Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 9/2019

Hinn 17. desember 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2019:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. S-226/2016

Ákæruvaldið

gegn

Friðriki Ottó Friðrikssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.  Beiðni um endurupptöku

  1. Með erindi, dags. 9. maí 2019, hefur Friðrik Ottó Friðriksson farið þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-226/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 12. desember 2016, verði endurupptekið.
  2. Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.

    II. Málsatvik

  3. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, sem kveðinn var upp 12. desember 2016, var endurupptökubeiðandi fundinn sekur um hylmingu með því annars vegar að hafa keypt átta málverk á tímabilinu 7. apríl 2012 til febrúarloka 2013 og í samverknaði með ónafngreindum manni haft þau í vörslum sínum og þannig haldið þeim frá réttmætum eiganda þrátt fyrir að vera ljóst eða mátt vera ljóst að þeim hefði verið stolið í innbroti sem framið var 8. apríl 2012. Með dóminum var endurupptökubeiðandi jafnframt fundinn sekur um að hafa keypt Porsche 911 Carrera bifreið á tímabilinu frá 18. janúar 2013 til febrúarloka 2013 og hafa í samverknaði ásamt áðurnefndum manni haft bifreiðina í vörslum sínum og þannig haldið henni frá réttmætum eiganda hennar þrátt fyrir að vera ljóst eða mátt vera ljóst að bifreiðinni hefði verið stolið í innbroti sem hefði verið framið á tímabilinu 18. til 20. janúar 2013. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði. Þá þótti fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til að refsa ákærða eftir íslenskum lögum þótt brot hans hefðu verið framin erlendis. Í umfjöllun um ákvörðun refsingar endurupptökubeiðanda var rakinn sakaferill endurupptökubeiðanda og tekið fram að samkvæmt sakavottorði, ætti hann nokkurn sakaferil að baki. Var endurupptökubeiðanda dæmdur hegningarauki með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga vegna eldri dóms. Þá var honum gert að greiða allan sakarkostnað.
  4. Í héraðsdómi var tekið fram að endurupptökubeiðandi hafi ekki mætt við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru 26. nóvember 2016 ásamt fyrirkalli þar sem þess hafi verið getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið væri því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
  5. Með beiðni til endurupptökunefndar, dags. 24. mars 2017, óskaði endurupptökubeiðandi eftir endurupptöku héraðsdómsmálsins. Með úrskurði endurupptökunefndar í máli 11/2017, sem kveðinn var upp 23. nóvember 2017, var beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmálsins hafnað. Endurupptökubeiðandi höfðaði í kjölfarið mál á hendur íslenska ríkinu o.fl. þar sem hann krafðist þess að úrskurður endurupptökunefndar yrði felldur úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1513/2018, sem var kveðinn upp 6. maí 2019, var úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 11/2017 felldur úr gildi. Dóminum var ekki áfrýjað.

    III. Grundvöllur beiðni

  6. Í endurupptökubeiðni er vísað til þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi fellt fyrri úrskurð endurupptökunefndar úr gildi, þar sem endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-226/2016, var hafnað. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að taka þurfi ákvörðun í málinu að nýju og leysa úr því meðal annars með tilliti til forsendna héraðsdóms í málinu nr. E-1513/2018 og á grundvelli fyrri endurupptökubeiðni sinnar. Því til viðbótar byggir endurupptökubeiðandi á því að endurupptaka málsins sé heimil á grundvelli b. liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, enda megi ætla að lögregla hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem urðu og það hafi verið til þess fallið að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að þeim lögreglumanni sem tók við birtingu ákæru fyrir utan lögheimili hans hafi borið að koma afriti ákæru í hendur endurupptökubeiðanda, að viðlagðri sekt, en það hafi hann ekki gert. Bendir endurupptökubeiðandi á að lögreglumaðurinn hafi verið mættur fyrir utan lögheimili sitt eingöngu í þeim tilgangi að taka við fyrirkalli og ákæru. Fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála hafi ekki verið fylgt í kjölfar birtingarinnar. Hafi þessi háttsemi lögreglumannsins komið í veg fyrir að endurupptökubeiðandi hafi fengið að njóta þeirra réttinda, þar með talið réttarins til réttlátrar málsmeðferðar, sem kveðið sé á um í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
  7. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að með dómi héraðsdóms hafi nú verið staðfest að framangreindur ágalli á meðferð málsins hafi verið verulegur og til þess fallinn að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Þá bendir endurupptökubeiðandi á að í sakamálinu hafi það ekki verið dómari sem dæmdi hann, heldur löglærður aðstoðarmaður dómara, en engin heimild sé til staðar í lögum fyrir slíkri meðferð máls. Telur endurupptökubeiðandi því skilyrði b., c. og d. liðar 228. gr. laga um meðferð sakamála vera uppfyllt.
  8. Endurupptökubeiðandi fer þess á leit við endurupptökunefnd að Sara Pálsdóttir, lögmaður, verði skipuð sem lögmaður hans til að gæta réttar hans fyrir nefndinni og að endurupptökunefnd ákveði þóknun vegna starfs hennar fyrir nefndinni, sbr. 230. gr. laga um meðferð sakamála.

     

    IV. Viðhorf gagnaðila

  9. Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 24. júní 2019, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á.
  10. Í umsögninni er vísað til dóms Landsréttar í máli nr. 303/2018, sem upp var kveðinn þann 12. október 2018. Í því máli hafi birting ákæru farið fram með sambærilegum hætti og í máli endurupptökubeiðanda. Í málinu hafi Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu að lögmæt birting ákæru hafi ekki farið fram og því hafi ekki verið skilyrði til að leggja dóm á málið að ákærða fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála. Hafi hinn áfrýjaði dómur því verið ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
  11. Með vísan til þessa telur ríkissaksóknari að ágallar hafi verið á birtingu fyrirkalls ákæru í máli endurupptökubeiðanda. Hins vegar telur ríkissaksóknari, með vísan til forsendna endurupptökunefndar í máli nr. 11/2017, að þessir ágallar hafi ekki verið til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu málsins í skilningi d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Þá telur ríkissaksóknari að endurupptökubeiðandi hafi ekki sýnt fram á það með rökstuddum hætti að framangreindir ágallar hafi verið til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Sé því alls óvíst hvort skilyrði d. liðar 1. mgr. 228. gr. sé uppfyllt í málinu. Að mati ríkissaksóknara eiga aðrir stafliðir ákvæðisins ekki við í málinu. Að öðru leyti vísar ríkissaksóknari til umsagnar sinnar til endurupptökunefndar, dags. 16. maí 2017, í máli nr. 11/2017.

    V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

  12. Í bréfi endurupptökubeiðanda, dags. 22. ágúst 2019, koma fram athugasemdir hans við umsögn ríkissaksóknara.
  13. Endurupptökubeiðandi mótmælir umsögn ríkissaksóknara og vísar til þess að umsögnin verði ekki skilin öðruvísi en að endurupptökunefnd eigi að virða að vettugi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1513/2018. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að dóminum hafi ekki verið áfrýjað, heldur hafi stefndu, þ.m.t. ríkissaksóknari, ákveðið að una honum og því sé endurupptökunefnd bundin af dóminum.

    V. Niðurstaða

  14. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 211. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn geti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.
  15. Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:
    1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
  16. Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  17. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1513/2018, sem kveðinn var upp þann 6. maí 2019, var úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 11/2017 felldur úr gildi. Í dóminum segir meðal annars svo:

    “Í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 er það gert að skilyrði fyrir uppkvaðningu útivistardóms í refsimáli að ákærða hafi verið löglega birt ákæra og þess getið að mál kunni að vera dæmt að honum fjarstöddum. Eins og fyrr greinir var ákæra birt á lögheimili stefnanda fyrir lögreglumanni sem engin tengsl hafði við stefnanda, dvaldi ekki á lögheimili hans, og hittist þar ekki fyrir, heldur virðist hafa verið þar staddur eingöngu í þeim tilgangi að taka við fyrirkalli og ákæru. Þá verður að leggja til grundvallar að fyrirmælum  4. málsliðar 2. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið fylgt í kjölfar birtingar svo sem fram kemur í úrskurði stefndu endurupptökunefndarinnar. Lögmæt birting ákæru hafði samkvæmt framangreindu ekki farið fram þegar mál ákæruvaldsins var dómtekið á hendur ákærða og voru því ekki skilyrði til þess að leggja dóm á málið að ákærða fjarstöddum samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Landsréttar 12. október 2018 í máli nr. 303/2018.

    Samkvæmt framangreindu eru fram komnir gallar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Ákvæði 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 fela í sér frávik frá þeirri grunnreglu að ekki sé skorið úr um refsiverða háttsemi manna og þeim ákveðin refsing nema að undangenginni málsmeðferð þar sem þeim hefur verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum, sbr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og greininni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Þeir gallar á meðferð málsins sem hér er um að ræða voru þar af leiðandi verulegir og jafnframt til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu málsins fyrir dómi. Við meðferð máls stefnanda fyrir endurupptökunefndinni var því fullnægt skilyrði c. liðar 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eins og greininni hefur síðar verið breytt, og bar stefndu, að réttum lögum, að fallast á beiðni stefnanda.”

  18. Með vísan til tilvitnaðra forsendna í dómi héraðsdóms verður að leggja til grundvallar að uppfyllt sé skilyrði d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála til að endurupptaka héraðsdómsmálið nr. S-226/2016. Verður því fallist á beiðni endurupptökubeiðanda.
  19. Lögmaður endurupptökubeiðanda, Sara Pálsdóttir, var skipuð til að gæta réttar hans, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Kostnaður endurupptökubeiðanda 100.000 krónur auk virðisaukaskatts verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 231. gr. sömu laga.
  20. Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar nefndarmanns í endurupptökunefnd.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Friðriks Ottós Friðrikssonar um endurupptöku máls nr. S-226/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 12. desember 2016 er samþykkt.

Kostnaður endurupptökubeiðanda 100.000 krónur auk virðisaukaskatts greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

 

Haukur Örn Birgisson formaður

 

 

Gizur Bergsteinsson

 

 

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta