Mál nr. 1/2014
Hinn 15. apríl 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 1/2014:
Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 300/1992
Patrekshreppur
gegn
Guðbrandi Haraldssyni og Vigdísi Helgadóttur
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með erindi dagsettu 18. febrúar 2014 óskaði Vigdís Helgadóttir eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 300/1992 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. september 1993. Endurupptökubeiðnin var send gagnaðila og honum gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegri greinargerð um viðhorf sín til beiðninnar, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með bréfi dagsettu 19. september 2014 sendi gagnaðili skriflega greinargerð. Endurupptökubeiðanda var kynnt sú greinargerð.
Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Þann 22. janúar 1983 féll krapaflóð úr Geirseyrargili á Patreksfirði og olli bæði mannskaða og eignatjóni, þar á meðal á húsi endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar að Hjöllum 2. Ung dóttir þeirra var meðal þeirra sem létust af völdum flóðsins. Í kjölfar atburðarins, í janúar 1984, seldu endurupptökubeiðandi og eiginmaður hennar húseignina að Hjöllum 2 og fluttu frá Patreksfirði.
Endurupptökubeiðandi og eiginmaður hennar töldu sig ekki hafa fengið tjón sitt bætt að fullu með bótum viðlagatryggingar og höfðuðu því dómsmál gegn sveitarsjóði Patrekshrepps, þar sem þau gerðu kröfu um að sveitarfélaginu yrði gert að greiða þeim 7.737.910 krónur en til vara 1.839.633 krónur. Kröfugerðin var tvíþætt. Annars vegar var krafist skaðabóta vegna óbætts fjártjóns og hins vegar miskabóta vegna röskunar á stöðu og högum og andlegra þjáninga. Við meðferð málsins var ákveðið að skipta sakarefni þess samkvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, þannig að fyrst yrði eingöngu dæmt um bótaskyldu sveitarsjóðs Patrekshrepps. Ágreiningur um bótafjárhæð hvíldi á meðan.
Endurupptökubeiðandi og eiginmaður hennar byggðu kröfur sínar á því að framkvæmdir sem Patrekshreppur stóð fyrir í Geirseyrargili haustið 1982 hafi valdið því að krapaflóðið féll með slíku afli á hús þeirra sem raun varð á og olli skemmdum. Töldu þau fyrirsvarsmenn Patrekshrepps eiga sök á tjóni sínu vegna þeirra framkvæmda er þeir stóðu fyrir í gilinu haustið 1982. Jafnframt bentu þau á að enginn sérfróður aðili um snjóflóð hefði komið að framkvæmdum í gilinu. Því til viðbótar héldu þau fram við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi að ábyrgð sveitarfélagsins sem fasteignareiganda væri hlutlæg á tjóni er rakið verði til framkvæmda á eigninni.
Af hálfu Patrekshrepps var því mótmælt að hreppurinn eða starfsmenn hans hefðu gerst sekir um saknæma og ólögmæta háttsemi með gerð varnargarðs á Geirseyrargili. Var því haldið fram að framkvæmdir á árunum 1981 og 1982 hafi einungis verið til að viðhalda garðinum en hann hafi tekið á sig endanlega mynd árið 1962. Þó svo að litið yrði svo á að garðurinn hefði leitt til umrædds tjóns hafi öllum starfsmönnum Patrekshrepps verið fyrirmunað að sjá fyrir hugsanlega hættueiginleika garðsins. Þá mótmælti hreppurinn því að hann bæri hlutlæga ábyrgð á tjóni er kynni að hafa hlotist af framkvæmdum í gilinu auk þess sem málsástæðu þar að lútandi var mótmælt sem of seint fram kominni. Loks taldi Patrekshreppur að gerð garðsins gæti ekki hafa orsakað umrætt flóð og að með öllu væri óljóst um þýðingu garðsins í sambandi við flóðið. Af sérfræðigögnum málsins yrði ráðið að hættuástand hefði skapast þó flóðið hefði fundið sér annan farveg. Enn fremur skorti sannanir fyrir því að garðurinn hefði haft þau áhrif á stefnu flóðsins er haldið var fram.
Fyrir héraðsdómi kom fram við meðferð málsins að óþekkt væri að snjó- eða krapaflóð féllu úr Geirseyrargili. Hins vegar væri í leysingum vatnsrennsli úr gilinu sem væri til talsverðra vandræða í kauptúninu. Fyrir lá að unnið hafði verið í gilinu með jarðýtu við að hreinsa jarðveg upp úr lækjarfarvegi og samhliða hafði verið ýtt upp garði á vestari gilbarminum. Niður af gilinu er skriðukeila og stendur húsið að Hjöllum 2 við eystri hlið hennar. Í héraðsdómi kemur fram að tilgangur framkvæmdanna hafi verið að verjast vatnsflóðum sem eins og áður kemur fram hafi oft komið úr gilinu í leysingatíð. Þá hafi einkum verið haft í huga að verja sjúkrahúsið vatnsskaða en það standi niður af vesturhlið keilunnar.
Vegna margra snjóflóða á Vestfjörðum þennan dag, 22. janúar 1983, fóru vísindamenn á vettvang á vegum Almannavarna ríkisins og könnuðu meðal annars upptök og farvegi þessa krapaflóðs og annarra snjóflóða á Patreksfirði og Bíldudal og reyndu að grafast fyrir um orsakir flóðanna. Skýrsla Almannavarna, dagsett 4. febrúar 1983, var lögð fram í dómsmálinu.
Með dómi aukadómþings Barðastrandarsýslu, sem kveðinn var upp 9. júní 1992, var viðurkennd bótaskylda sveitarsjóðs Patrekshrepps gagnvart endurupptökubeiðanda og eiginmanni hennar. Niðurstaða héraðsdóms var að framkvæmdir af hálfu Patrekshrepps í gilinu yrði að telja verulegar. Með þeim hefði gerð gilsins verið breytt og talsvert hár garður reistur eða að minnsta kosti endurbættur verulega og hækkaður. Hafi umræddur garður ráðið stefnu flóðsins og hindrað að það dreifðist yfir keiluna, en með því hefði kraftur þess minnkað til muna. Var því talið sannað að framkvæmdir í Geirseyrargili á vegum sveitarsjóðs hefðu valdið því að krapaflóðið féll á hús endurupptökubeiðanda með því afli sem raun varð á. Þá var talið að vanræksla sveitarstjórnar á að leita álits sérfræðinga áður en ráðist var í framkvæmdir leiddi til þess að fella yrði bótaskyldu á sveitarsjóð vegna þess tjóns er hlaust af krapaflóðinu.
Patrekshreppur áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar 23. september 1993 er vísað til þess að í fyrrnefndri skýrslu vísindamanna Almannavarna ríkisins frá 4. febrúar 1983 hafi umrædds garðs að engu verið getið. Þá hafi vísindamennirnir aðspurðir fyrir dómi ekki treyst sér til að fullyrða nokkuð um hvort þessi varnargarður hefði haft áhrif á snjósöfnun í Geirseyrargili og þannig valdið eða stuðlað að því að snjóflóð féll eða haft einhver áhrif á stefnu flóðsins á einhverju skeiði og dreifingu þess. Gögn málsins veittu jafnframt ekki þær vísbendingar að unnt væri að staðhæfa að garðurinn hafi verið veigamikil orsök fyrir stefnu flóðsins og því tjóni sem varð. Voru fullyrðingar um áhrif varnargarðsins því að þessu leyti taldar ósannaðar og Patrekshreppur sýknaður í málinu.
Hinn 26. júlí 2002 óskaði eiginmaður endurupptökubeiðanda eftir endurupptöku hæstaréttarmálsins fyrir Hæstarétti, en með ákvörðun Hæstaréttar 28. nóvember 2002, var beiðni hans hafnað. Ekki var talið fullnægt skilyrðum laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku.
Hinn 30. september 2008 var gert samkomulag á milli annars vegar endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar og hins vegar sveitarfélagsins Vesturbyggðar, sem Patrekshreppur tilheyrir nú. Tilefni samkomulagsins var ágreiningur aðila er laut að kröfu um að sveitarfélagið greiddi bætur vegna þess tjóns sem þau hjón töldu sig hafa orðið fyrir vegna afleiðinga krapaflóðsins. Í samkomulaginu kemur fram að greiðsla bóta af hálfu sveitarfélagsins sé eingöngu innt af hendi til lausnar á þeim ágreiningi sem hafði verið milli málsaðila en sveitarfélagið sé á engan hátt að viðurkenna bótaskyldu. Enn fremur lýstu aðilar yfir að þeir gerðu engar frekari kröfur, hverju nafni sem þær nefndust, á hendur hvor öðrum vegna málsins. Lýstu aðilar því yfir með undirritun sinni að ágreiningsmálinu væri að öllu leyti lokið.
III. Grundvöllur beiðni
Af beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 300/1992 má ráða að hún telji skilyrðum 169. gr., sbr. 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins þótt ekki sé vísað til ákvæðisins eða laganna.
Í beiðninni rekur endurupptökubeiðandi forsögu málsins. Í kjölfar krapaflóðsins hafi fjölskylda endurupptökubeiðanda farið í mikla uppbyggingarvinnu á íbúðarhúsi þeirra, en eftir þær hörmungar og með tilliti til vellíðan fjölskyldunnar hafi verið tekin sú ákvörðun að selja húsið og flytja brott.
Með bréfi til sveitarstjórnar Patrekshrepps, dagsettu 29. september 1983, hafi þess verið farið á leit að sveitarfélagið eða opinberir aðilar keyptu húsið Hjallar 2. Sveitarstjórnin hafi hafnað kaupum og því hafi húsið verið selt þeim eina kaupanda sem hafði sýnt áhuga. Söluverðið hafi verið langt undir kostnaðarverði. Ástæða málshöfðunar í öndverðu hafi því verið að fá Patrekshrepp til að greiða mismun á kostnaðarverði og söluverði og kalla hreppinn til ábyrgðar vegna þeirra framkvæmda sem unnar voru í Geirseyrargili haustið 1982.
Til að sýna hversu mikil áhrif breytingar á farvegi gilsins hafi haft á stærð og stefnu flóðsins, lagði endurupptökubeiðandi með endurupptökubeiðni fram ný gögn, þar á meðal minnisblað frá Veðurstofu Íslands og Verkís hf., dagsett 10. desember 2004 og bréf ritað fyrir hönd þeirra aðila, dagsett 3. júní 2009, til eiginmanns endurupptökubeiðanda. Höfundar beggja þessara gagna eru jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni og verkfræðingur hjá Verkís hf.
Minnisblaðið ber heitið „Töluleg hermun á krapaflóði úr Geirseyragili á Patreksfirði: Samantekt niðurstaðna“. Endurupptökubeiðandi vísar í samantekt niðurstaðna, en þar segir að líkanreikningar bendi til þess að upphækkun vestari lækjarbakkans í Geirseyrargili hafi breytt stefnu krapaflóðsins nokkuð og beint því meira til austurs en ella hefði orðið.
Hvað varðar bréf Veðurstofu Íslands og Verkís hf., dagsett 3. júní 2009, hefur endurupptökubeiðandi orðrétt eftir í endurupptökubeiðni að ekki sé unnt að fullyrða að breytingarnar á landslagi af völdum varnargarðsins á lækjarbakkanum hafi beinlínis verið orsök þess að flóðið lenti á húsinu vegna óvissu sem óhjákvæmileg er um líkanreikninga þar sem margskonar einföldunum sé beitt. Hins vegar bendi líkanreikningarnir ótvírætt til þess að flóðið hafi lent af meira afli á húsi endurupptökubeiðanda en ella sökum þessa breytinga. Þar sem húsið hafi verið nærri austurjaðri flóðsins bendi þetta til að breytingarnar hafi ráðið miklu um hvað skemmdir á vesturenda hússins urðu miklar og afleiðingarnar alvarlegar.
Þá vísar endurupptökubeiðandi meðal annars til loftmyndar Ómars Ragnarssonar frá 22. janúar 1983 sem sýni glögglega hversu litlu hafi munað að íbúðarhúsið slyppi við flóðið.
Endurupptökubeiðandi telur að framangreind gögn ásamt öðrum sýni hversu mikil áhrif breytingar á lækjarfarveginum í Geirseyrargili hafi haft á stærð og stefnu flóðsins. Í ljósi þess er farið fram á endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti.
Fram kemur í endurupptökubeiðni að eftir að dómur hafi verið kveðinn upp í hæstaréttarmáli nr. 300/1992 hafi margt verið reynt til að ná fram leiðréttingu á málinu. Er um það vísað til minnisblaðs innanríkisráðuneytisins, dagsett 26. apríl 2013, sem endurupptökubeiðandi lagði fram. Eiginmaður endurupptökubeiðanda hafi óskað endurupptöku dómsins en með ákvörðun Hæstaréttar, dagsettri 28. nóvember 2002, hafi beiðni hans verið hafnað. Árið 2005 hafi þau hjónin leitað ráðgjafar hjá lögmanni en að mati hans hefðu öll úrræði til lausnar málsins verið tæmd. Á grundvelli þess hafi þau síðan gert samkomulag við sveitarfélagið Vesturbyggð um bætur. Því samkomulagi telur endurupptökubeiðandi að eigi að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
IV. Viðhorf gagnaðila
Með bréfi, dagsettu 19. september 2014, var sjónarmiðum gagnaðila komið á framfæri. Fyrir hönd gagnaðila er þess getið að sveitarfélagið taki ekki afstöðu til hvort fallast eigi á endurupptökubeiðni, en bent er á eftirfarandi atriði:
Í fyrsta lagi er bent á að samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála geti aðili ekki sótt um endurupptöku máls nema einu sinni. Í málinu liggi fyrir að eiginmaður endurupptökubeiðanda hafi óskað eftir endurupptöku á sama máli árið 2002 og hafi beiðni hans verið hafnað með ákvörðun Hæstaréttar. Gagnaðili telur að skilja beri framangreint ákvæði laga um meðferð einkamála þannig að aðeins sé hægt að óska eftir endurupptöku á hverju máli einu sinni og að fjöldi málsaðila geti ekki ráðið því hversu oft hægt er að sækja um endurupptöku máls enda væri ákvæðið marklaust ef sú væri raunin.
Því næst bendir gagnaðili á að öll skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 169. gr. laganna, þurfi að vera uppfyllt svo mál verði endurupptekið.
Að því er varði a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé bent á að upplýst hafi verið að varnargarður hafi verið mótaður á bakka lækjarfarvegs í Geirseyragili á vegum Patrekshrepps haustið 1982. Þá hafi í dómi Hæstaréttar verið vísað til skýrslna sérfræðinga um áhrif varnargarðsins á flóðið og atvik málsins nánar reifuð. Í dóminum komi fram að sérfræðingarnir hafi ekki treyst sér til að fullyrða nokkuð um hvort varnargarðurinn hafi haft áhrif á snjósöfnun í Geirseyrargili og þannig valdið eða stuðlað að því að snjóflóðið varð. Þá hafi gögn málsins ekki verið talin veita vísbendingar um að svo hafi verið. Í dóminum væri þó talið að nokkrar líkur hefðu verið að því leiddar að varnargarðurinn kynni að hafa haft einhver áhrif á stefnu snjóflóðsins á einhverju skeiði og dreifingu þess. Hins vegar væru gögn málsins ekki talin hafa veitt þær vísbendingar að unnt væri að staðhæfa að garðurinn hefði verið veigamikil orsök fyrir stefnu flóðsins og því tjóni sem varð. Hafi fullyrðingar endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar um áhrif varnargarðsins að því leyti verið taldar ósannaðar. Samkvæmt þessu verði að mati gagnaðila ekki séð að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar á sínum tíma en aðilar hafi haft forræði á að upplýsa málsatvik með fullnægjandi hætti. Þá virðist beiðni endurupptökubeiðanda raunar ekki heldur byggja á slíkum röksemdum.
Að því er varði b-lið 1. mgr. 167. gr. laganna hafi endurupptökubeiðandi lagt fram ýmis gögn með beiðni sinni. Af hálfu gagnaðila verði ekki séð að þessi gögn feli í sér nýjar upplýsingar um málsatvik eða breyti fyrri niðurstöðu dómstóla. Þar sé fyrst að nefna loftmynd Ómars Ragnarssonar sem geti ekki haft þýðingu en hana hefði mátt leggja fram við rekstur málsins 1991 til 1992. Þá hafi endurupptökubeiðandi lagt fram minnisblað innanríkisráðuneytisins dagsett 26. apríl 2013. Þar hafi verið tekið fram að niðurstaða dómstóla væri endanleg en að öðru leyti séu þar einkum settar fram hugleiðingar og ábendingar til aðila málsins. Ennfremur séu bæði minnisblað og bréf Veðurstofu Íslands og Verkís hf., annars vegar frá 10. desember 2004 og hins vegar frá 3. mars 2009, háð ýmsum fyrirvörum og matskenndum forsendum. Þá hafi endurupptökubeiðandi ekki leitt að því sterkar líkur að nýju gögnin eigi að leiða til breyttrar dómsniðurstöðu. Í því sambandi víkur gagnaðili að skilyrðum skaðabótaábyrgðar sem hann telur að séu ekki uppfyllt. Þannig verði aðili ekki talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni nema að hann hafi valdið því með saknæmum og ólögmætum hætti og að tjónið verði að vera sennileg afleiðing af hegðun hans. Til að gögnin hefðu einhverja þýðingu þyrftu þau því að minnsta kosti að gefa til kynna að sveitarfélagið hafi hagað sér með saknæmum hætti við gerð varnargarðsins. Ekki sé nóg að orsakasamband sé á milli umfangs tjóns og tiltekinnar athafnar heldur þurfi skilyrði um saknæmi einnig að vera uppfyllt svo aðili verði látinn bera bótaábyrgð. Þannig sé ekkert fram komið í málinu eða hinum nýju gögnum sem breyti þeirri niðurstöðu að framkvæmdir sveitarfélagsins hafi verið gerðar samkvæmt bestu vitund á sínum tíma.
Að því er varði c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála áréttar gagnaðili að árið 2008 hafi hann gert samkomulag við endurupptökubeiðanda og eiginmann hennar þar sem gagnaðili hafi greitt þeim bætur vegna þess tjóns sem þau hafi talið sig hafa orðið fyrir vegna snjóflóðsins. Meðal annars hafi aðilar lýst yfir að þeir myndu engar frekari kröfur gera, hverju nafni sem þær myndu nefnast, á hendur hvor öðrum vegna málsins og að ágreiningsmáli aðila væri þar með að öllu leyti lokið. Í samkomulaginu hafi sérstaklega verið tekið fram að gagnaðili hafi með því ekki viðurkennt bótaskyldu gagnvart hjónunum heldur hefði greiðslan verið innt af hendi til lausnar á ágreiningi aðila. Með samkomulaginu hafi gagnaðili, með aðkomu þar til bærra aðila og umfram skyldu, gengið eins langt og hann hafi getað til að koma til móts við kröfur endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar miðað við þau úrræði sem hafi staðið til boða.
V. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna.
Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:
a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi
Öll framangreind skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo unnt sé að fallast á endurupptöku.
Endurupptökubeiðandi í máli þessu er Vigdís Helgadóttir, annar tveggja aðila sem var til varnar í hæstaréttarmáli nr. 300/1992 sem beiðst er endurupptöku á. Í beiðni til Hæstaréttar, dagsettri 26. júlí 2002, sem laut að endurupptöku sama hæstaréttarmáls var eiginmaður endurupptökubeiðanda einn leyfisbeiðandi. Við meðferð málsins var því ekki hreyft að endurupptökubeiðandi yrði einnig að standa að henni. Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála getur aðili ekki sótt um endurupptöku máls nema einu sinni. Þessi takmörkun á endurupptökuheimild var sett í lög um meðferð einkamála árið 1994, með lögum nr. 38/1994, um breyting á lögum um meðferð einkamála. Engin frekari skýring er gefin á breytingunni í athugasemdum við frumvarp til þeirra laga. Gagnaðili í máli þessu túlkar ákvæðið með þeim hætti að aðeins sé hægt að óska eftir endurupptöku í hverju máli einu sinni. Í ljósi orðalags 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála verður ekki fallist á þá túlkun. Í þessu sambandi ber jafnframt að líta til 2. málsliðar 2. mgr. sama ákvæðis þar sem kveðið er á um að aðili geti ekki að öðru leyti afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku. Réttur aðila til endurupptöku er þannig sérstaklega varinn í lögunum.
Þegar endurupptökubeiðandi og eiginmaður hennar höfðuðu dómsmál á hendur sveitarsjóði Patrekshrepps fyrir aukadómþingi Barðarstrandarsýslu 6. september 1991 var á því byggt af þeirra hálfu að Patrekshreppur bæri ábyrgð á tjóni þeirra samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Með því að standa fyrir að garði var ýtt upp til að beina snjó og krapaflóðum að brú sem stóð um það bil 8 til 10 metra frá húsi þeirra að Hjöllum 2 hafi hreppurinn gerst sekur um athöfn sem hafi valdið því að krapaflóðið lenti á húsi þeirra af því afli sem raun varð. Héraðsdómur féllst á bótaskyldu Patrekshrepps þar sem dómurinn taldi garðinn hafa ráðið stefnu krapaflóðsins og að sveitarstjórn hafi sýnt af sér vanrækslu með því að leita ekki álits sérfræðinga áður en ráðist var í framkvæmdirnar í Geirseyrargili. Hæstiréttur sýknaði aftur á móti sveitarfélagið af kröfu endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar. Var talið að tjón endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar hefði verið afleiðing stórfelldra náttúruhamfara og óviðráðanlegra atvika. Sú niðurstaða byggði á því að tveir sérfræðingar sem fóru á vettvang á vegum Almannavarna ríkisins hafi ekki treyst sér til að fullyrða fyrir dómi nokkuð um hvort varnargarðurinn hafi haft áhrif á snjósöfnun í Geirseyrargili og þannig valdið eða stuðlað að því að snjóflóð varð. Þar sem engin gögn í málinu væru því til stuðnings var það talið ósannað. Í annan stað var talið að gögn málsins gæfu ekki tilefni til að staðhæfa að garðurinn hafi verið veigamikil orsök fyrir stefnu flóðsins og því tjóni sem varð, þrátt fyrir að nokkrar líkur hafi verið leiddar að því að varnargarður í gilinu hafi haft einhver áhrif á stefnu snjóflóðsins. Áhrif varnargarðsins að þessu leyti voru talin ósönnuð.
Á árinu 2004 stóð Veðurstofan að líkanreikningum á krapaflóðinu úr Geirseyrargili í þeim tilgangi að kanna hvort unnt væri að setja upp trúverðugt eðlisfræðilegt líkan af krapaflóði af þeim toga sem þar féll. Líkanreikningarnir voru unnir af sérfræðingi á norsku Jarðfræðitæknistofnuninni í Osló og var beitt nýrri tækni við rannsóknina. Endurupptökubeiðandi hefur lagt fram Minnisblað Veðurstofu Íslands og Verkís hf. um niðurstöður rannsóknarinnar, dagsett 10. desember 2004, og bréf höfunda minnisblaðsins til eiginmanns endurupptökubeiðanda, dagsett 3. júní 2009, þar sem frekari grein er gerð fyrir líkanreikningunum. Í rannsókninni koma fram upplýsingar sem varpa ljósi á að líkur séu til þess að varnargarðurinn á vestari lækjarbakka í Geirseyrargili hafi leitt til þess að krapaflóðið lenti af meiri þunga á húsi endurupptökubeiðanda en ella hefði verið. Líkanreikningarnir benda ennfremur til þess að upphækkun vestari lækjarbakkans í Geirseyrargili hafi breytt stefnu krapaflóðsins nokkuð og beint því meira til austurs en ella hefði orðið. Jafnframt taka þessi gögn mið af því að um krapaflóð hafi verið að ræða fremur en snjóflóð eins og vísindamenn Almannavarna hafi fyrst og fremst fjallað um í skýrslu sinni frá 4. febrúar 1983. Í þeirri skýrslu var ekki vikið að nefndum varnargarði og í framburði fyrir dómi við aðalmeðferð, sem fór fram rúmum átta árum eftir atburðinn, tóku þeir ekki af skarið um orsakasamband milli snjósöfnunar í gilinu og gerðar varnargarðsins. Leiddi það meðal annars til þeirrar ályktunar Hæstaréttar að ósannað væri að varnargarðurinn hafi valdið eða stuðlað að því að snjóflóð varð. Jafnframt var lagt til grundvallar af hálfu Hæstaréttar að þó nokkrar líkur hafi verið leiddar að því að varnargarðurinn kynni að hafa haft einhver áhrif á stefnu snjóflóðsins þá veittu gögn málsins ekki þær vísbendingar að unnt væri að staðhæfa að um veigamikla orsök hefði verið að ræða.
Að mati endurupptökunefndar falla þessar nýju upplýsingar að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. laga um meðferð einkamála, um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það. Rannsókn Veðurstofunnar hnígur að því að gerð varnargarðsins hafi leitt til þess að krapaflóðið féll á hús endurupptökubeiðanda af mun meiri þunga en ella hefði verið og jafnvel breytt stefnu þess. Þó réttilega sé tekið fram að líkanreikningar sem þessir séu ætíð háðir gefnum forsendum að einhverju marki sýnast þessar rannsóknir og útreikningar hlutlausra vísindamanna renna nokkuð styrkum stoðum undir málatilbúnað endurupptökubeiðanda. Hvað varðar síðastnefnda skilyrði ákvæðisins er einnig til þess að líta að engar þeirra fræðigreina sem til er vitnað í minnisblaði Veðurstofu Íslands og Verkís hf. frá 10. desember 2004 höfðu verið birtar þegar endurupptökubeiðandi höfðaði málið ásamt eiginmanni sínum fyrir aukadómþingi Barðarstrandarsýslu 6. september 1991. Endurupptökubeiðanda verður því ekki lagt til lasts að hafa ekki byggt á þeim forsendum um hraða flóðsins sem nefndar rannsóknir lúta að.
Í ljósi ofanritaðrar umfjöllunar um efni minnisblaðs Veðurstofu Íslands og bréfs stofnunarinnar og Verkís hf. er skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fullnægt, að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að um sjálfstæðar vísindarannsóknir er að ræða. Beinlínis er tekið fram í dómi Hæstaréttar í tvígang að gögn málsins veiti ekki vísbendingar til stuðnings málatilbúnaði endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar og því séu fullyrðingar þeirra ósannaðar. Af umfjöllun í nefndum gögnum má ráða að fram séu komnar vísbendingar sem leiði sterkar líkur að því að þau gögn kunni að verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.
Fyrir liggur að 26. september 2008 gerðu endurupptökubeiðandi og eiginmaður hennar samkomulag við sveitarfélagið Vesturbyggð. Samkvæmt samkomulaginu greiddi sveitarfélagið bætur til lausnar ágreiningi aðila án viðurkenningar á bótaskyldu. Aðilar lýstu því þar með yfir að þeir gerðu engar frekari kröfur, hverju nafni sem þær nefndust, á hendur hvor öðrum vegna málsins og lýstu því yfir að ágreiningsmáli þessu væri að öllu leyti lokið. Gagnaðili byggir á því að skilyrði c- liðar 1. mgr. 167. gr. sé ekki fullnægt með vísan til þessa samkomulags, þar sem önnur atvik mæli ekki með því að leyfið verði veitt enda geti stórfelldir hagsmunir ekki verið í húfi. Ekki verður fallist á að umræddur samningur geti staðið í vegi fyrir endurupptöku að þessu leyti, þar sem samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku. Þá liggur fyrir að sakarefni máls þessa var skipt er það var til meðferðar fyrir héraðsdómi og einvörðungu leyst úr bótaskyldu gagnaðila. Fjárkröfur endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar voru af tvennum toga, annars vegar vegna meints fjártjóns og hins vegar vegna röskunar á stöðu og högum og þjáninga. Með vísan til þess telst skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. um að stórfelldir hagsmunir séu í húfi vera fullnægt.
Með því að öllum skilyrðum a- til c-liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er fullnægt er hér með fallist á endurupptökubeiðni Vigdísar Helgadóttur. Ber því að taka hæstaréttarmál nr. 300/1992 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. september 1993 til meðferðar fyrir Hæstarétti og dómsuppsögu að nýju.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna starfsanna nefndarmanna.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni Vigdísar Helgadóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 300/1992, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. september 1993, er samþykkt.
Björn L. Bergsson formaður
Elín Blöndal
Þórdís Ingadóttir