Mál nr. 17/2013
Hinn 13. apríl 2018 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 17/2013:
Beiðni um endurupptöku
endurupptökumáls nr. 17/2013,
vegna hæstaréttarmáls nr. 168/2002
Ákæruvaldið
gegn
Sigurði Guðmundssyni
og
Kristínu Ósk Óskars
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
1. Með erindi, dagsettu 9. maí 2017, lagði ríkissaksóknari fram beiðni til endurupptökunefndar um að heimiluð yrði endurupptaka máls endurupptökunefndar nr. 17/2013. Með úrskurði endurupptökunefndar 25. júní 2015 var fallist á beiðni Sigurðar Guðmundssonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 168/2002 sem kveðinn var upp 3. apríl 2003, er varðaði sakfellingu fyrir manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Við meðferð málsins nr. 17/2013 var Sveinn Andri Sveinsson hrl. skipaður talsmaður dómfellda vegna meðferðar málsins, sbr. þáverandi 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og hefur dómfelldi óskað eftir því að kostnaður vegna endurupptökumáls þessa verði jafnframt greiddur úr ríkissjóði.
II. Málsatvik
3. Með úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 frá 25. júní 2015 var endurupptaka Hæstaréttarmáls nr. 168/2002 samþykkt. Með þeim dómi Hæstaréttar var dómfelldi meðal annars sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga. Var dómfellda gefið að sök að hafa hrist ungan dreng svo harkalega eða með öðrum hætti orðið valdur að því að það blæddi undir heilahimnur hans, skemmdir urðu á taugafrumum í heilastofni og hálshluta mænu, bjúgur myndaðist í heila, sjónhimnublæðingar urðu í báðum augum og mar hlaust vinstra megin á hnakka með þeim afleiðingum að drengurinn lést tveimur dögum síðar. Dómfelldi var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til greiðslu skaðabóta.
4. Ríkissaksóknari gaf út fyrirkall, dagsett 6. júlí 2015, vegna endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002. Stofnað var nýtt mál í Hæstarétti og því gefið málsnúmerið 601/2015, ákæruvaldið gegn dómfellda. Lögmaður dómfellda var jafnframt skipaður verjandi hans. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins hefur hæstaréttarmálið enn ekki verið þingfest.
5. Með bréfi til Hæstaréttar Íslands, dagsettu 11. mars 2016, fór ríkissaksóknari fram á að máli nr. 601/2016 yrði vísað frá Hæstarétti. Ekki hefur verið leyst úr þeirri kröfu fyrir Hæstarétti þar sem málið hefur ekki verið þingfest.
6. Með yfirmatsbeiðni, dagsettri 13. október 2015, krafðist ríkissaksóknari þess að Héraðsdómur Reykjaness myndi dómkveðja tvo yfirmatsmenn í því skyni að leggja mat á hver hafi verið líklegust dánarorsök drengsins. Yfirmatsmenn skiluðu matsgerðum sínum 16. september og 5. október 2016.
7. Með beiðni, dagsettri 15. desember 2016, krafðist ríkissaksóknari þess að skýrslutaka færi fram fyrir dómi af yfirmatsmönnunum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2017 var beiðnin tekin til greina. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 11/2017, sem kveðinn var upp 10. janúar 2017, og fóru skýrslutökurnar fram þann 6. og 13. febrúar 2017.
8. Með beiðni 5. janúar 2017 fór dómfelldi þess á leit að dómkvaddir yrðu að nýju yfirmatsmenn til að svara sömu matsspurningum og dómkvaddir yfirmatsmenn höfðu þegar svarað í málinu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 6. mars 2017, var krafa dómfellda samþykkt. Með dómi Hæstaréttar frá 21. mars 2017 í máli nr. 161/2017 var beiðni dómfellda um dómkvaðningu yfirmatsmanna hafnað.
9. Með bréfi, dagsettu 9. maí 2017, óskaði ríkissaksóknari eftir endurupptöku á úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013.
III. Grundvöllur beiðni ríkissaksóknara
10. Ríkissaksóknari byggir kröfugerð sína á því að úrskurður endurupptökunefndar frá 25. júní 2015 í máli nr. 17/2013 hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik og/eða á atvikum sem hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
11. Nú liggi fyrir matsgerðir tveggja dómkvaddra yfirmatsmanna sem staðfesti það mat ákæruvaldsins að dómkvaddur undirmatsmaður hafi ekki gert líklegt að dánarorsök drengsins hafi verið önnur en sú sem dómfelldi hafi verið sakfelldur fyrir með dómi Hæstaréttar í máli nr. 168/2002.
12. Matsgerðir yfirmatsmanna, dagsettar 16. september 2016 og 5. október 2016, séu samhljóða í því efni að hnekkja þeirri niðurstöðu undirmatsmanns að dánarorsök drengsins sé ekki að rekja til svonefnds Shaken baby heilkennis, en á þeirri forsendu hafi endurupptökunefnd byggt niðurstöðu sína um að heimila endurupptöku málsins í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 17/2013.
13. Ríkissaksóknari byggir beiðni sína á því að í yfirmatsgerðum sé hafnað þeim mismunagreiningum sem undirmatsmaður tefli fram í sinni matsgerð sem mögulegri dánarorsök drengsins. Matsgerðirnar staðfesti hins vegar þá niðurstöðu sérfræðings í réttarmeinafræði og barnameinafræði, sem krufði drenginn, að dánarorsök hans hafi verið heilaáverki vegna höggs og/eða hristings, sem nefnt hafi verið Shaken baby heilkenni. Þetta komi fram í skýrslutökum yfirmatsmanna fyrir dómi. Annar yfirmatsmanna taldi þessa niðurstöðu hafna yfir allan vafa og hinn yfirmatsmaðurinn taldi að niðurstaðan væri hafin yfir skynsamlegan vafa. Fram hafi komið hjá báðum yfirmatsmönnum að krufning drengsins og allar rannsóknir sem framkvæmdar hafi verið í tengslum við hana hafi verið vandaðar og engin efni séu til að draga niðurstöður þeirra í efa.
14. Þá telur ríkissaksóknari að ekki verði fram hjá því litið að með dómi bresks dómstóls, sem kveðinn hafi verið upp 3. nóvember 2016, hafi verið staðfest niðurstaða sérfræðinefndar í Bretlandi þess efnis að umræddur undirmatsmaður hafi, í hlutverki sérfræðivitnis í málum, farið út fyrir sitt sérfræðisvið, skort hlutlægni og leitast við að handvelja efni úr þeim rannsóknum sem ekki hafi stutt hennar niðurstöður. Sérfræðinefndin hefði gefið fyrirmæli um að matsmaðurinn yrði tekinn af skrá yfir starfandi lækna í Bretlandi en með dóminum 3. nóvember 2016 hafi sú ákvörðun verið felld úr gildi. Matsmaðurinn hafi þess í stað verið látinn sæta viðurlögum sem fólu meðal annars í sér svo til algert bann við því að láta af hendi læknisfræðilegar skýrslur í dómsmálum og bera vitni sem sérfræðingur fyrir dómstólum í Bretlandi. Þessi viðurlög yrðu svo endurskoðuð að þremur árum liðnum.
15. Ríkissaksóknari telur að undirmatsmaðurinn hafi í matsgerð sinni frá 25. maí 2013, og við skýrslugjöf í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. desember 2014, viðhaft sambærileg vinnubrögð og þau sem leiddu til framangreindra viðurlaga. Er í því efni vísað til afdráttarlausra niðurstaðna yfirmatsmanna sem séu í algjörri andstæðu við það sem undirmatsmaður setti fram í undirmatsgerð og framburði hennar fyrir dómi. Að mati ríkissaksóknara einkennist framsetning undirmatsmannsins af lítt rökstuddum getgátum um atriði sem að áliti hennar gætu hafa átt þátt í dauða drengsins. Allt hafi þetta verið sett fram í þeim eina tilgangi að rökstyðja þá trú hennar að svokallað Shaken baby heilkenni sé ekki til. Um óáreiðanleika hennar hafi verið fjallað í umsögn um matsgerðina sem réttarmeinafræðingurinn, sem framkvæmdi krufninguna, lét í té. Um sama atriði hafi einnig verið fjallað í fyrrgreindu bréfi ríkissaksóknara frá 11. febrúar 2015. Þá bendir ríkissaksóknari sérstaklega á óskýr svör hennar varðandi mismunagreininguna CVST þar sem hún hafi ekki getað sagt til um það hvort eitthvert þeirra barna sem fjallað hafi verið um í rannsóknum sem hún hafi vitnað til um CVST hefðu látist af þeim sökum. Svarið við þeirri spurningu hafi verið: „Ég er ekki alveg viss, ég man það ekki“.
16. Að framangreindu virtu telur ríkissaksóknari að ákæruvaldið hafi sýnt fram á að úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik og/eða á atvikum sem hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins. Telur ríkissaksóknari að því beri að endurupptaka mál nefndarinnar nr. 17/2013 og kveða upp nýjan úrskurð þess efnis að endurupptökubeiðni dómfellda sé hafnað.
17. Ríkissaksóknari bendir á að ekki hafi verið unnt að setja beiðni um endurupptöku úrskurðar endurupptökunefndar fram fyrr en að matsmálum hafi endanlega verið lokið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 161/2017, sem kveðinn var upp þann 21. mars 2017.
IV. Viðhorf dómfellda við beiðni ríkissaksóknara
18. Dómfelldi krefst þess að beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku á ákvörðun endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 verði vísað frá eða hafnað.
19. Dómfelldi bendir á að 6. júlí 2015 hafi ríkissaksóknari gefið út fyrirkall vegna endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002. Í tilefni fyrirkallsins hafi lögmaður dómfellda tilkynnt að dómfelldi óskaði eftir því að lögmaðurinn yrði skipaður verjandi hans. Með bréfi, dagsettu 11. september 2015, hafi honum verið tilkynnt af Hæstarétti að réttinum hefði borist fyrrnefnt fyrirkall og að stofnað hefði verið nýtt mál í Hæstarétti sem gefið hefði verið númerið 601/2015, ákæruvaldið gegn dómfellda. Ríkissaksóknari hafi síðan sent réttinum bréf, dagsett 11. mars 2016, þar sem þess hafi verið krafist að málinu yrði vísað frá Hæstarétti með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 628/2015. Þessari kröfu ríkissaksóknara hafi ekki verið svarað sérstaklega. Dómfelldi bendir á að samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti hafi ríkissaksóknari ekki fellt niður mál nr. 601/2015. Því sé mál ákæruvaldsins gegn dómfellda til meðferðar í Hæstarétti sem mál nr. 601/2015 en mál nr. 168/2002 sé ekki til meðferðar fyrir réttinum.
20. Dómfelldi telur að þar sem sakamál er til meðferðar fyrir Hæstarétti, sem sé afleiðing af ákvörðun endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013, geti stjórnvald ekki tekið ákvörðun um atriði sem með réttu beri að ljúka með dómi Hæstaréttar. Í því tilliti vísar dómfelldi til litis pendens sjónarmiða enda hafi með útgáfu fyrirkalls í máli ákæruvaldsins gegn dómfellda verið höfðað sakamál gegn dómfellda fyrir Hæstarétti um sama sakarefni milli sömu aðila og í því endurupptökumáli sem ríkissaksóknari hafi nú óskað endurupptöku á.
21. Dómfelldi bendir á að ríkissaksóknari byggi kröfugerð sína á því að úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 byggi á röngum upplýsingum um málsatvik og/eða á atvikum sem breyst hafi verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins. Í því sambandi vísi ríkissaksóknari til 24. gr. stjórnsýslulaga og þess að fyrir liggi nú tvær yfirmatsgerðir sem hnekki niðurstöðu matsgerðar dómkvadds undirmatsmanns, auk þess sem byggt sé á almennum ótrúverðugleika þess undirmatsmanns. Að mati dómfellda er endurupptökunefnd vissulega stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga. Um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana sé fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga. Ef svo ólíklega vilji til að endurupptökunefnd taki kröfu ríkissaksóknara til efnislegrar meðferðar, í stað þess að vísa máli strax frá, þá reyni á hvort uppfyllt væru skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga.
22. Dómfelldi bendir á að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, sem ríkissaksóknari byggi á, sé tvískipt. Samkvæmt 1. tölulið eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, enda séu ekki meira en þrír mánuðir liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Að öðrum kosti þurfi að liggja fyrir samþykki frá öðrum aðilum málsins. Dómfelldi bendir á að úrskurður endurupptökunefndar hafi verið kveðinn upp 25. júní 2015 og að samþykki dómfellda liggi ekki fyrir, þvert á móti. Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. geti stjórnvaldsákvörðun verið tekin til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin og ekki séu meira en þrír mánuðir liðnir frá því að aðila var kunnugt um hin breyttu atvik. Dómfelldi bendir í þessu tilviki á að í fyrsta lagi sé ákvörðun endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 ekki íþyngjandi í skilningi stjórnsýsluréttarins. Í öðru lagi felist í úrskurðinum hvorki boð né bann. Í þriðja lagi séu meira en þrír mánuðir liðnir frá því að ríkissaksóknara var kunnugt um þau atvik sem eigi að hafa breyst verulega. Eigi það bæði við um þær aðfinnslur sem dómkvaddur matsmaður eigi að hafa fengið 3. nóvember 2016 sem og niðurstöður dómkvaddra yfirmatsmanna frá 16. september og 5. október 2016. Þær niðurstöður eða þau breyttu atvik hafi ríkissaksóknari að sjálfsögðu haft vitneskju um í skilningi þessa ákvæðis hvað sem líði nýrri yfirmatsbeiðni dómfellda. Í fjórða lagi liggi ekki fyrir samþykki hins aðila málsins um endurupptöku ákvörðunar endurupptökunefndar, þvert á móti þá er ósk um endurupptöku úrskurðarins hafnað af honum.
23. Þá bendir dómfelldi á að frumforsenda þess að aðili máls eigi rétt til endurupptöku úrskurðar á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé að hinu upphaflega máli hafi lokið með íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og sú ákvörðun hafi falið í sér viðvarandi boð eða bann til handa málsaðila. Úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun þar sem leyst hafi verið úr kröfu dómfellda um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 og hafi augljóslega ekki falið í sér íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann.
24. Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segi að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í fyrrnefnda hugtakinu felist ívilnandi stjórnvaldsákvörðun en í hinu síðara íþyngjandi. Í eldra frumvarpi stjórnsýslulaga hafi hugtakið íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun verið skilgreint svo: „Ákvörðun stjórnvalds sem skerðir rétt manna eða leggur auknar skyldur á herðar þeim“. Úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 hafi hvorki skert rétt dómfellda né lagt honum auknar skyldur á herðar, heldur heimilað að sakamál þar sem dómfelldi var sakfelldur yrði endurupptekið. Að mati dómfellda er því augljóslega um að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvörðun. Fráleitt sé að leggja upp með því að úrskurður endurupptökunefndar í málinu sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun gagnvart embætti ríkissaksóknara. Mat á því hvort stjórnvaldsákvörðun sé íþyngjandi eða ívilnandi snúi eingöngu að því með hvaða hætti ákvörðunin komi út gagnvart þeim einstaklingi eða einstaklingum, félagi eða félögum, sem ákvörðunin beinist að.
25. Þá fjallar dómfelldi um tímamark endurupptöku í athugasemdum sínum. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga komi fram hvert meginmarkmið ákvæðisins er. Þar segi að skilyrði sem þar séu sett séu til þess að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og sé því ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka gömul mál sem erfitt geti verið að upplýsa. Markmiðið með 2. málsgrein sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé. Telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að æskja hennar án ástæðulauss dráttar. Þá vísar dómfelldi til orðalags 2. málsliðar 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga í þessum efnum þar sem komi meðal annars fram að við upphaf frests sé miðað við þann tíma sem aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun byggði á. Dómfelldi telur að það hljóti að vera metið ríkissaksóknara til tómlætis að hafa ekki lagt fram kröfu sína um endurupptöku áður en þrír mánuðir voru liðnir frá því honum var kunnugt um þau atvik sem leiða ættu til endurupptöku. Ríkissaksóknari hafi ekki með nokkrum hætti útskýrt hvernig mál Hæstaréttar nr. 11/2017, þar sem samþykkt var sú krafa ríkissaksóknara að tekin yrði skýrsla af yfirmatsmönnum, og mál Hæstaréttar nr. 161/2017 komu í veg fyrir að krafa hans um endurupptöku úrskurðar endurupptökunefndar nr. 17/2013 yrði send endurupptökunefnd. Dómfelldi telur þessa skýringu fullkomlega óskiljanlega og ekkert annað en fyrirslátt.
26. Dómfelldi telur að líta verði einnig til þess að heimildir endurupptökunefndar á ákvörðun í máli nr. 17/2013 takmarkist af þeirri meginreglu að stjórnvaldi sé almennt óheimilt að endurskoða stjórnvaldsákvarðanir til óhags fyrir aðila og ætti því ákvörðun endurupptökunefndar að standa óbreytt þar sem hún hafi verið ívilnandi fyrir dómfellda. Ívilnandi stjórnvaldsákvörðun sé almennt óafturkallanleg nema öðruvísi sé ákveðið í lögum eða einhverjar sérstakar ástæður réttlæti afturköllun. Til slíkra sérstakra ástæðna geti meðal annars verið breyttar aðstæður auk þess sem ívilnandi stjórnvaldsákvörðun verði afturkölluð þegar rétthafi veiti samþykki sitt. Þau sjónarmið sem mæli gegn því að stjórnvald hafi ótakmarkaðar heimildir til að endurskoða ákvörðun í óhag fyrir aðila eru einkum réttaröryggi aðila, réttmætar væntingar hans og meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins. Á móti standi sjónarmiðin um að stjórnvald eigi að hafa möguleika á því að taka rétta ákvörðun, það er að ákvörðun hafi þau réttaráhrif sem henni er ætlað og því eigi stjórnvald að hafa frjálsar heimildir til að leiðrétta rangar ákvarðanir og þegar almannahagsmunir krefjist er nauðsynlegt að stjórnvaldi sé heimilt að endurskoða ákvörðun.
27. Þá bendir dómfelldi á að sum stjórnvöld telji sér það óheimilt að endurskoða ákvörðun með íþyngjandi hætti fyrir aðila og nefnir sem dæmi úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og úrskurð nefndarinnar nr. 181/2011 frá 29. janúar 2014. Dómfelldi vísar einnig til álits umboðsmanns Alþingis nr. 6424/2011 frá 13. júlí 2012.
28. Af hálfu dómfellda er því mótmælt sem liggur kröfugerð ríkissaksóknara til grundvallar, að matsgerðir dómkvaddra yfirmatsmanna hnekki mati undirmatsmannsins. Þvert á móti sé byggt á því að þær upplýsingar sem lagðar hafi verið til grundvallar endurupptökubeiðni ríkissaksóknara séu ekki þess eðlis að þær hefðu breytt niðurstöðu endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 á sínum tíma. Annars vegar séu slíkir formgallar á yfirmatsgerðunum að þær geti ekki verið tækar sem sönnunargögn í skilningi XIX. kafla laga um meðferð sakamála við flutning málsins í Hæstarétti. Hins vegar sýni yfirmatsgerðirnar, og önnur gögn sem ríkissaksóknari hafi lagt fram, ekki fram á það að niðurstaða endurupptökunefndar hafi verið röng.
29. Dómfelldi bendir á ágalla sem hafi verið á framkvæmd yfirmatsins. Annars vegar hafi ekki verið haldinn matsfundur með aðilum matsmálsins þar sem dómfellda hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hnykkja á þeim atriðum sem hann teldi skipta mestu máli varðandi matsspurningarnar, þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu. Hins vegar hafi yfirmatsmennirnir ekki haft samráð sín á milli og engin tilraun hafi verið gerð til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu, heldur hafi þeir skilað tveimur yfirmatsgerðum. Sé þannig ekki um eiginlegt yfirmat að ræða þar sem gert sé ráð fyrir því að fleiri en einn yfirmatsmaður hnekki niðurstöðu hins dómkvadda undirmatsmanns. Framkvæmd yfirmatsgerða geti orðið til þess að sönnunargildi þeirra verði veikara ef ekki er farið eftir réttum aðferðum, samanber til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 93/2012 og máli nr. 294/2014.
30. Á því er byggt af hálfu dómfellda að af fyrrgreindum málum megi sjá að ef farið sé rétt að við framkvæmd mats séu matsgerðir sterk sönnunargögn. Sé matsgerðar aflað einhliða sé almennt ekki unnt að leggja hana til grundvallar í máli, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 604/2012. Þá geti rökstuðningur matsgerðar einnig orðið til þess að veikja sönnunargildi hennar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 690/2011.
31. Dómfelldi bendir á að um allar matsgerðirnar sem liggi fyrir í hæstaréttarmáli nr. 601/2017 gildi meginreglan um frjálst sönnunarmat dómara og muni verða tekist á um sönnunargildi þeirra fyrir dómi, bæði efnislega og vegna ámælisverðra vinnubragða yfirmatsmanna. Matsgerð sú sem unnin hafi verið af dómkvöddum undirmatsmanni í öndverðu hafi verið nýtt sönnunargagn í skilningi þáverandi 211. gr. laga um meðferð sakamála og að mati dómfellda sé það ekki í verkahring endurupptökunefndar að láta fara fram mikla sönnunarfærslu um málsatvik í sakamáli sem krafist er endurupptöku á. Slíkt geti aðeins komið til skoðunar ef leggja eigi mat á þau nýju gögn sem lögð séu fram og hvort að uppfyllt séu skilyrði laganna. Dómfelldi telur að endurupptökunefnd hafi hins vegar gengið mjög langt í því að rannsaka málið efnislega þegar mál nr. 17/2013 hafi verið til meðferðar. Sé þannig rétt að minna á að við nokkuð langa og vandaða meðferð þess hafi endurupptökunefnd beint því til ríkissaksóknara að hann hlutaðist til um frekari rannsókn á niðurstöðu matsgerðar dómkvadda undirmatsmannsins, eftir atvikum með öflun sönnunargagna fyrir héraðsdómi. Hafi endurupptökunefnd nánast skorað á ríkissaksóknara, þegar málið hafi verið til meðferðar hjá nefndinni, að óska yfirmats. Það hafi ríkissaksóknari hins vegar ekki gert fyrr en eftir að endurupptökunefnd hafði kveðið upp úrskurð sinn. Er á það bent af hálfu dómfellda að endurupptökunefnd átaldi ríkissaksóknara fyrir að draga lappirnar að þessu leyti og svara ekki ítrekuðum tilmælum nefndarinnar um frekari rannsóknir. Komi það því dómfellda spánskt fyrir sjónir að yfirmatsgerðir, sem ríkissaksóknari hirti ekki um að afla á meðan meðferð máls nr. 17/2013 hafi staðið yfir, skuli nú lagðar fram sem gögn til stuðnings endurupptöku úrskurðar endurupptökunefndar í málinu. Endurupptaka stjórnvaldsákvörðunar geti ekki byggt á nýjum gögnum sem sá sem krefst endurupptöku hafði öll tækifæri til að leggja fram við meðferð þess máls sem krafist er endurupptöku á.
32. Sem fyrr greinir er það mat dómfellda að yfirmatsgerðirnar og önnur gögn sem ríkissaksóknari hafi lagt fram sýni ekki fram á það að niðurstaða endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 hafi verið bersýnilega röng. Þó yfirmatsmenn séu ósammála undirmati fari því fjarri að það hafi í för með sér að niðurstaða endurupptökunefndar hafi þar af leiðandi verið bersýnilega röng eins og áskilið sé um endurupptöku úrskurðar.
33. Þá er gert ráð fyrir því í 2. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að atvik verði að hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin svo aðili eigi rétt til endurupptöku á grunni töluliðarins. Stjórnvald þurfi að framkvæma mat á því hvort þær breytingar sem orðið hafa á atvikum séu með þeim hætti að ekki sé lengur þörf á að hið íþyngjandi boð eða bann gildi áfram til að ná fram hinu lögmæta markmiði sem stefnt var að. Þá er rétt að ákvörðuninni sé breytt í heild eða að hluta með hliðsjón af breyttum atvikum. Að mati dómfellda er þetta enn til marks um það að endurupptökuákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við um jafn ívilnandi ákvörðun og endurupptaka sakamáls sé gagnvart dómfellda.
V. Frekari athugasemdir ríkissaksóknara
34. Í athugasemdum ríkissaksóknara, dagsettum 15. ágúst 2017, við framangreind viðhorf dómfellda er á það bent að um valdmörk dómstóla og stjórnvalda í máli þessu liggi fyrir dómur Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 þar sem dómfelldi hafi meðal annars verið sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi. Sá dómur haldi gildi sínu þar til nýr dómur hafi verið kveðinn upp, það er ef svo færi að ofangreint sakamál á hendur dómfellda gengi til dóms að nýju á grundvelli ákvörðunar endurupptökunefndar. Er í þessu tilliti vísað til þáverandi 2. málsliðar 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 1. gr. laga nr. 99/2016. Í öðru lagi sé til þess að líta að mál nr. 601/2017 hafi ekki verið þingfest fyrir Hæstarétti enda hafi ríkissaksóknari ekki afhent réttinum málsgögn. Í þriðja lagi sé ljóst að ríkissaksóknari muni afturkalla fyrirkall það sem gefið hafi verið út 6. júlí 2015 vegna endurupptöku málsins, fallist endurupptökunefnd á endurupptöku úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 17/2013 og kveði upp nýjan úrskurð þess efnis að beiðni dómfellda um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002 sé hafnað.
35. Telur ríkissaksóknari einsýnt að ákvörðun endurupptökunefndar hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. til hliðsjónar 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem fyrir liggi að niðurstaða undirmats sé beinlínis röng. Af því leiði að skilyrði a-liðar þáverandi 1. mgr. 211. gr., sbr. þáverandi 1. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, sé ekki fullnægt þar sem dómfelldi hafi ekki lagt fram ný gögn sem ætla megi að hefðu verulegu máli skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.
36. Þá gerir ríkissaksóknari einnig kröfu um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar með vísan til þess að ákvörðun um endurupptöku hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því hún var tekin, sbr. 2. töluliður 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sem leiði til sömu niðurstöðu og fyrr greinir.
37. Sú ákvörðun endurupptökunefndar að heimila endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 telur ríkissaksóknari vera verulega íþyngjandi fyrir ákæruvaldið, sem sé sá aðili sem ákvörðunin beinist að, enda leggi ákvörðunin auknar skyldur á ákæruvaldið, það er að leggja að nýju fyrir Hæstarétt sakamál sem þegar hafi verið sótt og dæmt í héraðsdómi og Hæstarétti. Ákæruvaldið hafi gefið út ákæru á hendur dómfellda og fleirum í fyrrgreindu máli að undangenginni rannsókn þess hjá lögreglu og ákærumeðferð við embætti ríkissaksóknara. Sú afgreiðsla málsins hafi að sjálfsögðu verið byggð á því að málið teldist nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. þágildandi ákvæði 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og hafi dómfelldi verið sakfelldur í héraðsdómi og í Hæstarétti fyrir þau brot sem hann hafi verið ákærður fyrir. Það séu hagsmunir ákæruvaldsins að sakamál fái rétta úrlausn á öllum stigum, bæði fyrir dómstólum og hjá stjórnvaldi eins og endurupptökunefnd. Ákæruvaldið hafi skyldur í þessum efnum gagnvart almenningi og haldi í raun á hagsmunum almennings hvað þetta varðar, þannig að réttlætis sé gætt í hvívetna. Niðurstaða sakamáls hafi þannig ekki eingöngu þýðingu fyrir málsaðila, það er ákæruvaldið, sakborning og brotaþola, heldur allan almenning. Foreldrar drengsins séu brotaþolar í málinu og hafi dómfelldi verið dæmdur til að greiða þeim miskabætur. Ákvörðun endurupptökunefndar um að heimila endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002 sé afar íþyngjandi fyrir þau.
38. Auk ákvæða stjórnsýslulaga fari um endurupptöku sakamáls eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála, auk þess sem ólögfestar meginreglur sakamálaréttarfars svo sem sannleiksreglan, gildi um málsmeðferð. Af þessu leiði meðal annars að ekki er sjálfgefið að ákvæði stjórnsýslulaga, svo sem um fresti til að óska endurupptöku ákvörðunar endurupptökunefndar, eigi fortakalaust við í því máli sem hér um ræðir. Lagaheimild til endurupptöku dæmdra mála feli í sér undantekningu frá þeirri mikilvægu meginreglu að dómur feli í sér endanlegar lyktir máls. Þá sé almennt litið svo á, meðal annars með hliðsjón af meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum, að dómstólar séu betur til þess fallnir að komast að réttri niðurstöðu en þeir sem síðar taka málin til skoðunar. Í þessu efni vísar ríkissaksóknari til umfjöllunar í kafla VII.2 í úrskurðum endurupptökunefndar í málum nr. 7/2014, 8/2014, 5/2015, 6/2015, 7/2015 og kafla V.2 í máli nr. 15/2015.
39. Ríkissaksóknari bendir á að til að honum hefði verið unnt að leggja málið fyrir endurupptökunefnd, hafi þurft að liggja fyrir endanleg niðurstaða í matsmálinu. Að öðrum kosti hafi ekki verið unnt að fullyrða að fyrri ákvörðun endurupptökunefndar hafi byggst á röngum upplýsingum og/eða atvikum sem breyst hefðu verulega frá því að ákvörðunin var tekin. Þannig hafi bæði verið nauðsynlegt að fá yfirmatsmennina fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringa og staðfestingar á matsgerðum sínum og að fá dóm Hæstaréttar um að þessar matsgerðir væru endanlegar og þar með gæti ekki komið til þess að þau atriði sem ákæruvaldið hafði fengið endurmetin með yfirmati yrðu tekin aftur til endurmats. Þau atriði sem varði viðurlög gagnvart undirmatsmanni vegna starfa hennar sem læknir í Bretlandi, sem ríkissaksóknari hafi áður gert grein fyrir, styðji enn frekar að ekki sé byggjandi á matsgerð hennar.
40. Verði ekki fallist á að miða við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 21. mars 2017 verði í öllu falli ekki miðað við fyrri dagsetningu en 13. febrúar 2017 sem leiði til þess að ekki hafi verið liðnir þrír mánuðir frá því að ríkissaksóknara varð kunnugt um þá breytingu á atvikum, sem beiðni um endurupptöku úrskurðar endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 byggi á, þar til beiðni um endurupptöku hafi verið sett fram.
41. Að mati ríkissaksóknara þurfi endurupptökunefnd að framkvæma heildarmat á sönnunargildi eldri sönnunargagna og þeirra nýju og meta hvort ætla megi að niðurstaða málsins hefði orðið önnur ef öll þessi gögn hefðu legið fyrir þegar dómur hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti í máli nr. 168/2002, til að geta tekið ákvörðun sína, sbr. til hliðsjónar kafla VII.3.1 í úrskurðum endurupptökunefndar í málum nr. 7/2014, 8/2014, 5/2015, 6/2015, 7/2015 og kafla V.3.1 í máli nr. 15/2015.
42. Ríkissaksóknari telur að ætlaðir formgallar við framkvæmd yfirmatsins hafi enga þýðingu hvað varði efnislega niðurstöðu yfirmatsmannanna, sem sé mjög afdráttarlaus um það að dánarorsök drengsins hafi verið heilaáverki vegna höggs og/eða hristings, eða það sem nefnt hafi verið Shaken baby heilkenni. Sé það sama niðurstaða og dómur Hæstaréttar um sakfellingu dómfellda fyrir manndráp af gáleysi grundvallist á. Þá er á það bent að dómfellda hafi verið í lófa lagið að krefjast matsfundar sem hann hafi ekki gert. Ákæruvaldið hafi á engan hátt takmarkað aðgengi lögmanns dómfellda á því að gæta hagsmuna dómfellda við framkvæmd yfirmatsins. Ekki hafi verið gerð nein grein fyrir því af hálfu dómfellda hvaða atriðum eða sjónarmiðum hann hafi talið þörf á að koma að á matsfundi sem ekki hafi verið bætt úr með skýrslutöku yfirmatsmanna fyrir dómi. Þá sé það ekki áskilið í lögum um meðferð sakamála að yfirmatsmenn skuli vinna matsgerð í sameiningu. Sú staðreynd að yfirmatsmennirnir hafi báðir komist efnislega að sömu niðurstöðu auki enn frekar vægi matsgerðanna að mati ríkissaksóknara.
VI. Frekari athugasemdir dómfellda
43. Í athugasemdum dómfellda, dagsettum 28. ágúst 2017, við framangreindar athugasemdir ríkissaksóknara er áréttað, að hvað sem líði vangaveltum ríkissaksóknara um afturköllun fyrirkalls, að fyrir Hæstarétti sé til meðferðar mál ákæruvaldsins gagnvart dómfellda nr. 601/2015. Því geti ekki verið um það að ræða að með stjórnvaldsákvörðun endurupptökunefndar verði tekin ákvörðun um atriði sem með réttu beri að ljúka með dómi Hæstaréttar.
44. Dómfelldi telur lagaskilyrði endurupptöku stjórnsýsluúrskurðar samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga vera afskaplega skýr. Ákvæðið sé tvískipt, annars vegar lúti 1. töluliður 1. mgr. að endurupptöku stjórnvaldsákvarðana almennt og hins vegar 2. töluliður sem varði íþyngjandi boð eða bann sem hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin. Í 2. mgr. ákvæðisins sé síðan kveðið á um tímamörk. Einungis geti reynt á 2. tölulið 1. mgr. eins og mál þetta liggi fyrir. Samkvæmt þeim tölulið geti stjórnvaldsákvörðun verið tekin til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin og ekki meira en þrír mánuðir séu liðnir frá því aðila var kunnugt um hin breyttu atvik.
45. Þá ítrekar dómfelldi fyrri sjónarmið sín meðal annars um að ákvörðun endurupptökunefndar í máli nr. 17/2013 sé ekki íþyngjandi ákvörðun í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga, því fari víðs fjarri enda ekki íþyngjandi í skilningi ákvæðisins gagnvart ákæruvaldinu.
46. Dómfelldi ítrekar fyrri sjónarmið sín sem fram hafi komið í athugasemdum í bréfi, dags. 29. maí 2017, um að heimildir endurupptökunefndar til endurskoðunar á ákvörðun sinni í máli nr. 17/2013 takmarkist af þeirri meginreglu að stjórnvaldi sé almennt óheimilt að endurskoða stjórnvaldsákvarðanir til óhags fyrir aðila og ætti því ákvörðun endurupptökunefndar að standa óbreytt þar sem hún hafi verið ívilnandi fyrir dómfellda.
VII. Erindi endurupptökunefndar til málsaðila
47. Með bréfi dagsettu 18. desember 2017 óskaði endurupptökunefnd, með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 628/2015, eftir sjónarmiðum aðila til mögulegrar afturköllunar á úrskurði nefndarinnar í máli nr. 17/2013 á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga. Sjónarmið aðila bárust nefndinni með bréfum, dags. 28. desember 2017 og 9. janúar 2018, þar sem ríkissaksóknari taldi rök standa til slíkrar afturköllunar en dómfelldi taldi skilyrði þess ekki vera fyrir hendi.
VIII. Niðurstaða
48. Kveðinn var upp úrskurður í máli nr. 17/2013 fyrir endurupptökunefnd þann 5. ágúst 2015 vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 168/2002, ákæruvaldið gegn Sigurði Guðmundssyni og fleirum, sem kveðinn var upp 3. apríl 2003. Leyst var úr málinu á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála eins og lögin voru á þeim tíma. Endurupptökunefnd komst að þeirri niðurstöðu að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála væri fullnægt með hliðsjón af niðurstöðu matsgerðar dómkvadds undirmatsmanns sem aflað hafði verið og umsagnar réttarmeinafræðings um þá matsgerð.
49. Ríkissaksóknari hefur farið þess á leit að úrskurður endurupptökunefndar verði endurupptekinn og honum breytt þannig að endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 168/2002 verði hafnað. Byggir ríkissaksóknari kröfu sína um endurupptöku málsins á 24. gr. stjórnsýslulaga.
50. Fyrir liggur að ríkissaksóknari hefur gefið út fyrirkall, dagsett 6. júlí 2015, vegna endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002 og mun málið hafa verið skráð hjá Hæstarétti 10. september 2015 og það fengið málsnúmerið 601/2015. Lögmaður dómfellda mun hafa verið skipaður verjandi hans í málinu. Samkvæmt gögnum málsins hefur hæstaréttarmálið enn ekki verið þingfest. Af hálfu ríkissaksóknara hefur þess verið krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti vegna dóms réttarins í máli nr. 628/2015, ákæruvaldið gegn Hannibal Sigurvinssyni. Sú krafa mun ekki hafa verið tekin til úrlausnar fyrir Hæstarétti.
51. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. dómstólalaga nr. 50/2016, sbr. einnig 1. mgr. 34. gr. þágildandi dómstólalaga nr. 15/1998, er endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd. Núverandi meðferð sakamálsins fyrir Hæstarétti hefur ekki útilokandi áhrif (litis pendens), líkt og dómfelldi byggir á, enda lýtur sú regla að því að vísa beri dómsmáli frá dómi ef annað dómsmál er þegar rekið um sama sakarefni á milli sömu aðila. Þeirri aðstöðu er ekki til að dreifa í máli þessu. Ekki eru því efni til að vísa beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku málsins frá nefndinni af þessum sökum.
52. Beiðni ríkissaksóknara er reist á því að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga, um endurupptöku fyrri ákvörðunar nefndarinnar, sé fullnægt með vísan til fyrirliggjandi matsgerða dómkvaddra yfirmatsmanna sem dagsettar eru 16. september og 5. október 2016. Jafnframt byggir ríkissaksóknari á því að fyrir liggi í málinu gögn um rýrðan trúverðugleika undirmatsmannsins, sbr. dóm bresks dómstóls frá 3. nóvember 2016, en ákvörðun endurupptökunefndar byggði meðal annars á niðurstöðu undirmatsmannsins.
53. Skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga eru svohljóðandi:
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.
54. Úr því hefur verið leyst fyrir Hæstarétti að þó endurupptökunefnd sé að lögum fengin viðfangsefni sem varða úrlausn dómsmála, sbr. til dæmis XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála, þá er, eins og áður segir, kveðið á um í 1. mgr. 54. gr. dómstólalaga nr. 50/2016, sbr. 1. mgr. 34. gr. þágildandi dómstólalaga nr. 15/1998, að endurupptökunefnd sé sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem þannig heyrir undir framkvæmdavald ríkisins. Gilda því ákvæði stjórnsýslulaga um málsmeðferð fyrir endurupptökunefnd þar sem að lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og málsmeðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála sleppir eftir atvikum, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga.
55. Þegar horft er til málatilbúnaðar ríkissaksóknara í máli þessu reynir á það hvort skilyrðum 1. eða 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga er fullnægt.
56. Ríkissaksóknari vísar til þess að efnisskilyrðum 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. sé fullnægt þannig að fyrir liggi gögn sem varpi ljósi á að úrskurður endurupptökunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
57. Til þess að til skoðunar geti komið hvort skilyrðum 1. töluliðar 24. gr. er fullnægt verður sú grundvallarforsenda að liggja fyrir að brugðist sé við innan þeirra fresta sem afmarkaðir eru í 2. mgr. 24. gr. Óumdeilt er að meira en þrír mánuðir voru liðnir, er ríkissaksóknari beiddist endurupptöku úrskurðar endurupptökunefndar þann 9. maí 2017, frá því að honum hafði verið tilkynnt um úrskurð endurupptökunefndar sem kveðinn var upp 25. júní 2015. Samkvæmt 2. mgr. verður beiðni um endurupptöku ekki tekin til greina, að liðnum þremur mánuðum frá tilkynningu ákvörðunar, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Dómfelldi samþykkir ekki beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku og verður hún því ekki tekin til greina á þeim grundvelli, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
58. Að mati endurupptökunefndar eru engar forsendur til að líta svo á að úrskurður endurupptökunefndar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 168/2002 feli í sér íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann gagnvart embættinu, í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Verður því ekki fallist á endurupptöku málsins á þeim grundvelli.
59. Með vísan til framangreinds er beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga hafnað.
60. Kostnaður dómfellda, samtals 775.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 231. gr. laga um meðferð sakamála.
61. Úrskurður í máli þessu hefur dregist vegna skipunar nefndarinnar.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku máls endurupptökunefndar nr. 17/2013 er hafnað.
Kostnaður dómfellda, 775.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Haukur Örn Birgisson formaður
Valborg Þ. Snævarr
Þórdís Ingadóttir