Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 3/2017

Hinn 10. mars 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 3/2017:

Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. S-11/2015

Ákæruvaldið

gegn

Reyni Erni Lindusyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 19. janúar 2017, lagði ríkissaksóknari fram beiðni til endurupptökunefndar um að heimiluð yrði endurupptaka máls nr. S-11/2015 sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. september 2016.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-351/2014, sem kveðinn var upp 25. mars 2015, var Reynir Örn Linduson dæmdur til að sæta fangelsi í átta mánuði. Um ákvörðun refsingar segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur:

Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 2. september 2014, hefur ákærði nú í annað sinn, eftir að hann varð fullra 18 ára, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og innan ítrekunartíma, verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti og í þriðja sinn verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum fíkniefna. Ákærði fékk reynslulausn 16. febrúar 2013 í 2 ár á eftirstöðvum 182 daga fangelsisrefsingar. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og verður hún því nú dæmd upp. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 8 mánuðir.

Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-22/2015, sem kveðinn var upp 9. september 2016, var Reynir Örn dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað og skyldi hún falla niður að þremur árum liðnum héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Um ákvörðun refsingar segir í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra:

Í október 2010 gekkst [ákærði] tvívegis undir sátt vegna umferðarlagabrota, alls 110.000 króna sekt í ríkissjóð og sex mánaða sviptingu ökuréttar. Í desember sama ár voru honum ákveðin viðurlög, 70.000 króna sekt fyrir umferðarlagabrot og hann einnig sviptur ökurétti í eitt ár. Í júní 2011 var hann dæmdur til greiðslu 280.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot og hann sviptur ökurétti í tvö ár. Í júlí 2012 var hann í Danmörku dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar fyrir fíkniefnasölu. Var honum vísað frá Danmörku með sex ára endurkomubanni og í september 2012 var áframhald afplánunar hans fært til Íslands. Í janúar 2013 var ákærði í héraðsdómi Reykjaness dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Hinn 16. febrúar 2013 var ákærða veitt reynslulausn til tveggja ára á alls 182 daga eftirstöðvum tveggja síðastnefnda dóma. Loks gekkst ákærði hinn 3. janúar 2014 undir sátt sem fól í sér greiðslu 10.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot.

Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilyrði reynslulausnar þeirrar sem honum var veitt í febrúar 2013. Verða eftirstöðvar þeirrar refsingar nú teknar upp og honum gerð refsing í einu lagi.

III. Grundvöllur beiðni

Í fyrrgreindu erindi frá 19. janúar 2017 kveðst ríkissaksóknari hafa orðið þess áskynja að dómfellda í máli nr. S-11/2015 hafi að öllum líkindum verið gerð mun þyngri refsing en efni stóðu til þar sem að reynslulausn, sem honum hafi verið veitt 16. febrúar 2013 á eftirstöðum refsingar í 182 daga, hafi verið dæmd upp í tvígang með framangreindum dómum. Ástæðu þess megi rekja til þess að sakavottorð sem lagt hafi verið fram í máli nr. S-11/2015 hafi verið útgefið 4. febrúar 2015 áður en dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp.

Með vísan til 4. mgr., sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála setji ríkissaksóknari fram þá beiðni að heimiluð verði endurupptaka máls nr. S-11/2015.

Beiðni ríkissaksóknara fylgdi endurrit framangreindra dóma og sakavottorð útgefin 4. febrúar 2015 og 20. janúar 2017.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 4. mgr. 211. gr. laganna segir að ríkissaksóknari geti beiðst endurupptöku máls, til meðferðar og dómsuppsögu að nýju, til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur atvik vera með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 211. gr.

Í 1. mgr. 211. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn þá geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju skilyrða greinarinnar í stafliðum a-d er fullnægt.

Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Fyrir liggur að reynslulausn sem dómfellda var veitt 16. febrúar 2013 á eftirstöðum refsingar í 182 daga var tvívegis dæmd upp. Fyrst með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-351/2014, sem kveðinn var upp 25. mars 2015, og síðan í máli nr. S-11/2015, sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. september 2016.

Ákæranda ber samkvæmt 1. mgr. 227. gr. laga um meðferð sakamála að leggja sakavottorð ákærða fram í sakamáli við þingfestingu máls nema hann telji óþarft að líta til sakaferils hans við úrlausn málsins. Við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 11. nóvember 2015 lá fyrir sakavottorð útgefið 4. febrúar 2015. Er því ljóst að ekki var tekið tillit til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 25. mars 2015. Verður því að telja að á málsmeðferðinni hafi verið verulegur galli í skilningi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sem er líklegt að hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Með vísan til framangreinds eru skilyrði til að verða við beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku á máli nr. S-11/2015, sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. september 2016, og er hún því samþykkt.

Úrskurðarorð

Beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku máls nr. S-11/2015, sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. september 2016, er samþykkt.

 

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta