Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 2/2018

Hinn 17. október 2018 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2018:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 481/1991

Ákæruvaldið

gegn

Sigurþóri Ólafssyni og Guðna Magnússyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

  1. Beiðni um endurupptöku

    Með erindi dagsettu 16. apríl 2018 fór Sigurþór Ólafsson þess á leit að mál nr. 481/1991, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands þann 6. mars 1992, verði endurupptekið.

    Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

  2. Málsatvik

    Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 481/1991, sem kveðinn var upp 6. mars 1992, voru endurupptökubeiðandi og Guðni Magnússon dæmdir til að sæta fangelsi í þrjá mánuði skilorðsbundið. Báðir voru sakfelldir fyrir hlut þeirra að tryggingarsvikum en Hæstiréttur komst að niðurstöðu um að þeir hefðu sviðsett árekstur bifreiða þeirra. Endurupptökubeiðandi taldist sekur um tilraun til fjársvika en hann hafði ekki fengið greiddar vátryggingabætur. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir tékkalagabrot með því að hafa gefið út tékka þann 11. janúar 1991 að fjárhæð 23.000 krónur fyrir iðgjald vegna húftryggingar bifreiðar hans. Tékkinn reyndist innistæðulaus er hann var sýndur til greiðslu 1. febrúar sama ár en tryggingarfélagið hafði að beiðni endurupptökubeiðanda geymt til mánaðarmóta að sýna tékkann til greiðslu.

    Endurupptökubeiðandi hefur áður, ásamt Guðna Magnússyni, sótt um endurupptöku á umræddu hæstaréttarmáli, síðast þann 21. ágúst 2017, í máli endurupptökunefndar nr. 24/2017. Úrskurður var kveðinn upp í málinu þann 20. október 2017 þar sem endurupptökubeiðni var hafnað. Þóttu ekki vera uppfyllt skilyrði þágildandi 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, auk þess sem endupptökubeiðni taldist ekki á rökum reist og var því hafnað þegar í stað, sbr. þágildandi 3. mgr. 212. gr. laganna.

  3. Grundvöllur beiðni

    Í endurupptökubeiðni er óskað eftir því að sá hluti hæstaréttarmálsins sem laut að tékkalagabroti verði endurupptekinn og lítur beiðnin ekki að endurupptöku vegna sakfellingar fyrir vátryggingasvik.

    Á því er byggt varðandi beiðni um endurupptöku vegna tékkalagabrots að fram séu komin ný gögn sem varpi ljósi á að næg innistæða hafi verið á tékkareikningnum þegar tékkinn var sýndur. Vísað er í þeim efnum til yfirlits tékkareiknings endurupptökubeiðanda vegna tímabilsins 18. janúar 1991 til 31. desember 1991. Innistæða hafi numið 111.596 krónum þann 18. janúar 1991 en tékki að fjárhæð 100.000 krónur hafi verið gjaldfærður 29. janúar 1991 sem endurupptökubeiðandi kannast ekki við hafa gefið út og byggir á að hafi verið falsaður af bankanum. Tékkinn beri annað raðnúmer en tékkar í tékkhefti því sem endurupptökubeiðandi hafi haft í notkun á þessum tíma. Byggir endurupptökubeiðandi á því að bankinn hafi fært tékkann til frádráttar innistæðu til að koma höggi á endurupptökubeiðanda og gert þetta í þágu tryggingafélagsins svo endurupptökubeiðandi yrði dæmdur í sakamálinu. Ef fjárhæð þessa tékka yrði dregin frá hefði næg innistæða verið á reikningnum og því beri að líta framhjá þeirri staðreynd að endurupptökubeiðandi játaði útgáfu innistæðulauss tékka grunlaus um þá staðreynd að næg innistæða hafi verið á reikningnum. Þá vekur endurupptökubeiðandi athygli á því að tékkinn til tryggingafélagsins komi hvergi fram á fyrrnefndu yfirliti yfir færslur á bankareikningnum sem þó spanni tímabilið allt til 31. desember 1991. Á því er byggt að yfirlit yfir reikninginn séu nýtt gagn sem hefði verulegu máli skipt fyrir niðurstöðu málsins varðandi meint tékkalagabrot hefði það komið fram áður en dómur gekk.

    Að lokum er á því byggt af hálfu endurupptökubeiðanda að dómurinn verði ógiltur með vísan til þess að einn dómari Hæstaréttar hafi skilað sératkvæði og talið þá saklausa. Málið á hendur endurupptökubeiðanda líti út sem samsæri á hendur honum og Guðna Magnússyni.

  4. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafaliðum a. til d. 1. mgr. 228. gr. laganna er fullnægt.

Skilyrði stafaliða a. – d., 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

  1. að fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
  2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins, 
  3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, 
  4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. 

Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt. Í 3. mgr. 229. gr. laga um meðferð sakamála segir síðan að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hefur áður sótt um endurupptöku á hæstaréttarmáli nr. 481/1991, síðast þann 21. ágúst 2017, á þeim grundvelli að ný gögn hafi komið fram sem varpi ljósi á að næg innistæða hafi verið á tékkareikningi endurupptökubeiðanda þegar tékkinn var sýndur. Endurupptökunefnd hafnaði þeirri beiðni með úrskurði þann 20. október 2017 á þeim grundvelli að ekkert skilyrða þágildandi 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála væru uppfyllt sem og að beiðni um endurupptöku hafi bersýnilega ekki verið á rökum reist, sbr. þágildandi 3. mgr. 212. gr. laganna.

 

Í fyrirliggjandi endurupptökubeiðni er sótt um endurupptöku á sama grundvelli og í máli nr. 24/2017, þ.e. að fyrir liggi ný gögn sem sýni fram á að næg innistæða var á tékkareikningi endurupptökubeiðanda. Þann 25. maí 2018 óskaði endurupptökunefnd eftir frekari rökstuðningi frá endurupptökubeiðanda fyrir umræddri endurupptökubeiðni. Með bréfi nefndarinnar var óskað eftir upplýsingum um hvort endurupptökubeiðandi byggði beiðni sína á öðrum málsástæðum nú en þeim sem teflt var fram í máli endurupptökunefndar nr. 24/2017. Endurupptökunefnd barst ekki frekari rökstuðningur frá endurupptökubeiðanda en frestur til að skila nánari rökstuðningi var veittur til 15. júní sl. Þann 12. júní sl. samþykkti endurupptökunefnd að veita endurupptökubeiðanda 10 daga viðbótafrest til að skila frekari rökstuðningi. Nefndinni hefur enn ekki borist frekari rökstuðningur né upplýsingar hvort endurupptökubeiðandi hyggst byggja á öðrum málsástæðum nú en þeim sem teflt var fram í máli endurupptökunefndar nr. 24/2017.

Með vísan til þess rökstuðnings sem kemur fram í úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 24/2017 og að beiðni endurupptökubeiðanda er ekki reist á öðrum málsástæðum en teflt var fram í hinu eldra máli verður ekki talið að skilyrði 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt. Er beiðninni því hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Sigurþórs Ólafssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 481/1991, sem dæmt var í Hæstarétti 6. mars 1992, er hafnað.

 

 

Haukur Örn Birgisson, formaður

 

 

 

Gizur Bergsteinsson

 

 

 

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta