Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 1/2017

Hinn 10. mars 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 1/2017:

Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. S-100/2016

Ákæruvaldið

gegn

Evaldas Visbergs

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 6. janúar 2017, lagði ríkissaksóknari fram beiðni til endurupptökunefndar um að heimiluð yrði endurupptaka máls nr. S-100/2016 sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 22. september 2016.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-212/2016, sem kveðinn var upp 5. júlí 2016, var Evaldas Visbergs dæmdur til að sæta fangelsi í níu mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni var frestað og skyldi sá hluti hennar falla niður að tveimur árum liðnum héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um ákvörðun refsingar segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness:

Samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði undir sektargreiðslu og tímabundna sviptingu ökuréttar með sátt hjá lögreglustjóra 10. október 2014, fyrir akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi og undir áhrifum áfengis. Með dómi 25. nóvember [2015] var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og sviptur ökurétti í fimm ár frá birtingu dóms að telja, fyrir ýmis brot gegn ákvæðum umferðarlaga, lögreglulaga og almennra hegningarlaga, þar á meðal fyrir að aka í nokkrum tilvikum undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Brotin í fyrsta ákærulið í máli þessu framdi ákærði eftir að dómurinn 25. nóvember 2015 gekk, en áður en sá dómur var birtur ákærða 2. desember sama ár og fólu þau brot því ekki í sér rof á skilorð. Með brotunum í ákæruliðum tvö til sjö hefur ákærði hins vegar rofið skilyrði fyrir frestun á fullnustu refsingar dómsins. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing dómsins frá 25. nóvember 2015 því nú tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem ákærða verður nú gerð. Eftir því og að framangreindum sakaferli ákærða virtum, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. þeirra laga, og samkvæmt 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði og skal fullnusta hennar bundin skilorði á þann veg sem nánar greinir í dómsorði.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-100/2016, sem kveðinn var upp 22. september 2016, var Evaldas dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni var frestað og skyldi sá hluti hennar falla niður að tveimur árum liðnum héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Um ákvörðun refsingar segir í dómi Héraðsdóms Suðurlands:

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tvívegis áður sætt refsingu. Þann 10. október 2014 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna ölvunaraksturs, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þá var ákærði þann 25. nóvember 2015 dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar, meða[l] annars vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Með broti því sem lýst er í ákæru hefur ákærði rofið skilorð síðastgreinds dóms og ber að dæma upp framangreinda refsingu og ákveða refsingu í einu lagi sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að virtum sakaferli ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til sakaferils ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III. Grundvöllur beiðni

Í fyrrgreindu erindi frá 6. janúar 2017 kveðst ríkissaksóknari hafa orðið þess áskynja að dómfellda í máli nr. S-100/2016 hafi að öllum líkindum verið gerð mun þyngri refsing en efni stóðu til þar sem að skilorðsdómur, sem hann hafi hlotið 25. nóvember 2015, hafi verið dæmdur upp í tvígang með framangreindum dómum. Ástæðu þess megi rekja til þess að sakavottorð sem lagt hafi verið fram í máli nr. S-100/2016 hafi verið útgefið 19. maí 2016 áður en dómur Héraðsdóms Reykjaness var kveðinn upp.

Með vísan til 4. mgr., sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála setji ríkissaksóknari fram þá beiðni að heimiluð verði endurupptaka máls nr. S-100/2016.

Beiðni ríkissaksóknara fylgdu endurrit ofangreindra dóma og sakavottorð útgefin 19. maí 2016 og 6. janúar 2017.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 4. mgr. 211. gr. laganna segir að ríkissaksóknari geti beiðst endurupptöku máls, til meðferðar og dómsuppsögu að nýju, til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur atvik vera með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 211. gr.

Í 1. mgr. 211. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn þá geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju skilyrða greinarinnar í stafliðum a-d er fullnægt.

Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Fyrir liggur að dómfellda var tvívegis dæmdur hegningarauki með vísan til refsingar sem honum var gert að sæta með dómi 25. nóvember 2015. Fyrst með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-212/2016, sem kveðinn var upp 5. júlí 2016, og síðan í máli nr. S-100/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 22. september 2016.

Ákæranda ber samkvæmt 1. mgr. 227. gr. laga um meðferð sakamála að leggja sakavottorð ákærða fram í sakamáli við þingfestingu máls nema hann telji óþarft að líta til sakaferils hans við úrlausn málsins. Við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Suðurlands 22. september 2016 lá fyrir sakavottorð útgefið 19. maí 2016. Er því ljóst að ekki var tekið tillit til dóms Héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp 5. júlí 2016. Verður því að telja að á málsmeðferðinni hafi verið verulegur galli í skilningi d-liðar 1. mgr. 211. gr. sem er líklegt að hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Með vísan til framangreinds er skilyrði til að verða við beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku á máli nr. S-100/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 22. september 2016, og er hún því samþykkt.

Úrskurðarorð

Beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku máls nr. S-100/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 22. september 2016, er samþykkt.

 

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta