Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 11/2014

Hinn 4. desember 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2014:

 

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 360/2014

K

gegn

M

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 25. ágúst 2014 óskaði Ólafur Karl Eyjólfsson hdl. fyrir hönd K eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 360/2014 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 13. júní 2014.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II.  Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014 var hafnað kröfum endurupptökubeiðanda vegna ágreinings hennar og gagnaðila, varðandi opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar.  Með kæru, dags. 22. apríl 2014, skaut endurupptökubeiðandi málinu til Hæstaréttar. Kæran barst héraðsdómi 25. apríl 2014 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 27. maí sama ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur var sótt þing af hálfu beggja aðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 9. apríl 2014. Kæra endurupptökubeiðanda er dagsett 22. apríl 2014, en árituð um móttöku af héraðsdómi 25. apríl 2014. Var þá liðinn sá tveggja vikna frestur til að kæra úrskurðinn sem áskilinn er í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. Málinu var því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði a-, b- og c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt í málinu.

Hvað varðar a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála byggir endurupptökubeiðandi á því að málinu hafi verið vísað frá Hæstarétti án efnislegrar umfjöllunar og hafi því málsatvik ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar hjá Hæstarétti og verði endurupptökubeiðanda ekki um það kennt, þar sem með réttu hefði héraðsdómur aldrei átt að senda málið til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 146. gr. laga um meðferð einkamála, heldur beina því til hans að taka kæru aftur þar sem hún barst héraðsdómara utan kærufrests. Enda skylda dómara að gera slíkt.

Endurupptökubeiðandi vísar til b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og telur að sökum þess að málið hafi ekki fengið efnismeðferð hjá Hæstarétti sé ljóst að öll framlögð gögn fyrir Hæstarétti ef til endurupptöku kemur sem og fylgigögn með kæru til héraðsdóms séu ný gögn í þeim skilningi að hafa ekki fengið efnislega skoðun á grundvelli málatilbúnaðar endurupptökubeiðanda. Er það mat hans að efnisleg skoðun framlagðra gagna sem og gagna með kæru muni koma til með að breyta niðurstöðu Hæstaréttar.

Þá byggir endurupptökubeiðandi á því að önnur atvik mæli með því að leyfi til endurupptöku verði veitt, sbr. c.-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, sér í lagi þar sem um verulega hagsmuni sé að ræða. Endurupptökubeiðandi sé eignalaus á grundvelli núverandi skiptingu eigna eftir 21 árs sambúðartíma. Endurupptökubeiðandi verði því fyrir verulegum réttarspjöllum ef endurupptökubeiðnin verði ekki samþykkt, þar sem honum var ekki gefið tækifæri til að fá Hæstarétt til að endurskoða úrskurð héraðsdóms. Í því samhengi vísar endurupptökubeiðandi til 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, og vísar meðal annars til aðgengis að dómstólum sem teljist til grunnmannréttinda í hverju lýðræðisríki. Endurupptökubeiðandi tekur fram að ef ekki verði fallist á endurupptökubeiðnina sé í raun verið að koma í veg fyrir að hann fái aðgang að dómstólum. Niðurstaða um svo þrönga túlkun á frestum og undanþágum frá frestum, þannig að aðgengi hans að dómstólum skerðist, sé í andstöðu við sjónarmið um aðgengi að dómstólum og um leið brot á grundvallarmannréttindum.

Að lokum tekur endurupptökubeiðandi fram að ef ekki verði fallist á framangreindan rökstuðning þá væri það hægt á grundvelli lögjöfnunar. Dómhelguð venja sé fyrir því að Hæstiréttur veiti kæruleyfi þar sem lagaskilyrði séu ekki fyrir hendi þegar lögboðinn frestur er liðinn. Á sama hátt ætti endurupptökunefnd að geta samþykkt endurupptöku þrátt fyrir að lagaskilyrði kunni að vanta fyrir leyfi til endurupptöku ef réttlætanleg afsökunarskilyrði væru fyrir hendi. Endurupptökubeiðandi telur að réttlætanleg afsökunarskilyrði vera þau að kæran hafi ekki borist héraðsdómi vegna þess að pósturinn hafi verið ranglega borinn út og verði ekki honum eða lögmanni hans þar um kennt. Þá hafi héraðsdómara borið að beina því til kæranda að taka kæruna aftur eftir að hún hafi borist héraðsdómi of seint. Framangreindar ástæður sem og önnur rök eigi að leiða til þess að endurupptaka verði samþykkt.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. Þá segir í 2. mgr. 168. gr. að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft, samkvæmt umsókn aðila, að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Öll framangreind skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo unnt sé að fallast á endurupptöku.

Endurupptökubeiðandi byggir á að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þar sem málið hafi ekki fengið efnislega umfjöllun þar sem með réttu hefði héraðsdómur aldrei átt að senda málið til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 146. gr. laga um meðferð einkamála, heldur beina því til hans að taka kæru aftur þar sem hún barst héraðsdómi utan kærufrests. Í hæstaréttarmáli nr. 360/2014 var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem kæra endurupptökubeiðanda barst Héraðsdómi Reykjavíkur eftir að liðinn var tveggja vikna frestur sem áskilinn er í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Þau málsatvik að kæran hafi borist héraðsdómi of seint eru óumdeild af hálfu endurupptökubeiðanda. Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga um meðferð einkamála er það alfarið á ábyrgð kæranda að afhenda héraðsdómara skriflega kæru áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu úrskurðar. Það að héraðsdómari hafi ekki beint því til kæranda að taka kæru aftur, sbr. 1. mgr. 146. gr. laga um meðferð einkamála, breytir því ekki að lagaskilyrði voru ekki fyrir hendi til taka kæruna til efnismeðferðar í Hæstarétti. Í ljósi þessa er ljóst að ekki er uppfyllt það skilyrði fyrir endurupptöku að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti og aðilanum verði ekki kennt um það, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.  

Að framansögðu er ljóst að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla frekar um aðra liði. Þannig skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni K um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 360/2014 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni K um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 360/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 13. júní 2014, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta