Mál nr. 19/2013
Hinn 18. desember 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 19/2013:
Beiðni um endurupptöku
dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-364/2008
Guðríður Anna Jóhannesdóttir og Gullver sf.
gegn
Gesti Hólm Kristinssyni og
Stykkishólmsbæ
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með erindi dags. 14. nóvember 2013 óskaði Kristleifur Indriðason fyrir hönd Guðríðar Önnu Jóhannesdóttur og Gullvers sf. eftir að dómur Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-364/2008, sem kveðinn var upp 14. maí 2009, yrði endurupptekinn í héraði.
Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Endurupptökubeiðendur höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands og kröfðust viðurkenningar á að fasteignum þeirra, Aðalgötu 7 og Aðalgötu 7a Stykkishólmi, fylgdi umferðarréttur um aðliggjandi lóð, Austurgötu 4a, austan við og meðfram íbúðarhúsi sem á þeirri lóð stendur. Stefndu þau Stykkishólmsbæ og eiganda Austurgötu 4a til að þola viðurkenningu þessa.
Endurupptökubeiðandinn Gullver sf. keypti fasteignina Aðalgötu 7 sem eina eign af íslenska ríkinu árið 2001. Ári síðar sótti Gullver sf. um að fá að skipta lóðinni í tvær lóðir og var fallist á það með því skilyrði að aðkoma að húsinu yrði frá Aðalgötu. Gefið var út stofnskjal fyrir lóðirnar við svo búið. Árið 2003 keypti svo endurupptökubeiðandinn Guðríður Anna Jóhannesdóttir Aðalgötu 7 af Gullveri sf.
Á lóð Austurgötu 4a er mannvirki sem upphaflega hýsti sundlaug Stykkishólmsbæjar en sundlauginni fylgdi ekki afmörkuð lóð lengst af, heldur taldist hún standa á óskiptu landi sveitarfélagisns úr jörðinni Grundarsundsness sem sveitarfélagið átti. Síðla á árinu 2003 leigði sveitafélagið sjálfu sér lóð í kringum sundlaugina, Austugötu 4a. Síðar seldi Stykkishólmsbær fasteignina til núverandi eiganda.
Eigandi Austurgötu 4a vildi ekki una við umferðarrétt um lóð sína og kom í veg fyrir umferð. Endurupptökubeiðendur sættu sig ekki við það þar sem þau töldu umferðarrétt hafa verið til staðar frá öndverðu og jafnframt áhorfsmál hvort vegslóði sem lá um lóðina teldist liggja á landi sem tilheyrði Aðalgötu 7 og jafnvel að hluti af fasteigninni sjálfri væri innan þeirrar lóðar. Jafnframt töldu þeir að þótt eignarrétti væri ekki til að dreifa hefði athugasemdalaus hagnýting eigenda Aðalgötu 7 af slóðanum um áratugaskeið skapað hefð sem fæli í sér afnota- og eða ítaksrétt.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðendur hefðu ekki sannað að sundlaugarbyggingin hafi verið byggð á lóð Aðalgötu 7. Þá yrði umferðarréttur yfir lóð Austurgötu 4a ekki leiddur af eðli máls eða því að torveldara væri að komast að húsinu að Aðalgötu 7 eftir öðrum leiðum. Héraðsdómur féllst ekki á að hefð væri til að dreifa þar sem vegslóðinn hefði verið nýttur óverulega síðasta áratuginn. Þá lægi vegslóðinn frá sameiginlegri innkeyrslu húsa við Austurgötu að sundlaugabyggingu, sem hafði verið opin almenningi, jafnframt því sem aðalinngangur að Aðalgötu 7 væri frá Aðalgötu. Með vísan til þessara forsendna voru gagnaðilar sýknaðir af kröfum endurupptökubeiðenda.
Endurupptökubeiðendur sóttu um leyfi til að áfrýja dóminum til Hæstaréttar 13. ágúst 2009. Þeirri umsókn var hafnað af Hæstarétti og sú niðurstaða tilkynnt með bréfi dags. 8. febrúar 2010.
III. Grundvöllur beiðni
Af beiðni um endurupptöku dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-364/2008 má ráða að endurupptökubeiðendur telji skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera uppfyllt til endurupptöku málsins þótt ekki sé vísað til laganna, ákvæðisins eða einstakra liða þess. Endurupptökubeiðendur byggja kröfu sína um endurupptöku og ógildingu dóms Héraðsdóms Vesturlands einkum á tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafi dómari málsins verið vanhæfur til að fara með málið vegna setu hans í Matsnefnd eignarnámsbóta þegar mat fór fram á bótafjárhæð til endurupptökubeiðandans Gullvers sf.. Það mat fór fram í tilefni eignarnáms hluta lóðarinnar Aðalgötu 7 vegna fjarskiptamasturs, rúmum fjórum árum áður en mál nr. E-364/2008 var höfðað. Einnig sé dómarinn vanhæfur vegna persónulegra tengsla við formann matsnefndarinnar og lögmann endurupptökubeiðenda í dómsmálinu. Í öðru lagi byggja endurupptökubeiðendur kröfur sínar á því að í forsendum dóms héraðsdóms hafi verið farið rangt með texta úr bók sem til hafi verið vitnað.
Beiðni endurupptökubeiðenda fylgdu 29 skjöl. Endurupptökubeiðendur viku að gögnum þessum í beiðni og gátu þess hvaða þýðingu þau hefðu fyrir endurupptöku dómsmálsins.
Endurupptökubeiðendur komu frekari gögnum og sjónarmiðum á framfæri með bréfi dagsettu 29. apríl 2014. Annars vegar er um að ræða ljósrit úr bæklingi, unnin af safna- og menningarmálanefnd Stykkishólmsbæjar 2005, sem endurupptökubeiðendur töldu sýna umþrættan vegslóða. Hins vegar var vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 203/2014, kveðinn upp 8. apríl 2014, sem endurupptökubeiðendur telja hafa fordæmisgildi við úrlausn endurupptökubeiðni þessa.
Með bréfi dagsettu 27. maí 2014 komu endurupptökubeiðendur frekari gögnum á framfæri og áréttuðu sjónarmið til stuðnings endurupptöku. Um var að ræða uppdrátt þar sem mörk lóðar voru dregin og reiknuð út stærð þess hluta sem endurupptökubeiðendur byggja á að hafi verið skilinn frá lóðinni með dómi Héraðsdóms Vesturlands. Þá fylgdi uppdráttur Landlína ehf. þar sem afmarkaður var sá hluti sem tekinn var eignarnámi. Stofnskjal lóða Aðalgötu 7 og Aðalgötu 7a, útgefið 25. apríl 2003, fylgdi einnig og loks veðbandayfirlit Aðalgötu 7a dagsett 22. júlí 2013.
Með bréfi dagsettu 16. desember 2014 kom endurupptökubeiðandinn Gullver sf. enn gögnum á framfæri og áréttaði sjónarmið tengd þeim gögnum. Um var að ræða afrit dómskjala málsins nr. 8 til 11, afrit samkomulags við aðila sem keypt hefur lóðina Aðalgötu 7a af endurupptökubeiðandanum, dags. 19. september 2014, auk afrits bréfs til innanríkisráðherra dags. 14. desember 2014.
IV. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.
Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:
a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b.sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.
Endurupptökubeiðendur telja, eins og að framan greinir, að dómarinn í máli því sem beiðst er endurupptöku á hafi verið vanhæfur til að fara með málið. Ástæða þess sé meðal annars seta hans í Matsnefnd eignarnámsbóta í máli sem snéri að mati á bótafjárhæð til endurupptökubeiðandans Gullvers sf. vegna eignarnáms á hluta lóðar að Aðalgötu 7 vegna staðsetningar fjarskiptamasturs.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð einkamála gætir dómari að hæfi sínu af sjálfsdáðum en einnig geta aðilar krafist þess að dómari víki sæti. Kveðið er á um reglur um sérstakt hæfi dómara til að fara með mál hverju sinni í 5. gr. sömu laga. Dómari telst vanhæfur í eftirfarandi tilvikum:
a. hann er aðili að málinu eða fyrirsvarsmaður aðila,
b. hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það,
c. hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið,
d. hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar,
e. hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda aðila með þeim hætti sem segir í d-lið,
f. hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu með sama hætti og segir í d-lið, mats- eða skoðunarmanni eða manni sem neitar að láta af hendi sönnunargagn,
g. fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Fyrir liggur að fyrrgreindu máli fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta lauk ríflega fjórum árum áður en dómsmál það var höfðað, sem endurupptökubeiðni þessi lýtur að. Endurupptökubeiðandinn Gullver sf. átti aðild að því dómsmáli og var af þeim sökum kunnugt um setu dómarans í matsnefndinni. Endurupptökubeiðendur gerðu þó ekki athugasemdir við hæfi hans undir rekstri dómsmálsins. Þá laut málið fyrir matsnefndinni ekki að álitaefnum um umferðarrétt sem deilt var um í þessu dómsmáli. Gagnaðilar dómsmálsins áttu jafnframt ekki aðild að nefndu matsmáli enda álitaefni tengd eignarnámi á hluta lóðar Aðalgötu 7 undir fjarskiptamastur þeim óviðkomandi. Endurupptaka máls þessa verður því ekki reist á þessum forsendum enda gafst nægt tilefni til athugasemda sem þessara undir rekstri málsins. Skilyrðum 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku er því ekki fullnægt.
Hvað varðar hugsanlegt vanhæfi vegna persónulegra tengsla dómarans við formann Matsnefndar eignarnámsbóta þá átti formaðurinn enga aðkomu að réttarágreiningi þeim sem til úrlausnar var í dómsmálinu sem nú er óskað eftir endurupptöku á. Þá fela upplýsingar um persónuleg tengsl dómarans við lögmann endurupptökubeiðenda ekki í sér að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik dómsmálsins hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar, sbr. skilyrði a-liðar 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þá hafa ekki verið leiddar sterkar líkur að því að gögn um þessi tengsl muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. skilyrði b-liðar sömu greinar. Í þessum efnum má enn fremur vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 57/2007 sem kveðinn var upp 7. febrúar 2007.
Í forsendum dóms héraðsdóms er fjallað um að þegar sundlaug var reist á sjötta áratug síðustu aldar hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins til að afla samþykkis lóðareiganda aðliggjandi lóðar, svonefndrar pósthúslóðar, þar sem hluti byggingarinnar náði inn á þá lóð. Engu samsvarandi erindi var beint til íslenska ríkisins, þáverandi eiganda Aðalgötu 7, auk þess sem skerðing lóðarréttinda án samþykkis hefði gefið ríkinu sérstakt tilefni til viðbragða. Af þessum staðreyndum dró dómurinn þá ályktun að ósannað væri að lóð Aðalgötu 7 hefði náð svo langt að sundlaugin væri byggð innan þeirrar lóðar. Niðurstöðu þessari til áréttingar var í forsendum dómsins endursagður hluti af umfjöllun um lóðina Aðalgötu 7 sem birtur er í bókinni Eitt stykki hólmur eftir Braga Straumfjörð Jósepsson. Bókin mun vera fræðilegt rit sem fjallar um mannlífið í Stykkishólmi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Ekki er um orðrétta tilvitnun að ræða í ritið en þess getið sem heimildar. Jafnvel þó endursögn í forsendum dómsins kunni að vera ónákvæm breytir það því ekki að dómurinn rökstuddi og sló sönnunarskorti af hálfu endurupptökubeiðenda föstum áður en að umfjöllun þessa rits var vikið. Málsástæða endurupptökubeiðenda hvað þetta varðar fullægir því ekki því skilyrði a- liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar.
Ljósrit af uppdrætti úr bæklingi, sem unnin mun hafa verið af safna- og menningarmálanefnd Stykkishólmsbæjar 2005, sem endurupptökubeiðendur lögðu fram leiðir ekki sterkum líkum að því að nýjum gögnum sé til að dreifa í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála þannig að þau muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Uppdráttur þessi sýnir vegslóða er lá að fjarskiptamastrinu sem var innan lóðarmarka Aðalgötu 7 en á teikningunni er ekki að sjá að sá slóði liggi að húsinu að Aðalgötu 7. Að sama brunni ber hvað varðar uppdrátt Landlína ehf. Dómskjöl úr héraðsdómsmálinu, merkt 8 til 11, sem endurupptökubeiðandinn Gullver sf. lagði fram, fullnægja heldur ekki áskilnaði b- liðarins að teljast ný gögn. Það var á forræði endurupptökubeiðenda að leiða þá einstaklinga fyrir dóm til skýrslugjafar sem gáfu út þær yfirlýsingar sem dómskjölin hafa að geyma samkvæmt 54. gr. laga um meðferð einkamála. Þá lýtur samkomulag við kaupanda lóðarinnar Aðalgötu 7a frá 19. september 2014 ekki að málsatvikum er leitt geta til breyttrar niðurstöðu dómsmálsins. Samkomulagið lýtur að lögskiptum þessara aðila sín á milli vegna viðskipta þeirra um kaup lóðarinnar sem afráðin eru fjórum árum eftir uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Vesturlands.
Þá skapar dómur Hæstarréttar í máli nr. 203/2014 sem kveðinn var upp 9. apríl 2014 ekki fordæmi í máli þessu enda málsatvik með ólíkum hætti. Meðal annars voru samningar aðila þess máls með ólíkum hætti og einnig var um eina veginn að viðkomandi fasteign að ræða sem var að öðru leyti ótengd þjóðvegakerfi landsins.
Með vísan til framangreinds eru skilyrði a- og b- liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki uppfyllt. Þegar af þessari ástæðu skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni Guðríðar Önnu Jóhannesdóttur og Gullvers sf. um endurupptöku á dómi Héraðsdóms Vesturlands nr. E-364/2008. Er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna vanhæfis nefndarmanna og skipunar í þeirra stað.
Úrskurðarorð
Beiðni Guðríðar Önnu Jóhannesdóttur og Gullvers sf. um endurupptöku dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-364/2009, sem kveðinn var upp 14. maí 2009, er hafnað.
Björn L. Bergsson formaður
Elín Blöndal
Þórdís Ingadóttir