Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 13/2015

Hinn 21. desember 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 13/2015:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 466/2013

Vélboði ehf.

gegn

Braga Ísleifi Guðlaugssyni og

Bragi Ísleifur Guðlaugsson

gegn

Vélboða ehf. og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

og kveðinn upp svohljóðandi 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 1. október 2015, óskaði Valgeir Kristinsson hrl. fyrir hönd Vélboða ehf. eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 466/2013 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 17. desember 2013.

Endurupptökubeiðanda var gefinn kostur á að rökstyðja nánar hvernig öll skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væru uppfyllt, sbr. bréf endurupptökunefndar dagsett 26. október 2015. Svar barst frá endurupptökubeiðanda dagsett 6. nóvember 2015.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Sigurður Tómas Magnússon.

II. Málsatvik

Gagnaðili, Bragi Ísleifur Guðlaugsson, höfðaði mál þetta og krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda endurupptökubeiðanda vegna líkamstjóns sem gagnaðili varð fyrir 11. október 2010 er hann missti meðvitund vegna eituráhrifa ofan í tanki mykjudreifara sem verið var að smíða. Gagnaðili var starfsmaður endurupptökubeiðanda og var við störf á vinnustað sínum þegar slysið átti sér stað. Hann krafðist þess jafnframt að viðurkenndur yrði réttur hans til bóta úr slysatryggingu launþega, sem endurupptökubeiðandi hafði á slysdegi hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að miða yrði við að gagnaðili hefði farið ofan í tankinn í því skyni að gegna þar vinnu sinni þótt hann hefði ekki fengið um það bein fyrirmæli. Var talið að endurupptökubeiðandi hefði ekki farið að ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim og bæri því skaðabótaábyrgð á tjóni gagnaðila. Vegna stórkostlegs gáleysis gagnaðila, sem hafði ekki notað tiltækan öryggisbúnað, var hins vegar talið að hann skyldi bera tjón sitt að þriðjungi sjálfur. Þá var jafnframt viðurkenndur réttur gagnaðila til bóta úr slysatryggingu launþega að 2/3 hlutum með vísan til þess að gagnaðili hefði orðið fyrir utanaðkomandi eitrun örfáum mínútum eftir að hann fór ofan í tankinn og hefði því verið um slys að ræða í skilningi 8. gr. skilmála sem um vátrygginguna giltu, en Vátryggingafélag Íslands hf. þótti ekki hafa sýnt fram á að tiltekið undanþáguákvæði skilmálanna ætti við í málinu.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur öll skilyrði 169. gr., sbr. 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, vera fullnægt til endurupptöku málsins.

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að gagnaðili hafi leynt fíkniefnanotkun sinni og sagt ósatt um hana. Undir rekstri málsins fyrir héraði og í Hæstarétti hafi verið borið á gagnaðila að hann hefði látið undan fíkn sinni í vímu þegar hann hafi farið ofan í tank mykjudreifara sem hafi skömmu áður verið sprautaður að innan með rokgjörnum tektylefnum. Þær ásakanir hafi stuðst við frásögn þriðja aðila en gagnaðili hafi neitað þeim auk þess sem hann hafi komið í veg fyrir að blóðsýni úr honum færi í rannsókn vegna þessa. Af hálfu endurupptökubeiðanda er á því byggt að það hafi verið fyrirsláttur og uppspuni að gagnaðili hafi farið ofan í dreifarann til að vinna. Ef upplýsingar um fíkniefnanotkun gagnaðila hefðu legið fyrir undir rekstri málsins hefði málið farið í allt annan farveg. Því séu sterkar líkur á að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar og aðilum verði ekki kennt um það, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Einnig telur endurupptökubeiðandi að ný gögn og sönnun um fíkniefnanotkun gagnaðila kollvarpi skýringum hans á förinni niður í tankinn þar sem hann varð fyrir eiturgufunum. Fram hafi komið í læknisfræðilegum gögnum sem matsgerð tilkvaddra matsmanna byggðist á að gagnaðili hafi átt við fíknivanda að stríða sem hafi falist í kannabisreykingum um langt árabil áður en slysið átti sér stað. Þá velti þessi sönnunargögn sönnunarbyrðinni á gagnaðila þannig að frásögn hans geti vart talist trúverðug. Endurupptökubeiðandi telur að játning gagnaðila á vímuefnanotkun ein og sér leiði ekki til breyttrar niðurstöðu, heldur opni hún á frekari sönnunarfærslu og líkindi á áhættuhegðun fíkilsins. Þá þurfi að meta áhættuhegðun gagnaðila sem fíkils við þær aðstæður sem hann hafi nýtt sér þegar slysið varð. Samkvæmt framansögðu séu sterkar líkur leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Að endingu telur endurupptökubeiðandi að stórfelldir hagsmunir aðila séu í húfi og þar með séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála uppfyllt, en gagnaðili hafi nú stefnt endurupptökubeiðanda vegna umrædds tjóns og krafið hann um 28.638.928 krónur auk vaxta frá 10. október 2010.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Í máli þessu byggir endurupptökubeiðandi á því að upplýsingar um fíkniefnaneyslu af hálfu gagnaðila hafi fyrst komið fram að gengnum dómi Hæstaréttar en fjallað sé um hana í matsgerð matsmanna sem gagnaðili og Vátryggingafélag Íslands hf. hafi óskað eftir. Þar með sé komið fram nýtt sönnunargagn sem á hafi skort þegar málið var til meðferðar fyrir héraði og Hæstarétti. Gagnaðili hafi að auki þrætt fyrir vímuefnanotkun í skýrslu fyrir dómi.

Fyrir liggur í forsendum héraðsdóms að endurupptökubeiðandi hafi haldið uppi málsástæðu þess efnis að gagnaðili kunni að hafa verið að sækjast eftir vímu þegar hann fór ofan í tankinn. Málsástæðunni var hafnað alfarið enda ekkert að mati héraðsdóms komið fram sem styddi það. Endurupptökubeiðandi greinir frá því að af hálfu gagnaðila hafi verið neitað að leggja fram í málinu gögn um blóðsýni sem tekið var úr honum á slysdegi og ekki hafi reynst unnt að afla þeirra beint frá sjúkrahúsinu vegna trúnaðar um þau. Gögn þessi telur endurupptökubeiðandi hafa getað varpað ljósi á vímuefnaneyslu af hálfu gagnaðila sem endurupptökubeiðandi telur skýra framgöngu hans og hvers vegna hann hafi farið ofan í mykjudreifarann í umrætt sinn.

Því er slegið föstu af héraðsdómi að ekkert liggi fyrir um vímuefnanotkun gagnaðila á þeim tíma þegar slysið átti sér stað. Fyrirliggjandi upplýsingar í matsgerð um kannabisneyslu á undangengnum árum áður en gagnaðili lenti í slysi því sem varð tilefni málsóknar fela ekki í sér einar og sér að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós við meðferð málsins. Er því ekki fullnægt skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós. Þótt svo yrði talið hefði endurupptökubeiðanda verið í lófa lagið að afla gagna til þess að tryggja að málsatvik yrðu leidd réttilega í ljós í þessum efnum, væri misbrestur þar á. Endurupptökubeiðandi nýtti þannig ekki úrræði X. kafla laga um meðferð einkamála til að afla þeirra gagna sem hann telur gagnaðila hafa dregið dul á við meðferð málsins fyrir dómi. Fullnægir beiðni um endurupptöku þannig ekki lokaorðum a- liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Eins og áður er getið varpar fyrirliggjandi matsgerð ekki ljósi á málsatvik á slysdegi með tilliti til hugsanlegrar vímuefnaneyslu og er þegar af þeirri ástæðu ekki fullnægt skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Áréttað skal að í b-lið er skírskotað til nýrra gagna sem fyrir liggi sem grundvöllur endurupptöku. Endurupptaka verður ekki reist á því að frekari gagnaöflun kynni að leiða í ljós ný gögn sem kynni að verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Þar sem hvorki skilyrðum a- eða b- liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er fullnægt er beiðni um endurupptöku hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. sömu laga.

Úrskurðarorð

Beiðni Vélboða ehf. um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 466/2013, sem kveðinn var upp 17. desember 2013, er hafnað.

 

Björn L. Bergsson formaður

  

Elín Blöndal

 

Sigurður Tómas Magnússon

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta