Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 17/2013

Hinn 25. júní 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 17/2013:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 168/2002

Ákæruvaldið

gegn

Sigurði Guðmundssyni

og

Kristínu Ósk Óskars


og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 15. ágúst 2013 fór Sveinn Andri Sveinsson hrl. þess á leit fyrir hönd Sigurðar Guðmundssonar að mál nr. 168/2002, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 3. apríl 2003, yrði endurupptekið. Með endurupptökubeiðni fylgdi réttarlæknisskýrsla, dagsett 25. maí 2013, framkvæmd af dómkvöddum matsmanni, Dr. Waney Squier, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. maí 2012. Með bréfi, dagsettu 16. nóvember 2013 sem barst 16. desember, lét ríkissaksóknari umsögn í té. Umsögninni fylgdi umsögn Þóru Steffensen sérfræðings í réttarmeinafræði og barnameinafræði sem dagsett er 6. desember 2013. Með bréfi, dagsettu 20. janúar 2014, bárust athugasemdir endurupptökubeiðanda við umsögn ríkissaksóknara. Með bréfi dagsettu 6. mars 2014 beindi endurupptökunefnd því til ríkissaksóknara að hann hlutaðist til um frekari rannsókn, eftir atvikum með öflun sönnunargagna fyrir héraðsdómi, sbr. 3. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í kjölfarið urðu frekari bréfaskriftir milli málsaðila og endurupptökunefndar, þar á meðal með bréfi endurupptökubeiðanda þar sem tilkynnt var að óskað hefði verið eftir við Héraðsdóm Reykjavíkur að fram færi sérstakt vitnamál þar sem hinn dómkvaddi matsmaður gæfi skýrslu. Með bréfi, dagsettu 7. janúar 2015, var endurupptökunefnd afhent endurrit af vitnaskýrslu í máli nr. V-25/2014 þar sem tekin var skýrsla af dómkvadda matsmanninum. Með bréfi, dagsettu 11. febrúar 2015, bárust frekari athugasemdir ríkissaksóknara. Viðbótarathugasemdir endurupptökubeiðanda bárust með bréfi, dagsettu 12. mars 2015, sem voru kynntar ríkissaksóknara.

Að beiðni endurupptökubeiðanda var Sveinn Andri Sveinsson hrl. skipaður talsmaður hans, sbr. 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála. Jafnframt hefur endurupptökubeiðandi óskað þess að kostnaður vegna endurupptökumáls þessa verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í málinu var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa hrist drenginn […] svo harkalega eða með öðrum hætti orðið valdur að því að það blæddi undir heilahimnur hans, skemmdir urðu á taugafrumum í heilastofni og hálshluta mænu, bjúgur myndaðist í heila, sjónhimnublæðingar urðu í báðum augum og mar hlaust vinstra megin á hnakka með þeim afleiðingum að drengurinn lést tveimur dögum síðar. Drengurinn hafði verið fluttur á sjúkrahús frá heimili endurupptökubeiðanda þar sem hann hafði verið í daggæslu.

Meðal gagna dómsmálsins var krufningarskýrsla Þóru Steffensen, réttarmeinafræðings, byggð á rannsóknum innlendra og erlendra sérfræðinga. Í krufningarskýrslunni var ályktað á eftirfarandi hátt:

Niðurstöður krufningar staðfesta grun barnalækna Lsp. Fossvogi að barnið [...] hafi hlotið áverka sem að meingerð svara til þess sem sést við það sem nefnt hefur verið „Shaken baby syndrome“ sem oft er einnig kallað „shaken impact syndrome“. Bendir þetta eindregið til þess að barnið hafi verið hrist til og höfði þess slegið í, og hlotið við þar áverka er leiddu til dauða eigi síðar en um 48klst eftir að þeir urðu til. Voru áverkarnir það alvarlegir að ljóst er að barnið hefur ekki verið fært um að sýna eðlilega hegðun eftir að það hlaut áverkana [...].

Þeir áverkar er liggja til grundvallar ofangreindrar niðurstöðu eru sem hér segir: Marblettur á hnakka, blæðingar undir ytri og innri heilahimnur báðu megin í heila og í mænu, útbreiddar marglaga sjónhimnubreytingar í báðum augum með sjónhimnufellingum (sbr. rannsókn Thaddeus Dryja sérfræðings í augnmeinafræði), skemmdir á taugafrumum í heilastofni og hálshluta mænu (sbr. niðurstöðu sérlitana framkvæm[d]ar af Thomas Smith, sérfræðingi í heila og taugameinafræði), heilabjúgur og marblettur á hægra viðbeini.

Ítarlegar rannsóknir útilokuðu aðra þætti, svosem æðagalla í heila, sýkingar, efnaskiptasjúkdóma og blóðsjúkdóma. Niðurstaðan var sú að náttúrulegar orsakir (sjúkdómar) eða slys voru útilokaðar sem orsakavaldur eða meðvirkandi þáttur í dauðanum (sbr. greinargerð).

Barnið var með uppköst og lausar hægðir nokkrum dögum áður en hann var lagður á sjúkrahús sem benda til minni háttar meltingarfærakvilla. Fundust ekki teikn um það við krufningu og getur það ekki á nokkurn hátt tengst dauða barnsins.

Á lokastigi sjúkrahúsvistarinnar myndaðist skemmd í æð til hægri ganglims og lungnabólga.

Þær breytingar er sáust í öðru beini vinstra framhandleggs á röntgenmynd og við smásjárskoðun eru ekki einkennandi en geta samrýmst 1-2ja mánaða gömlu broti. Sýking, efnaskiptasjúkdómar í beini eða æxli voru útilokuð sem hugsanleg orsök.

Fyrir Hæstarétti lá einnig umsögn læknaráðs sem ríkissaksóknari aflaði um krufningarskýrslu Þóru Steffensen áður en saksókn var afráðin. Í umsögn sinni svaraði læknaráð tíu spurningum, meðal annars hvort það teldi að sjúkdómar hafi verið nægilega útilokaðir sem orsök blæðinga innan höfuðkúpu og í auga, hvort það teldi greiningu á Shaken baby heilkenni nægilega staðfesta af fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöðum, og hvort læknaráð teldi að umræddir marblettir skiptu máli sem þættir í greiningu á Shaken baby heilkenninu.

Með greinargerð sinni til Hæstaréttar lagði enduruppökubeiðandi meðal annars fram álitsgerðir og athugasemdir fjögurra erlendra sérfræðinga, sem endurupptökubeiðandi hafði aflað eftir uppkvaðningu héraðsdóms, sem byggðar voru meðal annars á gögnum um krufningu og heilsufar drengsins. Samkvæmt áliti þessara sérfræðinga var ekki hægt að álykta að drengurinn hefði látist af Shaken baby heilkenni þar sem aðrar orsakir hefðu ekki verið nægilega útilokaðar, eins og ungbarnaskyrbjúgur, ofnæmisheilabólga, æðabólga eða galli í blóðstorkukerfi.

Í tilefni af umfjöllun nefndra sérfræðinga fór ríkissaksóknari þess á leit við Hæstarétt að aflað yrði umsagnar læknaráðs hvort afstaða sérfræðinganna breytti í einhverju fyrri niðurstöðum ráðsins. Í dómi Hæstaréttar segir að í ljósi þess að álit og niðurstöður rannsókna Þóru Steffensen hafi verið ráðandi þáttur í mati héraðsdóms og hins, að fyrrnefnd læknisfræðileg skrif hafi einkum verið lögð fram til að vefengja þær niðurstöður hafi Hæstaréttur að fengnu áliti sakflytjenda beint eftirfarandi tíu spurningum til læknaráðs:

1. Telur læknaráð koma til greina, að bráður ungbarnaskyrbjúgur hafi getað verið til staðar hjá barninu og valdið blæðingum undir heilahimnur og í sjónhimnur þess?

2. Telur læknaráð koma til greina, að barnið hafi verið með ofnæmisheilabólgu og hún leitt það til dauða?

3. Telur læknaráð koma til greina, að barnið hafi verið með augnsjúkdóm, sem hafi getað valdið sjónhimnublæðingunum?

4. Telur læknaráð koma til greina, að þær blæðingar, sem fundust hjá barninu undir heilahimnum og í sjónhimnum, megi rekja til blæðingasjúkdóms eða krónískrar heilablæðingar, þ.e. endurblæðingar (re-bleed)?

5. Telur læknaráð koma til greina, að rekja megi dauða barnsins og einkenni til bólusetningar?

6. Telur læknaráð koma til greina, að flogaveiki móður og notkun hennar á lyfinu Tegretol geti skipt máli við mat á dánarorsök?

7. Telur læknaráð koma til greina, að dánarorsök verði rakin til meltingarfærasýkingar, sem hafi haft í för með sér blóðeitrun (endotoxinemia), sem leitt hafi til bráðs skyrbjúgs og tilgreindrar blæðingar?

8. Telur læknaráð, að gerðar hafi verið allar tiltækilegar rannsóknir til að útiloka aðra dánarorsök en fram kemur í krufningarskýrslu Þóru Steffensen réttarmeinafræðings?

9. Telur læknaráð, að hristingur einn og sér nægi til þess að valda barni banvænum heilaáverkum eða einnig þurfi til að koma högg á höfuðið?

10. Í svari réttarmáladeildar læknaráðs 16. nóvember 2001 við 10. spurningu ríkissaksóknara í bréfi hans 30. október sama ár kemur fram, að beinbreytingar í vinstri radíus geti bent til fyrri meingerðar gagnvart barninu. Telur læknaráð koma til greina, að þær geti jafnframt gefið vísbendingar um ungbarnaskyrbjúg?

Læknaráð svaraði fyrstu sjö spurningunum og þeirri tíundu neitandi, með frekari rökstuðningi. Þá taldi læknaráð að allar tiltækar rannsóknir hefðu verið gerðar til að útiloka aðrar dánarorsakir en þá sem kæmi fram í krufningarskýrslu Þóru Steffensen (spurning 8), og að  hristingur væri einn og sér nægilegur til að valda barni banvænum heilaáverkum (spurning 9).

Fyrir Hæstarétti lá einnig greinargerð Þóru Steffensen, en ríkisaksóknari hafði óskað eftir því að hún lýsti með rökstuddum hætti, hvort álit framangreindra fjögurra erlendra sérfræðinga breyttu með einhverjum hætti ályktun hennar í krufningarskýrslu. Í greinargerð sinni svaraði Þóra sjö spurningum og voru þær efnislega samhljóða fyrstu sjö spurningum Hæstaréttar til læknaráðs. Í lok greinargerðarinnar tók hún fram að nefnd álit breyttu í engu ályktun hennar í krufningarskýrslunni frá 6. september 2001.

Með viðbótargreinargerð til Hæstaréttar lagði endurupptökubeiðandi meðal annars fram athugasemdir og álit fjögurra annarra erlendra sérfræðinga, auk viðbótarálita þriggja fyrri sérfræðinga í ljósi fyrrgreindra svara Þóru við spurningum ríkissaksóknara. Endurupptökubeiðandi lagði jafnframt fram níutíu og þrjár fræði- og fréttagreinar fyrir Hæstarétt.

Í dómi Hæstaréttar er fjallað um að endurupptökubeiðandi hafi leitast við að sýna fram á að ekki hafi verið neytt allra tiltækra úrræða við að útiloka að ekki hafi verið um aðrar dánarorsakir að ræða hjá drengnum en fram kom í krufningarskýrslu Þóru Steffensen um áverka barnsins. Í því sambandi hafi verið aflað álitsgerða nokkurra erlendra sérfræðinga, sem sett hafi fram ýmis konar tilgátur, staðhæfingar eða vangaveltur um dánarmein drengsins. Endurupptökubeiðandi hafi hins vegar ekki neytt þeirra réttarfarsúrræða, sem gert væri ráð fyrir í 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að fá dómkvadda kunnáttumenn til að framkvæma matsgerð í því skyni að hnekkja þeim læknisfræðilegu ályktunum, sem fyrir lágu í málinu. Gagnaöflun endurupptökubeiðanda hafi leitt til þess að Hæstiréttur taldi rétt að leita síðara álits læknaráðs. Læknaráð hafi hafnað því með rökstuddri umsögn, að skýringa á dauða drengsins væri að leita í ungbarnaskyrbjúg eða „Barlow´s disease“, ofnæmisheilabólgu, augnsjúkdómi, blæðingasjúkdómi eða krónískri heilablæðingu, afleiðingum bólusetninga, flogaveiki móður og notkun hennar á lyfinu Tegretol eða meltingarfærasýkingu, sem hefði haft í för með sér blóðeitrun, sem leitt hafi til bráðs skyrbjúgs og blæðingar. Jafnframt staðhæfði læknaráð sérstaklega aðspurt, að allar tiltækar rannsóknir hefðu verið gerðar til að útiloka aðrar dánarorsakir en þá, sem fram kom í krufningarskýrslu Þóru Steffensen. Í svörum Þóru við samhljóða spurningum ríkissaksóknara til hennar sé síðan fullt samræmi við svör læknaráðs. Í dómi Hæstaréttar var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að drengurinn hafi hlotið svo alvarlega áverka á heila af völdum hristings, er samsvari heilkenninu Shaken baby, að þeir hafi dregið hann til dauða. Í málinu lægi fyrir það álit læknaráðs að hristingur einn og sér væri nægilegur til að valda barni banvænum heilaáverkum. Meðal annars með hliðsjón af ofangreindu og með skírskotun til forsendna héraðsdóms var fallist á niðurstöðu hans.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að endurupptökubeiðandi hafi haldið því fram, með vísan til kenninga fræðimanna og rannsókna, að hinir lífshættulegu áverkar á drengnum gætu hafa komið til áður en drengurinn kom á heimili hans til daggæslu. Því sé ósannað að endurupptökubeiðandi hafi valdið áverkum drengsins. Á þessa málsvörn var ekki fallist með vísan til læknisfræðilegra gagna í málinu og framburðar sérfræðinga. Tekið var fram að þótt mismunandi langur tími kynni að geta liðið milli áverka, er samsvöruðu þessu heilkenni og fullrar rænuskerðingar af þeirra völdum, þætti enginn vafi leika á því eins og áverkum drengsins var háttað, að hann hefði verið ófær um eðlilegt hátterni og misst meðvitund um leið og hann varð fyrir þeim. Þá var talið að engum öðrum en endurupptökubeiðanda gæti hafa verið til að dreifa sem hefði getað veitt drengnum hina banvænu áverka. Taldi Hæstiréttur að ákæruvaldinu hefði tekist að færa fram um það sönnun, er ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, að endurupptökubeiðandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Meðferð hans á barninu hefði verið slík, að hann hefði mátt gera sér grein fyrir þeim hættulegu afleiðingum, sem henni gætu verið samfara. Hann hefði með þessu sýnt af sér stórfellt gáleysi. Taldi Hæstiréttur háttsemi hans varða við 215. gr. almennra hegningarlaga.

Endurupptökubeiðandi og meðákærða voru jafnframt sakfelld fyrir brot gegn 187. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa við daggæslu barna í heimahúsi í atvinnuskyni tekið mun fleiri börn í gæslu en þeim var heimilt samkvæmt leyfum sveitarfélags og 12. gr. reglugerðar nr. 198/1992 um daggæslu barna í heimahúsum.

Endurupptökubeiðandi var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til greiðslu skaðabóta.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þá séu verulegar líkur leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 9. maí 2012, í máli nr. M-15/2012 hafi verið tekin fyrir beiðni endurupptökubeiðanda um dómkvaðningu matsmanns til  að leggja mat á eftirfarandi:

  1. Hver var líklegust dánarorsök drengsins [...] sem lézt þann 4. maí 2001.

  2. Ef ekki er hægt að kveða upp úr um það hve líklegust dánarorsök er, er matsmaður beðinn um að leggja á það mat hvort hægt sé að útiloka, svo yfir allan vafa sé hafið, að aðrar orsakir kunni að hafa leitt […] til dauða, heldur en byggt er á í krufningsskýrslu.  

Framangreind matsbeiðni hafi verið lögð fram í samræmi við ákvæði XIX. kafla laga um meðferð sakamála og í tengslum við fyrirhugaða beiðni um endurupptöku. Beiðni um dómkvaðningu matsmanns hafi byggst á því að við meðferð málsins á sínum tíma, bæði fyrir Héraðsdómi Reykjaness og Hæstarétti Íslands, hefði verið byggt á læknisfræðilega röngum, eða að minnsta kosti vafasömum forsendum. Með hliðsjón af dómsorði Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 og framlögðum utanréttargögnum væri nauðsynlegt að dómkveðja matsmann til að leggja mat á framangreint. Í greinargerð með matsbeiðni segi að við skoðun málsins blasi við reynsluleysi og vankunnátta þeirra sérfræðinga sem hafi meðhöndlað drenginn, á hinu svokallaða Shaken baby heilkenni. Birtist þetta helst í því að ekki hafi verið gerðar nauðsynlegar mælingar á sjúkrahúsi í lifanda lífi, svo læknisfræðilega sé unnt að útiloka aðrar orsakir.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er byggt á því að dánarorsök sé önnur; drengurinn hafi ekki verið hristur með þeim hætti að blæðingar hafi orðið í heila er dregið hafi hann til dauða, heldur sé um að ræða allt aðrar orsakir. Alltént sé fullkominn vafi um dánarorsökina, þannig að læknisfræðilega sé algerlega ósannað að um sé að ræða Shaken baby heilkenni. Ekki sé unnt að slá neinu föstu þar sem aðrar mögulegar orsakir hafi ekki verið kannaðar til fulls. Þær mælingar og rannsóknir sem útilokað gætu aðrar orsakir hafi ekki verið gerðar.

Að mati héraðsdóms hafi ekki þótt nokkur vafi leika á því að matsbeiðandi hefði lögvarða hagsmuni af því að láta á það reyna hvort hann gæti fengið sakamálið á hendur sér endurupptekið. Telja yrði heimild til að afla nýs mats á þeim gögnum sem byggt væri á í máli ákæruvaldsins gegn honum fælist í 211. gr., sbr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, því ella væri honum ekki kleift að reyna að uppfylla þau skilyrði sem lögin setji fyrir endurupptöku málsins. Af þessum sökum hafi Héraðsdómur Reykjavíkur fallist á beiðni endurupptökubeiðanda um dómkvaðningu matsmanns. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi dómkvatt Dr. Waney Squier, sérfræðilækni í barnataugameinafræði við Oxford Radcliffe sjúkrahúsið í Bretlandi, til að framkvæma hið umbeðna mat.

Matsmaðurinn Dr. Squier hafi látið í té matsgerð 25. maí 2013. Þar komi fram að við gerð skýrslunnar hafi matsmaður reynt að vera eins nákvæmur og ítarlegur og mögulegt væri og að álitið væri afmarkað við það efni sem væru á sviði sérþekkingar matsmannsins. Þar sem því sé við komið, væri álitið byggt á gögnum á grunni ritrýndra greina ásamt persónulegri faglegri reynslu matsmanns. Jafnframt séu staðreyndir í skýrslunni sannar og skoðanir réttar.

Samantekin niðurstaða hins dómskvadds matsmanns sé eftirfarandi:

  1. Ég veit ekki af hverju þetta barn örmagnaðist og dó.

  2. Taugameinafræðileg einkenni í þeim hlutum sem ég hef séð, eru ótilgreind og geta stafað af einhvers konar truflun á blóðstreymi og/eða súrefnisflæði til heilans.

  3. Engin ótvíræð gögn eru um högg og engin merki um áverka sem samsvara harkalegri hristingu.

  4. Skoða ber margar aðrar samanburðargreiningar.

Í ljósi þessarar afdráttarlausu niðurstöðu hins dómkvadds matsmanns fer endurupptökubeiðandi þess á leit að hæstaréttarmál nr. 168/2002 verði endurupptekið og að dómur Hæstaréttar verði felldur úr gildi.

IV. Viðhorf gagnaðila

Í umsögn ríkissaksóknara, dagsettri 16. nóvember 2013, telur hann skilyrði a- og c-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála ekki vera uppfyllt og því beri að hafna beiðninni. Ríkissaksóknari byggir afstöðu sína á umsögn Þóru Steffensen sérfræðings í réttarmeinafræði og barnameinafræði sem ríkissaksóknari aflaði í tilefni af endurupptökubeiðni og þess sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli 168/2002. Ríkissaksóknari telur að ekki verði séð að matsgerð dómkvadds matsmanns, Dr. Waney Squier, sé þess eðlis að tilvist hennar í hæstaréttarmáli nr. 168/2002 hefði skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu þess né heldur að með þeirri matsgerð hafi verulegar líkur verið leiddar að því að sönnunargögn hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins. Af þessu leiði að ekki sé uppi skynsamlegur vafi um dánarorsök drengsins né heldur um sekt endurupptökubeiðanda sem hafi þannig verið réttilega sakfelldur með dómi Hæstaréttar Íslands.

Tekið var fram að telji endurupptökunefnd hins vegar ekki skilyrði til að hafna beiðninni sé nauðsynlegt að fá álit annarra fagaðila innan læknisfræðinnar en réttarmeinarfræðingsins Þóru Steffensen á tilgátu Dr. Squier. Tilgátu þess efnis að súrefnisskortur sé skýring á þeirri þrenningu einkenna sem finna mátti við krufningu drengsins, en þessi þrenning hafi verið samkvæmt hefðbundnum læknavísindum talin samrýmast einkennum um svokallað Shaken baby heilkenni eða „abusive head trauma“. Sú þrenning einkenna sé blæðing á milli heilahimna, sjónhimnublæðingar og heilaskemmdir.

Með bréfi ríkissaksóknara fylgdi umsögn Þóru Steffensen réttarmeinafræðings um matsgerð Dr. Squier, dagsett 6. desember 2013. Í umsögninni var fjallað um þau álitaefni sem matsmaðurinn reifaði. Lokaorð umsagnar Þóru eru eftirfarandi:

Undirrituð telur því nauðsynlegt að fengið verði álit annarra fagaðila, s.s. læknaráðs, til að meta hvort vísindaleg gögn hafi birst síðustu árin sem styðji þessa súrefnisskorts-tilgátu Dr. Squier (sem kom fram árið 2009) sem skýringu á einkennaþrennunni, og í tengslum við það hvort þær mismunagreiningar sem hún nefnir í greinargerð sinni komi til greina sem orsakavaldur einkennanna.

V. Frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda

Í athugasemdum endurupptökubeiðanda við ofangreinda umsögn gagnaðila, hafnar hann þeirri fullyrðingu ríkissaksóknara að matsgerð dómkvadds matsmanns sé ekki þess eðlis að skipti verulegu máli fyrir niðurstöðu í hæstaréttarmáli nr. 168/2002. Í téðum dómi hafi verið fjallað um að hann hafi ekki neytt úrræða laga um meðferð opinberra mála til að fá dómkvadda kunnáttumenn til að framkvæma matsgerð í því skyni að hnekkja þeim læknisfræðilegu ályktunum sem fyrir liggi í málinu.

Nú liggi einmitt fyrir matsgerð frá dómkvöddum matsmanni. Í ljósi afdráttarlausrar niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns sé deginum ljósara að þessi matsgerð hefði skipt verulegu máli hefði hún komið fram áður en dómur gekk í málinu. Auk þess sem  sjá megi á niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns að sönnunargögn sem fyrir lágu í dómsmálinu á sínum tíma hafi verið rangt metin. 

Endurupptökubeiðandi bendir einnig á að ríkissaksóknari hafi ekki sótt þing þegar beiðni um dómkvaðningu í máli nr. M-15/2012 hafi verið tekin fyrir og jafnframt hafi hann ekki talið ástæðu til þess að boðað yrði til matsfundar. Hafi það komið skýrt fram í matsbeiðninni að hún væri liður í því að fara fram á endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002. Það stoði lítt fyrir ríkissaksóknara að leggja fram utanréttarvottorð og það frá þeim réttarmeinafræðingi, hvers áliti hafi verið hnekkt í matsgerð hins dómkvadda matsmanns.

Þá sé álitsgerð dómkvadds matsmanns nýtt og mjög mikilvægt sönnunargagn sem skipt geti miklu máli við meðferð málsins. Frekari sönnunarfærsla eigi ekki að fara fram fyrir endurupptökunefnd heldur skuli horfa til þess hvort hið nýja sönnunargagn uppfylli skilyrði 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Séu því ekki lagaskilyrði fyrir því að endurupptökunefnd afli álits annarra fagaðila eins og ríkissaksóknari hafi farið fram á. Ríkissaksóknari geti aflað yfirmats en það verði ekki gert fyrir nefndinni heldur þegar málið sé komið til dómstóla.

Í ljósi þessa sjái endurupptökubeiðandi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við umsögn Þóru en árétti eftirfarandi. Í fyrsta lagi að Þóra sé ekki til þess bær að gefa umsögn um matsgerð hins dómkvadda matsmanns þar sem matsgerðin lúti beinlínis að hennar eigin réttarmeinafræðilega áliti í dómsmálinu um dánarorsök. Í öðru lagi að hinn dómkvaddi matsmaður hafi margfalt meiri þekkingu og reynslu á sviði þessa heilkennis heldur en umræddur réttarmeinafræðingur. Í þriðja lagi að réttarmeinafræðingurinn hafi ekki hafnað niðurstöðu matsmannsins afdráttarlaust heldur leggi til að fengið verði álit annarra fagaðila til að meta vísindaleg gögn og hvort mismunagreiningar komi til greina sem orsakavaldur einkenna. 

Með bréfi endurupptökubeiðanda til endurupptökunefndar, dagsettu 27. október 2014, fylgdi afrit af beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að tekin yrði vitnaskýrsla af hinum dómkvadda matsmanni til skýringar og staðfestingar á matsgerð. Endurupptökubeiðandi greinir í bréfi sínu að hann telji slíka beiðni nauðsynlega í ljósi beiðnar endurupptökunefndar um að ríkissaksóknari hlutaðist til um rannsókn á niðurstöðum Dr. Squier eftir atvikum með öflun sönnunargagna fyrir dómi. Slík vitnaleiðsla þurfi jafnframt að fara fram, svo leggja megi matsgerðina fram sem formlegt sönnunargagn fyrir Hæstarétti, ásamt endurriti af framburði matsmannsins fyrir dómi.

Með bréfi dagsettu 7. janúar 2015, sendi endurupptökubeiðandi síðan endurupptökunefnd afrit af vitnaskýrslu hins dómskvadda matsmanns sem fram fór fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 9. desember 2014 að viðstöddum lögmanni endurupptökubeiðanda og ríkissaksóknara. Með vísan til þessa ítrekaði endurupptökubeiðandi beiðni sína um endurupptöku.

VI. Frekari athugasemdir gagnaðila

Að fram kominni vitnaskýrslu dómkvadds matsmanns bárust frekari athugasemdir ríkissaksóknara.

Að mati ríkissaksóknara hafa farið fram afar nákvæmar og vandaðar læknisfræðilegar rannsóknir og greiningar í umræddu máli eins og reifað sé í dómi Hæstaréttar. Ekkert sé komið fram í málinu með matsgerð dómkvadds matsmanns varðandi þær rannsóknir og niðurstöður um dánarorsök drengsins, og þar með sekt endurupptökubeiðanda, sem réttlætt geti endurupptöku málsins. Er í þessu efni vísað til krufningarskýrslu og greinargerðar Þóru Steffensen réttarmeinafræðings, annarra læknisfræðilegra gagna, vitnaskýrslna sem teknar voru af sérfræðingum fyrir héraðsdómi í sakamálinu sem og fundargerða læknaráðs frá 16. nóvember 2001 og 22. október 2002.

Umsögn Þóru Steffensen um matsgerð Dr. Squier, dagsett 6. desember 2013, sýni jafnframt fram á verulega veikleika í matsgerðinni að mati ríkissaksóknara. Sömuleiðis hafi komið fram atriði við skýrslutöku af matsmanninum fyrir dómi sem styðji enn frekar að skilyrði fyrir endurupptöku séu ekki uppfyllt. 

Þá telur ríkissaksóknari að það sem reifað sé í dómi Hæstaréttar í máli nr. 294/2014 frá 5. febrúar 2015, um svokallað Shaken baby heilkenni styðji eindregið að um rétta niðurstöðu hafi verið að ræða í hæstaréttarmáli nr. 168/2002. Í fyrrnefnda málinu hafi verið um sambærilega áverka að ræða og í því síðarnefnda, það er mikla innanbastsblæðingu, mikinn heilabjúg, taugasímaáverka og sjónhimnublæðingar. Í máli nr. 294/2014 hafi verið dómkvaddur matsmaður, Dr. Arne Stray-Pedersen, réttarmeinafræðingur og aðstoðarprófessor við Oslóarháskóla. Hann hafi verið fenginn til að svara því meðal annars hver hafi verið líklegasta dánarorsök stúlkunnar sem í hlut átti og eins hvort áverkar hennar hafi verið með þeim hætti að fullyrða mætti að hún hafi misst meðvitund mjög skömmu eftir að hún hlaut þá. Matsmaðurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hristingur gæti valdið áverkum af sama toga og stúlkan hafi hlotið án þess að fram kæmu ytri áverkar á höfði eða hálsi. Álit hans byggist á niðurstöðum rannsókna á ungum börnum sem sannanlega hafi slasast í bifreiðum þar sem þau hafi hreyfst harkalega fram og aftur. Það hafi vakið athygli að í þeim tilvikum hafi börnin ekki greinst með hálsáverka. Bæði réttarmeinafræðingurinn sem krufði lík stúlkunnar og hinn dómkvaddi matsmaður hafi vísað til þess að hún hafi hlotið þrenns konar áverka, blæðingu innan heilahimnu, blæðingu í sjónhimnu og bráðaheilaáverka, en þeir séu allir einkennandi fyrir Shaken baby heilkennið. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 294/2014 hafi ekki verið fallist á að ytri áverkar á barninu væru forsenda fyrir því að dánarorsök hafi verið sú að það hafi verið hrist harkalega af mannavöldum skömmu áður en það lést. Heila- og taugaskurðlæknir hafi borið fyrir dómi að hann liti svo á, miðað við þá miklu blæðingu í heila sem hann hafi orðið vitni að í aðgerðinni, að líðan barnsins hlyti að hafa versnað mjög fljótt eftir að það hlaut áverkana, líklega aðeins nokkrum mínútum síðar. Taldi hann ólíklegt að liðið hefði getað ein klukkustund eða liðlega það uns einhver einkenni hefðu komið í ljós. Þá hafi hinn dómkvaddi matsmaður kveðið að sennilegast væri að meðvitund barnsins hefði fjarað fljótt út eftir að því voru veittir áverkarnir.

Síðastgreindu atriðin í dómi Hæstaréttar í máli nr. 294/2014 lúti að svokölluðu skýrleikatímabili en um það hafi verið fjallað í matsgerð Dr. Squier og í skýrslu hennar fyrir dómi. Með hliðsjón af þeirri miklu innanbastblæðingu sem sást á heila drengsins, sem hafi verið sambærileg við það sem sást í máli nr. 294/2014, sé útilokað að blæðinguna megi rekja til falls daginn áður. Mögulegt sé að utanbastblæðing verði hjá börnum eða fullorðnum sökum höfuðhöggs og einkennin komi fram klukkustundum eða dögum síðar, en það eigi ekki við þegar um sé að ræða innanbastblæðingu og taugasímaáverka. Hafi þetta komið skýrt fram hjá heila- og taugaskurðlækninum og matsmanninum í hæstaréttarmáli nr. 294/2014.

Í því máli sem hér um ræðir hafi ekki verið ummerki um gripför á barninu eins og lýst hafi verið í máli nr. 294/2014. Dr. Squier telji eiginlega ómögulegt að hrista níu kílóa, níu mánaða barn án þess að taka á því mjög fast og skilja eftir marbletti. Þá telji hún að hálsáverkar verði sýnilegir við hristing ungabarns. Hún hafi fjallað um að börn sem hafi verið í barnabílstólum sem vísi áfram geti fengið hálshnykk við árekstur og að þessi börn fái oft brot á hrygg eða fari úr lið á hrygg. Þetta sé ekki í samræmi við það sem hafi komið fram hjá Dr. Arne Stray-Pedersen og verið lagt til grundvallar í hæstaréttarmáli nr. 294/2014. Matsgerð og svör Dr. Squier fyrir dómi um marblett á hnakka og viðbeini drengsins beri með sér að matsmaðurinn sé ekki sérfræðingur í marblettum. Ríkissaksóknari vekur athygli á því að drengurinn hafi verið í kerrupoka í vagni á þeim tíma sem ætla verði að endurupptökubeiðandi hafi hrist hann, og komi því vel til greina að gripið hafi verið í kerrupokann þegar hann hafi verið hristur.

Þá bendir ríkissaksóknari á eftirfarandi atriði sem hafi komið fram við skýrslutöku af Dr. Squier. Umfjöllun hennar um áhrif D-vítamínskorts á heilsufar ungbarna sé ekki á hennar sérsviði. Þó komi hins vegar skýrt fram hjá henni að það sé ekkert sem tengi D-vítamínskort við blæðingu á milli heilahimna, sjónhimnublæðingu og heilaskemmd. Samkvæmt tveimur stórum rannsóknum sem matsmaður hafi vitnað til og gerðar hafi verið á árinu 2009 í tengslum við svokallað CVST hjá ungabörnum hafi verið um mjög fá tilfelli af innanbastsblæðingum að ræða og ekki hafi verið leitað að sjónhimnublæðingum. Dr. Squier telji að ungbarnabólusetningar hafi ekki þýðingu hvað varði banamein drengsins. Þá telji hún súrefnisskort ekki vera valdan að innanbastsblæðingu. Að lokum sé hún ekki sérfræðingur í blæðingum inn á sjónhimnu og hafi ekki komist að neinni sjálfstæðri niðurstöðu hvað það varðar í þessu máli. Hún hafi bent í því efni á bækur og skýrslur.

Að mati ríkissaksóknara hafi Dr. Squier ekki gert líklegt að dánarorsök drengsins hafi verið önnur en sú sem endurupptökubeiðandi hafi verið sakfelldur fyrir, enda blasi við að matsmaðurinn hafi ekki getað gefið skýringar á einkennaþrennunni sem sjáist við Shaken baby heilkenni og hafi verið til staðar hjá drengnum.

Að lokum bendir ríkissaksóknari á að Dr. Squier hafi verið sökuð um að gefa vitnisburð í svokölluðum Shaken baby málum umfram það sem hún hafi þekkingu til og fyrir að hafa sem sérfrótt vitni í sex dómsmálum á árunum 2007 til 2010 brugðist því hlutverki að vera óhlutdræg. Hún hafi komið af þessu tilefni fyrir hæfnisnefnd 14. september 2014 og virðist því máli ólokið.

VII. Viðbótarathugasemdir endurupptökubeiðanda

Með bréfi, dagsettu 12. mars 2015, andmælir endurupptökubeiðandi því að afar nákvæmar og vandaðar læknisfræðilegar greiningar hafi farið fram. Við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi hafi Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur í engu látið þess getið að almennt væru mjög skiptar skoðanir um Shaken baby heilkennið. Það hafi ekki verið fyrr en í Hæstarétti sem athygli dómsins hafi verið vakin á því. Lögregla hafi falið réttarmeinafræðingnum að kveða upp úr um dánarorsök sem og lagt fram læknisfræðilegar heimildir en í engum þeirra sé efast um heilkennið.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 294/2014 hafi heldur ekki neina þýðingu varðandi það mat hvort tilefni sé til að samþykkja endurupptöku eða ekki. Áverkanir séu mjög frábrugðnir því sem um hafi verið að ræða í máli endurupptökubeiðanda. Vangaveltur ríkissaksóknara um kerrupoka sem skýringu á því að ekki skuli vera ummerki um gripför á barninu séu langsóttar í ljósi framburðar matsmannsins. Að mati endurupptökubeiðanda hefði þurft gríðarlegan kraft til að hrista níu kílóa barn með þessum afleiðingum.

Þá hafi hinn dómkvaddi matsmaður ekki kveðið á um hver væri dánarorsök drengsins en það kæmi hins vegar skýrt fram í niðurstöðu hennar að orsakanna væri ekki að leita í banvænum hristingi. Með mati Dr. Squier hafi verið hnekkt niðurstöðum krufningarinnar sem hafi legið til grundvallar sakfellingu. Það komi ekki að sök þótt matsmaðurinn hafi ekki treyst sér til þess að kveða upp úr um hver dánarorsökin væri þar sem því væri hafnað að Shaken baby heilkennið hefði verið dánarorsökin.

Af hálfu endurupptökubeiðanda er andmælt tilraunum ríkissaksóknara til þess að grafa undan trúverðugleika hins dómkvadda matsmanns og í þeim efnum meðal annars vísað til þess að dómstólar í Svíþjóð hafi byggt niðurstöður um sýknu á matsgerðum Dr. Squier. Áréttað er af endurupptökubeiðanda að ríkissaksóknari hefði getað haft áhrif á það hver yrði dómkvaddur á sínum tíma og standi enn opin sú leið að æskja dómkvaðningar yfirmatsmanna.

Þegar niðurstaða dómsmáls velti á því hver dánarorsök sé hljóti matsgerð dómkvadds matsmanns sem hnekki niðurstöðu krufningarskýrslu um dánarorsök að teljast gagn sem ætla megi að skipt hefði verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef það hefði komið fram áður en dómur gekk. Sérstaklega hljóti matsgerð þessi að teljast nýtt og mikilvægt gagn í skilningi 211. gr. laga um meðferð sakamála þar sem Hæstiréttur hafi hafnað því í máli nr. 168/2002 að leggja til grundvallar utanréttargögn sem lögð voru fram, meðal annars á þeim forsendum að endurupptökubeiðandi hefði ekki nýtt sér það úrræði þágildandi laga um meðferð opinberra mála að láta dómkveðja matsmann. Hæstiréttur segi hreinlega í dómi sínum að það hefði getað varðað miklu um endanlega niðurstöðu dómsins ef fyrir hefði legið matsgerð frá dómkvöddum matsmanni. Nú hafi slík matsgerð verið lögð fram sem hnekki þeim læknisfræðilegu niðurstöðum sem niðurstaða í máli Hæstaréttar nr. 168/2002 byggi á. Það liggi fyrir að hefði þessi matsgerð legið fyrir undir rekstri málsins hefði þurft að óska eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna til að hnekkja því ef ákæruvaldið hefði talið niðurstöðuna ranga.

VIII. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þá séu verulegar líkur leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga. Í þessu sambandi byggir endurupptökubeiðandi á nýrri matsgerð dómkvadds matsmanns, Dr. Wayne Squier, sem var falið að leggja mat á hver væri líklegust dánarorsök drengsins. Ef ekki væri hægt að kveða upp úr um hver væri líklegust dánarorsök, var matsmaður beðinn um að leggja mat áhvort hægt væri að útiloka, svo yfir allan vafa væri hafið, að aðrar orsakir kynnu að hafa leitt drenginn til dauða, en byggt hafi verið á í krufningarskýrslu. Niðurstaða matsmanns var í fyrsta lagi að hann hafi ekki vitneskju um dánarorsök drengsins. Í öðru lagi að taugameinafræðileg einkenni hafi verið ótilgreind í þeim hlutum sem matsmaður kannaði og hefðu getað stafað af einhvers konar truflun á blóðstreymi og/eða súrefnisflæði til heilans. Í þriðja lagi að engin ótvíræð gögn hafi verið um högg og engin merki um áverka sem samsvari harkalegum hristingi. Að lokum hafi matsmaður talið að skoða bæri margar aðrar samanburðargreiningar.

Með vísan til þessa byggir endurupptökubeiðandi beiðni sína á því að drengurinn hafi ekki verið hristur með þeim hætti að blæðingar hafi orðið í heila er dregið hafi hann til dauða, heldur sé um allt aðrar orsakir að ræða. Alltént sé fullkominn vafi um dánarorsökina, þannig að læknisfræðilega sé algerlega ósannað að um sé að ræða Shaken baby heilkennið. Ekki sé unnt að slá neinu föstu þar sem aðrar mögulegar orsakir hafi ekki verið kannaðar til fulls. Þær mælingar og rannsóknir sem útilokað gætu aðrar orsakir hafi ekki verið gerðar.

Í máli því sem beðið er um endurupptöku á byggðist málsvörn endurupptökubeiðanda, bæði við meðferð málsins í héraði og Hæstarétti á því að ekki væri unnt að slá nokkru föstu um dánarorsök drengsins þar sem aðrir möguleikar en Shaken baby heilkenni hafi ekki verið útilokaðir. Þessu til stuðnings lagði endurupptökubeiðandi fram í héraði fræðigrein í læknisfræði. Fyrir Hæstarétti lagði endurupptökubeiðandi fram fjölda gagna þessu til stuðnings, meðal annars álit erlendra sérfræðinga um dánarorsök drengsins. Í ljósi þessara álita óskaði Hæstiréttur eftir áliti læknaráðs á tilgátum þeirra. Jafnframt óskaði ríkissaksóknari eftir svörum og rökstuðningi Þóru Steffensen varðandi það hvort gagnrýni þeirra breytti fyrri niðurstöðu hennar í krufningarskýrslu.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldinu hefði tekist að færa fram um það sönnun, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, að endurupptökubeiðandi hafi gerst sekur um að hrista drenginn svo harkalega eða með öðrum hætti orðið valdur að því að það blæddi undir heilahimnur hans, skemmdir urðu á taugafrumum í heilastofni og hálshluta mænu, bjúgur myndaðist í heila, sjónhimnublæðingar urðu í báðum augum og mar hlaust vinstra megin á hnakka með þeim afleiðingum að drengurinn lést tveimur dögum síðar. Byggði Hæstiréttur meðal annars niðurstöðu sína á krufningarskýrslu Þóru Steffensen, framburðum lækna fyrir héraðsdómi og tveimur álitum læknaráðs.

Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns kemur fram að hann hafi skoðað 39 litaða hluta heilans og bastsins merkta 5-85-01. Þá hafi matsmaður farið yfir krufningarskýrslu Þóru Steffensen og skýrslur tveggja erlendra lækna sem meðal annars lágu til grundvallar krufningarskýrslunni. Einnig hafi verið farið yfir álit tveggja hinna erlendu sérfræðinga sem endurupptökubeiðandi hafði lagt fram í Hæstarétti og álit Þóru Steffensen á umfjöllun hinna erlendu sérfræðinga. Í matsgerðinni eru settar fram taugameinafræðilegar greiningar og niðurstöður, meðal annars er varða tímasetningu áverka, orsök áverka, högg, Shaken baby heilkenni, segarek í barkaræð og stokk (CVST), blóðeitrun, fjörefnisskort, flog og langvinna vökvauppsöfnun innanbasts. Í umfjöllun sinni um Shaken baby heilkennið segir matsmaður að greiningin Shaken baby heilkenni virðist hafa verið byggð á þrenningu innanbasts, innanskúms og sjónublæðinga og bólgu í heila og bólgu í taugaþráðum í heilastofni. Klínískar rannsóknir og krufning sýni á hinn bóginn engin merki um ofbeldi eða gripför, mar eða rifbeinsbrot sem væri viðbúið ef 9 mánaða gamalt barn sem vegur 9320 grömm væri tekið nógu föstum tökum til að hrista það harkalega. Engin merki væru um hálsáverka sem gera megi ráð fyrir við alvarlegan hálshnykk. Barnið hafi að auki verið eldra og þyngra en flest börn sem talið sé að hafi verið hrist. Vísað var í þessum efnum til fræðigreinar frá árinu 2006 er fól slíka niðurstöðu í sér. Að mati matsmanns var talið vafasamt að fullorðinn einstaklingur gæti hrist svona þungt barn nógu harkalega til að valda alvarlegum áverkum innan höfuðkúpu; í rannsóknum birtum árið 2003 með árekstrarbrúður voru sjálfboðaliðar orðnir þreyttir eftir 10 sekúndur. Hvað varðar einkennaþrennuna tók matsmaður eftirfarandi fram:

Blæðing innanbasts og innanskúms: Bólga í heila, blæðing innanbasts og innanskúms getur orðið í ungum börnum við margskonar aðstæður og er ekki af völdum höggs. Innanbastsblæðing er einkum algeng í ungbörnum við margskonar áverkaaðstæður og aðrar, vegna æðakennds eðlis óþroskaðs basts (Mark, Squier et. al. 2009).

Bólga í heila og heilastofni og taugaþráðaáverkar á mænu: Taugaþráðaleg βAPP birting er ekki til marks um högg eins og dr. Smith bendir á. Til er samanburðargreining; högg, vefildisskortur og blóðþurrð, blóðsykurslækkun og aðrar efnaskiptatruflanir geta truflað eðlilega taugaþráðavirkni og valdið óeðlilegri taugaþráðalegri βAPP-birtingu. Síðan þetta barn dó hafa birst fleiri greinar sem sýna að túlkun taugaþráðaáverka í ungbörnum er afar erfið, Johnson fullyrðir að sérhvert barn sem í hefur verið blásið með öndunarvél geti sýnt taugarþráðarlega βAPP-litun sem ekki er hægt að aðgreina með nákvæmni frá höggi (Oehmichen, Schleiss et al. 2008) (Johnson, Stoll et al. 2011).

Sjónublæðingar (RH): Þótt þetta sé ekki mitt sérsvið er mikilvægt að tekið sé tillit til RH þar sem það er hluti af [Shaken baby heilkenninu]. [...] Ekki er mögulegt að vita hvort sjónublæðingin varð við eða eftir heilaskurðinn eða hvort hún var til staðar þegar barnið missti rænu. [...] Sjónublæðingar hafa verið taldar merki um ofbeldi á barni en til eru undantekningar. Vinchon hefur lagt áherslu á að alvarleiki sjónublæðingar sé mikilvægur og aðeins alvarlegustu tilfellin tengist ofbeldi. Sjónublæðingar í þessu tilfelli voru ekki formlega metnar og alvarleiki þeirra verður ekki metinn. [...] (Vinchon, Defoort-Dhellemmes et al. 2005; Vinchon, de Foort-Dhellemmes et al. 2010).

Jafnframt er fjallað um það í matsgerðinni að deilan varðandi hið svonefnda Shaken baby heilkenni og vísindalegar athuganir varðandi sjón- og innanbastsblæðingu í ungbörnum hafi þokast verulega áfram síðan barnið dó 2001 og krufningarskýrslan hafi verið gerð. Ekki sé lengur vænleg röksemd að hristingur einn geti valdið blæðingum innan höfuðkúpu þegar ekki séu önnur merki um ofbeldi eða skaða á hálsi, sem ekki hafi sést í þessu tilfelli. Undanfarin ár hafi nýjar rannsóknir rýrt alvarlega greiningu á Shaken baby heilkenninu og er vísað í því samhengi til fræðiskrifa frá 2012. Njóti þær rannsóknir nú aukins stuðnings vísindamanna og farið sé að taka tillit til þeirra af hálfu dómstóla.

Ríkissaksóknari aflaði umsagnar Þóru Steffensen um matsgerðina, og lagði umsögnina fyrir endurupptökunefnd ásamt eigin athugasemdum. Fram kemur að Þóra hafi farið yfir greinargerð Dr. Squier og sjálfa krufningarskýrsluna frá árinu 2001. Í því sambandi hafi hún skoðað ýmsar læknisfræðilegar greinar sem birtar hafi verið á árunum 2001 til 2013, sem fjalla um Shaken baby heilkennið. Í umsögn sinni fjallar Þóra um ýmis atriði í niðurstöðu matsmanns, meðal annars út frá nýjum rannsóknum og greinum fræðimanna. Þóra útilokar sumar tilgátur matsmanns og dregur aðrar í efa. Sumar tilgátur útilokar hún ekki þar sem fram hafi komið rannsóknir á síðari árum sem huga þurfi betur að. Í lokaorðum umsagnarinnar kemur fram að hún telji nauðsynlegt að fengið verði álit annarra fagaðila til að meta hvort vísindaleg gögn hafi birst síðustu árin sem styðji súrefnisskortstilgátu Dr. Squier frá 2009 sem skýringu á einkennaþrennunni. Í tengslum við það verði metið hvort þær mismunagreiningar sem matsmaður nefnir komi til greina sem orsakavaldur einkennanna. Í athugasemdum ríkissaksóknara er tekið fram að telji endurupptökunefnd ekki skilyrði til að hafna endurupptökubeiðninni sé nauðsynlegt að fá álit annarra fagaðila innan læknisfræðinnar en Þóru Steffensen á tilgátu Dr. Squier.

Með vísan til niðurstöðu hins dómkvadda mats Dr. Squier og fyrrgreindrar umsagnar Þóru Steffensen um það ritaði endurupptökunefnd ríkissaksóknara bréf 6. mars 2014. Var því beint til ríkissaksóknara, með vísan til 3. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála, að hann hlutaðist til um frekari rannsókn á niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns, eftir atvikum með öflun sönnunargagna fyrir héraðsdómi. Í tilefni af ósk ríkissaksóknara um nánari skýringar var síðar áréttað af hálfu endurupptökunefndar að álitaefni þau sem fjallað væru um í matsgerð hins dómkvadda matsmanns og í umsögninni sem ríkissaksóknari hefði aflað og byggði afstöðu sína til endurupptöku meðal annars á, væru af sérhæfðum læknisfræðilegum toga og lytu að atriðum sem gætu varðað miklu um málsatvik. Jafnframt var vakin athygli á að í lokaorðum umsagnar Þóru komi fram að rétt sé að aflað yrði álits annarra á niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns. Áréttað var af hálfu nefndarinnar að þegar ágreiningur væri um svo sérhæfð álitaefni væri mikilvægt að kappkostað væri að mögulegum vafa væri eytt svo sem kostur væri. Fyrir lægi mat dómkvadds matsmanns sem aflað hefði verið í samræmi við XIX. kafla laga um meðferð sakamála. Við þær aðstæður gæti meðal annars reynt á heimild 131. gr. laga um meðferð sakamála, gerði aðili athugasemdir við niðurstöður slíkrar matsgerðar.

Framangreint erindi var ítrekað með bréfi endurupptökunefndar til ríkissaksóknara, dagsettu 21. ágúst 2014. Ríkissaksóknari upplýsti í kjölfarið að ekki hefðu borist þau gögn eða upplýsingar frá dómkvadda matsmanninum sem farið hefði verið fram á með bréfi ríkissaksóknara til lögmanns endurupptökubeiðanda dagsettu 26. maí 2014. Sú gagnaöflun marki upphaf rannsóknar ríkissaksóknara vegna tilmæla endurupptökunefndar. Teldi ríkissaksóknari nauðsynlegt að þessi gögn lægju fyrir áður en gripið yrði til frekari rannsóknaraðgerða.  

Af hálfu endurupptökubeiðanda var hlutast til um að tekin yrði vitnaskýrsla af hinum dómkvadda matsmanni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og fór sú skýrslutaka fram 9. desember 2014. Sótt var þing af hálfu endurupptökubeiðanda og ríkissaksóknara þar sem matsmaður svaraði spurningum er lutu að matsgerðinni. Með bréfi dagsettu 7. janúar 2015 var endurriti framburðarins komið á framfæri við endurupptökunefnd af hálfu endurupptökubeiðanda.  

Endurupptökunefnd beindi fyrirspurn til ríkissaksóknara 26. janúar 2015 og innti eftir hvort frekari athugasemda eða gagna væri að vænta af hálfu ríkissakóknara. Ríkissaksóknari lýsti því yfir að ekki væru efni til frekari gagnaöflunar í málinu. Kom hann því á framfæri að afar nákvæmar og vandaðar læknisfræðilegar rannsóknir og greiningar hefðu farið fram í málinu, eins og reifað sé í dómi Hæstaréttar í máli nr. 168/2002. Að mati ríkissaksóknara hafi ekkert komið fram í matsgerð hins dómkvadda matsmanns varðandi rannsóknir og niðurstöður um dánarorsök drengsins sem réttlætt geti endurupptöku. Þá telji ríkissaksóknari að það sem reifað sé í dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 5. febrúar 2015 í máli nr. 294/2014 um svokallað Shaken baby heilkenni styðji eindregið að um rétta niðurstöðu hafi verið að ræða í máli nr. 168/2002.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þá byggir hann einnig á að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga.

Sakfelling í máli því sem beiðst er endurupptöku á byggðist að miklu leyti á sérhæfðum læknisfræðilegum gögnum um dánarorsök drengsins. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar var krufningarskýrsla Þóru Steffensen ráðandi þáttur í mati héraðsdóms. Þá byggir Hæstiréttur niðurstöðu sína meðal annars einnig á þeirri krufningarskýrslu og síðari greinargerð Þóru þar sem hún hafnar gagnrýni erlendra sérfræðinga sem endurupptökubeiðandi lagði fram í málinu. Endurupptökubeiðandi hefur lagt fram nýtt dómkvatt mat þar sem samantekin niðurstaða er að ekki sé ljóst af hverju drengurinn hafi dáið. Byggði niðurstaða matsmanns meðal annars á tilvitnuðum rannsóknum og kenningum sem settar hafa verið fram eftir að dómur í máli 168/2002 var kveðinn upp. Ríkissaksóknari lagði fram umsögn Þóru Steffensen um matsgerðina eins og áður er getið. Niðurstaða þeirrar umsagnar var að nauðsynlegt væri að fengið yrði álit annarra fagaðila til að meta hvort vísindaleg gögn styðji niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns. Ríkissaksóknari hefur ekki aflað slíks álits, þrátt fyrir að endurupptökunefnd hafi beint því til hans að hlutast til um slíka rannsókn. Sýnist það byggt á því mati ríkissaksóknara að hinn dómkvaddi matsmaður hafi ekki gert líklegt að dánarorsök drengsins hafi verið önnur en sú sem endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir. Í þessu sambandi er byggt á þeim læknisfræðilegu gögnum sem lágu fyrir í hæstaréttarmáli nr. 168/2002, umsögn Þóru Steffensen um hið dómkvadda mat, framburði hins dómkvadda matsmanns Dr. Squier fyrir dómi og umfjöllun annars dómkvadds matsmanns um sakarefni hæstaréttarmáls nr. 294/2014.

Með hliðsjón af niðurstöðu dómkvadds matsmanns, Dr. Squier, og umsagnar réttarmeinafræðingsins Þóru Steffensen er það álit endurupptökunefndar að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt. Niðurstaða matsgerðarinnar er afdráttarlaus um að dánarorsök drengsins sé ekki að rekja til svonefnds Shaken baby heilkennis. Af hálfu ríkissaksóknara hafa ekki verið lögð fram fullnægjandi vísindaleg gögn til að hrekja þessa niðurstöðu. Matsgerð dómkvadds matsmanns sýnist byggja í verulegum atriðum á læknisfræðilegum kenningum sem settar eru fram á grundvelli rannsókna sem framkvæmdar hafa verið eftir uppsögu dóms Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 og komu því ekki til skoðunar við úrlausn málsins. Læknisfræðirannsóknir þessar hagnýtir hinn dómkvaddi matsmaður til að skjóta stoðum undir þá niðurstöðu sína að ekki liggi fyrir að Shaken baby heilkennið hafi orðið banamein drengsins. Endurupptökubeiðandi hefur þannig lagt fram ný gögn sem ætla má að hefðu verulega máli skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Í þessu sambandi ber jafnframt að líta til hins mikla vægis sem læknisfræðileg greining á Shaken baby heilkenninu hafði í málinu og ályktunar Þóru Steffensen um niðurstöðu hins dómkvadda mats. Í þessu sambandi verður að hafa hugfast að Þóra er jafnframt höfundur krufningarskýrslu drengsins frá 2001, og niðurstöður og framburður hennar voru mikilvægur þáttur í mati og niðurstöðu bæði héraðsdóms og Hæstaréttar.

Ekki verður fallist á að niðurstaða dómkvadds matsmanns í hæstaréttarmáli nr. 294/2014 hafi þýðingu í þessum efnum eða dragi úr sönnunargildi fyrirliggjandi dómkvadds mats í þessu máli, enda aðstæður í nefndu hæstaréttarmáli með ólíkum hætti. Í því máli var um mun yngra barn að ræða en að auki var litið til annarra líkamlegra áverka, eins og gripfara og eldri áverka er þóttu sanna að barnið hefði verið beitt líkamlegu ofbeldi. Engum slíkum áverkum var til að dreifa í hæstaréttarmáli nr. 168/2002. 

Ber því með vísan til ofanritaðs að fallast á endurupptöku dóms í hæstaréttarmáli nr. 168/2002 sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 23. apríl 2003 að því er varðar sakfellingu endurupptökubeiðanda fyrir manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Hér að ofan er komist að niðurstöðu um að skilyrði a- liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt til endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002. Eins og áður er rakið er nægjanlegt samkvæmt 1. mgr. 211. gr. að einhverju skilyrða a- til d-liða sé fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu gerist ekki þörf á að fjalla um hvort fullnægt sé því skilyrði sem greinir í c-lið 1. mgr. 211. gr.  að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. 

Í beiðni endurupptökubeiðanda er óskað endurupptöku á málinu í heild. Engin rök eða ný gögn hafa verið færð fram fyrir endurupptöku á þeim þætti málsins er lýtur að sakfellingu endurupptökubeiðanda samkvæmt 187. gr. almennra hegningarlaga. Er því ekkert af skilyrðum  a- til d-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt í þessum efnum.  Dómur Hæstaréttar stendur óhaggaður að því leyti. 

Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu og þess að lögmaður endurupptökubeiðanda Sveinn Andri Sveinsson hrl. var skipaður til að gæta réttar hans, sbr. 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála, verður kostnaður endurupptökubeiðanda með vísan til 4. mgr. 214. gr. sömu laga felldur á ríkissjóð. Samtals 3.599.581 krónur, þar af 1.849.581 króna vegna útlagðs kostnaðar endurupptökubeiðanda og vegna þóknunar lögmanns hans sem þykir hæfilega ákveðin 1.750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Meðferð máls þessa fyrir endurupptökunefnd hefur dregist, öðrum þræði vegna sérstöðu málsins en hins vegar vegna seinlætis í viðbrögðum við tilmælum endurupptökunefndar sem sett voru fram á grundvelli afdráttarlausrar lagaheimildar í 3. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála. Tilmæli þessi voru fyrst sett fram með bréfi dagsettu 6. mars 2014. Síðustu athugasemdir ríkissaksóknara bárust 11. febrúar 2015 án þess að brugðist væri við erindi endurupptökunefndar.  

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Sigurðar Guðmundssonar um endurupptöku máls nr. 168/2002, er varðar sakfellingu fyrir manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 3. apríl 2003, er samþykkt.

Kostnaður endurupptökubeiðanda 3.599.581 krónur greiðist úr ríkissjóði.


Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

                                                                                                                         


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta