein perifer brottfallseinkenni og blæðingu sem var svolítið áköf vegna lyfjatöku m.a. en tókst að stöðva með eðlilegum hætti og því taldi ég sjúkraskrift eðlilega allt að 10 dögum eða svo miðað við að sárið var í sjálfu sér ekki svo umfangsmikið.“ Landspítalinn gerir ofangreinda greinargerð B að sinni.

Álitsgerð landlæknis var send kæranda og Landspítala með bréfi dags. 21. ágúst 2009. Í niðurstöðu segir m.a.: „Landlæknisembættið telur ekki ástæðu frekari aðgerða og er málinu lokið nema til komi andmæli frá málsaðilum.“ Andmælabréf kæranda barst landlækni þann 11. september 2009. Þar ítrekar kærandi beiðni sína frá 14. maí 2009 og segir að viðkomandi læknir hafi skrifað vottorð um óvinnufærni 26. nóvember 2008 án þess að hafa skoðað kæranda.

Í bréfum landlæknis til kæranda og Landspítala dags. 13. október 2009 kemur fram að efnislegar athugasemdir hafi ekki borist og því sé álitsgerðin óbreytt. Endanleg álitsgerð landlæknis er dagsett þann 13. október 2009 og er niðurstaða svohljóðandi: „Landlæknisembættið hefur lokið athugun á kvörtun manns varðandi útgáfu læknisvottorðs á Landspítala. Í [reglum] nr. 586/1991 um gerð og útgáfu læknisvottorða segir meðal annars: „Læknir skal gæta fyllstu varkárni og nákvæmni við gerð læknisvottorða og einungis votta þau atriði er hann veit sönnur á.“ -Byggt á gögnum málsins er það mat Landlæknisembættisins, að ekki verði annað séð en að reynt hafi verið að bregðast við vanda A á faglegan hátt er hann leitaði lækninga á bráða- og slysadeild Landspítala. Ekki verður annað séð en að B, læknir hafi farið að reglum um ritun og útgáfu læknisvottorða. -Í bréfi A, dags. 09.09.2009 koma ekki fram upplýsingar sem breyta efnislega niðurstöðu málsins. -Landlæknisembættið telur málsgögn fullnægjandi og lengra verði ekki komist í rannsókn þessari. - Landlæknisembættið telur ekki ástæðu [til] frekari aðgerða og er málinu lokið.“

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru til ráðuneytisins dags. 18. október 2009 segir m.a.: „Eini ágreiningur minn er sá, að vottorð læknis segir að ég hafi verið óvinnufær í 7-10 daga. Læknir tók sauma 7. nóv 2008. Þá var sárið lokað, en höndin mér alveg gagnslaus til vinnu. Verulegur sársauki var við snertingu og notkun handarinnar svo að nauðsynlegt var að hlífa henni. Það var fyrst eftir 9 vikur, sem höndin var orðin mér gagnleg.“ Þá kemur fram að kærandi gagnrýnir landlækni fyrir að taka ekki afstöðu til þessa atriðis í afgreiðslu sinni. Að lokum segir: „Þá er óásættanlegt, að þessa sé getið í læknisvottorði, sem er dags. ca. 26. nóv. 2008, án skoðunar á [hendinni] eða viðtali við mig um hvernig mér líði í henni.“

Í athugasemdum kæranda dags. 12. nóvember 2009 við greinargerð landlæknis áréttar kærandi að óvinnufærni hans hafi varað í níu vikur en ekki 7-10 daga.

Málsástæður og lagarök landlæknis

Með bréfi landlæknis til ráðuneytisins dags. 22. október 2009 er ferill málsins rakinn líkt og gert hefur verið hér að framan. Frekari athugasemdir eða rökstuðning er ekki að finna í bréfi landlæknis.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að afgreiðslu landlæknisembættisins á kvörtun vegna útgáfu læknisvottorðs um óvinnufærni. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni skal hann fjalla um kvartanir vegna vanrækslu eða meintra mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Landlækni ber að rannsaka málið og gefa skriflegt álit. Eins og fram kemur í áliti landlæknis hefur hann rannsakað málið og komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi læknir hafi farið að reglum um ritun og útgáfu læknisvottorða. Í kæru til ráðuneytisins dags. 18. október 2009 er farið fram á leiðréttingu á afstöðu landlæknis til óvinnufærni kæranda og var sú ósk ítrekuð með bréfi kæranda dags. 12. nóvember 2009. Ráðuneytið bendir á að hvorki landlæknisembættið né ráðuneytið eru bær til að leiðrétta vottorð lækna.

Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðuneytisins. Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknisembættið hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Þar sem hér er ekki um að ræða kæru vegna málsmeðferðar landlæknis heldur vegna niðurstöðu álitsgerðar landlæknis, er málinu vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru vegna álits landlæknis í máli kæranda er vísað frá.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta