Mál nr. 10/2017
Hinn 20. október 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 10/2017:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. E-4097/2015;
Lýsing hf.
gegn
Ásgrími Pálssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með erindi, dagsettu 15. mars 2017, fór Ásgrímur Pálsson þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-4097/2015, sem lokið var með áritun stefnu í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. desember 2015, yrði endurupptekið.
Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Með stefnu, sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. desember 2015, krafðist gagnaðili, Lýsing hf., þess að endurupptökubeiðanda yrði gert að greiða skuld sem nam 703.880 krónum. Krafan var byggð á kaupleigusamningi frá 31. mars 2008 vegna kaupa endurupptökubeiðanda á bifreið. Samkvæmt samningnum fékk endurupptökubeiðandi afnot bifreiðarinnar og skyldi endurgreiða gagnaðila samningsverðið með mánaðarlegum greiðslum á samningstímabilinu. Vegna vanefnda endurupptökubeiðanda rifti gagnaðili samningnum og krafðist þess að bifreiðinni yrði skilað. Eftir afhendingu bifreiðarinnar lét gagnaðili meta viðgerðarkostnað og var mat á verðmæti bifreiðarinnar lækkað á þeim grunni.
Í stefnu krafðist gagnaðili greiðslu á fjárhæð sem hann taldi endurupptökubeiðanda skulda sér. Fram kom að krafan hefði verið endurútreiknuð í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 471/2010 og að stefnufjárhæð tæki mið af því.
Endurupptökubeiðandi sótti ekki þing við þingfestingu málsins 8. desember 2015. Málinu var lokið samdægurs með því að stefna var árituð um að dómkröfur væru aðfararhæfar og málskostnaður ákveðinn í samræmi við 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fjárnám var gert hjá endurupptökubeiðanda og beiðst nauðungarsölu á bifreið í hans eigu í september 2016. Endurupptökubeiðandi mótmælti því að nauðungarsala færi fram.
III. Grundvöllur beiðni
Endurupptökubeiðandi telur skilyrðum stafliða a til c 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins.
Byggt er á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. Vísað er til þess að gagnaðili miði dómkröfu sína, að því er varðar verðmæti umræddrar bifreiðar, við áætlaðan viðgerðarkostnað án þess að lögð hafi verið fram gögn því til stuðnings. Þá hafi ekki verið lögð fram gögn um endursöluverð bifreiðarinnar. Nú liggi fyrir ný gögn frá löggiltum bifreiðasala sem bendi til þess að markaðsverð bifreiðarinnar hafi verið hærra en samkvæmt mati gagnaðila. Telur endurupptökubeiðandi samkvæmt þessu að hin áritaða stefna byggi á staðreyndavillum og röngum málsatvikum þannig að skilyrði a-liðar 167. gr. sé uppfyllt.
Þá telur endurupptökubeiðandi að ný gögn liggi fyrir í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. sem breyta muni niðurstöðu málsins í meginatriðum. Sú breyting leiði af endurútreikningi á kröfunni sem gagnaðili hafi sjálfur hlutast til um. Felist í endurútreikningnum viðurkenning á því að gagnaðili hafi lagt ranga og ólögmæta kröfufjárhæð til grundvallar málsókninni. Endurupptökubeiðandi byggir einnig á að fyrrgreind gögn frá löggiltum bifreiðasala teljist til nýrra gagna í skilningi b-liðar ákvæðisins.
Endurupptökubeiðandi vísar jafnframt til þess að gagnaðili hafi ekki gefið honum færi á að greiða helming eftirstöðvar skuldar í samræmi við b. lið bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010. Hafi stefnufjárhæð, sem árituð var um aðfararhæfi, ekki tekið mið af þessum rétti endurupptökubeiðanda. Hafi dómara borið við áritun stefnunnar að gæta þess að krafan væri í samræmi við lög og gögn málsins og jafnvel borið að vísa kröfunni frá dómi án kröfu. Samkvæmt því mæli önnur atvik með því að endurupptaka sé heimiluð, sbr. c. lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.
IV. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:
sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.
Af hálfu endurupptökubeiðanda er meðal annars byggt á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir dómi. Byggt er á því að fjárhæð dómkröfu gagnaðila standist ekki þar sem ekki hafi verið lagt rétt mat á verðmæti þeirrar bifreiðar sem endurupptökubeiðandi hafði á kaupleigu. Liggi nú fyrir ný gögn frá löggiltum bifreiðasala sem bendi til þess að markaðsverð bifreiðarinnar hafi verið hærra en samkvæmt mati gagnaðila og hafi krafan því átt að vera lægri.
Það er skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að aðila verði ekki kennt um það að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar. Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi mætti ekki við þingfestingu málsins og þar sem útivist varð af hans hálfu var stefna árituð um að dómkröfur væru aðfararhæfar og málskostnaður ákveðinn í samræmi við 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 96. gr. sömu laga. Fram kemur í endurupptökubeiðni að þegar málið var þingfest hafi endurupptökubeiðandi átt í erfiðleikum persónulega, meðal annars vegna fjárhagsmálefna. Samkvæmt þessu kaus endurupptökubeiðandi að taka ekki til varna í málinu og lét því hjá líða að koma á framfæri röksemdum og gögnum af sinni hálfu. Þau atriði sem endurupptökubeiðandi telur að hafi ekki verið réttilega leidd í ljós vörðuðu grundvöll fjárkröfu gagnaðila og einkum réttmæti fjárhæðar kröfunnar. Það hefði fallið í hlut endurupptökubeiðanda að hafa uppi slík mótmæli fyrir dómi og styðja þau gögnum. Samkvæmt þessu er ekki uppfyllt það skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. að endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar. Þær ástæður sem endurupptökubeiðandi tilgreinir að búið hafi að baki ákvörðun hans um að taka ekki til varna geta ekki breytt þeirri niðurstöðu.
Af framansögðu er ljóst að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a til c liða 1. mgr. 167. gr. sé fullnægt eins og áskilið er. Gerist því ekki þörf á að fjalla um b- og c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna. Er beiðni um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-4097/2015 því bersýnilega ekki á rökum reist og henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.
Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar
nefndarmanns í endurupptökunefnd.
Úrskurðarorð
Beiðni Ásgríms Pálssonar um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-4097/2015, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. desember 2015, er hafnað.
Björn L. Bergsson formaður
Haukur Örn Birgisson
Þórdís Ingadóttir