Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 9/2017

Hinn 26. janúar 2018 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-34/2016;

Arion banki hf.

gegn

Evu Sigurbjörnsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

1.  Með erindi, dagsettu 16. mars 2017, fór Eva Sigurbjörnsdóttir þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-34/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Vestfjarða 21. júní 2016, yrði endurupptekið.

2.  Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

3.  Endurupptökubeiðandi gekkst undir ábyrgð á yfirdráttarláni aðalskuldara hjá gagnaðila og undirritaði sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 990.000 kr. þann 10. desember 2008. Yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð var útbúin af forvera gagnaðila og var tímabundin til fjögurra ára.

4.  Á þeim tíma er fyrrgreind sjálfskuldarábyrgð var gefin út var endurupptökubeiðandi einnig í ábyrgð á öðru láni fyrir aðalskuldara. Það lán var einnig tekið hjá forvera gagnaðila og nam upphaflega 4.000.000 kr. Lánasamningurinn var undirritaður 25. febrúar 2004 og var lánið tryggt með veði í fasteign endurupptökubeiðanda. Að kröfu endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar var lánið fjarlægt af eign þeirra í júlí 2011 þar sem ekkert greiðslumat fór fram á greiðslugetu aðalskuldara þegar lánið var tekið. Endurupptökubeiðandi og eiginmaður hennar voru á sama tíma gerð að meðgreiðendum að láninu. 1. desember 2016 var sú ábyrgð felld endanlega niður.

5.  Ábyrgð endurupptökubeiðanda á lánum aðalskuldara þann 10. desember 2008 nam þannig að höfuðstól samtals 4.990.000 kr. eftir að hún hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð á yfirdráttarláni aðalskuldara.

6.  Stefna var birt fyrir endurupptökubeiðanda 6. júní 2014 sem hún undirritaði. Endurupptökubeiðanda var aftur birt stefna 26. júlí 2015 en hún neitaði viðtöku og sagði lögmann sinn annast málið. Endurupptökubeiðanda var aftur birt stefna 20. apríl 2016 og neitaði hún aftur viðtöku hennar. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 15. júní 2016 og var stefnan árituð um aðfararhæfi 21. júní sama ár.

7.  Endurupptökubeiðandi lagði fram beiðni fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-34/2016 þann 1. mars 2017. Endurupptökubeiðninni var synjað 8. mars 2017 þar sem hún barst dómnum ekki innan þeirra tímamarka sem skilgreind eru í 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III. Grundvöllur beiðni

8.  Endurupptökubeiðandi telur öll skilyrði núgildandi 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála uppfyllt.

9.  Endurupptökubeiðandi byggir á því að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það, sbr. a-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Er byggt á því að mikilvæg atriði vanti í stefnu gagnaðila til þess að réttur efnisdómur verði lagður á málið. Í stefnu komi fram að síðasta yfirdráttarheimild aðalskuldara hafi verið samþykkt 5. júlí 2011. Því virðist sem yfirdráttarheimild hafi verið endurnýjuð án samþykkis ábyrgðarmanns. Þá er skuld aðalskuldara sögð vera 1.697.267 kr. við lokun tékkareikningsins en á engan hátt hafi legið fyrir í málinu hvort eða hvenær sú hækkun hafi orðið á skuld hans við gagnaðila og hvort ábyrgðarmanni hafi verið tilkynnt um hækkunina og hún borin undir hann.

10.  Bendir endurupptökubeiðandi á að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn geti fjármálastofnun ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings ábyrgðarmanni í óhag. Þannig virðist vera að yfirdráttur aðalskuldara hafi verið hækkaður án þess að endurupptökubeiðandi hafi verið upplýst um það eða hún spurð hvort hún héldi sig við þá sjálfskuldarábyrgð sem hún gaf á árinu 2008.

11.  Ekki liggi heldur fyrir í málinu upplýsingar um þá ábyrgð sem endurupptökubeiðandi hafði þegar gengist í fyrir aðalskuldara vegna láns sem hann tók hjá gagnaðila á árinu 2004. Telur endurupptökubeiðandi að sú ábyrgðaryfirlýsing hafi aukið enn á skyldur forvera gagnaðila sem fjármálastofnunar til þess að virða þær reglur sem um geti í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og eins samkvæmt lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar kom að breytingum og endurnýjun á yfirdrætti aðalskuldara. Gera verði þá kröfu til fjármálafyrirtækja sem leggi mál fyrir dómstóla að þau leggi fram öll þau gögn sem sé að finna í þeirra fórum og geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

12.  Í málinu liggi ekki fyrir að það hafi verið upplýst hvenær yfirdráttarheimild aðalskuldara féll fyrst niður og hvort endurupptökubeiðanda hafi á þeim tíma verið boðið að greiða skuldina og lækka þannig ábyrgð sína á dráttarvöxtum í samræmi við ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn sem gildi um ábyrgðir fyrir gildistöku laganna.

13.  Þá er á því byggt að endurupptökubeiðandi sé ólöglærð og hafi ekki áttað sig á þýðingu þess að þessi atvik væru réttilega upplýst. Hún hafi haldið að með því að neita að taka við stefnu á sínum tíma gæti hún komist undan því að fá á sig dóm vegna ábyrgðarinnar.

14.  Hvað varðar b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála byggir endurupptökubeiðandi á því að upplýsingar um þá staðreynd, að endurupptökubeiðandi hafi verið í sjálfskuldarábyrgð við gagnaðila fyrir skuld aðalskuldara að fjárhæð 7,8 milljónir kr. með vísitöluhækkun, hefðu í raun breytt því að dómurinn hefði ekki komist hjá því að meta það hvort ekki hefði átt að meta greiðslubyrði aðalskuldara. Byggir endurupptökubeiðandi á því að hefðu verið lögð fram gögn um það hvenær og hvernig yfirdráttarlán aðalskuldara hefðu verið endurnýjuð þá hefði komið til skoðunar hvort ábyrgð endurupptökubeiðanda stæðist ákvæði laga um ábyrgðarmenn.

15.  Af hálfu endurupptökubeiðanda sé litið svo á að endurnýjun yfirdráttar, hvort sem hann hafi hækkað eða ekki, sé nýtt lán og því falli ábyrgð endurupptökubeiðanda í raun niður samþykki hún ekki slíka endurnýjun. Þá hefði komið til skoðunar hvort ákvæði samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og eins ákvæði laga um ábyrgðarmenn ættu ekki við um ábyrgð endurupptökubeiðanda vegna hinnar nýju skuldar sem til var stofnað við það að yfirdráttur var endurnýjaður. Einnig hefði þá komið til skoðunar ákvæði 5. gr. fyrrgreindra laga um skyldu fjármálastofnunarinnar til þess að meta greiðslugetu aðalskuldara. Að lokum hefði komið til skoðunar það lán sem fyrir liggi að aðalskuldari hafi tekið á árinu 2004 og endurupptökubeiðandi var í ábyrgð fyrir.

16.  Endurupptökubeiðandi rekur í endurupptökubeiðni að fjármálastofnanir hafi, samkvæmt 7. gr. laga um ábyrgðarmenn, tilkynningarskyldu gagnvart ábyrgðarmanni. Ekkert liggi fyrir um það hvort gagnaðili hafi í samræmi við 4. mgr. 7. gr. fyrrgreindra laga veitt endurupptökubeiðanda sem ábyrgðarmanni tækifæri á því að greiða skuldina þegar hún féll í gjalddaga.

17. Fyrir liggi í málinu að endurupptökubeiðandi hafi verið dæmd á grundvelli sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingar sem hafi verið tímabundin og skyldi samkvæmt efni sínu falla úr gildi í desember 2012. Gagnaðili hafi ekki hafið neinar innheimtuaðgerðir fyrir þann tíma. Þegar stefna hafi verið birt endurupptökubeiðanda og málið þingfest hafi krafan á hendur henni verið niður fallin samkvæmt efni þeirrar sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingar sem gagnaðili hafi sjálfur útbúið. Þá hafi gagnaðili og forveri hans undirgengist samkomulag um ábyrgðir einstaklinga en samkvæmt 2. mgr. 6. gr. þess samkomulags skal sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdráttarláni tékkareiknings ekki gilda lengur en fjögur ár frá útgáfudegi.

18.  Bendir endurupptökubeiðandi á að ef birting stefnunnar hafi farið fram 20. apríl 2016 þá hafi verið þrjú og hálft ár frá því að sjálfskuldarábyrgðin féll niður samkvæmt efni sínu.

19.  Í málinu liggi heldur ekki fyrir að endurupptökubeiðandi hafi ritað á þá skilmála er fylgdu yfirlýsingunni og séu á síðu 2. Allan vafa um það beri að túlka endurupptökubeiðanda í hag.

20.  Þá telur endurupptökubeiðandi einnig að skilyrði c-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt. Forveri gagnaðila hafi á umræddum tíma er endurupptökubeiðandi gekkst í ábyrgðir fyrir aðalskuldara verið bundinn af samkomulagi lánastofnana um sjálfskuldarábyrgðir frá árinu 2001. Vísar endurupptökubeiðandi máli sínu til stuðnings í dóma Hæstaréttar í málum nr. 655/2014, 691/2015 og 762/2016. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. fyrrgreinds samkomulags komi fram að fjármálastofnun sé skylt að greiðslumeta skuldara ef ábyrgð hans sé umfram eina milljón kr. Fyrir liggi í þessu máli að aðalskuldari hafi verið í talsvert hærri skuld við forvera gagnaðila og að endurupptökubeiðandi hafi einnig verið þar í sjálfskuldarábyrgð sem gagnaðili hafi nú fellt niður af þeim sökum að ekkert greiðslumat hafi farið fram líkt og fyrr greinir. Gagnaðili hafi ekki virt þá skyldu að greiðslumeta aðalskuldara og geti ekki byggt á þeirri sjálfskuldarábyrgð. Hefði því átt að sýkna endurupptökubeiðanda alfarið í þessu máli.

21. Gagnaðili hafi sem fjármálastofnun átt að gæta að eðlilegum og viðurkenndum samskiptaháttum við viðskiptamenn og ábyrgðarmenn sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og eins reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 670/2013. Gagnaðili hafi þannig ekki mátt treysta á sjálfskuldarábyrgðina nema að greiðslumat færi fram. Bendir endurupptökubeiðandi einnig á að ósanngjarnt hafi verið af gagnaðila að halda þessari ábyrgð upp á sig með vísan til þessara sömu ákvæða og eins 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og því hafi í raun átt að víkja samningsákvæðinu um ábyrgðina til hliðar, enda hafi samningsstaða aðila verið ójöfn.

22. Takmörkun á ábyrgðinni við fjögur ár hafi átt rætur að rekja til 2. mgr. 6. gr. í samkomulagi fjármálafyrirtækja um sjálfskuldarábyrgðir frá 2001. Hafi fjármálafyrirtæki sett slíkan texta inn í skjöl er varði fjárhagslega hagsmuni einstaklinga verði að túlka allan vafa um gildi þeirra einstaklingnum í hag. Fjármálastofnun sem gefi upp að ábyrgð takmarkist við fjögur ár geti þannig ekki sjö og hálfu ári eftir að ábyrgðin sé gefin út krafið ábyrgðarmann um skuldina. Endurupptökubeiðandi hafi þannig mátt leggja þann skilning í ákvæðið um gildistímann að ábyrgðin félli niður að fjórum árum liðnum.

23.  Í stefnu þeirri sem lögð var fyrir héraðsdóm hafi ekkert verið fjallað um þetta og þannig hafi málið því verið verulega vanreifað og hefði átt að sæta frávísun frá dómi. Þá sé heldur á engan hátt útskýrt að yfirdráttur á umræddum tékkareikningi hafi fallið niður í október 2010 en ekki í júlí 2011 eins og haldið sé fram í stefnu án þess að það sé stutt gögnum. Þá hafi ekki fylgt málinu sundurliðun á uppsöfnun skuldarinnar á umræddum tékkareikningi né önnur gögn sem sanni að upphæðin sem fram komi á dómskjali 3 sé í raun rétt. Ekkert yfirlit um þróun skuldarinnar hafi fylgt með gögnum málsins.

24.  Endurupptökubeiðandi telur því ljóst að vísa hefði átt málinu frá vegna vanreifunar að einhverju leyti eða öllu og eins ljóst að sýkna hefði átt endurupptökubeiðanda án kröfu að einhverju leyti eða öllu þar sem ábyrgð hennar hafi verið niður fallin þegar málið hafi verið höfðað.

IV. Viðhorf gagnaðila

25.  Í umsögn gagnaðila, dagsettri 8. maí 2017, er ekki fallist á að skilyrði núgildandi 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt í málinu og rekur gagnaðili hvert skilyrði fyrir sig.

26. Varðandi a-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála telur gagnaðili að málsatvik hafi verið réttilega leidd í ljós í stefnu. Gagnaðili hafni því að forveri hans hafi brotið gegn samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001. Ekki hafi verið skylda til að gera greiðslumat þar sem fjárhæð ábyrgðar hafi ekki verið yfir 1.000.000 kr. Endurupptökubeiðandi hafi ekki komið að rökum sem lúti að ógildingu ábyrgðarinnar í greinargerð sinni og því geti gagnaðili ekki svarað því. Gagnaðili telji að ekki verði séð að á honum hafi hvílt einhvers konar skylda til að koma upplýsingum varðandi þetta í stefnu málsins líkt og endurupptökubeiðandi heldur fram. Endurupptökubeiðanda hafi verið fullljóst um málareksturinn og verði að telja að honum sé þá um að kenna komist endurupptökunefnd að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd þegar málið var til meðferðar.

27.  Varðandi b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála bendir gagnaðili á að á engan hátt sé hægt að fallast á með endurupptökubeiðanda að skilmálum ábyrgðarsamnings hafi verið breytt og því eigi 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn ekki við.

28.  Sjá megi á birtingarvottorði að endurupptökubeiðandi hafi notið aðstoðar lögmanns á þessum tíma og verði því að telja fullyrðingar þess efnis að endurupptökubeiðandi hafi ekki áttað sig á málinu ótrúlegar. Telur gagnaðili að endurupptökubeiðandi hafi haft fjölmörg tækifæri til að greiða skuldina þegar hún féll í gjalddaga en hún hafi enga tilraun gert til þess. Gildistími ábyrgðarinnar hafi verið fjögur ár og bar endurupptökubeiðandi ábyrgð á þeirri fjárhæð sem skuldin stóð í við lok gildistíma ábyrgðarinnar, þó að hámarki fjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar. Fyrningartími ábyrgðarinnar hafi verið tíu ár sem hafi byrjað að líða við lok gildistíma hennar. Bendir gagnaðili á að ekki sé rétt að skjalið sem sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsing endurupptökubeiðanda sé rituð á sé tvær síður líkt og haldið sé fram, heldur sé um að ræða fram- og bakhlið. Þá komi fram neðst á fyrri blaðsíðu skjalsins að skilmála ábyrgðarinnar sé að finna á bakhlið þess. Gagnaðili telur því fullljóst að endurupptökubeiðandi hafi gengist undir skilmála ábyrgðarinnar.

29.  Varðandi c-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála telur gagnaðili að önnur atvik mæli ekki með að leyfi verði veitt til endurupptöku.

30. Gagnaðili telur að á grundvelli framangreindra röksemda beri að hafna endurupptökubeiðni endurupptökubeiðanda. Öllum málsástæðum endurupptökubeiðanda er mótmælt að því leyti sem þær ganga í bága við málsástæður gagnaðila.

V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

31.  Með bréfi, dagsettu 23. maí 2017, mótmælti endurupptökubeiðandi röksemdum gagnaðila þess efnis að skilyrði a til c liða 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt.

32.  Í stefnu komi fram að síðasta yfirdráttarheimild aðalskuldara hafi fallið niður þann 5. júlí 2011 en enga lýsingu sé að finna í stefnu á því hver staða skuldarinnar hafi þá verið á yfirdráttarreikningi aðalskuldara. Þá sé heldur ekki að finna sundurliðun á stefnufjárhæðinni sem styðji við kröfufjárhæð. Þannig sé ekki vitað hver sé höfuðstóll kröfunnar og hvort hluti hans séu vextir sem hugsanlega séu fyrndir. Þá sé ekki að finna á því skýringu af hverju ábyrgðarmanni hafi ekki verið tilkynnt um að heimildin hafi fallið niður.

33.  Gagnaðili haldi því fram að tékkareikningi aðalskuldara hafi verið lokað 30. nóvember 2012 en leggi hins vegar ekki fram nein gögn því til stuðnings né tilkynningu þess efnis til ábyrgðarmanns eða aðalskuldara. Ekki sé hægt að líta á héraðsdómskjal nr. 3 sem sönnun enda geti stefndi sem fjármálastofnun ritað út stöðu af reikningum sínum að vild og miðað þá stöðu við hvaða dagsetningu sem er. Á útskriftinni komi heldur ekki fram að reikningi hafi verið lokað. Útskriftin styðji þannig ekki málsatvikalýsingu gagnaðila. Ítrekar endurupptökubeiðandi þessa málsástæðu þar sem ábyrgðarlýsing hennar hafi verið tímabundin við fjögur ár og skyldi þá falla niður að þeim tíma loknum eða 9. desember 2012. Ekkert liggi fyrir um að reikningnum hafi í raun verið lokað þann 30. nóvember 2012 né að gagnaðili hafi krafið aðalskuldara eða endurupptökubeiðanda um greiðslu skuldarinnar áður en ábyrgðaryfirlýsingin féll úr gildi. Um þetta hafi ekki verið fjallað í stefnunni. Endurupptökubeiðandi mótmælir því málsatvikalýsingu gagnaðila hvað þetta varðar þar sem lýsing gagnaðila sé ófullnægjandi í stefnu og gefi ranga mynd af málinu.

34.  Tilkynning gagnaðila til ábyrgðarmanns um vanskil yfirdráttarskuldar á tékkareikningi, sbr. dómskjal nr. 9, er dagsett 28. október 2010 en endurupptökubeiðandi kannast ekki við að hafa fengið þá tilkynningu. Að sögn gagnaðila hafi heimildin fallið niður 5. júlí 2011 en reikningi verið lokað 30. nóvember 2012. Gagnaðili virðist þannig leggja mismunandi skilning í það að heimildin hafi fallið niður og að reikningi hafi verið lokað án þess að skýra það frekar.

35.  Endurupptökubeiðandi ítrekar að hún sé ólöglærð og hafi sá lögmaður er hún leitaði til á sínum tíma ráðlagt henni að rita ekki undir neitt frá gagnaðila nema með samþykki lögmannsins. Þegar stefnuvottur hafi reynt að birta henni stefnu hafi hún neitað að taka við henni og þar af leiðandi ekki komið henni til lögmannsins.

36.  Endurupptökubeiðandi bendir á að hún hefði ekki getað komið að réttum gögnum sem skorti frá gagnaðila sem fjármálastofnun. Það hafi verið fyrst og fremst skylda gagnaðila að sýna fram á og sanna að hann hefði gert kröfu á endurupptökubeiðanda áður en ábyrgð féll niður þann 9. desember 2012. Þá hafi einnig verið gagnaðila að sýna fram á hvernig höfuðstóll þeirrar skuldar sem um ræði varð til. Gagnaðili hafi einnig átt að sýna fram á að hann hefði látið meta greiðslugetu aðalskuldara sem hann hafi ekki getað. Þessi vanreifun sé á ábyrgð gagnaðila og endurupptökubeiðandi hafi ekki getað lagt fram gögn er leiðréttu hana.

37.   Varðandi b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála vísar endurupptökubeiðandi í beiðni sína til endurupptökunefndar. Reifar endurupptökubeiðandi þau nýju gögn er hann telur að myndu leiða til breyttrar niðurstöðu.

38. Endurupptökubeiðandi ítrekar tilvitnun til 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn og mótmælir athugasemdum gagnaðila sérstaklega hvað það varðar. Gagnaðili túlki ábyrgðaryfirlýsinguna og skilmála hennar þannig að hún geti varað í fjórtán ár en hins vegar sé staðreynd að hún hafi einungis átt að vera í fjögur ár. Endurupptökubeiðandi hafi ekki ritað undir þá skilmála sem gagnaðili haldi fram að hafi verið á bakhlið yfirlýsingarinnar og sé sá einhliða texti á framhlið yfirlýsingarinnar því marklaus. Þá sé heldur ekki hakað við í reitinn hjá ábyrgðarmanni nr. 1 en með því að haka í þann reit samþykki ábyrgðarmaður að hafa kynnt sér skilmálana. Það hafi endurupptökubeiðandi ekki gert og allan vafa um hvernig eigi að skilja þessa uppsetningu skjalsins hefði átt að meta stefnanda sem fjármálastofnun í óhag sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 274/2016.

39. Að lokum bendir endurupptökubeiðandi á að gagnaðili hafi gert fjárnám í fasteign hennar og óskað nauðungarsölu á eigninni. Því sé um stórfellda hagsmuni hennar að ræða.

VI. Niðurstaða

40. Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 191. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í samræmi við 5. mgr. 137. gr. verður ákvæði þessu jafnframt beitt um endurupptöku útivistarmáls sem hefur lokið með því að stefna í máli hefur verið árituð um aðfararhæfi samkvæmt 113. gr. laganna.

41.   Skilyrði fyrir endurupptöku, sbr. 1. mgr. 191. gr. laganna, eru eftirfarandi:

        a.  sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til                meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

        b.  sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

        c.   önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í                húfi.

42.   Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

43.  Samkvæmt a-lið 1. mgr. 191. gr. þarf endurupptökubeiðandi að leiða sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar.  Er áskilið að aðilanum verði ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós. Í málinu er óumdeilt að stefnubirting fór fram í samræmi við ákvæði XIII. kafla laga um meðferð einkamála. Endurupptökubeiðandi sótti hins vegar ekki þing þegar málið var þingfest og hélt því ekki uppi vörnum í málinu. Verður þess vegna að leggja til grundvallar að endurupptökubeiðanda verði kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós óháð því hvort svo hafi verið. Skortir þess vegna á að þetta skilyrði sé uppfyllt. Verður því að hafna kröfu endurupptökubeiðanda þegar af þessari ástæðu.

44.  Uppkvaðning í máli þessu hefur tafist vegna skipunar nýrra nefndarmanna í endurupptökunefnd.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Evu Sigurbjörnsdóttur um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-34/2016 er hafnað.

  

Haukur Örn Birgisson formaður

 

Gizur Bergsteinsson

 

 Þórdís Ingadóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta