Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Apavatns


YFIRMATSMENN


samkvæmt lögum um


lax- og silungsveiði nr. 76/1970


YFIRMATSGERÐ


á arðskrá fyrir Veiðifélag Apavatns


I.


Undirmat. Beiðni um yfirmat


Hinn 21. september 1995 luku þeir Gísli Ellertsson, bóndi á Meðalfelli og Gísli Kjartansson héraðsdómslögmaður mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Apavatns. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Suðurlands 8. febrúar 1995.


Með bréfi Jóhannesar R. Jóhannssonar hdl. f.h. eigenda Úteyjar I var matinu skotið til yfirmats samkvæmt 3. tl. 95. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Bréf lögmannsins, dags. 21. nóvember 1995 var stílað á landbúnaðarráðuneyti, sem sendi það áfram til yfirmatsmanna með bréfi 30. nóvember sama ár. Ekki hefur verið vefengt, að beiðnin teljist nægjanlega snemma fram komin, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970.


II.


Upphaf matsstarfa. Fundur og vettvangsganga


Eftir nokkur bréfaskipti og gagnaöflun í lok árs 1995 og fyrri hluta árs 1996 hófust matsstörf með því að haldinn var fundur á Laugarvatni 27. ágúst 1996 með stjórn veiðifélagsins og þeim eigendum veiðiréttar eða umboðsmönnum þeirra, sem óskuðu að skýra sjónarmið sín fyrir yfirmatsmönnum. Eigendur eða talsmenn eigenda eftirtaldra jarða lýstu sjónarmiðum sínum fyrir yfirmatsmönnum á fundinum eða í viðtölum að honum loknum: Úteyjar I, Úteyjar II, Austureyjar II, Haga I og II og Efra-Apavatns II. Var veiðiréttareigendum jafnframt gefinn kostur á að koma að skriflegum greinargerðum til yfirmatsmanna. Á þessum fundi og í framhaldi af honum bárust skriflegar greinargerðir eða athugasemdir frá talsmönnum eftirgreindra jarða: Úteyjar I (með mörgum fylgiskjölum), Úteyjar II (frá einum eigenda jarðarinnar), Efra-Apavatns I og II (sameiginleg greinargerð), Austureyjar I og II (sameiginleg greinargerð), Vatnsholts, Neðra-Apavatns og Haga I og II (sameiginleg greinargerð). Að auki bárust skriflegar athugasemdir frá stjórn veiðifélagsins, svo og yfirlýsing undirrituð af tólf landeigendum, sem felur í sér sérstaka ítrekun á efni yfirlýsingar þrettán landeigenda frá 31. maí 1986, sbr. nánar hér á eftir.


Að loknum áðurnefndum fundi 27. ágúst 1996 könnuðu yfirmatsmenn staðhætti við vatnið í fylgd tveggja stjórnarmanna í veiðifélaginu. Sérstaklega voru skoðaðar aðstæður hjá þeim veiðiréttareigendum, sem þáðu boð yfirmatsmanna þess efnis á fundinum fyrr um daginn.


III.


Um Veiðifélag Apavatns


Veiðifélag Apavatns var stofnað 12. apríl 1988 og starfar samkvæmt samþykkt, sem staðfest er af landbúnaðarráðherra 23. janúar 1989. Í 2. gr. samþykktarinnar kemur fram, að félagið nái til allra jarða, sem land eiga að vatnasvæði Apavatns, þ.e. vatnsins og fiskgengra lækja, sem í það falla. Eru jarðirnar þessar: Hagi I, Hagi II, Vatnsholt, Neðra-Apavatn, Efra Apavatn I, Efra-Apavatn II, Útey I, Útey II, Austurey I, Austurey II, Mosfell, Þórisstaðir, Svínavatn, Þóroddsstaðir, Lækjarhvammur og Gröf. Eiga sex hinar síðasttöldu ekki land að vatninu, en að lækjum sem í það falla.


Í 3. grein samþykktarinnar er lýst þeim megintilgangi félagsins að viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæðinu og beita sér fyrir hámarksnýtingu veiða í vatninu með arðsemissjónarmið í huga. Þar segir einnig, að ráðstöfun veiði fari eftir því sem aðalfundur ákveði og að félagið taki til allrar veiði á félagssvæðinu.


Í 8. grein samþykktarinnar er svofellt ákvæði: "Arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð."


IV.


Upphafleg arðskrá


Fyrir liggur, að eigendur veiðiréttar hafa stundað sjálfir veiðina, en ekki gert leigusamninga við aðra um heildarnýtingu hennar. Arðskrá fyrir veiðifélagið mun ekki hafa verið gerð fyrr en á árinu 1989, en samkvæmt fundargerð aðalfundar 29. apríl það ár samþykktu allir veiðiréttareigendur gegn atkvæði eins þeirra tillögu stjórnar um fyrstu og einu arðskrána, sem félaginu hefur verið sett. Samkvæmt henni var samtals 300 einingum skipt milli allra veiðiréttareigenda. Féllu 75 þessara eininga til þeirra landeigenda, sem áttu land að lækjum er falla til Apavatns, en 225 einingar til þeirra, sem áttu land að sjálfu vatninu. Um skiptingu eininga að þessu leyti sýnist enginn ágreiningur vera uppi nú, heldur einvörðungu milli þeirra, sem land eiga að vatninu. Því sjónarmiði hefur ekki verið hreyft sérstaklega, að þessa skiptingu milli lækja og stöðuvatnsins beri að taka til endurskoðunar nú. Hafa eigendur þeirra sex jarða, sem síðast eru taldar upp í III. kafla að framan, ekki látið ágreining um skiptingu arðskrár til sín taka við meðferð málsins nú fyrir yfirmatsmönnum.


V.


Gögn til afnota við matsstörfin


Með bréfum til yfirmatsmanna 6. janúar og 11. febrúar 1996 hefur stjórn veiðifélagsins sent eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:




  1. Arðskrármat undirmatsmanna, dags. 21. september 1995



  2. Kort (teikningu) af vatnasvæði félagsins með innfærðri landlengd hverrar jarðar að lækjum og stöðuvatni



  3. Greinargerð stjórnar veiðifélagsins 30. september 1994 til félagsmanna vegna endurskoðunar á arðskrá.



  4. Fundargerð almenns fundar í veiðifélaginu 8. október 1994 vegna endurskoðunar arðskrár



  5. Fundargerð stjórnar veiðifélagsins 20. nóvember 1994



  6. Matsbeiðni 25. nóvember 1994 til Héraðsdóms Suðurlands



  7. Minnispunkta vegna arðskrár frá Veiðimálastofnun (Einar Hannesson) dags. 4. febrúar 1989



  8. Bréf Braga Guðmundssonar 9. nóvember 1988 um mælingu á bakkalengd jarða við Apavatn



  9. Ódagsett yfirlit um landlengd jarða við ár og læki



  10. Yfirlit frá september 1994 um skil á veiðiskýrslum árin 1987-1993



  11. Yfirlýsingu þrettán landeigenda 31. maí 1986



  12. Rannsóknarskýrslu Veiðimálastofnunar (Magnús Jóhannesson og Lárus Þ. Kristjánsson), desember 1989



  13. Rannsóknarskýrslu Hólaskóla (Bjarni Jónsson), ágúst 1995. Í kjölfar skriflegra tilmæla yfirmatsmanna um athugasemdir frá lögmanni eiganda Úteyjar I barst svarbréf hans:





14. Bréf Jóhannesar R. Jóhannssonar hdl., dags. 14. júní 1996.


Á fyrrnefndum fundi í lok ágúst 1996 og í framhaldi af honum bárust yfirmatsmönnum þessi gögn:




  1. Bréf Jóhannesar R. Jóhannssonar hdl., dags. 26. ágúst 1996, f.h. eigenda Úteyjar I til yfirmatsmanna með fylgiskjölum (landskiptagerð og ljósrit úr þinglýsingabók)



  2. Bréf Þórdísar Skaptadóttur, eins eigenda Úteyjar II til undirmatsmanna 22. júní 1995 með fylgiskjölum (ljósrit úr skrám Fasteignamats ríkisins og hluti fundargerðar stofnfundar Veiðifélags Apavatns 12. apríl 1988)



  3. Handritað "vinnuplagg" til undirmatsmanna (ódagsett og óundirritað) og yfirlit frá Veiðimálastofnun 24. apríl 1995 um afla og sókn með netaveiði í Apavatni 1990-1994



  4. Athugasemdir til undirmatsmanna frá stjórn veiðifélagsins 22. maí og 18. ágúst 1995, eiganda Haga I 25. maí 1995 og talsmanni eigenda Neðra-Apavatns 25. maí 1995



  5. Orðsending (ódagsett - 1990) til veiðiréttareigenda frá stjórn veiðifélagsins



  6. Greinargerð lögmanns eigenda Úteyjar I til undirmatsmanna, dags. 12. júlí 1995 með eftirgreindum fylgiskjölum (áður fram komin skjöl ekki talin með: Ódags. minnispunktar til lögmannsins, minnispunktar Skúla Haukssonar júlí 1993, lögregluskýrsla 3. júní 1993, þrjú bréf lögmanns eigenda Úteyjar I til stjórnar veiðifélagsins 14. apríl 1993, 14. mars 1994 og 9. nóvember 1994, jafnmörg svarbréf stjórnar veiðifélagsins 3. maí 1993, 5. apríl 1994, og 25. nóvember 1994, bréf Skúla Haukssonar til stjórnar veiðifélagsins 23. apríl 1994 og minnispunktar sama til undirmatsmanna 15. apríl 1995, fundargerðir aðalfunda veiðifélagsins 1989 og 1992-1994, fundarboð stjórnar 13. mars 1994 og bréf Bjarna Jónssonar, Hólum, til stjórnar veiðifélagsins 7. október 1994.)



  7. Bréf Þórdísar Skaptadóttur (Útey II) 15. september 1996 til yfirmatsmanna varðandi stærð almennings í Apavatni (u.þ.b. 80% af heild að hennar mati) ásamt korti (teikningu) af vatninu, er sýnir mörk netlaga og almennings.



  8. Bréf lögmanns eigenda Úteyjar I til yfirmatsmanna 13. september 1996 ásamt eftirtöldum fylgiskjölum (áður framkomin skjöl ekki talin með: Ljósrit úr þremur bókum um jörðina Útey, bréf Gísla Kjartanssonar undirmatsmanns til lögmanns eigenda Úteyjar I 21. júní 1995, bréf sama lögmanns til Gísla 23. október 1995 og svarbréf 1. nóvember 1995)



  9. "Árétting" í fimm liðum til yfirmatsmanna frá stjórn veiðifélagsins 14. september 1996



  10. Yfirlýsing tólf landeigenda við Apavatn 1. september 1996



  11. Sameiginleg greinargerð fyrir Austurey I og II til yfirmatsmanna dags. 14. sept. 1996



  12. Greinargerð eiganda Vatnsholts 14. september 1996



  13. Sameiginleg greinargerð eigenda Efra-Apavatns I og II til yfirmatsmanna 15. september 1996



  14. Yfirlýsing Eiríks og Bjarna Eyvindssona 14. september 1996



  15. Greinargerð talsmanns eigenda Neðra-Apavatns til yfirmatsmanna 8. september 1996



  16. Greinargerðir fyrir Haga I og II til yfirmatsmanna, báðar dags. 10. september 1996



  17. Samþykkt fyrir Veiðifélag Árnesinga dags. 11. mars 1961



  18. Bréf Jóhannesar R. Jóhannssonar hdl. 6. febrúar 1997, sem felur í sér athugasemdir við framkomnar greinargerðir annarra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna.


Þá hafa yfirmatsmenn leitað nánari skýringa hjá Bjarna Jónssyni á skýrslu í lið nr. 13 að ofan.


VI.


Sjónarmið veiðiréttareigenda. Almennt


Fyrir yfirmatsmönnum hefur afstaða veiðiréttareigenda verið ítarlega skýrð. Fram eru komin gagnstæð viðhorf, sem í stórum dráttum greina hagsmunaaðila að veiði í Apavatni í tvo hópa. Er annars vegar um að ræða sjónarmið eigenda Úteyjar I, sem njóta stuðnings Þórdísar Skaptadóttur, eins eigenda Úteyjar II. Gegn sjónarmiðum þeirra fara viðhorf annarra eigenda veiðiréttar, og eru stjórnarmenn í veiðifélaginu talsmenn þess hóps.


Hér á eftir verður gerð grein fyrir andstæðum viðhorfum þessara hópa. Til hagræðis verður rætt annars vegar um sjónarmið eigenda Úteyjar I og hins vegar stjórnar veiðifélagsins.


VII.


Almenningur í Apavatni. Ágreiningur um forna hefð


Í V. kafla að framan (lið 11) er getið um yfirlýsingu þrettán landeigenda, dags. 31. maí 1986. Rétt þykir að taka efni hennar hér upp orðrétt:



"Við undirritaðir ábúendur og landeigendur við stöðuvatnið Apavatn í Árnessýslu viljum hér með lýsa því yfir að frá fornu fari hefur það verið venja, að hver ábúandi má veiða fyrir sínu landi, miðað við landamerki, að miðlínu eða þar sem lönd skerast, en ekki annars staðar í Apavatni.


Hafi það verið gert var það illa séð og talið víta vert. Venja þessi hefur verið virt af ábúendum allra jarðanna þar til sumarið 1985.


Við viljum að þessi venja sé virt, enda löngu síðan öðlast hefðar rétt og í samræmi við gildandi lög og rétt sbr. lög nr. 76/1970."


Undir yfirlýsinguna rita eigendur eða talsmenn eigenda allra jarða við Apavatn nema Úteyjar I. Meðal þeirra, sem rita undir skjalið, er Einar Davíðsson vegna Úteyjar II.


Önnur yfirlýsing tólf landeigenda (liður 24 í kafla V) dags. 1. september 1996 staðfestir efni hinnar fyrri. Meðal þeirra, sem undirrita hina síðari er Heimir Davíðsson vegna Úteyjar II. Í henni er m.a. tekið fram að tveir þeirra, sem rituðu undir fyrri yfirlýsinguna, séu nú látnir. Hafi annar þeirra lengst allra stundað veiðina, en hann var fæddur 1914. Þar kemur einnig fram, að þeir sem rita undir yfirlýsinguna líti svo á, að svokallaður almenningur hafi ekki verið til í Apavatni, heldur hafi veiðin frá ómunatíð verið stunduð með þeim hætti, sem fyrri yfirlýsingin beri með sér.


Efnislega sömu lýsingar á veiðiskap í vatninu koma fram í mörgum greinargerðum einstakra veiðiréttareigenda og stjórnar veiðifélagsins. Samandregið felast þær í því, að frá mörkum einstakra jarða hafi verið dregin hugsuð lína að miðpunkti vatnsins og hafi hver og einn landeigandi stundað sína veiði innan slíks "þríhyrnings", en ekki þar fyrir utan. Um eiginlegan almenning í vatninu hafi þannig aldrei verið að ræða varðandi ástundun veiði. Þessa hefð hafi allir virt þar til núverandi eigendur Úteyjar I tóku að leggja net sín víða í vatninu og utan síns lögmæta svæðis í kringum 1985. Sú háttsemi hafi falið í sér rof á sátt, sem fram til þessa hafi ríkt í þessum efnum og hafi jafnframt gefið tilefni til þess að yfirlýsingin frá 31. maí 1986 var rituð.


Gegn þessum staðhæfingum gengur málflutningur eigenda Úteyjar I. Mótmæla þeir að bréf landeigenda frá 31. maí 1986 hafi nokkurt gildi í málinu. Yfirlýsingu þeirra fylgi engin gögn til staðfestingar á efni hennar. Hún sé því ósönnuð með öllu og skoðanir séu að auki skiptar um málefnið. Vísa þeir til bréfs Þórdísar Skaptadóttur frá 22. júní 1995 því til stuðnings. Þá er því harðlega mótmælt að nokkur venja hafi myndast um að skipta veiði í almenningi vatnsins eftir merkjum, svo sem aðrir veiðiréttareigendur halda fram. Nú sé svo komið, að einstakir veiðiréttareigendur stundi veiði í öllum almenningi vatnsins, og eigi það við um fleiri en eigendur Úteyjar I. Þeir benda jafnframt á, að hvorki í samþykktum veiðifélagsins né fundargerðum aðalfunda þess sé neitt að finna um þá tilhögun á veiði í almenningi vatnsins, sem getur í yfirlýsingunni. Skilyrðum hefðar sé ekki fullnægt til að slíkt fyrirkomulag hafi komist á. Loks sé efni yfirlýsingarinnar andstætt ákvæðum laga nr. 76/1970, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna.


VIII.


Niðurstaða um forna hefð


Sá ágreiningur, sem að framan er lýst, snýst í eðli sínu um það, hvar í almenningi vatnsins einstökum veiðiréttareigendum leyfist að leggja net sín, en ekki um hlutdeild í leyfðri veiði eða arði af veiði milli þeirra. Ljóst er, að vegna legu Úteyjar I og II við vatnið og tiltölulega lítillar landlengdar að veiðivatninu er svigrúm eigenda þessarra jarða til veiða í almenningi vatnsins takmarkað við þröngt svæði, teljist þeir bundnir af fornri hefð, svo sem aðrir veiðiréttareigendur halda fram.


Í lögum nr. 76/1970 eru viðfangsefni sérstakra matsmanna, sem starfa samkvæmt þeim lögum skilgreind, sbr. einkum 1. mgr. 95. gr. Er ljóst, að valdsvið þeirra nær ekki til þess að úrskurða um, hvort sönnur hafi verið færðar á staðhæfingu um tilvist fornrar venju um skiptingu veiðisvæða í almenningi vatns, svo sem hér er deilt um. Slík sönnunarfærsla færi fram á öðrum vettvangi. Við matsstörfin nú verður sá ágreiningur því lagður til hliðar, en skipting arðskrár fyrir Veiðifélag Apavatns ákveðin eftir þeim matsaðferðum, sem almennt eru viðhafðar og lög nr. 76/1970 bjóða, sbr. einkum 1. mgr. 50. gr. þeirra. Um valdsvið matsmanna samkvæmt þessum lögum vísast til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar 1996 bls. 33.


IX.


Sjónarmið veiðiréttareigenda um skiptingu arðskrár


Líkt og getur í VII. kafla að framan um forna hefð greinast veiðiréttareigendur í sömu tvo hópana í afstöðu sinni til þess, hvernig skipta beri arðskrá varðandi veiði í almenningi Apavatns:



A. Eigendur Úteyjar I leggja áherslu á, að heimildir til veiði í almenningi vatnsins skuli skiptast jafnt. Vísa þeir um það einkum til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 76/1970, en þar segir að þeim, sem land eiga að stöðuvatni, sé einum heimil veiði í almenningi þess og sé hún þeim öllum jafnheimil. Meginreglan sé samkvæmt því sú, að veiðiréttur í almenningi stöðuvatns, þar sem tvær eða fleiri landareignir liggja að, sé jafn og óskiptur. Í greinargerð þeirra til undirmatsmanna segir jafnframt, að "Veiði í almenningi vatns (veiðimagn) teljist því til veiðiaðstöðu einstakra jarða, er veiðiréttur fylgir, á sama hátt og veiði í netlögum hverrar jarðar ... ". Þeir telja einnig að í 3. mgr. 8. gr. laganna felist, að við tilteknar aðstæður megi skipta veiðirétti í almenningi stöðuvatns í samræmi við ákvæði 4. gr. sömu laga, en slíkt eigi alls ekki við hér. Með því að tíu jarðir eigi land að Apavatni skiptist veiðiréttur í almenningi þess í tíu jafnstóra hluti, óháð lengd strandlengju hverrar jarðar að vatninu. Útey I fylgi samkvæmt því tíundi hluti veiði í almenningi vatnsins.


Eigendur Úteyjar I hafa greint frá því, að árið 1985 hafi þeir hafið uppbyggingu á aðstöðu til veiða og verkunar á silungi. Þeir hafa einnig skýrt ítarlega afstöðu sína til þeirra ákvarðana, sem teknar hafa verið á félagsfundum í veiðifélaginu frá því fyrst voru settar takmarkanir af þess hálfu á heimildir til veiða árið 1989, er hin fyrsta arðskrá var samþykkt. Telja þeir sig hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna ákvarðana meirihluta veiðiréttarhafa vorið 1993 og eftir það, en þær hafi falið í sér mikilar skerðingar á veiðiheimildum Úteyjar I. Fram til þess tíma hafi öllum jörðum verið heimilt að hafa jafnmörg net í almenningi vatnsins, þrátt fyrir arðskrána, sem samþykkt var fjórum árum áður.


Í málatilbúnaði eigenda Úteyjar I er lögð áhersla á, að ástand fiskistofna í vatninu sé gott og þeim sé á engan hátt ógnað þótt mikilli sókn væri haldið uppi í þá. Telja þeir að takmarkanir veiðheimilda, sem meirihlutinn hefur ákveðið, séu beinlínis í andstöðu við markmið félagsins, sem sé að stunda hámarksnýtingu á veiði með arðsemissjónarmið í huga, sbr. 3. gr. samþykkta þess. Núverandi arðskrá feli í raun í sér friðun fiskistofna í vatninu.


Eigendur Úteyjar I vísa til þess, að þau atriði, sem talin eru upp í 1. mgr. 50. gr. l. 76/1970 og taka eigi mið af við niðurjöfnun veiði, séu aðeins nefnd í dæmaskyni. Líta eigi til mun fleiri atriða, svo sem veiðireynslu fyrri ára og staðhátta, þar á meðal ástands fiskistofna. Afli síðustu ára hjá Útey I sé mun meiri en flestra eða allra annarra veiðiréttareigenda. Almenningur sé stærstur hluti af flatarmáli Apavatns og því eigi lengd strandlengju að hafa hverfandi áhrif á niðurjöfnun veiði í vatninu. Veiðin sé fyrst og fremst stunduð í almenningi vatnsins, en í netlögum einstakra jarða sé hún hverfandi lítil.


Áhersla er á það lögð, að tekið verði tillit til að Úteyjarjarðirnar séu tvær, en sú skipan hafi lengi verið við lýði.


Í greinargerð Þórdísar Skaptadóttur 22. júní 1995 er m.a. til þess vísað, að á stofnfundi Veiðifélags Apavatns 12. apríl 1988 hafi verið samþykkt með níu atkvæðum gegn einu, að hvert lögbýli mætti mest hafa 35 net í almenningi vatnsins, en ótakmarkaðan fjölda í netlögum sínum. Þessi tillaga lýsi rótgrónum hugsunarhætti um almenning vatnsins og jöfnum réttri allra lögbýla við vatnið til veiða þar. Fasteignamat á veiðihlunnindum einstakra jarða styðji einnig jafnan rétt allra jarða við vatnið til veiða í almenningi.




  1. Stjórn veiðifélagsins telur ekki vera fram komin rök til þess að breyta núgildandi arðskrá frá 1989. Vel hafi verið vandað til gerðar hennar, eins og þá hafi verið staðfest af starfsmanni Veiðimálastofnunar. Ákvörðun um hana hafi verið tekin með atkvæðum allra veiðiréttareigenda að einum undanskildum og því víðtæk samstaða um hana. Af tillitssemi við þann eina, sem á móti var, hafi þó ekki verið farið að öllu leyti eftir arðskránni fyrstu árin eftir gildistöku hennar.



Þá er því haldið fram, að mjög óráðlegt sé að halda uppi svo mikilli sókn í fiskistofna í vatninu, sem eigendur Úteyjar I vilja. Skýrslur fiskifræðinga gefi ekki tilefni til þess, og sveiflur í stofnstærð og ástandi fisks séu alþekktar. Veiðin hafi alla tíð verið stunduð einungis til búdrýginda með hefðbundnum búskap, og það sé nýtt að reka hana með þeim miklu umsvifum, sem eigendur Úteyjar I hafi gert síðustu árin.


Því er mótmælt, að veiðireynsla síðustu ára geti nokkru ráðið um skiptingu arðskrár nú. Aflaskýrslum sé lítt að treysta og að auki sé ljóst, að sumir veiðiréttareigendur við Apavatn hafi ekki nýtt rétt sinn nema að hluta síðustu árin. Ekki sé unnt að una við, að einn geti aukið hlutdeild sína í arðskrá með hámarksnýtingu meðan sumir aðrir hafi kosið að fara hægt í sakirnar, sem án vafa hafi stuðlað að því að ástand fiskistofna hafi haldist í jafnvægi.


Stjórnarmenn mótmæla því að megnið af þeim afla, sem dreginn sé úr vatninu, komi úr almenningi þess, eins og eigendur Úteyjar I halda fram. Engin sérstök könnun liggi fyrir um þetta atriði. Þeir hafa jafnframt lýst því áliti sínu, að aflabrögð séu einmitt best meðfram landinu sums staðar við vatnið, til dæmis við tanga og nes. Megi ætla, að meiri hlutinn af heildarveiðinni komi upp í netlögum einstakra jarða.


Stjórnin mótmælir harðlega túlkun eigenda Úteyjar I á 8. gr. laga nr. 76/1970 þess efnis, að arðskrárhlutur jarða í almenningi vatnsins skuli vera jafn og óháður landlengd hverrar um sig. Landlengd eigi einmitt að vega þyngst við skiptingu hennar í almenningi vatnsins. Ekki sé unnt að vísa til 1. mgr. 8. gr. eins og þeir geri, því 3. mgr. sömu greinar taki af öll tvímæli. Samkvæmt henni beri að skipta þeirri veiði sem um ræðir, eftir reglu 4. greinar laganna. Tilgangurinn með arðskrá sé torséður, ef allir eigi jafnstóran hlut í almenningi vatnsins. Alrangt sé, að 3. mgr. verði einungis beitt "við tilteknar aðstæður", svo sem eigendur Úteyjar I haldi fram. Sú staðhæfing sé haldlaus.


Þá er því mótmælt, að fasteignamat veiðihlunninda styðji kröfur um jafna arðskrárhlutdeild. Mat á veiðihlunnindum einstakra jarða við veiðivötn í Árnessýslu sé mjög misjafnt og handahófskennt. Verði ekkert á því byggt í þessum efnum.


Loks hefur það sjónarmið komið fram hjá einum veiðiréttareiganda, að eigi Útey að hljóta tvo hluti vegna tvíbýlisréttar í almenningi vatnsins, verði hið sama látið ganga yfir allar tvíbýlisjarðir við vatnið af jafnræðisástæðum.


X.


Skipting arðs. Almennt


Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: "Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks".


Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Apavatns skal arði af sameigin-legri veiði skipt á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Samkvæmt gildandi arðskrá hefur arði verið skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 300. Verður sá háttur einnig hafður á nú. Ekki verður hróflað við gildandi skiptingu eininga milli lækja annars vegar og vatnsins hins vegar. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um, hvernig einingar skiptist milli þeirra þátta, sem í framangreindri lagagrein getur.



XI.


Skipting Arðs. Einstök atriði


Áður er getið ólíkra sjónarmiða veiðiréttareigenda varðandi túlkun á 8. gr. laga nr. 76/1970 um veiði í almenningi vatnsins. Yfirmatsmenn fallast ekki á þá túlkun eigenda Úteyjar I á efni 1. og 3. mgr. lagagreinarinnar, sem fyrr er rakin. Ákvæði 1. mgr. 8. gr. um að veiði í almenningi sé landeigendum "öllum jafnheimil" telja yfirmatsmenn fela í sér, að aðgangur til veiða þar sé öllum landeigendum jafnheimill og enginn geti þar átt forgang umfram annan. Það feli hins vegar ekki í sér, að ef veiði eru sett takmörk með arðskrá, skuli heimilað veiðimagn allra vera jafnmikið. Þvert á móti hafa sjónarmið stjórnar veiðifélagsins að þessu leyti m. a. stoð í dómi Hæstaréttar 1971 bls. 1137 (sbr. einkum bls. 1138), en þar koma fram ummæli í niðurstöðum um rétt landeiganda til veiði í almenningi stöðuvatns samkvæmt ákvörðun matsmanna, sbr. 1. mgr. 4. gr., 8. gr. og 94. gr. (nú 95. gr.) laga nr. 76/1970. Skipting veiði í almenningi stöðuvatns samkvæmt ákvörðun matsmanna væri óþörf og tilgangslaus, ef allir landeigendur ættu þar jafnstóran hlut. Í 3. mgr. 8. gr. laganna segir, að rétt sé að skipta veiði í almenningi stöðuvatns eftir 4. gr. Er þar vísað til 4. greinar í heild, en í áðurnefndum dómi Hæstaréttar er vísað til 1. mgr. 4. gr. Í henni kemur fram, að skipta skuli veiði að tiltölu við eignarhluta hvers sameiganda. Við skipti samkvæmt 8. gr. á veiði í almenningi stöðuvatns þykir eiga að miða skipti við eignarhluta að því stöðuvatni, þar sem veiði er til skipta, en það hlýtur fyrst og fremst að ráðast af lengd strandlengju hverrar jarðar, auk annarra þeirra atriða, sem getur í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970.


Vísun eigenda Úteyjar I til góðs ástands fiskistofna í Apavatni þykir ekki eiga að hafa áhrif á ákvörðun um skiptingu arðskrár, en það er hlutverk Veiðifélags Apavatns að ákveða þá heildarveiði, sem almennt ástand fiskistofna hverju sinni þykir réttlæta. Með sama hætti verður ekki fallist á, að mikil veiðisókn eigenda Úteyjar I hafi þýðingu við úrlausn málsins. Ekki eru rök fyrir því að taka mið af fasteignamati veiðihlunninda við skiptingu arðskrár. Tvíbýlisréttur á nokkrum jörðum skiptir ekki máli samkvæmt þeim forsendum, sem að framan getur.


Ekki hafa komið fram neinar óskir um breytingar á gildandi arðskrá um skiptingu þeirra 75 eininga, sem koma í hlut jarða, er liggja að ám og lækjum. Verður því nánast ekkert hróflað við skiptingu arðskrár að þessu leyti, þótt rannsóknir sem gerðar hafa verið eftir samþykkt arðskrárinnar 1989 hafi veitt upplýsingar um hrygningarstöðvar urriða í lækjum, sem hefðu að öðrum kosti hugsanlega gefið tilefni til að hnika lítillega þessarri skiptingu.


Af þeim 225 einingum, sem koma í hlut jarða sem eiga land að Apavatni, telja yfirmatsmenn hæfilegt að 100 skiptist í samræmi við landlengd að vatninu. Í V. kafla að framan er í 2., 8. og 9. lið getið um gögn, sem yfirmatsmenn hafa fengið í hendur og varða mælingu á landlengd einstakra jarða við stöðuvatnið, ár og læki. Enginn ágreiningur er um niðurstöðu mælinganna, sem verða lagðar til grundvallar eins og þær liggja fyrir.


Vegna aðstöðu til stangarveiði og netaveiði í vatninu telja yfirmatsmenn hæfilegt að 80 einingar komi til úthlutunar. Ekki nýtur haldbærra upplýsinga í málinu um, hver hlutur heildaraflans í Apavatni veiðist í netlögum einstakra jarða og hvað í almenningi vatnsins. Verður lagt til grundvallar, að jafn stór hluti heildaraflans komi úr netlögum og úr almenningi Apavatns. Í netlögum er landeiganda einum heimil veiði. Við skiptingu þessara eininga verður ekki gert upp á milli veiðisvæða innan netlaga, sbr. þó hér á eftir. Þessi þáttur raskar því í raun ekki þeirri niðurstöðu um hlutdeild í arðskrá, sem útreikningar á grundvelli landlengdar að vatninu gefa einstökum jörðum.


Þá telja yfirmatsmenn hæfilegt að 30 einingar skiptist milli veiðiréttareigenda vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða í vatninu. Rannsóknarskýrslur, sem lagðar hafa verið fyrir yfirmatsmenn bera með sér, að hrygning bleikju eigi sér stað víða í vatninu og skilyrði séu svo áþekk að öðru leyti, að ekki er tilefni til að gefa ákveðnum svæðum í vatninu vægi umfram önnur vegna þessa þáttar. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós hagstæð skilyrði fyrir hrygningu urriða við Steinadrátt undan landi Austureyjar, sem litið verður til við úrlausn málsins.


Þá er enn ógetið eins atriðis, sem ástæða þykir að taka tillit til við skiptingu arðskrár. Rannsóknarskýrslur staðfesta, að þar sem lækir falla til vatnsins er fiskför almennt mikil. Verður 15 einingum varið til jarða, sem þetta á við um. Við þá úthlutun verður hins vegar einnig litið til þess, að sums staðar eru nokkrar grynningar í vatninu, sem rétt þykir að hafa í huga við úthlutun þessara eininga til óhags þeim jörðum, sem þetta á sérstaklega við um.


Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað.


Veiðifélag Apavatns ber kostnað af mati þessu.


Mat þetta gildir frá upphafi veiðitímabils 1997. Arðskrá fyrir Veiðifélag Apavatns skal vera svo sem greinir í XII. kafla hér á eftir.


XII.


Arðskrá fyrir Veiðifélag Apavatns





Nöfn jarða Einingar


Austurey I 29,5


Austurey II 29,5


Útey I 12,5


Útey II 12,5


Efra Apavatn I 33,0


Efra Apavatn II 33,0


Neðra Apavatn 54,7


Vatnsholt 32,5


Hagi I 19,5


Hagi II 19,5


Lækjarhvammur og Gröf 11,1


Þóroddsstaðir 4,5


Mosfell 4,8


Þórisstaðir 0,5


Svínavatn 3,0


Samtals 300,0




Reykjavík, 21. febrúar 1997



_______________________


Gunnlaugur Claessen



_____________________ ____________________


Þorsteinn Þorsteinsson Sveinbjörn Dagfinnsson


Yfirmatsmenn skv. lögum um lax- og silungsveiði



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta