Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 8/2016

Hinn 12. desember 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 8/2016:

Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. E-1403/2012

Íslandsbanki hf.

gegn

Sævari Tjörvasyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 14. október 2016, fór Sævar Tjörvason þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-1403/2012, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 15. maí 2013, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1403/2012 var endurupptökubeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila, Íslandsbanka hf., 1.340.000 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Með kaupsamningi 27. ágúst 2010 keypti endurupptökubeiðandi íbúð af gagnaðila sem greiða átti með peningum við undirritun kaupsamnings, með fasteignaveðbréfi og peningagreiðslu við útgáfu afsals 15. nóvember 2010. Endurupptökubeiðandi innti lokagreiðslu kaupverðsins ekki af hendi og bar fyrir sig galla á fasteigninni. Endurupptökubeiðandi lagði sjálfur fram greinargerð og gögn í dómsmálinu, en lögmaður kom ekki að því fyrir hans hönd fyrr en við aðalmeðferð þess fyrir dómi. Héraðsdómur féllst ekki á að endurupptökubeiðandi hefði sýnt fram á að hann ætti kröfu á hendur gagnaðila vegna ætlaðra galla á fasteigninni. Með vísan til gagna í málinu þótti fram komið að íbúðin hafi ekki verið í góðu ástandi við sölu og að það hafi blasað við hverjum þeim sem skoðaði íbúðina. Þá hafi endurupptökubeiðandi staðfest að ásett verð fasteignarinnar hafi verið þremur milljónum lægra en á sambærilegum eignum á sama stað. Verðið hafi þannig verið lægra en markaðsverð sambærilegra eigna. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup gæti kaupandi ekki borið fyrir sig galla á fasteign sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar kaupsamningur var gerður. Með vísan til þessa þótti endurupptökubeiðandi ekki eiga kröfu á hendur gagnaðila vegna ætlaðra galla á fasteigninni. Var endurupptökubeiðanda gert að greiða eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.

III. Grundvöllur beiðni

Af endurupptökubeiðni má ráða að endurupptökubeiðandi telji öll skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera uppfyllt. Í beiðninni eru málsatvik rakin með ítarlegum hætti, meðal annars markaðsaðstæður 2010, tildrög kaupa fasteignarinnar, galla á henni, athugasemdir endurupptökubeiðanda við skýrslu skoðunarmanns og matsmanns, samskipti og aðkoma ýmissa lögfræðinga og lögmanna,  samskipti við ýmsa eftirlitsaðila, þar með talið eftirlitsnefnd Félags fasteignasala, sáttaferli, málsmeðferð fyrir dómi og niðurstaða héraðsdóms, sem og kæra til úrskurðarnefndar lögmanna en úrskurður nefndarinnar frá 19. september 2016 fylgdi enduruppökubeiðni.

Endurupptökubeiðandi telur að hvorki lögmenn né dómari hafi ráðið við mál hans. Telur hann málsmeðferðina varla geta talist eðlilega, hvað þá heldur boðlega í réttarríki sem kallar á athugun á henni, aðkomu lögmanna, dómstóls og dómara.

Í dómnum hafi aðeins verið stuðst við málflutning gagnaðila, sem var stefnandi málsins, og rökstuðningur endurupptökubeiðanda ekki verið nýttur þó að ítarleg greinargerð hans og viðaukar hafi falið í sér rökstuðning sem byggði á staðreyndum, lagaskýringum og dómum tengdum fasteignaviðskiptum. Hann telur að dómari hafi dregið rangar ályktanir um verðlækkun fasteignar endurupptökubeiðanda. Verðlækkunin hafi stafað af markaðsaðstæðum árið 2010 en ekki af ástandi íbúðarinnar og þar með hafi viðmið af hlutfalli kaupverðs eða viðmið svokallaðs gallaþröskuldar breyst. Þá telur endurupptökubeiðandi að auglýsing fasteignasölunnar um lækkun fasteignaverðs hafi verið villandi þar sem ekki hafi verið tilgreint að lækkunin hafi stafað af ástandi hennar. Ennfremur hafi ekkert komið fram í söluyfirliti vegna fasteignarinnar annað en það sem hafi verið augljóst, en ýmsir gallar hafi síðar komið í ljós frá ágúst 2010 til ársbyrjunar 2015. Þá hafi í söluyfirlitinu vantað ýmsar upplýsingar sem lögum samkvæmt hefðu átt að vera aðgengilegar og hefðu getað haft mikil áhrif á mat eignarinnar og jafnvel komið í veg fyrir tilboð og kaup. Endurupptökubeiðandi rekur viðhorf sitt til réttarstöðu sinnar sem kaupanda meðal annars með hliðsjón af lögum nr. 40/2002 um fasteignakaup og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 414/2004. Þá gagnrýnir endurupptökubeiðandi jafnframt val á dómkvöddum matsmanni og störf hans, meðal annars í ljósi þeirrar lögmannsaðstoðar sem endurupptökubeiðandi hafi fengið og þess að endurupptökubeiðandi hafi þurft að ráðast í viðgerðir áður en matsmaður hafi verið fenginn.

Endurupptökubeiðandi telur að meðferð málsins hafi verið athugunarverð að ýmsu leyti. Í þeim efnum rekur hann meðal annars erfiðleika við að fá aðstoð lögmanna, málatilbúnað þeirra lögmanna sem komu að málinu á ýmsum stigum, skort á leiðbeiningum af hálfu dómstólsins og tafir við meðferð þess sem hafi leitt til þess að endurupptökubeiðandi hafi þurft að greiða dráttarvexti. Þá hafi hann fyrst fengið að vita af dómsniðurstöðu eftir að áfrýjunarfrestur hafi verið liðinn. Dómurinn hafi verið kveðinn upp 15. maí 2013 en endurupptökubeiðandi fengið þær upplýsingar frá dómstólnum 13. ágúst 2013. Endurupptökubeiðandi fékk bréf frá Creditinfo 20. júní 2013 vegna kröfu gagnaðila og sendi lögmanni sínum fyrirspurn af því tilefni sem ekki hafi verið svarað. Endurupptökubeiðandi hafði samband við Héraðsdóm Reykjaness 1. ágúst 2013 þar sem hann vildi koma að frekari gögnum í málinu en haft var samband við hann af hálfu dómstólsins 13. sama mánaðar og hann upplýstur um að dómur hefði gengið í málinu tæpum þremur mánuðum fyrr. Degi síðar sendi hann lögmanni sínum bréf til að inna eftir upplýsingum um réttarstöðu sína en sama dag fékk hann fjárnámsboðun frá Sýslumanninum í Kópavogi. Vegna þessa leitaði endurupptökubeiðandi til úrskurðarnefndar lögmanna. Með úrskurði nefndarinnar sætti lögmaður endurupptökubeiðanda áminningu meðal annars vegna þess að hún hafi látið hjá líða að upplýsa endurupptökubeiðanda um að dómur hafi verið kveðinn upp og hann hafi verið dæmdur til fjárgreiðslu. Endurupptökubeiðandi rakti að hann hafi þurft að greiða dráttarvexti að fullu þrátt fyrir „deponeringu“ á bróðurparti þeirrar upphæðar sem um var að ræða.

Endurupptökubeiðandi telur að dómurinn hafi kostað hann milljónir króna, meðal annars vegna rangs verðmats, dráttarvaxta, kostnað vegna matsmanna og málskostnaðar.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:
a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Endurupptökubeiðandi telur að framangreind skilyrði séu uppfyllt þar sem að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og að honum verði ekki kennt um að þau gögn sem lögð voru fram með greinargerð hans hafi ekki verið nýtt. Hefði það verið gert myndi það leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Þá er byggt á því að dómsmálið hafi kostað hann stórfé.

Skilja verður málatilbúnað endurupptökubeiðanda svo að hann telji að Héraðsdómur Reykjaness hafi ranglega dæmt hann til greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignar og að niðurstaða dómsins hafi verið efnislega röng þar sem ekki var fallist á að fasteignin væri gölluð í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Endurupptökubeiðandi lagði fram ítarlega greinargerð og gögn við málsmeðferðina í héraði, sem hann byggir jafnframt á fyrir endurupptökunefnd. Í dóminum er fjallað um og tekin efnisleg afstaða til málsástæðna endurupptökubeiðanda um hina meintu galla fasteignarinnar.

Það að endurupptökubeiðandi sé ósammála niðurstöðu héraðsdóms leiðir ekki til þess að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. laga um meðferð einkamála teljist vera uppfyllt um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir dómi. Þá geta gögn sem lágu fyrir við meðferð málsins fyrir dómi ekki talist ný gögn í skilningi b-liðar 1. mgr. 167. gr. sömu laga þó endurupptökubeiðandi telji að þau hafi ekki verið nýtt við meðferð málsins þar.

Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að greiða gagnaðila eftirstöðvar kaupverðs fasteignar með dómi Héraðsdóms Reykjaness 15. maí 2013, eins og rakið hefur verið. Fram kemur í málatilbúnaði endurupptökubeiðanda að hann hafi ekki fengið að vita um uppkvaðningu dómsins fyrr en eftir að áfrýjunarfrestur til Hæstaréttar var liðinn. Samkvæmt 153. gr. laga um  meðferð einkamála verður dómi áfrýjað til Hæstaréttar innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu hans. Samkvæmt málatilbúnaði endurupptökubeiðanda fékk hann upplýsingar um dóm héraðsdóms innan þess frests. Þá er einnig til staðar lögbundin heimild til að æskja áfrýjunarleyfis næstu þrjá mánuði eftir lok þess frests, sbr. 2. mgr. 153. gr. laganna. Endurupptökubeiðandi sækir nú um endurupptöku málsins rúmum þremur árum eftir að honum var kunnugt um dóm héraðsdóms. Endurupptökubeiðandi brást hvorki við upplýsingum um dómsniðurstöðu héraðsdóms með áfrýjun dómsins innan áfrýjunarfrests né kom ósk um áfrýjunarleyfi á framfæri við Hæstarétt. Hvað sem því líður geta röksemdir af þessu tagi einar og sér ekki leitt til þess að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála til endurupptöku séu uppfyllt. Eins og mál þetta liggur fyrir hefur engum nýjum upplýsingum eða gögnum sem máli skipta verið komið á framfæri af hálfu endurupptökubeiðanda.

Endurupptökubeiðandi hefur samkvæmt framansögðu ekki tekist að sýna fram á að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það, og að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla um c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Beiðni Sævars Tjörvasonar um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-1403/2012, sem kveðinn var upp 15. maí 2013, er hafnað.

 

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta