Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 12/2014

Hinn 29. október 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 12/2014:

  Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 517/2014

Guðbjörn Jónsson

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 29. september 2014 fór Guðbjörn Jónsson þess á leit að mál nr. 517/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 25. ágúst 2014, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með stefnu birtri 11. febrúar 2014 höfðaði endurupptökubeiðandi mál á hendur Íbúðalánasjóði. Í málinu var krafist viðurkenningar á ýmsum kröfum er lutu að verðbótum íbúðaláns endurupptökubeiðanda. Krafist var staðfestingar á því að óheimilt hafi verið að hækka höfuðstól íbúðaláns hans með mánaðarlegri uppfærslu höfuðstóls samkvæmt neysluvísitölu hvers mánaðar. Þá var krafist ógildingar á verðbótareikningi á vaxtagreiðslur og leiðréttingar á grunnvísitölu lánsins sem hafi verið ranglega ákvörðuð. Loks var gerð krafa um leiðréttingu á fyrsta vaxtadegi, sem hafi verið ranglega tilgreindur. Af hálfu gagnaðila var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi á þeim grundvelli annars vegar að á skorti nauðsynlega samaðild til málsóknarinnar af hálfu endurupptökubeiðanda og eiginkonu hans og hins vegar að málsgrundvöllur endurupptökubeiðanda hafi verið í brýnni andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 25. júní síðastliðinn og komist að þeirri niðurstöðu að vísa bæri málinu frá á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála þar sem óhjákvæmilegt væri að eiginkona endurupptökubeiðanda ætti aðild að málinu með honum.

Endurupptökubeiðandi skaut málinu til Hæstaréttar. Rétturinn taldi að það varðaði ekki frávísun að eiginkona endurupptökubeiðanda hefði ekki staðið að málsókninni með honum þar sem endurupptökubeiðandi bæri ekki óskipta skyldu með eiginkonu sinni. Hæstiréttur vísaði málinu hins vegar frá dómi þar sem skorti á að stefna málsins hefði að geyma í sérgreindu máli glögga lýsingu á kröfugerð en úr því gæti dómari ekki bætt með því að afmarka hana á grundvelli samfelldrar lýsingar á málatilbúnaði endurupptökubeiðanda. Stefna málsins væri að þessu leyti í ósamræmi við 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

III. Grundvöllur beiðni

Af beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 517/2014 má ráða að hann telji skilyrðum 169. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vera fullnægt til endurupptöku málsins. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og önnur atvik mæli með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr. sömu laga. Endurupptökubeiðandi telur að Hæstiréttur hafi ekki tekið réttilega á málinu. Hæstiréttur hafi með dómi sínum lagt blessun sína yfir siðlaus vinnubrögð í héraðsdómi sem endurupptökubeiðandi hefði gagnrýnt í greinargerð til Hæstaréttar. Bent hefði verið á ýmis frávik um framkvæmd þinghalda og fleira sem vikið hefði verið frá af hálfu héraðsdóms án heimildar. Hæstiréttur hafi staðfest fjölda stjórnarskrárbrota héraðsdóms. Um meint axarsköft og skáldskap Hæstaréttar vísaði endurupptökubeiðandi til bréfs sem hann hefði ritað forseta réttarins.

Endurupptökubeiðandi rekur í beiðni sinni að ekki væri unnt að kæra einn lið málsmeðferðarinnar þar sem málið í heild hefði aldrei hlotið réttláta málsmeðferð fyrir dómi eins og áskilið væri í 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944. Þess var getið að grein væri gerð fyrir því í bréfi til forseta Hæstaréttar á hvern hátt dómarar héraðsdóms og aðstoðarmenn sem að málinu komu hafi gerst brotlegir við nánar tilgreind ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Telur endurupptökubeðandi að niðurstaða dómsmálsins hefði átt að verða sú að málið hefði átt að taka til dóms á grundvelli útivistar gagnaðila þar sem forsvarsmaður hans hefði ekki mætt persónulega heldur lögmaður í hans stað án þess að færa sönnur á umboð sitt til þess. Beindi endurupptökubeiðandi því til endurupptökunefndar að gera þá kröfu til dómstóla að farið yrði að réttum lögum ella yrði að efna til málsóknar á hendur dómurum, dómstjóra og aðstoðarmönnum sem að málinu hefðu komið vegna alvarlegra brota í starfi.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laganna getur endurupptökunefnd leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Samkvæmt 3. mgr. 169. gr. skulu ákvæði 1.-3. mgr. 168. gr. gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Af málatilbúnaði endurupptökubeiðanda verður ráðið að hann er ósammála forsendum Hæstaréttar fyrir þeirri niðurstöðu að vísa máli hans frá dómi og telur að taka hefði átt málið til dóms á grundvelli útivistar gagnaðila. Fyrir liggur að ekki hefur verið leyst efnislega úr kröfum endurupptökubeiðanda þar sem Hæstiréttur komst að niðurstöðu um að vegna galla á kröfugerð í málatilbúnaði hans væri ekki unnt að taka málið til efnismeðferðar að svo komnu og vísaði því frá dómi. Endurupptökubeiðanda er þannig tækt að bæta úr þessum ágöllum sem Hæstiréttur taldi vera til staðar og höfða mál að nýju til að fá leyst úr þeim álitaefnum sem urðu tilefni málshöfðunar hans.

Framangreind skilyrði 167. gr. laga um meðferð einkamála er hins vegar ekki fullnægt til að fá mál þetta endurupptekið fyrir Hæstarétti. Þannig er a-lið 167. gr. ekki fullnægt þar sem ekki var fjallað um málsatvik sem slík í dómi Hæstaréttar en að auki hefur engum nýjum gögnum verið teflt fram sem orðið geta til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Í ljósi þessa skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku í máli Hæstaréttar nr. 517/2014 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Guðbjörns Jónssonar um endurupptöku máls nr. 517/2014, sem dæmt var í Hæstarétti 25. ágúst 2014, er hafnað.

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta