Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 8/2017

Hinn 27. apríl 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 8/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 834/2016;

Jóna Ágústa Helgadóttir

gegn

Landsbankanum hf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 28. febrúar 2017, fór Jóna Ágústa Helgadóttir þess á leit að hæstaréttarmál nr. 834/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 4. janúar 2017, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Sigurður Tómas Magnússon.

II.        Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp 2. desember 2016, var kröfum endurupptökubeiðanda, sem vörðuðu ágreining um gildi nauðungarsölu á fasteign hennar, hafnað. Endurupptökubeiðandi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2016 sem barst héraðsdómi 15. sama mánaðar.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að kærumálsgögnum hefði fyrst verið skilað til Hæstaréttar 30. desember 2016. Hafi þá verið liðinn sá tveggja vikna frestur til að skila gögnum sem kveðið sé á um í 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þeim sökum var talið óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar.

III.       Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins.

Að mati endurupptökubeiðanda byggir niðurstaða Hæstaréttar á misskilningi. Í dóminum hafi ranglega verið talið að endurupptökubeiðandi hafi skilað kærumálsgögnum til réttarins 30. desember 2016, en þann dag hafi frestur til að skila gögnum samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála verið runninn út. Hið rétta sé að endurupptökubeiðandi hafi komið gögnum málsins inn um bréfalúgu Hæstaréttar 29. desember 2016 eftir að skrifstofa réttarins hafi lokað klukkan 14:00 þann dag. Að mati endurupptökubeiðanda miðast umræddur frestur við miðnætti þess dags en ekki við opnunartíma skrifstofu réttarins. Framangreindu til stuðnings hefur endurupptökubeiðandi lagt fram yfirlýsingu og tölvubréf frá þeim aðila sem falið hafi verið að fara með gögnin til Hæstaréttar. Löng hefð sé fyrir því að tekið hafi verið við málsgögnum eftir lokun skrifstofu réttarins á lokadegi frests, enda geti óviðráðanlegar orsakir leitt til þess að ekki sé unnt að afhenda gögn fyrir lokun.

Fyrir liggur tölvubréf frá skrifstofustjóra Hæstaréttar, dagsett 16. janúar 2017, þar sem fram kemur að gögnin hafi verið stimpluð um móttöku í Hæstarétti 30. desember 2016. Starfsmaðurinn, sem hafi stimplað gögnin, muni ekki hvort gögnin hafi verið komin í lúgu eða hvort komið hafi verið með þau á skrifstofuna eftir að starfsmaðurinn hafi komið til starfa.

Í ljósi þess að Hæstiréttur hafi ekki mótmælt tímasetningu á afhendingu gagnanna og frásögnin virðist samræmast öðrum staðhæfingum um afhendinguna, telur endurupptökubeiðandi að leggja verði til grundvallar að gögnin hafi borist réttinum innan þess frests sem sé tilgreindur í 3. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála.

Á þessum grunni telur endurupptökubeiðandi að uppfyllt séu öll skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála til endurupptöku. Hafi sterkar líkur verið leiddar að því að mistök hafi verið gerð af hálfu Hæstaréttar við móttökustimplun kærumálsgagna og málið því átt að sæta efnismeðferð. Verði endurupptökubeiðanda ekki kennt um þessi mistök. Þá telur endurupptökubeiðandi að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum og að önnur atvik mæli með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir hennar séu í húfi.

Í endurupptökubeiðni er vísað til þess að 21. desember 2016 hafi verið óskað eftir fyrirtöku vegna vitnamáls í héraði. Hafi vonir staðið til þess að vitnaskýrslur gætu orðið hluti málsgagna sem afhent yrðu Hæstarétti 29. sama mánaðar. Hins vegar hafi ekki verið boðað til fyrirtöku í vitnamálinu fyrr en 6. janúar 2017 eftir að frestur til afhendingar málsgagna hafi verið runninn út. Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í því máli, sem óskað er endurupptöku á, hafi beiðnin verið afturkölluð. Nú hafi verið óskað eftir fyrirtöku á ný en héraðsdómur telji slíkt ekki tímabært þar sem ekki liggi fyrir hvort málið fái efnislega meðferð í Hæstarétti.

IV.       Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:

a.     sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b.     sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c.     önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála skal sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn senda Hæstarétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins í fjórriti sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Enn fremur kemur fram í 4. mgr. sömu greinar að afhendi sá er kærir úrskurð eða dómsathöfn ekki greinargerð, ef því er að skipta, og kærumálsgögn til Hæstaréttar innan þess frests sem greinir í 3. mgr. verði þá ekki frekar af máli.

Fyrir liggur að kæra vegna málsins barst Héraðsdómi Reykjaness 15. desember 2016. Kærumálsgögn voru stimpluð um móttöku í Hæstarétti 30. desember 2016, en það var degi eftir að frestur til að afhenda gögnin til réttarins rann út. Endurupptökubeiðandi hefur lagt fram tölvubréf og yfirlýsingu frá þeim aðila sem mun hafa verið falið að afhenda gögnin til Hæstaréttar þar sem fram kemur að gögnunum hafi verið skilað um bréfalúgu hjá réttinum um klukkan 20 að kvöldi 29. desember 2016. Jafnframt liggur fyrir tölvubréf frá Hæstarétti, dagsett 16. janúar 2017, þar sem áréttað er að gögnin hafi verið stimpluð af starfsmanni réttarins um móttöku 30. desember 2016 en að viðkomandi starfsmaður muni ekki hvort þau hafi verið komin í bréfalúgu á húsi Hæstaréttar þann morgun eða hvort þau hafi verið afhent eftir að starfsmaðurinn kom til starfa. Samkvæmt þessu hefur ekki verið staðfest af Hæstarétti að gögnin hafi verið í bréfalúgu að morgni 30. desember 2017 og því síður að þau hafi borist fyrir miðnætti 29. sama mánaðar. Þá er ljóst að af hálfu endurupptökubeiðanda var ekki tryggð fullnægjandi sönnun fyrir því að gögnunum hefði í reynd verið skilað fyrir lok dags 29. desember 2017, innan lögboðins frests.

Með vísan til framanritaðs eru ekki forsendur til þess að telja sterkar líkur leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar dómsmálið var til meðferðar. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er þannig ekki fullnægt. Þá hefur endurupptökubeiðandi ekki lagt fram gögn sem uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. um ný gögn.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a- og b-liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 834/2016 því bersýnilega ekki á rökum reist. Er henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð

Beiðni Jónu Ágústu Helgadóttur um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 834/2016, sem kveðinn var upp 4. janúar 2017, er hafnað.

 

Björn L. Bergsson formaður

 Ásgerður Ragnarsdóttir

 Sigurður Tómas Magnússon

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta