Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár

YFIRMATSMENN

samkvæmt lögum um

lax- og silungsveiði nr. 76/1970

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár

I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat

Hinn 3. júlí 1996 luku þeir Vífill Oddsson verkfræðingur og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Norðurlands vestra 26. júlí 1995. Í endurriti úr þingbók héraðsdóms kemur fram, að við gerð arðskrár skuli matsmennirnir einnig "meta bætur til þeirra landeigenda sem orðið hafa fyrir skaða vegna nýrra ákvæða í lax- og silungsveiðilögum sem fyrirmuna þeim að nýta veiðirétt þann sem þeir hafa haft sbr. 96. gr. lax- og silungsveiðilaga".

Með bréfi 29. júlí 1996 skaut stjórn veiðifélagsins þessu arðskrármati til yfirmatsmanna samkvæmt lögum nr. 76/1970. Í bréfinu kemur fram, að matið hafi verið kynnt veiðiréttareigendum á fundi 14. sama mánaðar. Þar hafi nokkrir þeirra sett fram þá ósk að yfirmat færi fram. Er erindi stjórnar veiðifélagsins nægilega snemma fram komið, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Í samráði við yfirmatsmenn boðaði stjórn Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 6. ágúst 1997 í Staðarflöt. Eigendur eða umboðsmenn flestra jarða í félaginu komu til fundarins, þar sem kynnt var starfstilhögun yfirmatsmanna. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. október 1997.

Umboðsmenn eða eigendur veiðiréttar eftirgreindra jarða lýstu viðhorfum sínum varðandi skiptingu arðskrár og bætur vegna veiðiskerðingar á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Hrútatungu, Fjarðarhorns, Óspaksstaða, Mela og Grænumýrartungu, Valdasteinsstaða, Staðar og Brandagils og Bálkastaða II.

Að loknum fundi og viðtölum voru kannaðar aðstæður við Hrútafjarðará og Síká. Var það gert með þeim hætti að formaður stjórnar veiðifélagsins fylgdi yfirmatsmönnum um svæðið að ytri mörkum friðunarsvæðis utan áróss og fram að ólaxgengum fossum í báðum ánum.

Á fundinum og í framhaldi af honum hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá eigendum Hrútatungu og Fjarðarhorns. Meðal gagna málsins liggur einnig greinargerð frá eiganda Hvalshöfða til undirmatsmanna. Þá hefur verið leitað margskonar upplýsinga um matsefnið hjá formanni stjórnar veiðifélagsins. Loks áttu yfirmatsmenn fund með Sigurði Má Einarssyni, Veiðimálstofnun, 2. mars 1998.

III

Um Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár

Félagið heitir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár og starfar samkvæmt samþykkt nr. 3/1953, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 7. janúar 1953.

Í 1. gr. samþykktarinnar segir, að félagssvæðið sé Hrútafjarðará að Réttarfossi, Síká að næsta fossi fyrir ofan Gránes og Miklagil að neðsta fossi. Í 3. gr. er því lýst, að félagsmenn séu allir ábúendur jarða á félagssvæðinu, en það eru:

  1. Vegna Hrútafjarðarár: Brandagil, Staður, Hrútatunga, Óspaksstaðir, Grænumýrartunga, Melar, Fjarðarhorn, Landsími Íslands v/ símstöðvar og Gilhagi.
  2. Vegna Síkár: Bálkastaðir, Foss og Hrútatunga.
  3. Vegna Miklagils: Grænumýrartunga og Gilhagi.

Samkvæmt upplýsingum stjórnar veiðifélagsins féll sjálfstæð félagsaðild símstöðvar út á síðasta áratug, án þess að samþykktinni hafi þó verið breytt. Hafi Melar yfirtekið rétt hennar og skyldur. Jörðunum Hvalshöfða og Valdasteinsstöðum hafi verið metnar bætur vegna veiðimissis á friðunarsvæði eftir 1970 með hlutdeild í arðskrá. Hafi staða þeirra eftir það verið í reynd eins og þær ættu aðild að félaginu, án þess þó að ákvörðun í þá veru hafi verið færð í fundargerðabók eða samþykkt fyrir félagið breytt.

Ekki er gert ráð fyrir í samþykktinni að hliðarár, sem renna í hinn laxgenga hluta Hrútafjarðarár og Síkár, séu hluti af félagssvæðinu, en það eru Grjótá, Ormsá, Selá og Býskálaá. Miklagils er áður getið.

Í 2. gr. samþykktarinnar er verkefnum félagsins lýst svo, að það skuli auka fiskgengd í ánum með þeim ráðum, sem henta á hverjum tíma og vinna að því að viðhalda góðri fiskgengd í þeim og leigja þær til stangarveiði. Félagið tekur til allrar veiði á félagssvæðinu. Heimilt er að aðskilja Hrútafjarðará og Síká til leigu og skal þá hvor þeirra hafa sína raunverulegu réttu leigu.

Í 8. gr. samþykktarinnar segir, að arði af veiði hvorrar ár, Hrútafjarðarár og Síkár, skuli skipt niður á félagsmenn eftir arðskrám, sem samþykktar séu á aðalfundi af eigendum veiðiréttar í hvorri á. Er þeim, sem telur sig vanhaldinn við skiptingu arðs, heimilt að krefjast mats samkvæmt ákvæðum laga um lax- og silungsveiði. Félagsmenn greiða gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð.

IV.

Leigusamningur um veiði

Með samningi 21. ágúst 1995 seldi veiðifélagið á leigu veiðiréttindi í Hrútafjarðará og Síká til og með ársins 2000. Áður höfðu árnar verið leigðar með samningi 13. janúar 1994 til tveggja ára. Skal núgildandi samningur endurskoðaður í lok veiðitímabils 1998. Náist ekki samkomulag við þá endurskoðun er hvorum aðila heimilt að segja honum upp fyrir 10. nóvember sama árs.

Ársleiga fyrir báðar árnar og veiðihús er 5.500.000 krónur. Hækki framfærsluvísitala um meira en 5% skal hækkun umfram það bætast við leigufjárhæðina. Veiðitímabilið er 1. júlí til 20. september ár hvert. Er heimilt að veiða með þrem stöngum allt veiðitímabilið. Verði þriðja stöngin notuð í meira en 60 daga á ári skal leigutaki greiða fyrir þau not samkvæmt sérstöku samkomulagi.

Leyfileg veiðitæki eru fluga, maðkur og einnig spónn í Maríubakkahyl og fyrir neðan hann. Leigutaka er heimilt að ákveða að einungis megi veiða með flugu, þó þannig að maðkur verði jafnframt leyfður í Síká.

Sérstaklega er samið um 100.000 króna greiðslu leigutaka fyrir viðhald á veiðihúsi. Hann greiðir einnig rafmagn að hálfu.

V.

Gögn til afnota við matsstörf

Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

  1. Beiðni um yfirmat
  2. Arðskrármat undirmatsmanna 3. júlí 1996
  3. Samþykkt Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár
  4. Loftmynd af félagssvæðinu, þar sem veiðistaðir, bæjarnöfn og landamerki hafa verið færð inn á. Einnig friðunarsvæði og miðpunktur óslínu í sjó
  5. Staðfesting veiðiréttareigenda á landamerkjum
  6. Leigusamningar um Hrútafjarðará og Síká dags. 13. janúar 1994 og 21. ágúst 1995
  7. Sjö rannsóknarskýrslur Veiðimálastofnunar varðandi Hrútafjarðará og Síká, gefnar út á tímabilinu 1981-1997
  8. Kort fyrir veiðimenn með merktum veiðistöðum
  9. Greinargerð eiganda Hrútatungu til yfirmatsmanna
  10. Greinargerð eiganda Fjarðarhorns til yfirmatsmanna
  11. Yfirlýsing Jóhanns Sæmundssonar og Pálma Sæmundssonar 12. 10. 1995 um mælingu á landlengd Fjarðarhorns að ósasvæði
  12. Yfirlit um laxveiði í Hrútafjarðará og Síká 1992-1997 (bæði ár meðtalin), skipt eftir einstökum veiðistöðum
  13. Yfirlit um laxveiði í Hrútafjarðará og Síká 1986-1995 (bæði ár meðtalin), skipt eftir einstökum veiðistöðum
  14. Dómkvaðning undirmatsmanna 26. júlí 1995
  15. Greinargerð eiganda Hvalshöfða til undirmatsmanna
  16. Fundargerðir undirmatsmanna 11. október 1995 og 29. maí 1996 og fundarboð 21. maí 1996

VI.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar

Áður er þess getið, að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum.

Hvalshöfði:

Í bréfi eiganda jarðarinnar til undirmatsmanna er því lýst, hvernig stækkun friðunarsvæðis utan óslínu hafi skert möguleika á silungsveiði í net fyrir landi jarðarinnar. Meðan heimilt var að veiða fyrir allri strandlengjunni hafi veiðin verið 50-70 silungar á ári. Við stækkun friðunarsvæðis (þ.e. 1970) hafi hún minnkað um meira en helming. Í undirmati er nánar lýst sjónarmiðum, sem eigandi jarðarinnar hafi munnlega reifað, m.a. um áhrif stækkunar friðunarsvæðis 1994 í 1500 metra utan við óslínu í sjó, en friðunarsvæði er nú fyrir öllu landi jarðarinnar.

Valdasteinsstaðir:

Jörðin liggur vestan Hrútafjarðar, gegnt Hvalshöfða. Á fundi með yfirmatsmönnum skýrði eigandi hennar hvernig friðunarsvæði liggur nú að henni, en það sé nú fyrir u.þ.b. 1.250 metrum af landi hennar og þar með mestöllu landi jarðarinnar. Silungsveiði var áður stunduð, einkum á vorin, og var góð búbót en var ekki sérstaklega skráð.

Fjarðarhorn:

Eigandi jarðarinnar lýsti viðhorfum sínum munnlega og skriflega fyrir yfirmatsmönnum. Samkvæmt skýringum hans er friðunarsvæði fyrir u.þ.b. 250 metrum af landi jarðarinnar norðan við óslínu í sjó. Hann taldi ekki réttmæta lækkun á hlutdeild óssins í arði, sem orðið hefði með undirmati. Þá lýsti hann sig ósammála þeim viðhorfum, sem komið hefðu munnlega fram hjá undirmatsmönnum, að taka ekki tillit til bakkalengdar í ósnum, þ.e. út að óslínu í sjó. Einnig sé of lítið vitað um afla af netaveiði í hluta ósasvæðisins, meðan hún var enn stunduð, til að grundvalla mat eingöngu á tapaðri veiði.

Þá yrði að hafa í huga að sjávarbleikja, sem áður var veidd í ósnum og friðunarsvæði, væri mun betri matvara en eldis- eða vatnafiskur. Almenn verðlækkun, sem orðið hefði á silungi, gæti ekki verið viðmiðun í þessu efni. Þá þurfi verðbreytingar á silungi að hafa varað nokkuð lengi til að geta haft áhrif á matið. Verðmætisauki, sem leiði af því að fá silunginn í ána í stað þess að veiða hann í ósnum, eigi að einhverju leyti að koma þeim til góða, sem land eigi að ósnum.

Hann vakti loks athygli á, að tveir menn hefðu mælt bakkalengd jarðarinnar haustið 1995 fyrir veiðifélagið. Hefði niðurstaðan, sem hann telur rétta, verið afhent undirmatsmönnum.

Staður og Brandagil:

Talsmaður eigenda þessara jarða lýsti sig sáttan við undirmat. Sá galli sé þó á, að hugsanlega sé Síká of lágt metin. Hann taldi rétta þá niðurstöðu undirmats að taka tillit til bleikjuveiði. Sú veiði sé einkum nyrst í landi Staðar, en lítið í landi Brandagils. Þessi veiði sé leigð með annarri veiði í ánni.

Melar og Grænumýrartunga:

Þrír talsmenn eigenda jarðanna skýrðu viðhorf sín fyrir yfirmatsmönnum. Bent var á, að jarðirnar væru mikilvægar fyrir vatnsbúskap Hrútafjarðarár, en þrjár hliðarár (Miklagil, Selá og Ormsá) renni fyrir löndum þeirra. Þeir lögðu jafnframt áherslu á vægi bakkalengdar við matið.

Hrútatunga:

Af hálfu eiganda þessarar jarðar var lögð fram skrifleg greinargerð og sjónarmið jafnframt skýrð munnlega. Greinargerð hans var jafnframt afhent öðrum viðstöddum á fundi með yfirmatsmönnum 6. ágúst 1997, sem áður er getið. Var réttmæti undirmats fyrst og fremst vefengt með vísan til þess að vægi bakkalengdar væri þar vanmetið og veiði jafnframt gefið of hátt vægi. Um hið síðarnefnda var tekið fram, að tilviljun réði einatt um það, að hvaða veiðistöðum sóknarþungi veiðimanna beindist. Aðrir veiðistaðir væru þá afskiptir. Almennt hafi veiði fengið minna vægi í arðskrármati en hér hafi orðið raun á í undirmati.

Hann taldi hrygningarskilyrði vera ofmetin, en var samþykkur hlutdeild silungsveiði í matinu, sem og ósasvæðis.

Þá gerði hann athugasemdir við niðurstöðu undirmats um mun á Hrútafjarðará og Síká, sem hann taldi of mikinn. Ekki sé tekið tillit til þess að fiskur á leið í Síká geti veiðst neðan ármóta, sem teljist þar með til veiði í Hrútafjarðará. Ekki sé heldur tekið tillit til þess að hitastig Síkár sé allnokkru hærra en Hrútafjarðarár. Hlutur Síkár sé því vanmetinn.

Hann tók loks fram, að hann gerði ekki athugasemdir við skiptingu undirmatsmanna á veiði í ármótahyl milli Hrútatungu og Staðar.

Óspaksstaðir:

Talsmaður jarðarinnar útskýrði veiðistaði fyrir yfirmatsmönnum og lýsti sig sáttan við niðurstöðu undirmats.

VII.

Skipting arðs. Almennt.

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæði. Þar segir: "Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."

Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár skal arði og gjöldum af veiði í hvorri á skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Við síðustu matsgerðir hefur arði verið skipt í einingar miðað við að samanlagður fjöldi þeirra í báðum ánum sé 1000. Verður sá háttur einnig hafður á nú. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um, hvernig einingar skiptist milli þeirra þátta, sem í framangreindri lagagrein getur.

VIII.

Landlengd

Í undirmatsgerð kemur fram, að veiðiréttareigendur hafi samþykkt 29. maí 1996 að matsmenn skyldu meta landlengd eftir loftmynd, sbr. 4. lið í upptalningu gagna í V. kafla að framan. Landamerki eru færð inn á myndina og eru óumdeild. Metrafjölda fyrir landi hverrar jarðar samkvæmt þessari mælingu er getið í undirmatinu, og á það jafnt við um árnar sjálfar, ósasvæði og friðunarsvæði utan þess.

Þessi mæling hefur í raun verið vefengd gagnvart yfirmatsmönnum af hálfu eigenda tveggja jarða við ós og friðunarsvæði, þ.e. Fjarðarhorns og Valdasteinsstaða. Það hafa þeir gert með því að lýsa áliti um metrafjölda fyrir landi sinna jarða, sem fellur ekki að öllu leyti saman við mælinguna. Allnokkru skeikar á mælingu undirmatsmanna annars vegar og hins vegar mælingu, sem gerð var haustið 1995 fyrir landi Fjarðarhorns. Hefur eigandi jarðarinnar lýst því að hann telji þá mælingu rétta. Eigandi Valdasteinsstaða hefur einnig talið friðunarsvæði fyrir sinni jörð lítið eitt lengra en mæling undirmatsmanna segir fyrir um. Þess skal loks getið að í yfirmati, sem fram fór 1985, er að finna tölur í tengslum við ákvörðun óslínu í sjó, sem ekki falla að öllu leyti saman við mælingu á landlengd nú.

Ekki hafa fengist ótvíræðar skýringar á þeim mun, sem er á niðurstöðum tveggja mælinga fyrir landi Fjarðarhorns. Ekki er heldur víst að niðurstaða mælingar frá 1995 hafi verið lögð fyrir undirmatsmenn, en hún finnst ekki í gögnum þeirra og er ekki getið í fundargerð. Þar eð sú mæling, sem gerð var haustið 1995, fór fram á staðnum með vettvangsgöngu en hin eftir loftmynd, þykir varlegra að leggja hina fyrrnefndu til grundvallar, en jarðareigandi telur hana rétta. Að öðru leyti verður í yfirmati byggt á áðurnefndri mælingu undirmatsmanna á landlengd á félagssvæðinu.

Ágreiningslaust er að miða skuli áfram við óslínu í sjó, eins og hún var ákveðin með yfirmati 1985.

Áður er fram komið, að í samþykkt fyrir veiðifélagið er þess ekki getið, að hliðarár séu hluti af félagssvæðinu. Landlengd þeirra hefur ekki verið mæld og engar óskir hafa verið settar fram um það við yfirmatsmenn. Verður að svo vöxnu ekki tekið tillit til þeirra við skiptingu arðskrár nú. Þetta á þó ekki við um Miklagil, sbr. síðar.

Við úthlutun eininga fyrir bakkalengd hafa yfirmatsmenn í öðrum tilvikum miðað við að landlengd nái allt að óslínu í sjó. Er það gert án tillits til þess í hve ríkum mæli sýnileg kennileiti eru fyrir hendi hverju sinni, sem afmarka ósasvæðið sem slíkt, svo sem land, rif, sker eða útfiri. Slík sýnileg kennileiti til að afmarka ós fram að staðfestri óslínu í sjó, eru í tilviki Hrútafjarðarár færri en oft endranær. Samræmis vegna er engu að síður talið rétt að miða hér við að landlengd nái allt að óslínu í sjó, en að henni ná mörk félagssvæðisins. Samkvæmt því verður fallist á framkomna kröfu þar um, en það hefur einkum áhrif á rétt Fjarðarhorns og Brandagils.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú, að hæfilegt sé að 315 einingar samtals skuli skiptast milli landeigenda í samræmi við landlengd að Hrútafjarðará og Síká. Við skiptingu þeirra skulu 43 einingar falla til Síkár, en 272 til Hrútafjarðarár, þ.m.t. tveggja ósjarða, sbr. umfjöllun um það að framan. Við ákvörðun á hlut hvorrar ár er meðal annars litið til þess að vatnsmagn í Síká er mun minna en í Hrútafjarðará. Á þessu gerðu undirmatsmenn nokkra athugun sjálfir, sem þykir mega líta til. Þá getur Síká orðið vatnslítil í langvarandi þurrkum. Að auki er ljóst af öllum aðstæðum á vettvangi, að Síká býður síður upp á að þar sé stunduð fluguveiði en Hrútafjarðará. Einstökum vatnsbökkum við Hrútafjarðará verður gefið jafnhátt vægi frá óslínu í sjó að Réttarfossi. Hið sama gildir um bakka Síkár frá ármótum að Síkárfossi.

IX.

Aðstaða til stangarveiði.

Í IV. kafla að framan er getið um leigusamninga um Hrútafjarðará og Síká og í V. kafla eru taldar upp skýrslur, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi árin 1986-1997 að báðum meðtöldum. Hafa veiðst samtals 3878 laxar á því tímabili, eftir því sem næst verður komist. Þar eru einnig upplýsingar um nöfn veiðistaða. Við yfirmat nú verður höfð hliðsjón af veiði allt þetta tímabil.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 415 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Af þessum einingum koma 10 fyrir silungsveiði og falla þær allar til Staðar. Landamerki eru óumdeild og er glögglega merkt inn á loftmynd hvaða jörðum einstakir veiðistaðir tilheyra. Skipting undirmatsmanna á afla úr veiðistað á mótum Hrútafjarðarár og Síkár á milli Staðar og Hrútatungu hefur ekki verið vefengd.

X.

Uppeldis og hrygningarskilyrði.

Í upptalningu gagna í V. kafla að framan er í 7. tölulið getið skýrslna, er stafa frá Veiðimálastofnun og varða uppeldis- og hrygningarskilyrði. Rannsóknir stofnunar-innar voru gerðar á árunum 1979-1997. Hafa yfirmatsmenn jafnframt átt fund með sérfræðingi Veiðimálastofnunar og fengið nánari skýringar.

Vegna þessa þáttar telja yfirmatsmenn hæfilegt að 185 einingar komi til úthlutunar. Af rannsóknarskýrslum er ljóst, að skilyrði eru að þessu leyti afar misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánum er litið. Á grundvelli skýrslnanna hafa yfirmatsmenn við úthlutun þessara eininga skipt ánum í fimm kafla eða svæði, þar sem einstökum köflum er gefið vægi á mælikvarða frá 0,3-1,0. Þessir kaflar frá hinum lakasta að þeim besta eru í eftirgreindri röð:

  1. Hrútafjarðará neðan ármóta
  2. Hrútafjarðará frá ármótum að brú
  3. Síká ofan brúar að Síkárfossi
  4. Hrútafjarðará frá brú að Miklagili
  5. Hrútafjarðará frá Miklagili að Réttarfossi
  6. Síká frá ármótum að brú.

Jafnframt verður tekið tillit til þess að vatnsmagn í Hrútafjarðará er meira en í Síká. Þá verður litið til þess að á nokkrum kafla á svæði nr. 4 að ofan er botngerð einkum klöpp, sem rýrir gildi þess.

XI.

Ós og friðunarsvæði.

Við skiptingu arðskrár er jafnan tekið tillit til þess að sérstakar hömlur eru lagðar við allri veiði í árós. Hið sama á hér við um friðunarsvæði. Verður svo og gert nú.

Við meðferð málsins nýtur ekki glöggra heimilda um netaveiði í ósnum, meðan þær voru enn heimilar og er misjafnt hve miklar upplýsingar jarðeigendur hafa gefið um veiði fyrir sinni jörð. Hið sama á einnig við um veiði norðan við ósasvæði, þar sem síðar varð friðunarsvæði og veiðar bannaðar með lögum 1970 og aftur 1994, er friðunarsvæði var stækkað. Við meðferð málsins fyrir undirmatsmönnum var þó sérstaklega leitað upplýsinga um þetta með bókun á fundi með veiðiréttareigendum 29. maí 1996. Nokkurra upplýsinga nýtur þó við að því er Hvalshöfða varðar, sbr. VI. kafla að framan. Sá þáttur undirmats, sem lýtur að bótum fyrir stækkun friðunarsvæðis, er til endurskoðunar fyrir yfirmatsmönnum, eins og aðrir liðir þess.

Að því er varðar kröfur eiganda Hvalshöfða um sérstakar bætur fyrir veiðimissi við stækkun friðunarsvæðis með lögum nr. 63/1994 var það niðurstaða undirmatsmanna, að yfirmatsmenn hafi við skiptingu arðskrár árið 1985 tekið tillit til þess að jörðin hafði þá misst þær silungsveiðilagnir, sem hún áður nýtti í sjó. Þar með hafi í mati verið tekið tillit til þess tjóns, sem eigandi Hvalshöfða varð fyrir við að missa umræddar lagnir og jörðinni verið metin hlutdeild í arðskrá í samræmi við það. Töldu undirmatsmenn það ekki leiða til nýs tjóns umfram það, sem þegar hafði verið metið, þótt jörðin hafi nú misst aðstöðu til að nýta lögn, sem tekin var í notkun í stað lagnar, sem áður hafði verið metin til bóta, hvort sem lög hafi heimilað jarðeiganda að taka upp nýja lögn með þessum hætti eða ekki. Stækkun friðunarsvæðis 1994 fyrir landi Hvalshöfða gefi því ekki tilefni til að ætla jörðinni sérstakar bætur heldur skuli eins og 1985 taka tillit til þess að jörðin hafi misst lagnir sínar í sjó vegna friðunarákvæða laga. Þessari niðurstöðu eru yfirmatsmenn sammála og verður hún lögð til grundvallar.

Almennt hefur verð fyrir lax og silung, sem veiddur er í net, lækkað. Verður ekki hjá því komist að líta til þess við skiptingu arðskrár nú, en engra sérstakra upplýsinga nýtur í málinu um verðlag á sjóbleikju og þar með hvort það hafi breyst síðari ár á einhvern annan hátt en á öðrum netafiski.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 52 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Við úthlutun þeirra verður einkum litið til fyrirliggjandi upplýsinga um aðstöðu og ástundun veiði fyrir hverri jörð, en um það er ekki við annað að styðjast en það, sem getur í VI. kafla að framan þar sem sjónarmið einstakra veiðiréttareigenda eru rakin.

XII.

Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs.

Enn er ógetið tveggja atriða, sem tekið verður tillit til við úthlutun arðs af veiði.

Ofan hins laxgenga hluta beggja ánna eru mikilvægar uppeldisstöðvar, sem nýttar hafa verið með seiðasleppingum. Hefur um 5000 sumaröldum seiðum verið sleppt þar árlega síðustu árin auk nokkurs fjölda haustseiða. Verður ráðið af rannsóknarskýrslum, að nokkuð stöðugt hlutfall veiddra laxa sé til komið síðustu ár af þessum ástæðum. Þykir hæfilegt að úthluta alls 30 einingum til landeigenda þar. Verður þeim skipt þannig, að 20 einingar falla til Hrútafjarðarár en 10 til Síkár.

Fosssel er utan veiðifélagsins. Ekki hefur annað komið fram en að sátt sé um þá niðurstöðu undirmatsmanna að veita jörðinni ekki hlutdeild í þessum einingum og ekki heldur þeim hluta Hrútatungu, sem á land gegnt Fossseli. Mun veiðifélagið semja við þessa landeigendur sérstaklega um greiðslu fyrir seiði, sem þar er sleppt.

Af hliðarám kemur Miklagil eitt til álita varðandi skiptingu arðskrár, sbr. að framan, en neðst í því er nokkur kafli laxgengur. Rannsóknarskýrslur benda eindregið til að bæði hrygningar- og uppeldisskilyrði séu þar sérstaklega léleg. Er áin mjög köld, næringarsnauð og botn hennar að stórum hluta klöpp. Telst hæfilegt að samtals 3 einingum verði úthlutað vegna Miklagils, þ.m.t. vegna bakkalengdar.

XIII.

Niðurstöður.

Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Verður þannig ekki tekin til greina krafa eigenda Mela um að sérstakt tillit verði tekið til mikils vatnsframlags jarðarinnar. Eru engin gögn fyrir hendi til að móta skiptingu arðskrár á nokkurn hátt með hliðsjón af þessu atriði og er kröfunni þegar af þeirri ástæðu hafnað.

Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár ber kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 1998. Arðskrá fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár skal vera svo sem greinir í XIV. kafla hér á eftir.

XIV.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár.

Jarðir. einingar

1. Brandagil 36,1

2. Staður 156,4

3. a. Hrútatunga v. Hrútafjarðarár 112,3

3. b. Hrútatunga v. Síkár 74,5

4. Óspaksstaðir 184,2

5. Gilhagi 79,3

6. Grænumýrartunga 71,1

7. Melar 142,2

8. Fjarðarhorn 39,4

9. Bálkastaðir I og II 51,0

10. Foss 23,5

11. Hvalshöfði 16,0

12. Valdasteinsstaðir 14,0

Samtals: 1000,00

 

Reykjavík, 9. mars 1998

 

Gunnlaugur Claessen 

Þorsteinn Þorsteinsson

Sveinbjörn Dagfinnsson

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta