Mál nr. 26/2013
Hinn 8. júlí 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 26/2013:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. E-2858/2011
Den norske legeforening
gegn
Árna Jónssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með erindi dagsettu 17. desember 2013 fór Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl. þess á leit fyrir hönd Árna Jónssonar að mál nr. E-2858/2011, Den norske legeforening gegn Árna Jónssyni, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júlí 2011, yrði endurupptekið. Endurupptökubeiðnin var send gagnaðila og honum gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegri greinargerð um viðhorf sín til beiðninnar, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Gagnaðili varð ekki við því.
Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Með stefnu, dags. 9. júní 2011, var þess krafist að endurupptökubeiðandi yrði dæmdur til að greiða Den norske legeforening skuld að fjárhæð NOK 175.000 ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Skuldin var til komin vegna skuldabréfs er endurupptökubeiðandi gaf út til handa gagnaðila 25. júní 2001. Við þingfestingu málsins 30. júní 2011 var ekki sótt þing af hálfu endurupptökubeiðanda og var stefnan í kjölfarið árituð um aðfararhæfi dómkrafna gagnaðila auk málskostnaðar. Við þingfestingu málsins var meðal annars lagt fram birtingarvottorð, dags. 16. júní 2011.
III. Grundvöllur beiðni
Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði a-, b- og c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt í málinu.
Hvað varðar a-lið 1. mgr. 167. gr., þá byggir endurupptökubeiðandi á því að þeirri mikilvægu staðreynd hafi verið sleppt í stefnu í málinu að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 28. ágúst 2002 og skiptunum lokið 20. desember 2002. Í 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., eins og henni var breytt með lögum nr. 142/2010, sem tóku gildi 29. desember 2010, segi að hafi skiptum á þrotabúi verið lokið fyrir gildistöku laganna fyrnist kröfur, sem þar hafi ekki fengist greiddar og ekki séu fyrndar, á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Samkvæmt sama ákvæði verði fyrningu krafna aðeins slitið eftir lögunum. Því verði fyrningu krafna sem ekki hafi fengist greiddar við gjaldþrotaskipti ekki slitið nema gerð sé sérstök viðurkenningarkrafa um það í máli um að fyrningu verði slitið, sbr. 3. mgr. 165. gr. sömu laga. Þess háttar viðurkenningarkrafa hafi ekki verið höfð uppi í stefnunni og því sé ljóst að stefnan og áritun dómara á hana hafi ekki getað rofið fyrningu kröfunnar. Þá þurfi skilyrði fyrrgreindrar 3. mgr. 165. gr. að vera uppfyllt svo fallist verði á kröfuna. Þetta séu atriði sem dómari verði að sjálfsdáðum að gæta að, sbr. orðalagið að „[s]líka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi [...]“. Ljóst sé að skilyrðum ákvæðisins verði ekki fullnægt nema með sönnunarfærslu. Um sé að ræða málsatvik sem ekki hafi verið leidd réttilega í ljós. Gagnaðili hafi ekki tekið fram að bú endurupptökubeiðanda hefði verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Þá hafi gagnaðili ekki gert tilraun til að sýna fram á að hann hefði sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu. Að lokum hafi gagnaðili engar líkur leitt að því að fullnusta gæti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma hennar. Vegna þessa annmarka á reifun málsatvika hafi málið verið dæmt á röngum grundvelli. Það geti ekki staðist að dómari áriti stefnu í máli um aðfararhæfi dómkrafna án þess að hafa gætt að þessum skilyrðum.
Endurupptökubeiðandi vísar til b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og telur að framangreindar upplýsingar um gjaldþrotaskipti á búi hans muni leiða til breyttrar niðurstöðu í málinu þannig að endurupptökubeiðandi verði sýknaður af kröfum gagnaðila. Stefnan í málinu hafi ekki getað slitið fyrningu kröfu gagnaðila, sbr. gagnályktun af skýru ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa gagnaðila hafi því fyrnst í síðasta lagi 29. desember 2012 og sé því fyrnd í dag. Upplýsingar um gjaldþrotaskipti endurupptökubeiðanda muni því leiða til breyttrar niðurstöðu í málinu þannig að endurupptökubeiðandi verði sýknaður af kröfum gagnaðila.
Þá byggir endurupptökubeiðandi einnig sjálfstætt á því að stefna málsins hafi ekki verið löglega birt fyrir honum og geti því ekki hafa rofið fyrningu kröfu gagnaðila. Samkvæmt 2. mgr. 86. gr. laga um meðferð einkamála skuli stefnuvottur, þegar birt sé fyrir öðrum en stefnda, vekja athygli viðkomandi annars vegar á því hver athöfn sé að fara fram og hins vegar skyldum hans samkvæmt 3. málsgrein sömu greinar. Þetta virðist stefnuvottur hafa vanrækt þegar hann birti samrit stefnunnar í málinu fyrir viðtakanda. Þegar lögmaður endurupptökubeiðanda hafi haft samband við þann einstakling sem tók við stefnunni hafi hann engan veginn gert sér grein fyrir þeirri athöfn sem fram hafi farið. Þá hafi hann ekki kannast við að hafa verið upplýstur um skyldur sínar um að koma samriti stefnu í hendur stefnda að viðlögðum sektum. Það hafi verið sérstaklega mikilvægt að stefnuvottur gerði grein fyrir þessum atriðum í ljósi ungs aldurs viðtakanda, sem stefnuvottur hljóti að hafa gætt að. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi ekki farið fram lögmæt stefnubirting, sbr. að vissu leyti dómur Hæstaréttar í máli nr. 42/1996. Hafi það leitt til þess að ekki var sótt þing af hálfu endurupptökubeiðanda.
Þá telur endurupptökubeiðandi afar íþyngjandi að dæmdir hafi verið íslenskir dráttarvextir af kröfu í norskum krónum. Hefði gagnaðili viljað fá íslenska dráttarvexti hefði hann átt að gera kröfuna í íslenskum krónum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 224/2011.
Hvað varði skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála vísar endurupptökubeiðandi meðal annars til fyrri rökstuðnings um að stefna hafi ekki verið birt löglega í málinu. Þá telur endurupptökubeiðandi að líta verði til tómlætis gagnaðila sem hann hafi sýnt við innheimtu skuldabréfsins. Að lokum telur endurupptökubeiðandi stórfellda hagsmuni í húfi í málinu, þar sem höfuðstóll lánsins sé umtalsverður miðað við efnahag beiðanda. Honum hafi ekki verið kunnugt um málsúrslit fyrr en 6. desember 2013 og hafi því beiðni um endurupptöku ekki verið komið á framfæri fyrr.
IV. Niðurstaða
Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 168. gr. laganna skal endurupptökubeiðandi rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skulu gögn fylgja beiðni eftir þörfum.
Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:
-
sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
-
sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
-
önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
Öll framangreind skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo unnt sé að fallast á endurupptöku.
Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína meðal annars á því að stefnubirting hafi ekki verið lögmæt þar sem birting hafi ekki verið í samræmi við 2. mgr. 86. gr. laga um meðferð einkamála. Fyrir liggur að stefnan var birt af stefnuvotti sem er skipaður af sýslumanni til þess að annast birtingar, sbr. 81. gr. laga um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. sömu laga er birting stefnu lögmæt ef stefnuvottur vottar að hann hafi birt stefnu fyrir stefnda eða einhverjum sem er bær til að taka við henni í hans stað. Kveðið er jafnframt á um í 3. mgr. 87. gr. laganna að efni birtingarvottorðs skuli teljast rétt þar til það gagnstæða sannast.
Í dómsmálinu lá fyrir birtingarvottorð stefnuvotts um stefnubirtingu. Samkvæmt vottorðinu, og er það óumdeilt, var stefnan birt tilteknum einstaklingi á lögheimili endurupptökubeiðanda þann 16. júní 2011. Engar athugasemdir eru skráðar á birtingarvottorð. Fullyrðingar endurupptökubeiðanda um ólögmæti birtingarinnar eru ekki studdar neinum gögnum sem skjóta stoðum undir málatilbúnað hans. Eins og mál þetta liggur fyrir hefur endurupptökubeiðanda ekki tekist að sýna fram á að stefnubirting hafi verið með þeim hætti að framangreind skilyrði endurupptöku a- eða b-liðar 1. mgr. 167. gr. komi til álita á þessum grundvelli.
Þá telur endurupptökubeiðandi að sterkar líkur séu leiddar að því málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ekki hafi komið fram í gögnum málsins að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 28. ágúst 2002. Samkvæmt áskilnaði a-liðar 1. mgr. 167. gr. verður málsástæðu á þessum grundvelli einungis borið við ef aðilanum verður ekki kennt um það. Endurupptökubeiðandi mætti ekki við þingfestingu dómsmálsins þrátt fyrir lögmæta birtingu stefnu á hendur honum og málið var því dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði gagnaðila að því leyti sem hann samrýmdist framkomnum gögnum, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að upplýsingar hafi legið fyrir dóminum sem leitt hefðu til frávísunar málsins án kröfu. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er því ekki uppfyllt.
Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a-liðar og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og beiðni um endurupptöku héraðsdómsmálsins E-2858/2011 er því synjað.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni Árna Jónssonar um endurupptöku héraðsdómsmáls E-2858/2011, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júlí 2011, er hafnað.
Ragna Árnadóttir formaður
Björn L. Bergsson
Þórdís Ingadóttir