Óskað eftir umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna máls sem höfðað var á hendur ríkisskattstjóra
Ríkislögmaður
Soffía Jónsdóttir, hrl.
Hverfisgötu 4-6
150 Reykjavík
Reykjavík 23. ágúst 2016
Tilv.: FJR16070018/16.2.1
Efni: Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis í máli [A] gegn ríkisskattstjóra og íslenska ríkinu.
Vísað er til bréfs embættis ríkislögmanns, dags. 4. júlí 2016, þar sem óskað er eftir umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna máls sem [A] hefur höfðað á hendur ríkisskattstjóra og íslenska ríkinu með stefnu dags. 24. júní 2016. Stefnan lýtur að því að krefjast ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra frá 19. febrúar 2016, þess efnis að stefnandi hafi skattalega heimilisfesti og beri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna tekna sinna og eigna á tímabilinu frá 17. mars 2006 til 31. desember 2010. Jafnframt er krafist greiðslu málskostnaðar.
Málavextir.
Eins og fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 2016, eru málavextir þeir að samkvæmt Þjóðskrá var stefnandi skráður með lögheimili í Máritaníu [M] í Afríku ótilgreint frá 17. mars 2006. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli nr. 2012/02/0029, dags. 23. september 2015, er varðar skattskil stefnanda á tekjuárunum 2006-2010, starfaði stefnandi við sjómennsku fyrir íslensk og erlend útgerðarfyrirtæki á árunum 2006-2010. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að lögð hafi verið fram vottorð um búsetu og skattskil í Máritaníu[M], en þau séu engum gögnum studd sem staðfesti, eða geri sennilegt, að hann hafi í raun greitt skatta þar í landi. Undir rannsókn málsins kom fram að stefnandi hafi dvalið á hótelum á vegum vinnuveitanda síns á leið til og frá vinnustað. Á rannsóknartímanum hafi hann átt íbúðarhúsnæði hér á landi þar sem hann dvaldi þegar hann var hér á landi. Þá kemur fram að stefnandi hafi einnig átt ökutæki hér á landi og sumarbústað en engar eignir í Máritaníu. [M] Greiðslukortayfirlit hans þykja sýna að þeim tíma sem hann dvaldist ekki á sjó vegna starfs síns hafi hann að mestu varið hér á landi og fjármunum hans hafi að mestu leyti verið ráðstafað hér á landi. Ekki verði séð á kreditkorta- eða bankayfirlitum stefnanda að hann hafi tekið út eða ráðstafað fjármunum í Máritaníu[M]. Framtölum var skilað vegna tekjuáranna 2006 og 2007, en framtölum vegna 2008, 2009 og 2010 hefur ekki verið skilað. Niðurstaða skattrannsóknarstjóra var sú að skattaleg heimilisfesti hans hafi verið á Íslandi. Af því þykir mega ráða að hann hafi ekki fellt niður fasta búsetu hér á landi.
Með bréfi dags. 15. janúar 2016 tilkynnti ríkisskattstjóri stefnanda að fyrirhugað væri að kveða upp úrskurð þess efnis að stefnandi teldist eigi hafa fellt niður heimilisfesti á Íslandi þrátt fyrir tilkynningu hans til Hagstofu Íslands, þjóðskrár. Stefnanda var gefinn kostur á að koma að skriflegum skýringum og athugasemdum. Ríkisskattstjóri móttók svar þann 8. febrúar 2016. Þar voru ítrekuð andmæli sem fram komu við skýrslu skattrannsóknarstjóra auk þess sem lagt var fram vottorð frá máritanískum skattyfirvöldum.
Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð, dags. 19. febrúar 2016, um að stefnandi teldist vera með skattalega heimilisfesti og bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna tekna sinna og eigna á tímabilinu frá frá 17. mars 2006 til 31. desember 2010.
Almennt.
Skattskylda manna er ýmist takmörkuð eða ótakmörkuð. Ákvæði um ótakmarkaða skattskyldu er að finna í 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar kemur fram í 1. tl. 1. mgr. að þeir einstaklingar sem hér eru heimilisfastir skuli greiða tekjuskatt af öllum sínum tekjum, hvar sem þeirra er aflað. Hins vegar tekur 3. tl. 1. mgr. til þeirra aðila sem dvelja hér á landi lengur en í 183 daga á 12 mánaða tímabili, að teknu tilliti til eðlilegrar fjarveru. Ákvæði um takmarkaða skattskyldu er að finna í 3. gr. áður nefndra laga. Í 1. tl. greinarinnar kemur fram að þeir sem dvelja hér á landi og starfa, án þess að þeir falli undir 1. gr. laganna, skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum sem þeir fá fyrir störf sín hér á landi. Í ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir eðlilegri fjarveru frá landinu líkt og gert er í 3. tl. 1.mgr. 1. gr. laganna.
Við mat á því hvort maður telst heimilisfastur hér á landi skal tekið mið af ákvæðum laga nr. 21/1990, um lögheimili, eftir því sem við á. Samkvæmt 1. gr. laganna telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Hafa ber þó í huga að heimilisfestishugtak skattalaga er rýmra en hugtakið föst búseta samkvæmt lögheimilislögum. Þannig getur maður talist heimilisfastur hér á landi þó hann sé ekki með skráð lögheimili hér. Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um það hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. greinarinnar.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, skal hver sá sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur eiga hér lögheimili samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum. Jafnframt er þeim sem dveljast eða ætla að dveljast í landinu vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur heimilt að skrá lögheimili sitt hér. Þeir sem skráðir eru í Þjóðskrá með lögheimili hér á landi teljast heimilisfastir hér á landi og bera því ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Með hugtakinu skattaleg heimilisfesti hér á landi er átt við að einstaklingur beri fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Í því felst að hin skattalega heimilisfesti er óháð ríkisfangi og/eða lögheimilisskráningu.
Af ofangreindu leiðir að allir menn sem hafa fasta búsetu og eru skráðir með lögheimili hér á landi eru taldir hafa skattalega heimilisfesti hér á landi og bera þar af leiðandi fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Hér undir falla einnig þeir aðilar sem dvelja hér á landi lengur en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili að eðlilegum fjarvistum frá landinu meðtöldum t.d. sökum orlofs eða veikinda.
Af þessu leiðir að á stjórnsýslustiginu getur einstaklingur talist skattalega heimilisfastur á Íslandi á grundvelli skráningar í þjóðskrá nema ríkisskattstjóri úrskurði um skattalega heimilisfesti.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi gerir kröfu um ógildingu á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 2016, á þeim grunni að, í fyrsta lagi hafi íslensk stjórnvöld ekki farið að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, s.s. 10. gr. rannsóknarreglu, 12. gr. meðalhófsreglu, 7. gr. um leiðbeiningarskyldu og 11. gr. jafnræðisreglu. Farið sé gegn þessum ákvæðum með alvarlegum og ómálefnalegum hætti. Í öðru lagi brjóti ríkisskattstjóri í úrskurði sínum gegn Stjórnarskrá Íslands, aðallega jafnræðisreglu 65. gr., þar sem í engu sé tekið tillit til fyrri úrskurða ríkisskattstjóra sbr. og einnig 40. gr., sbr. 77. gr. um afturvirkni skattheimtu. Í þriðja lagi fari ríkisskattstjóri fram með ómálefnalegum málsástæðum í úrskurði sínum við mat á framlögðum gögnum frá stefnanda. Þar geri ríkisskattstjóri sig sekan um að halda fram, gegn skýrum texta 1. gr. tekjuskattslaga, að ekki sé hægt að líta á vottorð stefnanda frá þar til bærum yfirvöldum í Máritaníu sem gild vottorð þar sem stjórnmálasamband sé ekki við ríkið. Í fjórða lagi uppfylli stefnandi öll ákvæði laga við mat á því að skattaleg heimilisfesti hans sé í Máritaníu [M] með framlagningu leigusamninga og búsetuvottorða.
Niðurstaða.
Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um það hverjir teljist heimilisfastir hér á landi samkvæmt ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við ákvörðun á heimilisfesti skal ríkisskattstjóri miða við reglur laga um lögheimili eftir því sem við á. Ríkisskattstjóri getur ekki verið bundinn af því hvernig skráning lögheimilis er hjá þjóðskrá. Í úrskurði sínum horfir ríkisskattstjóri að sjálfsögðu til lögheimilislaga en hann er ekki bundinn af þeim. Orðið heimilisfastur er notað með öðrum hætti í 2. mgr. 1. gr. en í 1. tl. 1. mgr. greinarinnar eða sem heildarhugtak yfir þá sem falla undir 1.-4. tölul. 1. mgr. Í niðurlagi athugasemda við 1. gr. í frumvarpi því sem varð að eldri lögum um tekjuskatt nr. 75/1981 segir: „Þar sem heimilisfesti samkvæmt þessari grein fellur ekki að öllu leyti saman við lagareglur um lögheimili er ríkisskattstjóra veitt úrskurðarvald um hverjir skulu teljast heimilisfastir hér á landi í skilningi skattalaga...“ Það er því ljóst að úrskurðarvald ríkisskattstjóra tekur til víðrar merkingar orðsins heimilisfesti. Orðalagið „Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt þessari grein“ í 2. mgr. 1. gr. laganna ber samkvæmt framangreindu að skilja þannig að ríkisskattstjóri skeri úr um hvaða einstaklingar falli undir 1.-4. tölul. 1. mgr. greinarinnar og lýtur úrskurðarvaldið því í raun að því hverjir teljist skattskyldir hér á landi samkvæmt 1. gr. Beri maður fulla skattskyldu samkvæmt 1. gr. tekjuskattslaga telst hann heimilisfastur hér á landi.
Framkvæma skal heildstætt mat með sérstakri áherslu á athafnir skattaðila sjálfs við mat á heimilisfesti. Það land, sem maður hefur venjulega dvöl í er aðeins einn þáttur af nokkrum sem veitt geta upplýsingar um persónu- og fjárhagsleg tengsl stefnanda. Við mat á heimilisfestinni getur ráðið úrslitum hvar maður dvelur að jafnaði. Þessi staður þarf þó ekki endilega að vera sá staður sem hann dvelur lengst á miðað við ákveðið tímabil. Athuga verður hæfilega langt tímabil svo unnt sé að leggja mat á það hvar maður dvelst að jafnaði og getur lengd þess verið breytileg eftir því hver á í hlut. Þótt maður dvelji ef til vill eitthvað minna á Íslandi en í Máritaníu[M] þarf það ekki endilega að merkja að persónu- og fjárhagsleg tengsl stefnanda sé ekki hér á landi. Meta þarf raunverulegar aðstæður stefnanda s.s. tengsl hans við landið, dvöl hans hér, tekjuöflun, fjármálaumsvif, nýtingu þjónustu hins opinbera o.fl.
Samkvæmt 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal skattrannsóknarstjóri ríkisins hafa með höndum rannsóknir samkvæmt lögunum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur að eigin frumkvæði eða eftir kæru hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar skatta lagða á samkvæmt lögum þessum eða aðra skatta og gjöld og skal hann annast rannsóknir í málum sem til hans er vísað. Markmið rannsóknar skal vera að afla allra nauðsynlegra gagna og upplýsa málsatvik til þess að unnt sé að ákvarða hvort skattskil hafi verið röng eða byggð á vafasömum, hæpnum eða ófullnægjandi forsendum, svo leggja megi grundvöll að endurákvörðun opinberra gjalda, og unnt sé að meta hvort krafist skuli refsimeðferðar og þá með hvaða hætti, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Þá skal skattrannsóknarstjóri ríkisins við rannsókn sína hafa aðgang að öllum framtölum og skýrslum í vörslu ríkisskattstjóra og getur hann krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá ríkisskattstjóra og aðilum sem um ræðir í 94. gr. tekjuskattslaga. Þegar aðgerðir skattrannsóknarstjóra ríkisins gefa tilefni til endurákvörðunar á sköttum skal ríkisskattstjóri annast endurákvörðunina, sbr. 96. og 97. gr. laganna.
Upphaf málsins má rekja til þeirrar ákvörðunar skattrannsóknarstjóra að hefja rannsókn á skattskilum stefnanda vegna tekjuáranna 2006 til og með 2010. Að lokinni rannsókn skattrannsóknarstjóra sendi hann ríkisskattstjóra mál stefnanda til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 2016, að Ísland eigi ekki í stjórnmálasambandi eða hafi gert upplýsingaskipta- eða tvísköttunarsamning við Máritaníu og því eigi embættið erfitt með að sannreyna þær upplýsingar sem þar koma fram. Þá séu upplýsingar um lögheimili stefnanda í Máritaníu [M] ekki í samræmi við skráningu í Þjóðskrá.
Að því er varðar tilvísun stefnanda til úrskurðar skattstjórans í Reykjanesumdæmi, dags. 25. október 2005, þykir rétt að ítreka að skattrannsóknarstjóri getur hvenær sem er að eigin frumkvæði eða eftir kæru hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar skatta lagða á samkvæmt lögum um tekjuskatt eða aðra skatta og gjöld. Ráðuneytið fær ekki séð að í því felist afturvirkni ef ný gögn eða málsástæður koma fram sem breytt geta áður uppkveðnum úrskurði enda rannsókn og endurákvörðun í samræmi við sett lög. Heimild til endurákvörðunar skatts skv. 96. gr. tekjuskattslaga nær til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, sbr. 1. mgr. 97. gr. tekjuskattslaga. Sambærilega heimild er ekki að finna í 2. mgr. 1. gr. tekjuskattslaga um úrskurðarvald ríkisskattstjóra vegna heimilisfesti. Það er vegna þess að augljóslega þarf úrskurður um skattalega heimilisfesti að taka til þess tímabils sem viðkomandi var raunverulega heimilisfastur hér á landi. Ef annað ætti að gilda þá þyrfti að taka það sérstaklega fram í 2. mgr. 1. gr. laganna. Um endurákvörðun skatts gildir síðan 97. gr. tekjuskattslaga.
Í stefnu kemur fram að almenn viðskipti aðila í Máritaníu[M] fari fram með peningum. Ráðuneytið ítrekar það sem fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra að ekki verði séð á kreditkorta- eða bankayfirlitum stefnanda að hann hafi tekið út eða ráðstafað fjármunum í Máritaníu[M]. Engin frekari gögn styðja þessa fullyrðingu stefnanda.
Þá er það álit ráðuneytisins að notkun á útskrift af upptöku óskylds umbjóðanda af samtali á starfsstöð ríkisskattstjóra sé ólögmæt og samrýmist ekki almennum reglum um málatilbúnað og málarekstur, sbr. umfjöllun í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 2016.
Þá telur ráðuneytið álit umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun Kolfinnu Pálsdóttur[B], dóttur stefnanda, (mál nr. 8383/2015), ekki gefa tilefni til frekari umfjöllunar.
Álitið varðar kvörtun vegna samskipta starfsmanns skattrannsóknarstjóra við Kolfinnu og hvort hún hefði upplýsingar um símanúmer hjá föður sínum til þess að unnt væri að ná í hann. Í kvörtuninni er því haldið fram að með þessu hafi starfsmaðurinn verið að villa á sér heimildir. Umboðsmaður Alþingis tekur ekki undir það. Hins vegar telur hann að starfsmaður skattrannsóknarstjóra hefði átt að gera grein fyrir því hvar hann starfaði í samskiptum sínum við Kolfinnu og mælist til þess að betur verði gætt að þessu atriði í framtíðarstörfum skattrannsóknarstjóra.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2167/2015, Guðmundur Guðmundsson[GG] gegn ríkisskattstjóra og íslenska ríkinu, var kröfu stefnanda, um að úrskurður ríkisskattstjóra um skattalega heimilisfesti verði ógiltur, hafnað. Málsástæður í því máli voru sambærilegar við þær sem fram hafa komið í þessu máli og verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að dómurinn hafi fordæmisgildi hvað varðar skattalega heimilisfesti stefnanda í þessu máli.
Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli við ákvörðun um heimilisfesti miða við reglur laga um lögheimili. Ríkisskattstjóri er samkvæmt ákvæðinu ekki bundinn við skráningu lögheimilis manna í Þjóðskrá. Kemur þessi skilningur m.a. fram í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 250/2012. Eftirfarandi er reifun á dómum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands í málinu.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 27. janúar 2012, í máli nr. E-47/2010.
Stefnandi, Jón Ólafsson[JÓ], krafðist ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra og jafnframt að viðurkennt yrði að hann hefði borið takmarkaða skattskyldu hér á landi frá og með 1. september 1998. Stefndi, íslenska ríkið, krafðist sýknu. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið heimilisfesti samkvæmt tekjuskattslögum, og þar með full og ótakmörkuð skattskylda, sé óháð lögheimilisskráningu hjá Þjóðskrá Íslands, og að það sé mat á raunverulegum aðstæðum viðkomandi sem ráði niðurstöðu þess hvar hann hafi heimilisfesti. Í niðurstöðum dómsins kemur fram að heimilisfesti falli ekki sjálfkrafa niður við brottflutning frá landinu, og til þess að heimilisfesti falli niður þurfi að sýna fram á að viðkomandi greiði skatta í öðru ríki eins og þeir sem hafa heimilisfesti þar og að skattskyldum hafi verið fullnægt. Athugasemd um flutning til Bretlands hefði fyrst komið fram á framtali 2002 vegna tekjuársins 2001. Aðalástæða dvalar stefnanda í Bretlandi hafi verið menntun barna hans og hann hefði áætlað að dvelja sjö til átta mánuði annars staðar en í Bretlandi. Framangreind atriði, ásamt þeirri staðreynd að stefnandi notfærði sér niðurgreidda heilbrigðisþjónustu hér á landi á árunum 1998-2001, yrði að túlka á þann veg að stefnandi sjálfur hefði talið sig heimilisfastan hér á landi. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hefði greitt skatt í Bretlandi eins og hann hefði verið búsettur þar. Var íslenska ríkið sýknað af kröfum stefnanda.
Dómur Hæstaréttar Íslands, 6. desember 2012, í máli nr. 250/2012.
Dómkröfur, áfrýjanda, Jóns Ólafssonar[JÓ], fyrir Hæstarétti voru þær að ógiltur yrði úrskurður ríkisskattstjóra þess efnis að áfrýjandi bæri hér á landi fulla og ótakmarkaða skattskyldu skv. 1. gr. tekjuskattslaga allt árið 1998 og áfram uns annað yrði ákveðið, og að jafnframt yrði viðurkennt að hann bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi frá og með 1. september 1998. Stefndi, íslenska ríkið, krafðist staðfestingar á héraðsdóminum. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að áfrýjandi hafi talið fram til skatts hér á landi frá 1999 til 2002 vegna tekjuáranna 1998 til og með 2001. Fyrst á framtali 2002 vegna tekjuársins 2001 lét áfrýjandi þess getið að hann teldi sig skattskyldan annars staðar en á Íslandi. Hæstiréttur vísar til þess að áfrýjandi hafi verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Það hafi ekki verið leigt út heldur nýtt af honum og fjölskyldu hans þegar þau dvöldu á Íslandi. Áfrýjandi hafi keypt tryggingar vegna fasteignarinnar og komið hefði fram í viðtali við áfrýjanda að hann og fjölskylda hans ættu þrjú heimili, þ.e. í London, Reykjavík og Frakklandi. Áfrýjandi upplýsti að dvalardagar hans hér á landi hefðu verið mun fleiri en í Bretlandi á þessu tímabili, þar af mun lengur á árinu 2001. Hæstiréttur vísar einnig til þess að í febrúar 2002 hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins hafið rannsókn á skattskilum áfrýjanda vegna tekjuáranna 1998, 1999, 2000 og 2001. Í nóvember sama ár hafi áfrýjandi svo tilkynnt Hagstofu Íslands, að hann og fjölskylda hans hafi haft lögheimili í Bretlandi frá 1. september 1998. Í dóminum kemur fram að þessi breyting á lögheimili hafi verið skráð án sérstakrar athugunar á því hvort að tilkynning þessi styddist við efnisleg rök. Hæstiréttur reifar ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. tekjuskattslaga og vísar til ákvæða lögheimilislaga þar sem hugtakið föst búseta er skilgreint. Þá segir Hæstiréttur að ríkisskattstjóri sé ekki bundinn af því hvar lögheimili áfrýjanda var skráð í Þjóðskrá á því tímabili sem um er deilt heldur skipti mestu máli hvar áfrýjandi hafði fasta búsetu sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 97/2000. Ekki verði litið framhjá þeirri staðreynd að áfrýjandi tilkynnti ekki um breytt lögheimili þegar hann að eigin sögn flutti lögheimili sitt til útlanda 1. september 1998, svo sem honum bar skylda til samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 73/1952, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1990. Það gerði hann fyrst 22. nóvember 2002 eða rúmum fjórum árum síðar. Hæstiréttur lagði áherslu á það að áfrýjandi taldi fram til skatts eins og hann væri heimilisfastur og bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi allt til ársins 2001. En það var fyrst á framtali 2002 vegna tekjuársins 2001 að áfrýjandi lét þess getið að hann teldi sig bera takmarkaða skattskyldu hér á landi en þá hafði áfrýjanda verið tilkynnt um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að þessu virtu féllst Hæstiréttur á það með stefnda að áfrýjandi hafi verið heimilisfastur og borið hér á landi fulla og ótakmarkaða skattskyldu skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, frá 1. september 1998 til 31. desember 2001.
Niðurstaða.
Það er mat ráðuneytisins að ekki sé unnt að fallast á kröfur stefnanda.
Ráðuneytið hefur ekki nein frekari gögn undir höndum er málið kunna að varða og ekki hafa þegar verið lögð fram.
Fyrir hönd ráðherra