Mál nr. 6/2013
Hinn 12. desember 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 6/2013:
Beiðni um endurupptöku
úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness,
beiðni rannsóknarnefndar sjóslysa um sjópróf að nýju
vegna slyss um borð í b/v Víði EA-910 14/2 1992
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með beiðni, sem barst innanríkisráðuneyti með tölvupósti þann 22. mars 2013, sem komið var á framfæri við endurupptökunefnd 4. júní 2013, fór Kristján S. Guðmundsson þess á leit að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness frá 4. janúar 1993 vegna beiðni rannsóknarnefndar sjóslysa um sjópróf að nýju vegna slyss um borð í b/v Víði EA-910 14/2 1992 yrði endurupptekinn í héraði.
Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 4. janúar 1993 var kröfu rannsóknarnefndar sjóslysa um nýtt sjópróf vegna slyss um borð í b/v Víði EA 910 14. febrúar 1992 vísað frá dómi. Endurupptökubeiðandi sótti þing í málinu fyrir hönd rannsóknarnefndar sjóslysa.
III. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt.
Til að endurupptökunefnd sé fært að fjalla um beiðni um endurupptöku þarf endurupptökubeiðandi að hafa átt aðild að því dómsmáli sem endurupptökubeiðni beinist að. Endurupptökubeiðandi sótti þing fyrir rannsóknarnefnd sjóslysa sem starfsmaður nefndarinnar við meðferð þess dómsmáls sem endurupptökubeiðni beinist að. Endurupptökubeiðandi átti aftur á móti ekki persónulega aðild að því máli. Þegar af þessari ástæðu ber að vísa beiðninni frá endurupptökunefnd.
Úrskurðarorð
Beiðni Kristjáns S. Guðmundssonar um endurupptöku úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 4. janúar 1993 um beiðni rannsóknarnefndar sjóslysa um sjópróf að nýju vegna slyss um borð í b/v Víði EA-910 14/2 1992 er vísað frá endurupptökunefnd.
Ragna Árnadóttir formaður
Björn L. Bergsson
Þórdís Ingadóttir