Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Langár

YFIRMATSMENN

samkvæmt lögum um

lax- og silungsveiði nr. 76/1970

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Langár

I.

Beiðni um yfirmat

Hinn 8. maí 1995 luku þeir Bjarni Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður og Gísli Ellertsson bóndi á Meðalfelli mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Langár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Vesturlands 4. október 1994.

Þessu arðskrármati hafa nokkrir veiðiréttareigendur skotið til yfirmats. Hafa þeir ýmist gert það fyrir milligöngu stjórnar Veiðifélags Langár eða komið óskum sínum þar um beint til yfirmatsmanna. Þau bréf, sem fyrir liggja um þetta, eru frá eftirgreindum aðilum:

  1. Ingva Hrafni Jónssyni vegna Stangarholts, dags. 19. maí 1995.

  2. Sigurjóni Jóhannssyni oddvita f.h. Borgarhrepps vegna afréttarlands, dags. 6. júní 1995.

  3. Einar Jóhannessyni vegna Jarðlangsstaða, dags. 20. júní 1995.

  4. Einari Ole Pedersen oddvita f.h. Áltaneshrepps vegna afréttarlands, dags. 4. júlí 1995.

  5. Vífli Oddssyni og Einari Ole Pedersen oddvita Álftaneshrepps vegna Grenja og Jósef Reynis og Gunnari Má Haukssyni vegna Litla-Fjalls, dags. 6. júlí 1995.

II.

Beiðni um yfirmat varðandi ósasvæði.

Vettvangsganga. Afturköllun beiðni.

Stjórn Veiðifélags Langár ritaði yfirmatsmönnum bréf 20. júní 1995. Þar var þess getið, að ágreiningur væri milli stjórnarinnar og eigenda veiðijarða við ósasvæði árinnar, þ.e. Lambastaða og Rauðaness um það, hvernig staðið skyldi að mælingu friðunarsvæðis við ósinn skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 76/1970, sbr. lög nr. 63/1994 um breyting á þeim lögum, en með þeim var friðunarsvæði vegna netaveiða og ádráttar í sjó við ós straumvatns fært úr 1000 metrum í 1500 metra við tilteknar aðstæður. Samþykkt hafi verið samhljóða á aðalfundi veiðifélagsins 6. maí 1995 að láta þann ágreining ganga til úrskurðar yfirmatsmanna. Með erindi stjórnarinnar fylgdi ljósrit af fundargerð aðalfundarins. Er þar bókað, að samþykkt hafi verið samhljóða svofelld tillaga stjórnar: Væntanlegt yfirmat við Langá skeri úr því hvort breyting hafi orðið á réttindum varðandi netalagnirnar á Lambastöðum og í Rauðanesi við þær breytingar, sem gerðar voru á lax- og silungsveiðilögum árið 1994.

Rétt þótti að leiða þennan ágreining til lykta áður en yfirmat á arðskrá kæmi til umfjöllunar. Vettvangsganga með yfirmatsmönnum fór fram við ósinn 26. nóvember 1995 að undangenginni nokkurri gagnaöflun. Kom þá í ljós, að ekki var fyrir hendi samstaða allra þeirra, sem hlut áttu að máli um að fela yfirmatsmönnum verkið án þess að áður færi fram undirmat, en sammæli allra er forsenda þess að gengið verði fram hjá undirmati, sbr. 4. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970. Voru því dómkvaddir undirmatsmenn, og skiluðu þeir mati 7. mars 1996 um ákvörðun óss í sjó og friðunarsvæði fyrir ósi Langár. Því mati skaut bæði Jóhannes Guðmundsson, Ánabrekku og stjórn Veiðifélags Langár til yfirmatsmanna með bréfum 1. maí 1996. Með bréfi 29. júlí 1996 voru þessar beiðnir afturkallaðar. Framangreind matsgerð 7. mars 1996 um óslínu er því endanleg.

III.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Langár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 28. september 1996 í veiðihúsinu við Sjávarfoss. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða: Lambastaða, Ánabrekku, Háhóls, Leirulækjar, Jarðlangsstaða, afréttarlands, Hvítsstaða, Grenja, Rauðaness, Stangarholts og Litla Fjalls.

Á fundinum var starfstilhögun yfirmatssmanna kynnt. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var öllum gefinn kostur á að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist fyrir 1. febrúar 1997. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Sigurbjörn Garðarsson vegna Leirulækjar. Rósa Viggósdóttir vegna Rauðaness. Einar Ole Pedersen oddviti og Sigurjón Jóhannsson oddviti vegna afréttarlands, en Einar mætti einnig vegna Grenja og Hvítsstaða, sem Álftaneshreppur á hlut í. Helgi Hálfdánarson vegna Háhóls. Ragnheiður Jóhannesdóttir og Stefán Ólafsson vegna Brekkuness, sem er afbýli frá Ánabrekku og í eyði.

Að loknum fundi og viðtölum voru kannaðar aðstæður við Langá. Var það gert með þeim hætti, að leiðsögumenn fylgdu yfirmatsmönnum um svæðið frá miðlunarstíflu við Langavatn og niður úr. Fylgdi Vífill Oddsson yfirmatsmönnum um efsta svæðið (svæði 3), Ingvi Hrafn Jónsson um miðsvæðið (svæði 2) og Jóhannes Guðmundsson um neðsta svæðið (svæði 1).

Í framhaldi af þessum fundi hafa yfirmatsmönnum borist minnisblöð eða greinargerðir frá talsmönnum eftirgreindra jarða: Ánabrekku (með fylgiskjölum), Stangarholts (með fylgiskjölum), Jarðlangsstaða, Háhóls, Leirulækjar, Lambastaða (með fylgiskjölum) og afréttarlands. Að auki hefur borist greinargerð vegna Brekkuness (með fylgiskjölum).

Eftir þetta var leitað eftir andsvörum vegna nokkurra þeirra skriflegu greinargerða, sem að framan getur. Af því tilefni bárust á tímabilinu mars-maí 1997 athugasemdir frá talsmönnum þessara jarða: Langárfoss, Ánabrekku, Háhóls, Hvítsstaða og einnig frá talsmönnum Grenja og Litla Fjalls (með fylgiskjölum frá Veiðimálastofnun).

Þá átti formaður nefndarinnar fund í Reykjavík haustið 1996 með talsmanni Langárfoss um matsefnið að ósk hins síðarnefnda, en hann átti þess ekki kost að sækja áðurnefndan fund í september sama árs. Þá hefur verið leitað margskonar upplýsinga um matsefnið hjá formanni stjórnar veiðifélagsins. Loks áttu yfirmatsmenn fund í Borgarnesi 16. maí 1997 með Sigurði Má Einarssyni, Veiðmálastofnun.

IV.

Um Veiðifélag Langár

Félagið heitir Veiðifélag Langár og Urriðaár og starfar samkvæmt samþykktum nr. 268/1973, sem staðfestar voru af landbúnaðarráðherra 25. ágúst 1973. Leysti það af hólmi fiskræktarfélag, sem stofnað var 1959. Samkvæmt 9. grein samþykktanna starfar félagið í tveim deildum, þ.e. Langárdeild og Urriðaárdeild. Skal hvor deild sjá um sérmál sín og ráðstöfun á veiði á sínu félagssvæði. Hvor deild skal innbyrðis kjósa sér stjórn, en þriggja manna stjórn félagsins er kosin á aðalfundi. Skulu formenn deildanna ætíð eiga sæti í stjórn félagsins. Með því að arðskrármat það, sem hér er til endurskoðunar, tekur einungis til Langár, er félagsins í yfirmatsgerð þessari aðeins getið sem Veiðifélags Langár.

Í 2. gr. samþykktanna kemur fram, að félagið (Langárdeild) nái til allra jarða, sem land eiga að Langá frá miðlunarstíflu við Langavatn að ósi í sjó, svo og fiskgengum lækjum, sem í hana falla. Eftirgreindar jarðar í Borgarhreppi eiga þar aðild: Rauðanes, Ánabrekka, Jarðlangsstaðir, Stangarholt, Litla Fjall og afréttarland (Borgarhreppur). Í Álftaneshreppi: Lambastaðir, Leirulækur, Langárfoss, Háhóll, Hvítsstaðir, Grenjar og afréttarland (Álftaneshreppur). Í samþykktunum er einnig getið Árbæjar, sem var byggður út úr Hvítsstaðalandi, en hefur verið sameinaður þeim á ný og telst með þeim í arðskrá.

Í 3. grein samþykktanna er verkefnum félagins og deilda þess lýst svo, að það skuli stunda fiskrækt og viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæðinu og ráðstafa veiði á þann hátt sem aðalfundur ákveður, sbr. þó 44. gr. laga nr. 76/1970. Félagið tekur til allrar veiði á félagssvæðunum.

Í 8. gr. samþykktanna er svofellt ákvæði: "Arði og gjöldum varðandi félagssvæðin skal skipt niður á félagsmenn skv. arðskrá".

V.

Rekstur einstakra veiðisvæða.

Leigusamningur um veiði

Um langt skeið hefur veiði og útleigu árinnar verið hagað með þeim hætti, að hvert hinna þriggja svæða hefur verið rekið sem sérstök eining, óháð hinum svæðunum. Hafa veiðiréttareigendur ýmist sjálfir haft með höndum sölu veiðileyfa og rekstur veiðihúsa, stundað veiðina sjálfir eða gert leigusamning til skamms tíma um veiði á umræddu svæði. Til neðsta svæðisins teljast Ánabrekka og Langárfoss, til miðsvæðisins teljast Jarðlangsstaðir, Stangarholt, Háhóll og Hvítsstaðir, en til efsta svæðisins Grenjar, Litla Fjall og afréttarland. Ekki hefur verið veitt í gamlar netalagnir Leirulækjar, Ánabrekku og Langárfoss neðan við Sjávarfoss, og er stangarveiði ekki stunduð þar. Eru þær metnar til eininga í arðskrá veiðifélagsins. Hið sama á við um þær netalagnir Lambastaða og Rauðaness, sem eru innan óslínu Langár eða friðunarsvæðis.

Á þessu fyrirkomulagi um aðskilinn rekstur veiðisvæðanna varð fyrst breyting með gerð leigusamnings haustið 1994, en þá var áin í fyrsta sinn boðin út í einu lagi og gerður einn sameiginlegur leigusamningur fyrir öll veiðisvæðin. Gildir hann fyrir árin 1995-1997 að báðum meðtöldum. Ársleiga er 12.500.000 krónur, verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu (ágúst 1994). Fari heildarveiði í ánni sumarið 1995 yfir 1.100 laxa skal leigugjald sumarið 1996 hækka um 1000 krónur fyrir hvern veiddan lax árið áður umfram áðurnefnd viðmið. Sama regla gildir vegna leigugreiðslu árið 1997. Leigusali annast seiðasleppingar, rekstur laxastiga og laxateljara og sér um veiðivörslu.

Alls er leyft að veiða með tólf stöngum í einu í Langá. Skiptast þær þannig, að á neðsta svæði eru fimm stangir, á miðsvæði fjórar en þrjár á efsta svæðinu.

VI.

Gögn til afnota við matsstörf

Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

  1. Beiðnir um yfirmat (áður getið)

  2. Fundargerð aðalfundar Veiðifélags Langár 6. maí 1995

  3. Ljósmyndir og loftmyndir af ósasvæði

  4. Matsgerð vegna ákvörðunar óss í sjó og friðunarsvæðis fyrir ósi Langár, dags. 7. mars 1996 ásamt teikningu

  5. Arðskrármat undirmatsmanna 8. maí 1995

  6. Samþykktir Veiðifélags Langár

  7. Skýrsla um mælingu á bökkum Langár, dags. 6. júlí 1969 (Bjarni Arason)

  8. Leigusamning um Langá, dags. 9. október 1994

  9. Veiðmálastofnun: Veiði í Langá 1986-1994, skipt eftir svæðum (bréf til undirmatsmanna, dags. 22. mars 1995)

  10. Veiðimálastofnun: Fjöldi veiddra laxa árið 1974-1995 í laxveiðiám landsins

  11. Kort yfir veiðistaði fyrir landi Grenja og Litla Fjalls (3. jan. 1995)

  12. Yfirlit um veiði á einstökum veiðistöðum fyrir landi Grenja og Litla Fjalls 1976-1995 (Vífill Oddsson, 12. febrúar 1996)

  13. Sama og nr. 12, endurbætt. Árinu 1996 aukið við

  14. Yfirlit um veiði á einstökum veiðistöðum fyrir landi Langárfoss og Ánabrekku 1993 og 1994 (Runólfur Ágústsson, 23. október 1994)

  15. "Veiði á neðsta svæði Langár samanborið við heildarveiði á árunum 1964-1969 og 1986-1995" (ómerkt og ódagsett).

  16. Greinargerðir, minnisblöð og andsvör nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (áður getið)

  17. Greinargerðir eða minnisblöð eigenda eða talsmanna Langárfoss, Ánabrekku, Jarðlangsstaða, Hvítsstaða, Leirulækjar, Rauðaness, Lambastaða, Grenja og Litla Fjalls til undirmatsmanna

  18. Sigurður Már Einarsson: Rannsóknir á seiðasleppingum í Langá (Veiðimaðurinn 1991)

  19. Veiðimálastofnun: Upplýsingar um seiðasleppingar í Langá 1982-1994

  20. Yfirlit um veiði á einstökum veiðistöðum fyrir landi Ánabrekku og Langárfoss 1986-1995

  21. Gögn um rekstur teljara í Sveðjufossi 1994-1996 (með töfluritum)

  22. Gögn um veiði á einstökum veiðistöðum fyrir landi Jarðlangsstaða (gegnt Háhóli og Hvítsstöðum) 1990-1996

  23. Gögn um veiði 1995 - 1996 á efsta svæðinu

  24. Yfirlýsingar einstakra veiðimanna og leiðsögumanna um aðstöðu til veiði á hvorum bakka neðsta svæðisins

  25. Eldri matsgerðir vegna skiptingar arðskrár í Langá

  26. Bréf Vífils Oddssonar um veiðibækur á efsta svæðinu

  27. Veiðibækur 1986-1996.

  28. Bréf eigenda Ánabrekku og Langárfoss til undirmatsmanna um framkvæmdir á neðsta svæðinu

  29. Ýmsar skýrslur Veiðmálastofnunar um Langá, áður ónefndar, fyrir tímabilið 1975-1992 (Árni Ísaksson og Sigurður Már Einarsson)

  30. Skýrslur Veiðimálastofnunar um Langá 1995 og 1996 (Sigurður Már Einarsson)

  31. Skýrsla leigutaka um veiði í Langá 1926-1939.

VII.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar

Áður er þess getið, að allnokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum.

Rauðanes:

Talsmaður þessarar jarðar hefur skýrt viðhorf sín munnlega fyrir yfirmatsmönnum. Hafa fjórar netalagnir jarðarinnar í ánni, sem áður voru nýttar, verið metnar til eininga í arðskrá um alllangt skeið. Kom fram það sjónarmið, að of lágt væri metið. Sex lagnir, þ.e. svonefnd sjávarveiði, hefðu hins vegar verið nýttar þar til nýlega, er þær voru um tiltekinn tíma leigðar öðrum aðilum, sem tóku þær upp.

Lambastaðir:

Eigandi jarðarinnar hefur í skriflegri greinargerð til yfirmatsmanna lýst þeirri afstöðu, að einingum jarðarinnar eigi að fjölga. Fram kemur, að jörðin hafi upphaflega átt þrjár svokallaðar sjávarlagnir. Ein þeirra (við Landdeildarhöfða) hafi verið tekin af, er óslína árinnar var ákveðin framan við höfðann. Var hún þá metin til eininga í arðskrá, en síðan hafi hlutdeild hennar lækkað. Hinar tvær lagnirnar hafi lengst af verið leigðar af veiðifélagi árinnar hluta úr sumri, en nýttar af eiganda að öðru leyti.

Eigendur Lambastaða og Leirulækjar skiluðu sameiginlegri greinargerð til undirmatsmanna, þar sem þessi sjónarmið voru reifuð.

Leirulækur:

Eigandi jarðarinnar hefur munnlega og skriflega lýst því viðhorfi, að hann telji óeðlilegt að einingum hennar fækki, svo sem gerst hafi með undirmati. Engin stangarveiði er stunduð fyrir landi jarðarinnar, en netalagnir sem áður voru nýttar, hafi verið metnar til eininga í arðskrá. Hafi ein þeirra verið mjög gjöful, enda jafnan kölluð "Drápslögn".

Ánabrekka:

Eigandi þeirrar jarðar lagði fram greinargerð til undirmatsmanna, þar sem lýst er afstöðu til tveggja atriða. Í fyrsta lagi kemur fram, að ástæðu þess að hann hafi gerst aðili að beiðni um undirmat hafi verið sú að efsta svæði árinnar standi ekki undir þeim einingum, sem jörðum þar var úthlutað í síðasta mati. Ástæðan sé ofmat á þeim miklu framkvæmdum, sem þar voru gerðar og fólust í að gera fossa laxgenga, þ.m.t. Sveðjufoss. Þessar framkvæmdir hafi ekki staðið undir væntingum, sem til þeirra voru gerðar. Hvað varði vatnsmiðlun við Langavatn, þá hafi hún áhrif á alla ána, en þó mest á efsta hluta hennar, því vatnsleysi háði oft áður göngu laxins upp ána. Mikil hæð yfir sjó ofan Sveðjufoss valdi efalaust nokkru um, hve hægt gangi að byggja svæðið upp.

Í öðru lagi telur hann aðstöðu til veiða á neðsta svæðinu vera mun betri austan megin árinnar, þ.e. í landi Ánabrekku, en vestan megin. Á neðri hluta þessa svæðis hafi litlu eða engu verið raskað og áin þar í náttúrulegum farvegi. Vegir séu einkum á austurbakkanum og veiðimenn dragi um 80% aflans á land þeim megin. Austurbakki árinnar sé betur fallinn til stangarveiði en vesturbakkinn, og eigi það í raun við um allt svæðið frá Sjávarfossi að Sveðjufossi. Telur hann að taka eigi tillit til þessa við ákvörðun arðskrár og að meta eigi vægi hvors bakka í ljósi þessa.

Í greinargerðum til yfirmatsmanna eru áréttuð sjónarmið um betri aðstöðu til veiða af austurbakkanum. Lýst er vegarspottum þeim megin, sem sérstaklega eru nýttir af veiðimönnum. Þessir vegir hafi fallið til jarðarinnar, ýmist eftir vegabætur opinberra aðila eða sem bætur fyrir malartekju og jarðrask. Þeir hafi þannig ekki verið gerðir af öðrum eigendum veiðiréttar í ánni.

Hinum skriflegu greinargerðum til yfirmatsmanna fylgdi bréf eins erlends veiðimanns, sem veitt hefur á ári hverju frá 1974 á neðsta svæði Langár. Hefur hann haldið nákvæma dagbók um veiðiskap sinn, þ.á.m. hvar fiskur veiðist. Af 926 löxum, sem þessi maður hefur dregið á land, fengust 748 frá landi Ánabrekku en 178 frá landi Langárfoss. Þessum greinargerðum fylgdu einnig ljósrit bréfa nokkurra annarra veiðimanna og leiðsögumanna, sem áður höfðu verið send undirmatsmönnum, og styðja þau staðhæfingar um meiri veiði frá austurbakka en vesturbakka.

Þá er ítarlega fjallað um seiðabúskap í ánni. Þeirri skoðun er lýst, að í undirmati sé í of ríkum mæli tekið tillit til sjónarmiða eigenda Grenja og Litla Fjalls um mikilvægi efsta svæðisins fyrir seiðabúskap í ánni. Engin vísindaleg gögn styðji sjónarmið þeirra. Af skýrslu Veiðimálastofnunar á Vesturlandi 1995 megi sjá, að heildarþéttleiki seiða ofan og neðan Sveðju sé sveiflukenndur. Á 10 ára tímabili (1986-1995) sé hann meiri neðan Sveðju 6 ár og meðaltal þessara ára sé einnig lítið eitt hærrra neðan Sveðju en ofan. Bent er á, að það sé þó mat stofnunarinnar, að skilyrði til seiðaframleiðslu séu best allra efst í ánni (ofan Gljúfurár) og á neðsta svæðinu. Varðandi veiðiþátt arðskrármats á efsta svæði árinnar telur hann eðlilegt að tekið verði tillit til verðmætis veiði á hverju svæði. Verðmæti veiðinnar sé lítið á efsta svæðinu, sem einkum fáist í ágúst og september, en þá sé verð veiðileyfa mun lægra en í júní og einkum júlí. Er þetta nánar skýrt í sérstöku súluriti.

Sú skoðun er sett fram, að stöngum hafi verið fjölgað meira en svo að áin fái staðið undir því veiðiálagi, er því fylgir.

Brekkunes:

Á fund yfirmatsmanna komu eigendur Brekkuness, sem er afbýli í landi Ánabrekku, er þeir keyptu 1994. Var þeirri ósk lýst, að býlið verði sérmetið í arðskrá. Þessum tilmælum var ekki komið á framfæri við undirmatsmenn, og aðalfundur veiðifélagsins hafði ekki tekið afstöðu til umsóknar þeirra um aðild Brekkuness að félaginu. Þessu erindi var fylgt eftir með bréfi til yfirmatsmanna, sem fylgdi ljósrit af afsali og blað úr fasteignabók.

Langárfoss:

Eigandi þessarar jarðar sendi undirmatsmönnum ítarlega greinargerð. Í henni kemur fram eindregin gagnrýni á það, hve efsta svæði árinnar hafi verið metið hátt í arðskrá, sem hann telur að fái með engu móti staðist. Sá litli árangur, sem reynslan sýni að fengist hafi af miklum framkvæmdum á því svæði, renni enn frekari stoðum undir að um ofmat hafi verið að ræða í fyrri matsgerðum, sem þurfi að leiðrétta. Er ítarlega skýrt í greinargerðinni hvernig svæðið hafi komið inn með vaxandi þunga í fyrri matsgerðum, þegar svæðið opnaðist í áföngum. Að þessu leyti hafi verið lengst gengið í yfirmati 1976. Hlutur neðsta svæðisins hafi að sama skapi stöðugt lækkað í arðskrá, þrátt fyrir að það stæði eftir sem áður undir stærstum hluta bæði veiði og tekna, sem áin hafi fært eigendum sínum. Telur hann nú fullljóst, að svæðið standi ekki undir þeim væntingum, sem kostnaðarsamar framkvæmdir þar voru reistar á. Hvað varðar seiðabúskap telur hann rannsóknir styðja þá skoðun, að mun meiri afföll verði á seiðum eftir því, sem fjær dregur sjó, auk þess sem mikil hæð svæðisins yfir sjó og lægra hitastig vatnsins hljóti að hafa áhrif á verðmæti þess fyrir uppeldis- og hrygningarskilyrði. Þá er fjallað um afréttarsvæði hreppanna og sérstakri gagnrýni beint því, að þeim hafi verið metnar greiðslur fyrir veiðiréttindi í þeim hluta árinnar, sem sé laxlaus með öllu. Ekki sé rétt að taka neitt tillit til afréttarlandsins í arðskrá nema vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða, sem þó séu vissum annmörkum háð. Miðlun við Langavatn sé bæði í þágu Langár og Gljúfurár, og allt landsvæði hreppanna sé ofan ármóta Gljúfurár. Ekki sé réttlætanlegt að úthluta einingum til hreppanna sem einhvers konar "afgjaldi" fyrir miðlunina.

Áhersla er lögð á mikinn mun á verðmæti stangardaga á efsta og neðsta svæðinu. Í mati eigi að miða við tekjur af hlunnindum einstakra jarða. Það hljóti að leiða til að efsta svæðið verði stórlega lækkað í arðskrá.

Þá hefur eigandi Langárfoss sent yfirmatsmönnum athugasemdir um aðstöðu til veiða í tilefni greinargerða eiganda Ánabrekku. Telur hann þann málflutning einhliða og villandi. Ekki sé t.d. sjálfgefið að veiði tilheyri ákveðnum bakka, þó menn hefji veiði frá þeim sama bakka. Veiðimenn vaði gjarnan langt út í ána og kasti agni milli landa. Þetta segi ekkert til um, hvoru megin miðstrengs í ánni fiskurinn taki agnið. Þá er því lýst, að veiði fyrir landi jarðarinnar hafi í hartnær 30 ár verið stunduð í samstarfi við eiganda Ánabrekku. Í þessu langa samstarfi hafi ekki verið talin þörf á að leggja slóða upp með ánni að vestanverðu. Kröfur eiganda Ánabrekku nú um að taka tillit til aðstöðumunar jarðanna til veiða séu nýjar af nálinni, en ekkert hafi breyst að þessu leyti varðandi aðstöðu til veiða í langan tíma.

Fyrir liggur sameiginlegt bréf eigenda Ánabrekku og Langárfoss til undirmatsmanna dags. í nóvember 1994. Þar segjast þeir að gefnu tilefni vilja taka fram, að full samvinna hafi verið um allar framkvæmdir fyrir löndum jarðanna við Langá í rúman aldarfjórðung. Allar framkvæmdir væru jafnt til hagsbóta fyrir báðar jarðirnar. Hafi þeir aldrei litið svo á, að með þessum aðgerðum væri verið að bæta veiðistaði til hags fyrir aðra jörðina en ekki hina. Hið sama gildi um viðhalda vega og slóða o.fl.

Háhóll:

Eigandi þessarar jarðar kom á fund yfirmatsmanna og lýsti veiðstöðum fyrir landi jarðarinnar, sem er gegnt Jarðlangsstöðum. Óskað var eftir að réttmætt tillit yrði tekið til mikils afla, sem áin gefur á þessu svæði.

Í andsvari til yfirmatsmanna við greinargerð eiganda Jarðlangsstaða var mótmælt misjöfnu vægi árbakkanna. Í því sambandi var þess getið, að eigandi Jarðlangsstaða hefði í langan tíma fyrir 1995 haft veiði Háhóls á leigu og þess vegna séð um aðstöðu fyrir landi beggja jarðanna.

Jarðlangsstaðir:

Yfirmatsmönnum barst bréf frá eiganda þessarar jarðar. Óskar hann þess sérstaklega, að meira tillit verði tekið til veiðiaðstöðu vegna stangarveiði, en fram komi í undirmatsgerð að ekkert tillit sé tekið til þess af hvorum bakka veiði sé stunduð. Eigi Jarðlangsstaðir land á móti Háhól og Hvítsstöðum, en nær öll veiðin fari fram á austurbakkanum, enda séu góðir vegir þeim megin. Er þess krafist að tillit verði tekið til þessa, sbr. 50. gr. laga nr. 76/1970. Þá sé landlengd gefið of lítið vægi í undirmati, en uppeldis- og hrygningarskilyrðum of mikið.

Í greinargerð hans til undirmatsmanna var lýst þeirri skoðun, að allt svæðið ofan Sveðjufoss væri í arðskrá nú of hátt metið og alveg sérstaklega afréttarlandið. Hlutur Jarðlangsstaða og Háhóls væri hinsvegar of lítill.

Hvítsstaðir:

Talsmaður eiganda hluta jarðarinnar kom á fund yfirmatsmanna. Var hann ósáttur við að jörðin hafi lækkað í undirmati, auk þess sem sú lækkun sé ekki í takt við breytingar, sem gerðar voru á hlut þeirrar jarðar, sem á bakkann á móti Hvítsstöðum. Óskað var leiðréttingar á þessu. Í bréfi hans til undirmatsmanna er þess getið, að kostnaður við lagfæringu á veiðistöðum hafi verið greiddur að hálfu af eigendum jarðarinnar. Var þetta áréttað í andsvari til yfirmatsmanna vegna greinargerðar eiganda Jarðlangsstaða. Vegna jafnrar skiptingar á kostnaði væri óeðlilegt að meta vægi árbakkanna ekki jafnt.

Stangarholt:

Yfirmatsmönnum bárust tilskrif frá talsmanni eigenda þessarar jarðar. Með þeim fylgdu gögn um rekstur teljara í Sveðjufossi 1994-1996 auk margra töflurita um göngu fisks á efsta svæði árinnar, stærð fisks o.fl. Í þessum skrifum koma fram margskonar upplýsingar um mið- og efsta svæði árinnar, en höfundur þeirra hefur stundað útleigu til veiðimanna á miðsvæði Langár í samstarfi við nágranna sína allt frá 1978 og efsta svæðinu frá 1995, eftir að gerður var einn leigusamningur um alla ána.

Sú skoðun kemur fram, að góð seiðaframleiðsla sé á öllu efsta svæðinu upp fyrir ármót Langár og Gljúfurár. Forsenda ætti því að vera fyrir öflugri laxagengd á svæðið, sem hafi þó ekki gerst. Rannsóknir sýni mikil afföll á niðurgönguseiðum, líklega vegna fossa og flúða, en að auki ryðji áin sig þar efra með miklum hamförum. Vatnshiti sé 2-3 gráðum lægri efst en á neðsta svæði. Aðeins hafi gerst tvisvar frá 1980 að veiðst hafi meira en 200 laxar á ári ofan Sveðju. Meðalveiði á stöng sé lægst á efsta svæðinu, en hæst á því neðsta og er það nánar skýrt tölulega. Segir hann sölu veiðileyfa erfiða á efsta svæðinu. Erlendir veiðimenn, sem þar hafi veitt 1995 og 1996 hafi ekki áhuga á að koma aftur á svæðið og lítill áhugi sé hjá Íslendingum fyrr en kemur fram í ágúst vegna þess aflaleysisorðs, sem fari af svæðinu. Þá sé þar ekkert veiðihús og vegleysur hafi verið á austurbakkanum, sem nú sé búið að ráða nokkra bót á. Hann telur stangir vera of margar í ánni, einkum á efsta svæðinu, en ákvörðun Veiðimálanefndar 1976 um að fjölga þar stöngum hafi verið gerð með uppbyggingu framtíðarveiðisvæðis í huga.

Að því er varðar miðsvæðið telur hann að lagfæringar, sem gerðar voru þar á allnokkrum veiðistöðum, hafi skilað góðum árangri. Umferð sé öll á austurbakkanum og veiðin að miklu leyti stunduð þaðan, enda ekki vegir við ána í landi Háhóls og Hvítsstaða. Almennt sé þó hægt að veiða frá báðum bökkum með jafn góðum árangri.

Grenjar og Litla Fjall:

Talsmaður eiganda hluta Grenja kom á fund yfirmatsmanna og skýrði viðhorf sín.

Talsmaður annarra eigenda jarðarinnar og talsmaður eigenda Litla Fjalls sendu yfirmatsmönnum athugasemdir vegna greinargerða eigenda og talsmanna Ánabrekku, Langárfoss og Stangarholts. Þeir lýstu sig ósammála ýmsu, sem fram kemur í nefndum greinargerðum um seiðauppeldi á efsta svæðinu, en vísuðu fyrst og fremst um það til Veiðimálastofnunar. Tekið er fram, að þeir hafi ekki látið uppi þá skoðun að skilyrði séu lakari að þessu leyti neðan Sveðju en ofan. Fyrir gerð laxastigans í Sveðjufossi hafi þó verið ljóst, að neðri hluti árinnar væri fullsetinn seiðum og aukning því aðeins möguleg að ný uppeldissvæði kæmu til. Því er mótmælt, að áin mælist 2-3 gráðum kaldari ofan Sveðju en neðan. Þetta geti því aðeins átt við að mælt sé við Langavatn annars vegar og niðri við sjó hins vegar. Þeir kannast heldur ekki við að rannsóknir sýni að mikil afföll séu á niðurgönguseiðum "líklega vegna fossa og flúða", og þar sé einunigs um getgátur að ræða.

Þá kemur fram, að Langá hafi lengst af haft þá sérstöðu, að hver veiðiréttareigandi nytjaði veiði fyrir sínu landi. Frá upphafi hafi það verið stefna þeirra, sem eignuðust efstu jarðirnar, að selja ekki veiðileyfi heldur nýta veiðisvæðið fyrir sig og fjölskyldur sínar. Á þessu hafi þó orðið undantekningar. Það sé því alls ekki sambærilegt hvernig veiðin hafi verið stunduð á efsta svæðinu og öðrum svæðum, en á hinu efsta hafi iðulega lítt reyndir fjölskyldumeðlimir staðið við veiðar. Í ljósi þessa sé fráleitt að arður af ánni sé metinn eftir tekjum undanfarinna ára, eins og eigandi Langárfoss krefjist.

Þá segir að eigandi Langárfoss geti þess réttilega, að veiði í Langá hafi stóraukist á áttunda áratugnum. Það verði hins vegar einungis skýrt með því að búið var að opna bæði Skuggafoss og Sveðjufoss. Hrun á laxveiði 1980 hafi ekki aðeins orðið í Langá, heldur í öllum ám á landinu. Þá er því mótmælt sem fjarstæðu, að hinar miklu framkvæmdir á efsta svæðinu hafi ekki gagnast ánni í heild. Er sjónarmiðum eiganda Ánabrekku um þetta mótmælt, sem og umfjöllun hans um uppeldisskilyrði seiða á efsta svæðinu.

Um seiðasleppingar er vísað til skrifa Sigurðar Más Einarssonar, Veiðimálastofnun. Þar sé þess getið, að engum seiðum hafi verið sleppt ofan Sveðjufoss sl. 14. ár. Á þessum árum hafi 49% seiðanna verið sleppt við Sjávarfoss, um 30% í Sveðjufoss en öðru þar á milli. Í ljós hafi komið, að slepping við Sjávarfoss skili sér ekkert í efsta hluta árinnar, en slepping í Sveðjufoss dreifist á nokkurn veginn sama hátt og fyrri veiði í ánni. Það sé því ljóst, að seiðasetning í Sjávarfoss skekki eðlilega veiðidreifingu í ánni og ætti því að dragast frá þegar veiðimagn árinnar sé metið. Með auknu náttúrulegu seiðauppeldi á efsta svæðinu megi hugsanlega breyta því að fiskur gangi seint á svæðið. Þá yrði talsvert magn seiða það seint á ferð til sjávar að þau yrðu tvö ár í sjó og gengju síðan snemma í ána og sem stærri fiskar.

Sömu aðilar sendu undirmatsmönnum ábendingar um atriði, sem hafa þurfi í huga við nýtt arðskrármat. Er þar m.a. bent á, að veiðiálag á efsta svæðinu hafi verið minna en á hinum svæðunum. Verulegt rask hafi verið gert á neðri svæðunum með því að búa til nýja veiðistaði, jafnvel án leyfis. Þá hafi miklum fjölda seiða verið sleppt á neðsta svæðinu og að hluta án heimildar stjórnar veiðifélagsins. Veiði úr þessum seiðasleppingum hafi skilað sér 85% á neðsta svæðinu, 15% á miðsvæði en ekkert á hinu efsta. Líta beri framhjá þessari veiði við arðskrármat nú. Frá því síðasta mat var gert hafi Tófufoss verið gerður laxgengur og hafi því laxgeng svæði jarðanna tveggja lengst mjög. Þetta sé jafnframt mjög þýðingarmikið uppeldissvæði seiða, þ.e. svæðið við ármót Langár og Gljúfurár. Loks er þeirri skoðun lýst, að óeðlilega mikið veiðiálag neðst í ánni og tilbúnir nýir staðir á miðsvæðinu sé meðorsök þess, hve lax komi lítið og seint á efsta svæðið.

Af hálfu talsmanna þessara jarða voru undirmatsmönnum einnig sendar athugasemdir við greinargerðir eigenda Ánabrekku, Langárfoss og Jarðlangsstaða. Er þar m.a. bent á, að meðalveiði í ánni hafi stóraukist eftir 1967, er framkvæmdum við Sveðjufoss var endanlega lokið. Við það hafi hrygningasvæði í ánni jafnframt lengst um tæpa 7 km (Sveðjufoss - Ármótastrengur). Þetta séu að auki einhver bestu uppeldissvæðin í allri ánni að mati þeirra tveggja fiskifræðinga, sem mest hafi rannsakað ána. Hæð svæðisins yfir sjó sé ákjósanleg. Aukningu á veiði í ánni hljóti að mestu mega þakka þessu svæði, því seiðaslepping hafi litlu skilað. Telja þeir gæta skilningsleysis um gildi efsta svæðisins fyrir hrygningu og uppeldi seiða, en neðsta svæðið hafi í raun lifað á efri hluta árinnar að þessu leyti. Loks er sú skoðun látin í ljós, að ekki eigi að gera upp á milli vægis bakka í ánni.

Afréttarland:

Talsmenn eigenda landsins skýrðu sjónarmið sín á fundi með yfirmatsmönnum. Því var síðan fylgt eftir með bréfi.

Laxveiði var ekki stunduð á svæðinu til 1995 en fáeinir fiskar munu nú hafa veiðst. Ofan Hraunfoss er ekki lax, enda fossinn nánast ólaxgengur. Telja þeir að þungt vægi, sem undirmatsmenn hafi gefið veiði, sé alveg fráleitt. Áin sé hins vegar talin mjög áhugaverð til silungsveiði á svæðinu.

Þá hafi á árinu 1969 verið reist vatnsmiðlun við Langavatn til að tryggja vatnsbúskap árinnar. Telja þeir eðlilegt að notkun Langavatns í þessum tilgangi verði metin í arðskrá árinnar. Ekki hafi farið fram rannsóknir á lífríki vatnsins, en silungsveiði hafi hrunið í vatninu hin síðari ár. Einnig hafi orðið verulegar gróðurskemmdir vegna hækkunar á yfirborði vatnsins.

VIII.

Skipting arðs. Almennt

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: "Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."

Samkvæmt 8. gr. samþykkta fyrir Veiðifélag Langár skal arði og gjöldum varðandi félagssvæðin skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Við fyrri matsgerðir hefur arði verið skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Verður sá háttur einnig hafður á nú. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um, hvernig einingar skiptist milli þeirra þátta, sem í framangreindri lagagrein getur.

Tekið skal fram, að aðstæður við Langá eru á vissan hátt sérstæðar og frábrugðnar því, sem algengast er við laxveiðiár. Því veldur í fyrsta lagi, að aðstæður eru ólíkar á efsta svæðinu og hinum tveim svo sem að framan er rakið, auk þess sem náttúrulegum aðstæðum hefur verið breytt víða í ánni. Í öðru lagi rennur áin á löngu svæði neðan Sjávarfoss, þar sem veiði var áður stunduð, en er nú bönnuð með lögum. Þetta skapar ánni sérstöðu og sum álitamál, sem hér þarf að skera úr um, horfa því við með nokkuð óvenjulegum hætti.

IX.

Landlengd

Fyrir yfirmatsmenn hefur verið lögð mæling á landlengd að veiðivatninu, sem dagsett er 6. júlí 1969 og gerð var af Bjarna Arasyni. Kemur þar fram lengd bakka árinnar fyrir landi hverrar jarðar.

Ekki hafa komið fram gagnvart yfirmatsmönnum athugasemdir um réttmæti mælingarinnar og verður hún lögð til grundvallar, eins og hún liggur fyrir, sbr. þó hér á eftir. Nýtt mat á óslínu, sem getið er í II. kafla að framan, gefur ekki tilefni til að víkja þar frá.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú, að hæfilegt sé að 280 einingar skuli skiptast milli landeigenda í samræmi við landlengd að Langá. Við skiptingu þessara eininga verður svæðinu frá Hraunfossi að Langavatni nú engar einingar gefnar. Svæðið er ólaxgengt og ekki hefur komið fram að ráðgerðar séu neinar framkvæmdir á næstunni til að breyta því ástandi. Þá hefur seiðum ekki verið sleppt þar um langt árabil. Að öðru leyti verður einstökum vatnsbökkum gefið jafnhátt vægi frá Hraunfossi að óslínu í sjó.

X.

Aðstaða til stangarveiði

Í V. kafla að framan er getið um leigusamning um Langá og hvernig veiðin var stunduð til 1995. Í VI. kafla eru taldar upp skýrslur, sem liggja fyrir yfirmats-mönnum um veiði á laxi árin 1986-1996 að báðum meðtöldum. Hafa veiðst samtals 12.895 laxar á því tímabili, eftir því sem næst verður komist. Þar er einnig að finna gögn um nafn og númer veiðistaða. Við yfirmat nú verður höfð hliðsjón af veiði allt þetta tímabil. Ekki eru rök til að fallast á þá kröfu talsmanna Grenja og Litla Fjalls að líta í arðsmati fram hjá afla, sem stafar af seiðasleppingum, hvorki að hluta né öllu leyti.

Tekið skal fram, að meðal áðurnefndra gagna er bréf Veiðimálastofnunar til undirmatsmanna 22. mars 1995, þar sem fram koma veiðitölur fyrir árin 1986-1994, skipt milli svæða. Stofnunin getur þess, að erfitt sé að hafa yfirsýn yfir skráningu á afla á einstökum svæðum í Langá, því margir komi þar að og skipting skráningar-svæða sé ekki alltaf sú sama milli ára. Þessa samantekt Veiðimálastofnunar hafa yfirmatsmenn haft til sérstakrar skoðunar með hliðsjón af tiltækum veiðibókum og öðrum gögnum. Hefur sú athugun leitt í ljós, að flest árin munar fáeinum löxum til eða frá á neðsta svæðinu, miðað við samantekt Veiðimálastofnunar, þegar öllu er haldið til haga. Á efsta svæðinu voru dæmi um að fiskar höfðu reynst vera tvíbókaðir, þegar fleiri en ein og jafnvel nokkrar veiðibækur voru í notkun í senn fyrir svæðið, sem leiddi af tilhögun veiða umrædd ár. Allar þessar leiðréttingar á veiðitölum eru þó lítilvægar þegar á heildina er litið. Hafa þær verið bornar undir Veiðimálastofnun, sem gerir ekki athugasemdir við þær.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 502 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Sú ákvörðun er tekin með tvennu móti. Annars vegar er úthlutað 460 einingum í samræmi við skiptingu afla á öllu svæðinu. Í annan stað er úthlutað einingum til viðbótar þessum með þeim hætti, að á alla veiði milli Sjávarfoss og Sveðjufoss er bætt um 10%. Með því er tekið tillit til þess að lax gengur seint upp fyrir Sveðjufoss og svæðin neðan hans skila af þeim sökum hærri tekjum fyrir veiðiréttareigendur hluta veiðitímans en svæðið ofan fossins gerir.

Við skiptingu þessara eininga verður ekki tekið tillit til krafna Ánabrekku og Jarðlangsstaða um aukið vægi austurbakka árinnar á kostnað vesturbakkans. Ýmis almenn rök mæla gegn því að verða við kröfum af þessu tagi. Má nefna, að slík viðurkenning ýtir augljóslega undir samkeppni í stað samvinnu um sköpun hvers kyns aðstöðu fyrir veiðimenn á báðum bökkum veiðivatns með tilheyrandi kostnaðarauka. Tilgangsleysi þess er í flestum tilvikum augljóst, þar sem slík aðstaða á öðrum bakkanum dugar báðum vel, þ.m.t. vegir. Þessi sjónarmið eiga við hér sem annars staðar, þar sem þeim hefur verið hreyft. Að auki vísast til þeirra almennu og sérstöku röksemda, sem að framan eru rakin í greinargerðum eigenda Langárfoss, Háhóls og Hvítsstaða. Að öllu samanlögðu er það niðurstaða yfirmatsmanna að gera ekki upp á milli vægis bakka í Langá, svo sem krafist er.

Ábending eigenda afréttarlands um silung í efsta hluta árinnar getur ekki leitt til sérstakrar arðsúthlutunar. Engin gögn liggja fyrir um tekjur veiðifélagsins af þeim veiðum og einungis örfáir fiskar eru bókaðir í veiðibækur af þessu svæði, sem að svo vöxnu hefur ekki þýðingu.

XI.

Uppeldis- og hrygningarskilyrði

Í VI. kafla að framan er getið gagna varðandi uppeldis og hrygningarskilyrði, sem fyrir yfirmatsmönnum liggja. Eru þau ítarleg og stafa frá Veiðimálastofnun. Hafa yfirmatsmenn jafnframt átt fund með sérfræðingi Veiðimálstofnunar og fengið nánari skýringar.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 164 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Er ljóst, að uppeldis- og hrygingarskilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánni er litið. Skipting þessara eininga tekur mið af þessu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og skýringa. Sú ábending hefur þó komið fram af hálfu Veiðimálastofnunar, að önnur markmið lágu að baki skýrslugerðum stofnunarinnr en að vera til grundvallar arðskrármati, auk þess sem þær feli ekki í sér neina tæmandi úttekt á Langá varðandi uppeldis- og hrygningarskilyrði.

Yfirmatsmenn telja að öllu samanlögðu rök fyrir því að meta almennt gildi árinnar fyrir hrygningu og uppeldi seiða minna ofan Sveðjufoss en neðan fossins. Við skiptingu þessara eininga verður svæðinu ofan Sveðju að Hraunfossi gefið vægi, sem svarar helmingi þess, sem árbökkum frá Sveðjufossi að Sjávarfossi verður veitt. Svæðið neðan Sjávarfoss (ósinn) hefur almennt sé takmarkað gildi sem uppeldissvæði fyrir lax. Verður þessum hluta árinnar gefið vægi, sem svarar sjöttungi þess sem árbökkum milli Sjávarfoss og Sveðjufoss er gefið.

Með því að viðhafa þessa aðferð hafa yfirmatsmenn deilt niður milli jarða við Langá og neðsta hluta afréttarsvæðis þeim 164 einingum, sem áður er getið. Fjórar jarðir ná yfir svæði, sem yfirmatsmenn meta misjöfn að þessu leyti.

XII.

Bann við netaveiði

Að framan er getið gamalla netalagna, sem tilheyrðu Rauðanesi, Lambastöðum og Leirulæk. Að auki var lax áður veiddur í nokkrar netalagnir frá Ánabrekku og einnig Langárfossi. Sérstakar hömlur eru lagðar við allri veiði í árós og að jafnaði tekið tillit til þess við skiptingu arðs. Verður svo og gert nú.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 38 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Verður þessum einingum úthlutað í hlutfalli við landlengd hverrar jarðar frá Sjávarfossi að óslínu.

XIII.

Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs

Enn er ógetið nokkurra atriða, sem gefa tilefni til að tekið sé tillit til þeirra við úthlutun arðs af veiði. Verður 16 einingum varið með hliðsjón af þessu. Allar niðurstöðutölur verða að endingu jafnaðar, þannig að þær standi á heilli einingu.

Ofan Sveðjufoss sker kafli í ánni milli Ármóta og Heiðarfoss sig nokkur úr að því er varðar uppeldis- og hrygningarskilyrði. Eru þau talin þar mjög góð. Telja yfirmatsmenn rétt að taka tillit til þessa, og verður 8 einingum ráðstafað til landeigenda þar. Falla þær til Borgarhrepps, Grenja og Álftaneshrepps.

Vatnsmiðlunin við Langavatn skapar öllum landeigendum við ána bætta aðstöðu til veiða, en þó minnst þeim, sem leggja þá aðstöðu til. Aðeins neðst á afréttarlandinu gagnast hún eigendum þess fyrir laxveiði í ánni. Vegna þessarar aðstöðu, sem þannig er lögð til, verður 8 einingum úthlutað til eigenda afréttarlandsins.

XIV.

Niðurstöður

Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Ekki er unnt að verða við áðurgreindum tilmælum eigenda Brekkuness þegar af þeirri ástæðu, að afbýli þetta er ekki viðurkenndur aðili að Veiðifélagi Langár. Er arðhlutdeild vegna Brekkuness metin með Ánabrekku og innifalin í hlut þeirrar jarðar.

Veiðifélag Langár ber kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá upphafi veiðitímabils 1997. Arðskrá fyrir Veiðifélag Langár skal vera, svo sem greinir í XV. kafla hér á eftir.

XV.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Langár og Urriðaár (Langárdeild)

einingar

Rauðanes 16

Lambastaðir 3

Leirulækur 52

Langárfoss 190

Ánabrekka 231

Háhóll 42

Hvítsstaðir 90

Jarðlangsstaðir 93

Stangarholt 54

Grenjar 114

Litla Fjall 95

Borgarhreppur v/afréttarlands 12

Álftaneshreppur v/afréttarlands _____8

Samtals: 1000,00

Reykjavík, 30. maí 1997

 

_______________________

Gunnlaugur Claessen

 

________________________ ___ _ __________________

Aðalbjörn Benediktsson Sveinbjörn Dagfinnson

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta