Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar RSK um ráðstöfun séreignasparnðar inn á fasteignaveðlán

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 16. maí 2018
Tilv.: FJR17120067/16.2.1


Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru […], kt. […], frá 15. desember 2017, þar sem kærðar eru ákvarðanir ríkisskattstjóra frá 1. nóvember 2017 og 28. nóvember 2017, um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignaveðlán.

Málavextir og málsástæður
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 1. nóvember 2017 og 28. nóvember 2017
Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að samkvæmt lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, gilda umsóknir frá og með þeim mánuði sem sótt er um í, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 40/2014. Umsækjanda sé skylt að upplýsa ríkisskattstjóra rafrænt um allar breytingar á forsendum umsóknar. Fram kemur að breyting á umsókn taki gildi frá og með þeim mánuði sem hún er gerð og taki til þeirra iðgjalda sem greidd eru fyrri þann mánuð, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 99/2014, um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Þar sem kærandi sótti að nýju um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignaveðláns í október 2017 gildi umsókn hans frá þeim tíma og taki ekki til iðgjalda sem hann greiddi fyrir þann tíma.

Stjórnsýslukæra, móttekin 15. desember2017.
Í kærunni er þess óskað að kærandi haldi réttindum til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á fasteignaveðlán fyrir allt árið 2017 þrátt fyrir að hafa afturkallað umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar í mars 2017. Þess er farið á leit að litið verði til aðstæðna kæranda á tímabilinu mars 2017 til október 2017 þrátt fyrir ákvæði laganna.

Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 2018

Með bréfi, dags. 19. desember sl., óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattsjóra um framkomna stjórnsýslukæru ásamt því að þau gögn sem málið kynnu að varða yrðu send ráðuneytinu. Umsögn og gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 19. febrúar sl.

Í umsögn ríkisskattstjóra eru málsatvik rakin í stuttu máli. Fram kemur að kærandi hafi þann 27. október 2017 sótt um að ráðstafa séreignarsparnaði sínu inn á lán sem tekið var til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota að Álfkonuhvarfi 29. Ríkisskattstjóri féllst á ráðstöfun iðgjalda inn á hið nýja fasteignaveðlán þann 16. janúar 2018, og gilti sú ráðstöfun frá október 2017.

Fram kemur að kærandi hafi með tölvupósti frá 1. nóvember 2017 óskað eftir því að umsókn hennar frá 27. október 2017 myndi gilda frá 1. febrúar 2017. Þeirri beiðni var hafnað með þeim rökum að umsóknir gilda frá þeim mánuði sem þær berast. Þann 28. nóvember 2017 óskaði kærandi að umsóknin yrði látin gilda eins langt aftur í tímann fyrir árið 2017 og hægt var. Þeirri beiðni var einnig hafnað með sömu rökum.

Með bréfi, dags. 27. febrúar sl., var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn ríkisskattstjóra. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.


Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er til úrlausnar hvort ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að hafna beiðni kæranda um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignaveðlán þegar ekki var í gildi umsókn frá kæranda um slíka ráðstöfun.

Með lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, sem fela í sér tímabundin skattfrjáls úrræði, er rétthöfum séreignarsparnaðar annars vegar heimiluð nýting á viðbótariðgjöldum til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekið eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 1. mgr. a-liðar 1. gr. laganna, og hins vegar er rétthöfum heimiluð úttekt á viðbótariðgjöldum, sem safnast hafa upp yfir tiltekið tímabil, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hafi rétthafi ekki verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem lögin mæla fyrir um, sbr. 1. mgr. b-liðar 1. gr. laganna. Í lögunum er gerður áskilnaður um umsókn rétthafa auk þess sem skýrt er kveðið á um að umsókn gildir um iðgjöld sem greidd eru eftir að hún berst ríkisskattstjóra. Lögin heimila ekki afturvirki á ráðstöfun séreignarsparnaðar nema í einu tilviki í tengslum við gildistöku laganna.

Í málinu liggur fyrir að hinn 24. mars 2017 sendi kærandi beiðni til ríkisskattastjóra þess efnis að hætt yrði ráðstöfun séreignarsparnaðar hennar inn á áður valið fasteignaveðlán. Hinn 27. október 2018 sótti kærandi að nýju um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á nýtt fasteignaveðlán og gilti sú ráðstöfun frá október 2017. Í tilviki kæranda var því engri gildri umsókn, um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignaveðlán, til að dreifa á því tímabili sem um ræðir í málinu. Með vísan til þess að kærandi, sem virðist hafa verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem um ræðir, hætti ráðstöfun séreignarsparnaðar samkvæmt beiðni þar um er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra enda heimila tilvísuð lög ekki afturvirkni á ráðstöfun séreignarsparnaðar.



Úrskurðarorð


Ákvörðun ríkisskattstjóra, um að synja kröfu um útgreiðslu séreignarsparnaðar, er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta