Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 12/2017

Hinn 11. maí 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 12/2017:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. S-677/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

gegn

X

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 5. apríl 2017, fór X þess á leit að héraðsdómsmál nr. S-677/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. nóvember 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-677/2016, sem kveðinn var upp 2. nóvember 2016, var X dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga og sviptur ökuréttindum ævilangt. Endurupptökubeiðandi sótti ekki þing við þingfestingu málsins en ákæra og fyrirkall hafði verið birt lögum samkvæmt á lögheimili hans. Var dómur lagður á málið að honum fjarstöddum í samræmi við 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Verjanda endurupptökubeiðanda var birtur dómur héraðsdóms 1. desember 2016 í samræmi við umboð. Endurupptökubeiðandi ritaði síðan sjálfur undir áfrýjunaryfirlýsingu til ríkissaksóknara 20. desember sama ár. Ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til Hæstaréttar Íslands 21. desember 2016 og fékk málið málsnúmerið 864/2016 fyrir Hæstarétti. Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 23. mars 2017 var málinu vísað frá dómi án kröfu þar sem ekki er unnt að áfrýja dómi sem lagður er á mál í héraði að sakborningi fjarstöddum, sbr. 2. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála. Þess í stað yrði að leita endurupptöku eftir reglum XXIX. kafla laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 89/2010.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur með vísan til 2. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála að mistök hafi verið gerð annars vegar þegar ríkissaksóknara hafi verið send áfrýjunaryfirlýsing, dagsett 20 desember 2016, og hins vegar þegar ríkissaksóknari hafi gefið út áfrýjunarstefnu í málinu 21. desember sama ár. Endurupptökubeiðandi gerir ekki athugasemdir við frávísun málsins frá Hæstarétti án kröfu 23. mars 2017.

Endurupptökubeiðandi telur að með réttu hefði ríkissaksóknari átt að vísa áfrýjunaryfirlýsingu hans strax frá. Hefði það verið gert hefði endurupptökubeiðanda verið mögulegt að beiðast endurupptöku samkvæmt XXIX. kafla laga um meðferð sakamála, en þess í stað hafi áfrýjunaryfirlýsing endurupptökubeiðanda verið tekin til meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara og frestur til að beiðast endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi runnið út.

Fram kemur í endurupptökubeiðni að með vísan til ákvæða 211. gr. laga um meðferð sakamála sé ljóst að dómur hafi gengið í sakamáli og því í reynd ekki áfrýjað. Þar sem um útivistardóm sé að ræða hafi ekki reynt á varnir endurupptökubeiðanda fyrir dómi og telji hann þannig skilyrði a- og c-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt.

Einkum byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laganna. Hafi það verið galli að taka málið til áfrýjunarmeðferðar þegar lagaheimildir hafi staðið gegn því.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var málinu áfrýjað og liggur fyrir dómur Hæstaréttar sem kveðinn var upp 23. mars 2017. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt. Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað. Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað fer um frekari meðferð málsins samkvæmt ákvæðum 213. gr. laganna.

Þrátt fyrir að fyrir liggi dómur Hæstaréttar í máli nr. 864/2016 vegna áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-677/2016, sem kveðinn var upp 2. nóvember 2016, er af hálfu endurupptökubeiðanda óskað eftir endurupptöku umrædds héraðsdóms. Lagaheimild til að endurupptaka héraðsdóm að dómi Hæstaréttar gengnum er ekki til að dreifa. Þá er með öllu vanreifað hvernig skilyrðum 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála er fullnægt enda kemur fram í endurupptökubeiðni að engar athugasemdir séu gerðar við niðurstöðu Hæstaréttar. Er máli þessu þegar af þeim ástæðum vísað frá endurupptökunefnd.

Úrskurðarorð

Beiðni X um endurupptöku máls nr. S-677/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. nóvember 2016, er vísað frá endurupptökunefnd.

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta