Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 1/2013

Hinn 24. október 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 1/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 74/2012;

Ákæruvaldið

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Tryggva Jónssyni og Kristínu Jóhannesdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 13. febrúar 2013 sem sent var Hæstarétti Íslands óskuðu Gestur Jónsson hrl. og Jakob R. Möller, hrl., f.h. Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar eftir endurupptöku máls nr. 74/2012 sem dæmt var í Hæstarétti 7. febrúar 2013. Með bréfi Hæstaréttar frá 13. febrúar 2013 var erindið sent ríkissaksóknara til umsagnar. Greinargerð ríkissaksóknara barst Hæstarétti 20. febrúar 2013. Hæstiréttur framsendi erindið, ásamt öðrum gögnum málsins, innanríkisráðuneyti 11. mars 2013 en lög nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála tóku gildi 9. mars 2013. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/2013 skyldi um meðferð og afgreiðslu á beiðnum um endurupptöku mála, sem hafa borist Hæstarétti fyrir 1. janúar 2013, fara eftir eldri reglum laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála eftir því sem við á. Skipað var í endurupptökunefnd 17. maí 2013 og var erindinu komið á framfæri við nefndina 4. júní 2013.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Kristbjörg Stephensen og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2007, sem dæmt var þann 5. júní 2008, var Jón Ásgeir Jóhannesson dæmdur til að sæta fangelsi í þrjá mánuði. Fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Tryggvi Jónsson var í sama máli dæmdur til tólf mánaða fangelsisrefsingar og var fullnustu hennar frestað með sömu skilmálum.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012, sem dæmt var 7. febrúar 2013 og sem beiðni um endurupptöku beinist að, var Jón Ásgeir Jóhannesson dæmdur í fangelsi í tólf mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Tryggvi Jónsson var dæmdur til að sæta fangelsi í átján mánuði, en fullnustu refsingar hans frestað með sömu skilmálum. Báðir voru þeir dæmdir til greiðslu sektar, Jón Ásgeir skyldi greiða kr. 62.000.000 og Tryggvi Jónsson kr. 32.000.000. Skyldu sektirnar greiðast innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ellegar kæmi til fullnustu tólf mánaða fangelsisvist. 

Um ákvörðun refsingar segir meðal annars í dómi Hæstaréttar:

Endanlegur dómur gekk í Hæstarétti í málinu 5. júní 2008, en þar var ákærði Jón Ásgeir sakfelldur samkvæmt einum ákærulið af fjölmörgum. Ákærði Tryggvi var í málinu sakfelldur fyrir nokkur þeirra brota, sem hann var borinn sökum um. Niðurstaða Hæstaréttar í því máli var sú að ákærði Jón Ásgeir skyldi sæta fangelsi í þrjá mánuði, en frestað var fullnustu refsingarinnar og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði Tryggvi var dæmdur til að sæta fangelsi í tólf mánuði, en fullnustu refsingar hans frestað með sömu skilmálum.

Eins og að framan greinir hefur orðið verulegur dráttur á rannsókn máls þessa og verður ákærðu ekki sérstaklega um hann kennt. Eins og síðar greinir varð verulegur dráttur á meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Af þessum ástæðum verður sú fangelsisrefsing, sem ákærðu verður ákveðin vegna þeirra brota, sem þau eru sakfelld fyrir í málinu, skilorðsbundin. Við ákvörðun hennar ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðsdóm Hæstaréttar 5. júní 2008 yfir ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva og ákveða refsingu í einu lagi sem hegningarauka í samræmi við fyrirmæli 78. gr. sömu laga.

III. Grundvöllur beiðni og viðhorf gagnaðila

Endurupptökubeiðendur byggja á því að málsmeðferð Hæstaréttar í máli nr. 74/2012 hafi farið í bága við d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 með síðari breytingum og því beri að endurupptaka málið fyrir Hæstarétti og breyta dómsorði.

Gallarnir í meðferð málsins felist í því að við ákvörðun skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar hafi ekki verið tekið tillit til þess að refsing samkvæmt dómi í máli nr. 385/2007, sem dæmt var í Hæstarétti 5. júní 2008, hafi verið afplánuð að fullu og öllu þegar dómur í máli nr. 74/2012 var kveðinn upp þann 7. febrúar 2013. Í forsendum þess dóms hefði átt að taka skýrt fram að við ákvörðun skilorðsbundinnar refsingar hefði verið tekið fullt tillit til þess að fyrri dómur hefði verið afplánaður og hefði Jón Ásgeir þá samkvæmt því verið dæmdur til að sæta fangelsi í níu mánuði og Tryggvi til að sæta fangelsi í sex mánuði. Óbreytt dómsorð leiði til þess að rjúfi annar dómfelldu skilorðið þurfi hann að afplána í senn fangelsisrefsinguna samkvæmt fyrri dóminum, sem hann hafi þegar afplánað, sem og hegningaraukann sem honum hafi verið dæmdur með síðari dóminum. Slík niðurstaða sé andstæð efni 78. gr. almennra hegningarlaga.  

Endurupptökubeiðendur þekki ákvæði 60., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga en hvorki þær greinar né aðrar greinar laganna taki til þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið þegar hæstaréttarmál nr. 74/2012 hafi verið dæmt í héraði og ekki heldur í Hæstarétti.

Endurupptökubeiðendur beiðast því að hæstaréttarmál nr. 74/2012 verði endurupptekið og dómsorði breytt.

Í greinargerð ríkissaksóknara, sem dagsett er 18. febrúar 2013, leggst ríkissaksóknari gegn því að hæstaréttarmál nr. 74/2012 verði endurupptekið. Ríkissaksóknari telji að dómurinn sé í samræmi við 60. gr. almennra hegningarlaga enda hafi rannsókn hafist á málinu hjá lögreglu fyrir lok skilorðstímans, reyndar áður en dómur gekk í hæstaréttarmáli nr. 385/2007. Ákvæði 60. gr. almennra hegningarlaga geri ekki annan fyrirvara en þennan og engan um að skilorðstíminn megi ekki líða áður en dómur gangi í seinna málinu.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 215. gr. laganna segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál, sem dæmt hefur verið í Hæstarétti, verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 211. gr. Í beiðni um endurupptöku skal vera ítarlega rökstutt hvernig skilyrðum um endurupptöku teljist fullnægt, sbr. 1. mgr. 212. gr. sömu laga.

 Í 211. gr. laga um meðferð sakamála er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn þá geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju skilyrða greinarinnar í stafliðum a-d er fullnægt. Er þar á meðal skilyrði það sem endurupptökubeiðendur vísa til í d-lið 1. mgr. 211. gr. þess efnis að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Af hálfu endurupptökubeiðenda er því haldið fram að á meðferð hæstaréttarmáls nr. 74/2012 hafi verið gallar að því leyti að við ákvörðun skilorðsbundinnar refsingar hafi ekki verið tekið tillit til þess að refsing samkvæmt dómi í hæstaréttarmáli nr. 385/2007 hafi þegar verið afplánuð. Ákvæði 60., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga taki ekki til þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið þegar umrætt mál var dæmt, hvorki í héraði né Hæstarétti.

Þessu atriði eru gerð skil í dómi Hæstaréttar. Þar er greint frá því að upphaf málsins megi rekja til húsleitar hjá Baugi hf. 28. ágúst 2002, að skattrannsóknarstjóri hafi hafið rannsókn málsins 17. nóvember 2003 og að hann hafi tilkynnt efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra með bréfi 12. nóvember 2004 að málinu væri vísað til opinberrar rannsóknar. Á grundvelli þeirrar rannsóknar hafi verið gefnar út tvær aðrar ákærur á hendur ákærðu í málinu, sem fjallað hafi verið um í fyrri málum fyrir Hæstarétti. Fyrri ákæran hafi verið gefin út 1. júlí 2005. Dómur Hæstaréttar í því máli hafi gengið 25. janúar 2007 og hafi niðurstaða héraðsdóms, um að sýkna öll ákærðu af sakargiftum í málinu, verið staðfest. Önnur ákæra hafi verið gefin út 31. mars 2006. Endanlegur dómur í því máli hafi gengið í Hæstarétti 5. júní 2008. Í dóminum kemur fram að verulegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins og verði ákærðu ekki um hann kennt. Auk þess hafi orðið verulegur dráttur á meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Af þessum ástæðum verði fangelsisrefsing skilorðsbundin. Þá segir eftirfarandi í dóminum:

Við ákvörðun hennar ber samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðsdóm Hæstaréttar 5. júní 2008 yfir ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva og ákveða refsingu í einu lagi sem hegningarauka í samræmi við fyrirmæli 78. gr. sömu laga.

Í 60. gr. almennra hegningarlaga segir:

Nú hefst rannsókn hjá lögreglu gegn manni sem sakborningi fyrir lok skilorðstíma, og er dómstólum þá heimilt að dæma refsingu fyrir það brot sér í lagi án skilorðs, en láta skilorðsdóm haldast. Kemur slíkt einkum til greina, er hið nýja brot hefur ekki verið framið af ásettu ráði eða varðar aðeins sektum. Ella tekur dómari bæði málin til meðferðar og dæmir þau í einu lagi. Heimilt er að hafa þann dóm skilorðsbundinn. Ef refsing er þá dæmd, skal tiltaka hana eftir reglum 77. gr., hafi hið nýja brot verið framið eftir uppsögu héraðsdóms í upphaflega málinu, en eftir reglum 78. gr., hafi hið nýja brot verið fyrr framið.

Í 78. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars, að verði maður, sem búið sé að dæma fyrir eitt brot eða fleiri, uppvís að því að hafa framið önnur brot, áður en hann hafi verið dæmdur, skuli honum dæma hegningarauka, er samsvari þeirri þyngingu hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið, ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu.

Í dómi Hæstaréttar er rakið upphaf dómsmálsins sem endurupptökubeiðni beinist að. Við ákvörðun refsingar fjallaði Hæstiréttur sérstaklega um dóm í máli nr. 385/2007 sem féll í Hæstarétti 5. júní 2008. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði 60. gr. almennra hegningarlaga væru uppfyllt og tiltók refsingu eftir reglum 78. gr. sömu laga. Hafa endurupptökubeiðendur ekki sýnt fram á að atvik í málinu hafi verið með öðrum hætti en 60. og 78. gr. taka til eða að skort hafi á að skilyrði sömu ákvæða væru uppfyllt.

Endurupptökubeiðendur hafa því ekki sýnt fram á að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Skortir því lagagrundvöll til að fallast á beiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar um endurupptöku máls Hæstaréttar nr. 74/2012 og er henni því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar um endurupptöku máls nr. 74/2012 sem dæmt var í Hæstarétti 7. febrúar 2013 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

Kristbjörg Stephensen

Þórdís Ingadóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta