Mál 2/2006
Mál A
1. Aðilar málsins
Aðilar málsins eru tollstjórinn í Reykjavík, Tryggvagötu 19, Reykjavík og A. Sigurður Skúli Bergsson aðstoðartollstjóri rak málið f.h. tollstjóra en Hróbjartur Jónatansson, hrl. rak málið f.h. A.
2. Málavextir
2.1. Málsmeðferð fyrir nefndinni
Við meðferð málsins skipuðu nefndina Björg Thorarensen prófessor, formaður, Erna Guðmundsdóttir hdl., tilnefnd af samtökum ríkisstarfsmanna og Vala Rebekka Þorsteinsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af fjármálaráðuneyti.
Málið barst nefndinni þann 25. september 2006 með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 31. ágúst 2006. Með bréfinu var framsent afrit bréfs tollstjórans í Reykjavík dags. 31. ágúst til A þar sem tilkynnt var að honum væri veitt lausn um stundarsakir frá starfi tollvarðar og tæki lausnin gildi 1. september 2006. Þann 25. september 2006 sendi formaður nefndarinnar bréf til fjármálaráðuneytisins og óskaði þess að skipaðir yrðu tveir meðnefndarmenn til þess að fjalla um málið sbr. 2. og 3. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (hér eftir nefnd starfsmannalög). Sama dag var A tilkynnt með bréfi formanns að málið hefði verið sent nefndinni til meðferðar.
Með bréfi dags. 16. október 2006 tilkynnti fjármálaráðuneytið um skipun nefndarinnar. Nefndin aflaði gagna frá lögreglustjóranum í Reykjavík þar sem fram koma upplýsingar um ætluð brot A sem þar hafa verið til rannsóknar og stöðu í rannsókn málsins. Að lokinni gagnaöflun og framlagningu greinargerða aðila var málið reifað munnlega af umboðsmönnum þeirra fyrir nefndinni þann 8. desember 2006.
2.2. Málsatvik
A var ráðinn til starfa sem tollvörður við embætti tollstjórans í Reykjavík í janúar 1984. Í október 2001 var A falið að hafa yfirumsjón af hálfu tollstjóraembættisins með förgun birgða. Vegna þess starfs var hann tengiliður tollstjóraembættisins við flutningafyrirtækið X um það sem varðaði förgun áfengisbirgða og annarrar tjónavöru úr skipum.
Hér á eftir verður dregin saman atburðarásin eins og hún kemur fram í rannsóknargögnum frá lögreglustjóranum í Reykjavík og var aðdragandi þess að A var veitt lausn um stundarsakir. Í nóvembermánuði 2005 hafði tollstjórinn í Reykjavík samband við lögregluna í Reykjavík vegna grunsemda um að A, ásamt nánar tilteknum starfsmönnum X, B, C, D og E, væri viðriðinn þjófnað á áfengi sem ætti að eyða. Þann 24. nóvember 2005 hóf lögreglan eftirlit með vörumiðstöð X í Reykjavík. Þann dag hafði birgðum af áfengi verið staflað á bretti í vörumiðstöðinni og hafði lögregla fengið staðfest að um áfengi úr förgunarbirgðum væri að ræða. Sama dag og eftirlitið hófst kom F á vettvang á sendibifreið merktri fyrirtækinu Y, dótturfyrirtæki X. Þá komu starfsmenn X, þeir C og F brettinu fyrir í sendibifreiðinni en C hafði þá áður tekið áfengi ofan af brettinu og sett í farangursgeymslu bifreiðar sinnar sem var lagt í stæði við vörumiðstöðina. Lögregla fylgdi sendibifreiðinni eftir er hún lagði af stað eftir að vörubrettinu hafði verið komið fyrir í henni. Bifreiðinni var ekið að heimili B í Hafnarfirði, sem beið þar á staðnum og komu þeir B og F brettinu fyrir í bílskúr þar. Voru þeir þá báðir handteknir af lögreglu færðir í fangageymslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Sama dag voru D og C handteknir grunaðir um aðild að málinu. Þeir heimiluðu lögreglu að framkvæma húsleit á heimilum sínum, þar sem hald var lagt á áfengi. A var einnig handtekinn að kvöldi sama dags á heimili sínu. Hann heimilaði lögreglu að gera leit á heimilinu og var hald lagt á 31 áfengisflösku (einingar). Voru allir þrír fluttir til yfirheyrslu á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Næsta dag, þann 25. nóvember var E handtekin á vinnustað sínum, vörumiðstöð X og var leit framkvæmd á heimili hennar með samþykki hennar og var hald lagt á áfengi. Hún var yfirheyrð af lögreglu í beinu framhaldi.
Í fyrrgreindum húsleitum hjá sakborningum, auk A, var lagt hald á talsvert magn af áfengi, en sýnu mest í bílskúr og á heimili B, eða rúmlega 1.100 einingar. Á heimili D var lagt hald á 80 einingar áfengis, á heimili C var lagt hald á 106 einingar, á heimili E var lagt hald á 27 einingar og á heimili F 20 einingar. Samanlagt verðmæti þess áfengismagns sem haldlagt var hjá sakborningum málsins nemur ríflega 900 þúsund kr.
Í skýrslum sem teknar hafa verið af öllum sakborningum sem jafnframt voru starfsmenn X, kom fram að A hefði komið að brotastarfseminni. Þannig sagði í skýrslu C að hlutverk A hefði verið að sjá til þess að það vöknuðu engar spurningar þegar áfengi hyrfi. Þá hefði A einnig tekið áfengi úr förgunarbirgðunum. Í framburði D sagði að A hefði haldið utan um brotastarfsemina og að áfengið hafi verið tekið af brettum í samráði við hann. Hann hefði einnig séð A taka áfengi af brettunum. Í framburði B sem hafði umsjón með pappírsvinnu varðandi vöruhúsið er sneri að tollskýrslu, afhendingu og förgun kom fram að hann, auk C og E hefðu sent A tollskýrslur varðandi förgun og hann sagðist hafa heyrt frá starfsmönnum vöruhússins að A, tæki þátt í brotastarfseminni. Í framburði E kom fram að A hefði fyrir einu og hálfu ári síðan tekið áfengi úr förgunarbirgðum í tiltekinni tollvörugeymslu þar sem hún starfaði einnig en hún vissi ekki til þess að það hefði gerst eftir að X flutti í nýtt vöruhús haustið 2004. Þó hefði A fyrir u.þ.b. tveimur vikum haft samband við sig og beðið hana að útvega sér eina til tvær flöskur af viskýi úr birgðum sem biðu förgunar. Ekki hafi þó orðið af því enda birgðirnar komnar í gám.
Í framburði sakborninga sem voru starfsmenn X kom fram að það hefði tíðkast um nokkurra ára skeið að taka áfengi úr förgunarbirgðum eða a.m.k. frá árinu 2001.
A heimilaði lögreglu að skoða símagögn sín viku fyrir handtöku en samkvæmt þeim gögnum hafði hann sannarlega verið í símasambandi við aðra sakborninga málsins og þann 24. nóvember, daginn sem sakborningarnir voru handteknir, voru skráð símasamskipti hans við B
Í rannsókn málins hafa þrjár skýrslur verið teknar af A, tvær þann 25. nóvember 2005 og ein þann 28. apríl 2006 og hefur hann neitað öllum sakargiftum. Í yfirheyrslum kannaðist hann ekki við sakarefnið, þjófnað á áfengi úr förgunarbirgðum og brot í opinberu starfi. Borinn var undir hann framburður annarra sakborninga þar sem m.a. var borið á hann að hann hefði gefið samþykki sitt fyrir töku áfengis og einnig tekið áfengi sjálfur úr förgunarbirgðum. A vísaði þeim framburði á bug og sagði hann ósannan.
Vegna rannsóknar lögreglu á grunsemdum um þátttöku A í framangreindri brotastarfsemi tilkynnti forstöðumaður tollgæslusviðs tollstjórans í Reykjavík A þann 28. nóvember 2005 að hann skyldi vera fjarverandi frá vinnu í launuðu orlofi þar til annað yrði ákveðið. Á fyrri hluta ársins 2006 hafði A nokkrum sinnum samband við tollstjóraembættið og óskaði eftir niðurstöðu í máli sínu sem allra fyrst. Hann átti m.a. fund með tollstjóranum í Reykjavík þann 31. maí þar sem hann óskaði svara embættisins um stöðu málsins. Með bréfi dags. 20. júní 2006 óskaði tollstjóraembættið eftir upplýsingum frá lögreglustjóranum í Reykjavík til þess að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort víkja bæri A úr starfi um stundarsakir samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þess var farið á leit að embættið yrði upplýst um stöðu rannsóknar málsins og gegn hvaða lagaákvæðum hið meinta brot A varðaði. Þá var óskað eftir afhendingu afrita af lögregluskýrslum sem málið varðaði svo unnt væri að leggja þær fram sem gögn í málinu hjá nefnd sérfróðra manna samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga. Lögreglustjórinn svaraði með bréfi dags. 4. júlí 2006. Þar kom fram að mál A hefði verið sent embætti ríkissaksóknara, sbr. a-lið 3. mgr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og hefði erindið því verið framsent þangað, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af gögnum málsins verður ráðið að lögreglan í Reykjavík sendi ríkissaksóknara gögn málsins sama dag og svarbréf til tollstjórans í Reykjavík var ritað. Ekki er að sjá í gögnum málsins að embætti ríkissaksóknara hafi svarað skriflega hinu framsenda erindi tollstjórans í Reykjavík varðandi stöðu málsins.
Þann 10. júlí 2006 ritaði tollstjórinn í Reykjavík A bréf þar sem vísað er til svars lögreglustjórans í Reykjavík um að málið hafi verið sent ríkissaksóknara. Með vísan til þess var A tilkynnt að fyrirhugað væri að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir, sbr. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga og vísa málinu til nefndar samkvæmt 27. gr. laganna. Var A veittur kostur á að tjá sig um ástæður lausnar, þótt ekki væri til þess lagaskylda, og frestur veittur til 21. júlí 2006. Í bréfi, dags. 20. júlí 2006, til tollstjórans í Reykjavík komu fram andmæli A við fyrirhugaðri ákvörðun, enda hefði embættið ákveðið að hann yrði í orlofi þar til annað yrði ákveðið. Í því hefði falist að hann yrði í launuðu orlofi þar til ákveðið yrði hvort ávirðingar á hendur honum leiddu til ákæru eða ekki. Þar sem ætla mætti að niðurstöðu embættis ríkissaksóknara væri að vænta innan skamms tíma var þess farið á leit að frestað yrði ákvörðun um að veita honum lausn um stundarsakir þar til sú niðurstaða lægi fyrir. Að öðru leyti var því lýst að fullyrðingar sakborninga í málinu um aðkomu A væru alrangar og styddust ekki við nein gögn.
Með bréfi tollstjórans í Reykjavík dags. 31. ágúst 2006 var A veitt lausn um stundarsakir frá og með 1. september 2006. Tekin var afstaða til andmæla hans og á það bent að í ákvörðun um að hann yrði í launuðu leyfi hefði eingöngu falist að slíkt leyfi stæði þar til embættið ákvæði annað, en ekki þar til niðurstaða fengist um það hvort ákæra yrði gefin út. Kom síðan fram eftirfarandi rökstuðningur fyrir ákvörðuninni.
Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 má veita embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.
Það er óumdeilt að til meðferðar er hjá ríkissaksóknara mál vegna gruns um brot í opinberu starfi að yðar hálfu sem lögreglan í Reykjavík hefur haft til rannsóknar á undanförnum mánuðum.
Samkvæmt ofangreindu hefur tollstjórinn í Reykjavík ákveðið að veita yður lausn frá embætti um stundarsakir og vísa máli yðar til nefndar samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996.
Eftir að málið kom til meðferðar hjá nefndinni óskaði hún eftir því við ríkissaksóknara með bréfi dags. 24. október 2006 að henni yrðu afhent afrit rannsóknargagna og upplýsingar veittar um það hvort ákæra hefði verið gefin út í máli A. Nefndinni barst eftir það afrit af bréfi ríkissaksóknara til lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 27. október 2006. Í því kom fram að rannsóknargögnin sem lögreglustjórinn í Reykjavík sendi ríkissaksóknara 4. júlí 2006 hefðu verið endursend lögreglustjóraembættinu með bréfi dags. 10. júlí, en þar hefði lögreglustjóra verið falin málshöfðun vegna ætlaðra brota A og annarra sakborninga í málinu með vísan til 4. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Fór ríkissaksóknari þess á leit í fyrrgreindu bréfi frá 27. október að lögreglustjórinn í Reykjavík afgreiddi erindi nefndarinnar með beiðni um rannsóknargögn og upplýsingar um stöðu málsins.
Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi nefndinni rannsóknargögn í máli A með bréfi dags, 8. nóvember 2006. Þar fylgdi jafnframt með afrit bréfs lögreglustjórans til tollstjórans í Reykjavík þar sem upplýst er um að mál A sé til ákærumeðferðar hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík og þess sé að vænta að því verði innan skamms vísað til héraðsdóms Reykjavíkur með útgáfu ákæru.
Þann 5. desember 2006 sendi nefndin lögreglustjóranum í Reykjavík rafbréf með fyrirspurn um það hvort ákæra hefði verið gefin út í málinu. Henni barst svar samdægurs í rafbréfi um að svo væri ekki.
3. Sjónarmið málsaðila
Hér verður nánar lýst kröfum og röksemdum aðila sem fram koma í greinargerðum þeirra til nefndarinnar og við munnlega reifun málsins fyrir nefndinni 8. desember 2006.
3.1. Sjónarmið tollstjórans í Reykjavík
Af hálfu tollstjórans í Reykjavík er þess krafist að nefndin láti í ljós rökstutt álit um að tollstjóranum hafi verið rétt að víkja A frá störfum um stundarsakir. Í greinargerð tollstjórans til nefndarinnar frá 2. nóvember 2006 kemur fram að óumdeilt sé að A hafi verið handtekinn ásamt fjórum öðrum þann 24. nóvember 2005 og færður til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Reykjavík vegna gruns um misferli með ótollafgreidda vöru í vörumiðstöð X. Fyrir liggi að lögreglan í Reykjavík sé nú með málið í ákærumeðferð og þess að vænta að því verði innan skamms vísað til héraðsdóms Reykjavíkur með útgáfu ákæru á hendur A.
Bent er á að frumkvæði að lögreglurannsókn málins megi rekja til tollstjóraembættisins í Reykjavík sem tilkynnti lögreglunni um þær grunsemdir sínar að A og nokkrir starfsmenn X stunduðu þjófnað á áfengi sem ætti að farga. Við eftirlit lögreglu hefðu þessar grunsemdir verið staðfestar og sakborningar handteknir í beinu framhaldi af þjófnaði á áfengi í vöruhúsi X.
Ljóst sé að tvíþætt skilyrði 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga fyrir því að starfsmanni verði veitt lausn um stundarsakir séu uppfyllt; Annars vegar sé uppi grunur um tiltekna háttsemi og hins vegar sé háttsemin þess eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Hvað varðar fyrra atriðið, þá liggi fyrir að A hafi verið handtekinn ásamt fjórum öðrum sakborningum sem séu starfsmenn X. Þeir hafi allir borið um aðild hans að brotastarfseminni og tveir þeirra hafi jafnframt borið um að hafa séð hann taka áfengi. Þá liggi fyrir að eftir að rannsókn lauk hafi lögreglan í Reykjavík sent málið til ríkissaksóknara sem hafi síðan falið lögreglustjóranum í Reykjavík málshöfðun í málinu. Af þessu megi sjá að ríkissaksóknari telji uppfyllt skilyrði 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og að það sem fram hefur komið við rannsóknina sé nægilegt eða líklegt til sakfellis. Hvað varðar síðara atriðið, þá séu meint brot A alvarleg. Samkvæmt 3. og 4. tölul. 1. mgr. 42. gr. tollalaga nr. 88/2005 er það meðal helstu hlutverka tollstjóra að hafa eftirlit með flutningi og geymslu á ótollafgreiddum varningi innanlands og vinna að uppljóstran brota gegn lögunum og stöðva ólögmæta háttsemi. A hafi brugðist því trausti sem honum var sýnt sem umsjónarmanni tollstjóraembættisins með förgun áfengisbirgða. Með því hafi hann brotið gegn starfsskyldum sínu samkvæmt 14. gr. starfsmannalaga og háttsemi hans verið honum til vanvirðu og álitshnekkis og varpað rýrð á starf hans og embættisins. Þá væru meint brot hans refsiverð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um þjófnað og brot í opinberu starfi. Meint brot A væru svo alvarleg að hann teldist ekki verður til að rækja starf sitt áfram í skilningi 68. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til þessa hefðu verið uppfyllt skilyrði 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga að veita mætti A lausn frá starfi um stundarsakir.
Hvað varðaði meðferð máls A hjá embætti tollstjórans í Reykjavík, þá hefði tollstjórinn ákveðið að veita honum leyfi á fullum launum þegar fyrir lá að grunsemdir um aðild hans að brotastarfseminni reyndust á rökum reistar, jafnvel þótt tilefni hefði hugsanlega verið til þess að veita honum þá þegar lausn um stundarsakir. Tollstjóraembættið hefði leitað upplýsinga um stöðu málins hjá lögreglunni í Reykjavík í júní 2006 og fengið þær upplýsingar 4. júlí að málið hefði að lokinni rannsókn verið sent ríkissaksóknara til meðferðar. Að fengnum andmælum A, sem bárust embættinu 20. júlí, hefði verið ákveðið að veita honum lausn um stundarsakir. Ástæður þess að dregist hefði að ganga frá slíkri ákvörðun til 31. ágúst mætti rekja til sumarleyfa hjá embættinu.
3.2. Sjónarmið A
Af hálfu A er því haldið fram að skilyrði 26. gr. starfsmannalaga séu ekki uppfyllt og að óheimilt hafi verið að veita honum lausn frá starfi um stundarsakir. Sakir á hendur honum séu söguburður og bornar fram af tilteknum starfsmönnum X hf. sem hafi verið handteknir í nóvember 2005 við misferli með áfengi sem skyldi farga á athafnasvæði X hf. A hafi staðfastlega neitað öllum ásökunum um það athæfi sem honum var borið á brýn í yfirheyrslum hjá lögreglu og engra áþreifanlegra sönnunargagna njóti við um meinta hlutdeild hans í broti starfsmanna X. Ágreiningslaust sé að hann hafi verið víðs fjarri athafnasvæði X þegar téðir starfsmenn voru gripnir við iðju sína. Framburðir starfsmannanna séu ruglingslegir og misvísandi og beri í mesta lagi vott um afbakaðan skilning á ummælum hans í samtölum við umrædda starfsmenn en líklegast hafi þeir þó sammælst um að koma sök yfir á A. Þá sé í framburði tveggja þeirra aðeins vísað til þess að þeir hafi heyrt samstarfsmenn sína tala um þátttöku A í brotastarfseminni án þess að hafa neina reynslu af því sjálfir. Í ljósi þess að a.m.k. tveir tollverðir standi að förgun áfengis samkvæmt vinnureglum tollstjóraembættisins, sé hins vegar fráleitt að hann hafi getað veitt slíka hlutdeild í brotum starfsmanna X sem þeir saka hann um. Þá beri tollstjóraembættið ábyrgð á því að eftirlit með förgun áfengisbirgða hafi ekki verið í fastari skorðum. Það hafi falist í því að gera stikkprufur í talningu á birgðum sem ætlað væri að farga og bera saman við lista. Þar sem um tjónavöru hafi verið að ræða hafi til dæmis verið algengt að áfengisflöskur í vörusendingum hefðu brotnað án þess að fyrir lægi hversu margar þær væru. Hafi A verið ókleift, sem umsjónarmanni með förgun, að staðreyna í hvert og eitt skipti hvort listi yfir áfengi sem ætti að farga væri í fullu samræmi við þær birgðir sem fargað væri í raun.
Á það er loks bent af hálfu A að nefndinni beri að kanna hvort skilyrði 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga um að embættismaður sé grunaður um tiltekna háttsemi sé uppfyllt, en í því felist að henni beri að leggja sjálfstætt mat á því hvort grunur teljist nægilegar sterkur til þess að hann geti leitt til sakfellingar. Það skilyrði sé ekki uppfyllt í þessu máli. Í fyrsta lagi sé ekki staðfest að ákæra verði gefin út í málinu. Rangt sé að túlka bréf ríkissaksóknara til lögreglustjórans í Reykjavík um að þeim síðarnefnda sé falin málshöfðun vegna ætlaðra brota A, sem jafngildi ákvörðunar um að gefa út ákæru. Megi hins vegar telja fullvíst að ákæruvald, ef til ákæru kemur, uppfylli ekki sönnunarbyrði sína um refsiverða háttsemi, og er vísað í því sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 345/2004 frá 17. febrúar 2005. Samkvæmt þeim dómi voru einberar yfirlýsingar eins meðáákærðs manns í refsimáli ekki taldar fullnægjandi sönnun um refsiverðan verknað. Í þessu máli liggi eingöngu fyrir yfirlýsingar fjögurra sakborninga, en engin frekari sönnunargögn gegn A.
4. Niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur fyrir henni
Í máli þessu krefst tollstjórinn í Reykjavík þess að nefndin rannsaki mál A og láti í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir. Af hálfu A er þess krafist að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt að veita honum tímabundna lausn frá störfum.
Vert er að árétta að hlutverk nefndarinnar miðast við að láta í ljós rökstutt álit um það hvort skilyrði fyrir veitingu lausnar um stundarsakir hafi verið uppfyllt þegar ákvörðunin var tekin og hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd stjórnvaldsákvörðunarinnar. Nefndin hefur tekið fram í fyrri álitsgerðum sínum að niðurstaða hennar um að rétt hafi verið að víkja manni úr embætti um stundarsakir geti orðið grundvöllur undir síðari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um það hvort starfsmaður skuli taka aftur við embætti sínu eða hvort víkja eigi honum úr embætti að fullu. Sá grundvöllur sé þó ekki bindandi eins og fram kemur í 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Reynist ávirðingar sem embættismanni eru gefnar að sök ekki vera fyrir hendi síðar skal stjórnvaldið ekki víkja manni að fullu, þótt nefndin hafi talið rétt að víkja honum um stundarsakir. Þótt stjórnvald hafi fengið niðurstöður nefndarinnar um að rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir þarf stjórnvaldið að taka sjálfstæða ákvörðun um endanlega lausn úr embætti.
Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um að leysa A frá störfum um stundarsakir er reist á 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna þar sem A var grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Verða nú nánar skoðuð efnisleg skilyrði þeirrar ákvörðunar. Skilyrði fyrir því að stjórnvald beiti þessu ákvæði starfsmannalaganna eru tvíþætt. Annars vegar að grunur liggi fyrir og hins vegar að háttsemin sé þessi eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þegar tollstjóri tók ákvörðun um að leysa A frá störfum um stundarsakir þann 31. ágúst 2006, lá fyrir að lögregla hafði frá því í nóvember 2005 rannsakað meinta aðild hans að þjófnaði á áfengisbirgðum sem biðu förgunar í vöruhúsi X og hafði málið verið sent til ríkissaksóknara. Hófst rannsókn þessi vegna tilkynningar frá tollstjóraembættinu til lögreglu um að grunsemdir hefðu vaknað um þessa brotastarfsemi stafsmanna X og að A, sem umsjónarmaður embættisins með förgun áfengisbirgða, ætti þar hlut að máli.
A hefur neitað öllum sakargiftum í málinu. Af ummælum annarra sakborninga í málinu og með vísan til þessa umfangs áfengisbirgða sem haldlagðar voru á heimilum sakborninga má ráða að þjófnaður á áfengi úr birgðum sem ákveðið hafði verið að farga hafði staðið um nokkurt skeið eða allt aftur til ársins 2001. Einnig liggur fyrir að A hafði átt símasamskipti við sakborninga, m.a. þann dag sem handtökur fóru fram. Þá ákvað ríkissaksóknari, 10. júlí 2006, að fela lögreglustjóranum í Reykjavík málshöfðun varðandi meintan þjófnað og brot A í opinberu starfi.
Ekki verður fallist á þau sjónarmið sem færð hafa verið farið fram af hálfu A að nefndinni beri að leggja sjálfstætt mat á, umfram það sem þegar má ráða af meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi, hvort grunur teljist nægilegar sterkur til þess að hann geti leitt til sakfellingar. Ljóst er að lögregla og ríkissaksóknari hafa ekki látið málið falla niður skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála en það er nú til ákærumeðferðar hjá lögreglunni í Reykjavík samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara. Í því sambandi ræður ekki úrslitum hvort ákæra hefur verið gefin út. Í ljósi þessara málsatvika telur nefndin óumdeilt að grunur sé til staðar um þá háttsemi A að hafa tekið þátt í meintum þjófnaðarbrotum starfsmanna X og að hafa framið brot í opinberu starfi. Að þessu leyti er fyrra skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna uppfyllt.
Við mat á seinna skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. um það hvort umrædd háttsemi A hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, byggir nefndin á því að hinn ætlaði refsiverði verknaður sé slíkur, ef sök sannast, að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Leggur nefndin þannig mat á skilyrðið út frá því hvert er eðli hins ætlaða brots. Þau brot sem A er grunaður um eru brot í opinberu starfi samkvæmt IVX. kafla almennra hegningarlaga og þjófnaður. Hvað varðar brot í opinberu starfi koma hér sérstaklega til álita 138. gr. – 141. gr. í fyrrgreindum kafla hegningarlaganna. Í 138. gr. segir að hafi opinber stafsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði sem telja verði misnotkun á stöðu hans, og við því broti sé ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan, þá skuli hann sæta þeirri refsingu sem við því broti liggur, en þó svo aukinni, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar. Þá segir í 139. gr. sömu laga að hafi opinber starfsmaður misnotað stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings til þess að gera nokkuð það, sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Í 140. gr. kemur fram að synji opinber starfsmaður eða láti af ásettu ráði farast fyrir að gera það, sem honum er boðið á löglegan hátt, skuli hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Sama refsing liggur við því að opinber starfsmaður gerist sekur um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, sbr. 141. gr. laganna.
Nefndin telur að þau brot í opinberu starfi sem A var grunaður um að hafa framið þegar ákvörðun var tekin um lausn hans og eru nú ákærumeðferðar hjá lögreglustjóranum í Reykjavík samkvæmt fyrirmælum ríkisaksóknara væru til þess fallin að veikja traust almennings á störfum hans og tollgæslunnar almennt, héldi hann áfram störfum, á meðan ekki væri skorið úr um hvort þær ávirðingar væru réttar. Ljóst er að honum hafði verið falið það ábyrgðarstarf að hafa umsjón með förgun áfengis á vegum tollstjóraembættisins. Í málinu liggur fyrir að þjófnaður á áfengi úr þeim birgðum sem hann bar ábyrgð á til förgunar hefur verið stundaður um nokkurra ára skeið eins og fram kemur í framburði annarra sakborninga. Umfang haldlagðra áfengisbirgða á heimilum sakborninga rennir einnig stoðum undir þau ummæli. Af þessu má ráða að A brugðist því trausti sem fylgir starfinu sem honum falið af tollstjóraembættinu.
Nefndin telur ekki hjá því komist að telja að háttsemi A, ef sönn reyndist, leiddi til þess að hann teldist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann og hefði þannig í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.
Nefndin telur nauðsynlegt að taka fram að óútskýrðar tafir hafa orðið á meðferð málsins hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík og einnig verða gerðar athugasemdir við óþarfa hægagang í meðferð málsins hjá embætti tollstjóra. Af rannsóknargögnum lögreglu sem hafa verið lögð fram í meðferð málsins fyrir nefndinni, virðast síðustu skýrslur í rannsókn málsins hafa verið teknar í lok aprílmánaðar á þessu ári en málið var sent ríkissaksóknara 4. júlí 2006. Ríkissaksóknari fól lögreglustjóranum í Reykjavík málshöfðun vegna ætlaðra brota A og annarra sakborninga með bréfi dags. 10. júlí sl. Tæpum fimm mánuðum síðar, eða þann 5. desember, hafði enn ekkert verið aðhafst í málinu af hálfu lögreglunnar í Reykjavík.
Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þótt tollstjórinn í Reykjavík beri ekki ábyrgð á töfum sem orðið hafa á meðferð máls hjá lögreglu hvorki fyrir né eftir ákvörðun hans um að veita A lausn um stundarsakir hefði honum þó verið rétt að ganga fyrr eftir upplýsingum um það hjá lögregluyfirvöldum hvar rannsókn málsins stæði. Eftir eftirrekstur frá A sjálfum á fyrri hluta ársins 2006 og fund með honum 31. maí gekk tollstjórinn í Reykjavík eftir upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík með bréfi dags. 20. júní. Eftir svar lögreglustjórans í Reykjavík 4. júlí um að málið hefði verið sent ríkissaksóknara var A veittur kostur á að koma að andmælum við fyrirhugaðri lausn um stundarsakir og bárust athugasemdir hans 20. júlí. Var síðan ekki aðhafst í málinu af hálfu tollstjórans í Reykjavík fyrr en að einum mánuði og tíu dögum liðnum, eða þann 31. ágúst 2006 þegar ákvörðun var tekin um lausn A um stundarsakir. Verða þetta að teljast tafir á meðferð málsins hjá tollstjóra sem ekki hafa verið réttlættar með haldbærum rökum. Á hitt ber þó að líta að tafirnar höfðu ekki áhrif á efnislega niðurstöðu í máli A og þær urðu honum ekki til fjárhagslegs óhagræðis, enda hélt hann fullum launum lengur en hann hefði gert hefði ákvörðun um lausn hans um stundarsakir verið tekin fyrr. Með vísan til þessa verður ekki litið svo á að tafir við meðferð málsins hafi áhrif á gildi ákvörðunar um lausn hans um stundarsakir, þótt rétt sé að gera athugasemdir við þær með vísan til fyrrgreindrar málshraðareglu stjórnsýslulaga.
Með vísan til þessa verður því fallist á að tollstjóranum hafi verið rétt að veita A tímabundna lausn frá störfum.
ÁLIT
Nefnd skv. 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, telur að tollstjóranum í Reykjavík hafi verið rétt að veita A tollverði hjá embætti tollstjórans í Reykjavík lausn frá störfum um stundarsakir þann 31. ágúst 2006.
Þann 15. desember 2006
____________________
Björg Thorarensen
_________________ _______________________
Erna Guðmundsdóttir Vala Rebekka Þorsteinsdóttir