Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra

CATO Lögmenn ehf.
Katrínartúni 2
105 Reykjavík

Reykjavík 10. júní 2016
Tilv.: FJR16050026/16.2.3


Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru f.h. fyrirsvarsmanna [X] á úrskurði tollstjóra.

Þann 10. maí 2016 barst ráðuneytinu kæra lögmanns forsvarsmanna [X], kt. […], vegna úrskurðar tollstjóra dags. 11. apríl 2016. Annars vegar er kærð synjun tollstjóra á beiðni um afturköllun á gjaldþrotaskiptabeiðni og um gerð greiðsluáætlunar og hins vegar synjun á beiðni um frestun réttaráhrifa á meðan mál félagsins væri í kærumeðferð ráðuneytisins.

Málsatvik:
Þann 15. janúar 2016 sendi tollstjóri beiðni um gjaldþrotaskipti vegna [X]. Málið var lagt í úrskurð 26. apríl 2016 og skiptastjóri skipaður yfir búinu. Grundvöllur gjaldþrotaskiptabeiðninnar var eignaleysisyfirlýsing, sbr. 4. tölul. 165. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., í greiðsluáætlun sem undirrituð var af stjórnarmanni kæranda 8. maí 2015, sbr. hjálagt fylgiskjal, en engar greiðslur bárust frá kæranda samkvæmt greiðsluáætluninni.

Með bréfi frá kæranda til embættisins dags. 7. apríl 2016 óskaði hann eftir að gjaldþrotaskiptabeiðni yrði afturkölluð og bauð fram greiðslu að upphæð 500.000 kr. við undirritun greiðsluáætlunar ásamt því að gerðar voru tillögur að frekari greiðslum, sbr. fylgiskjal.

Erindi kæranda var synjað af hálfu tollstjóra með bréfi dags. 11. apríl 2016 með vísan til þess að tillögur félagsins miðuðu ekki að því að greiða helming vanskila gegn afturköllun gjaldþrotaskiptabeiðninnar líkt og áskilið er í verklagsreglum embættis tollstjóra.

Í stjórnsýslukæru [X] er áréttað af hálfu lögmanns kæranda að kæruréttur gjaldanda þurfi að vera raunverulegur en ekki einvörðungu til málamynda, þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að kæra fresti ekki yfirvaldsboði. Skýra þurfi regluna með hliðsjón af lögfestum og ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar og sérstaklega vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig ber að mati lögmanns kæranda að beita vægustu úrræðum sem möguleg séu til að ná lögmætu markmiði og það sé ekki uppfyllt á meðan tollstjóri keyri gjaldanda í gjaldþrot á meðan greiðsluvilji sé enn til staðar. Tillit hljóti að þurfa að taka til þess að forsvarsmenn félaga vilji gera hvaðeina sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir gjaldþrot félags. Að mati lögmanns kæranda eigi það ekki að vera hagsmunamál tollstjóra að krefjast gjaldþrotameðferðar nema sérstök rök komi til, sem ekki sé unnt að sjá að séu til staðar í máli þessu.

Hvað verklagsreglur tollstjóra varðar um greiðslu helmings skulda gjaldanda gegn afturköllun gjaldþrotaskiptabeiðni, er það mat lögmanns kæranda að tollstjóri þurfi engu að síður að taka tillit til atvika í sérhverju máli í samræmi við regluna um skyldubundið mat. Í tillögum kæranda hafi legið fyrir að greiða skyldi helming skulda á þessu ári, m.a. með sölu fasteignar fyrirsvarsmanna félagsins, og sérstakt að tollstjóri skyldi ekki taka því boði um greiðslu. Nú sé tíu ára vinna og markaðssetning vegna sölu á vatni ónýt fari félagið í þrot.

Þá telur lögmaður kæranda að tollstjóri hafi ekki leiðbeint gjaldanda um 3. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem er að finna heimild til að gera samning ef unnt er að tryggja kröfu sem ella myndi tapast. Það sé stjórnvalds að veita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi starfssvið þess, öllum sem til þess leita, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það er því krafa kæranda að ráðuneytið afturkalli gjaldþrotabeiðni og búinu verði skilað að nýju til gjaldanda og lagt fyrir tollstjóra að gera samkomulag um greiðsluáætlun við gjaldanda.

Umsögn tollstjóra:
Ráðuneytið óskaði umsagnar tollstjóra þann 10. maí 2016 sem barst ráðuneytinu hinn 7. júní 2016. Í umsögninni kemur fram að tollstjóri telji sér ekki heimilt annað en að gæta að jafnræðisreglu skatta- og stjórnsýsluréttar, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Innheimtumenn hafi því ekki lagalegt svigrúm til að meta atvik hvers máls og haga innheimtuaðgerðum í ljósi atvika líkt og kærandi geri í máli þessu. Þar sem tillaga forsvarsmanna félagsins hafi ekki uppfyllt skilyrði verklagsreglna tollstjóra um greiðslu helmings skulda gegn afturköllun gjaldþrotaskiptabeiðni, hafi svigrúmið ekki verið fyrir hendi til að verða við henni né til þess að semja frekar um skuldina með gerð greiðsluáætlunar.

Í umsögn tollstjóra er að auki ekki tekið undir það sjónarmið í kæru að tollstjóri hafi með aðgerðum sínum brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og gagna gat kæranda verið ljós skuldastaðan við tollstjóra og ljóst að hann hafði haft rúman tíma til að grípa til aðgerða. Á árinu 2015 hafi kæranda verið send sex innheimtubréf, það síðasta hinn 23. nóvember 2015, en kærandi greiddi síðast inn á skattskuld sína 3. febrúar 2015. Einnig ber að mati tollstjóra að hafa í huga að meirihluti skulda kæranda vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda er vegna áranna 2009 og 2010. Tollstjóri telur ekki að greiðsluvilji kæranda á seinni stigum geti haft áhrif á hvernig mál hans var til lykta leitt enda var ekki boðin fram greiðsla sem nægði til afturköllunar gjaldþrotaskiptabeiðninnar.

Þá kemur fram í umsögn tollstjóra að mál kæranda var lagt í úrskurð 26. apríl 2016 og lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., setji skorður við því að gjaldþrotaskiptabeiðni verði afturkölluð. Þannig segi í 4. mgr. 67. gr. laganna að kröfu um gjaldþrotaskipti megi afturkalla þar til úrskurður gengur um hana. Eftir það tímamark verður gjaldþrotaskiptabeiðni ekki afturkölluð enda hafi þrotabú tekið við öllum fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara.

Hvað varðar kvörtun kæranda um að tollstjóri hafi ekki leiðbeint kæranda um skuldbreytingu samkvæmt 3. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, þá á það ekki við í tilviki kæranda að mati tollstjóra þar sem leiða megi af ákvæðinu að gjaldandi verði að eiga eign til tryggingar kröfu. Kærandi sé hins vegar eignalaus samkvæmt opinberum skrám.

Að lokum kemur fram í umsögn tollstjóra að ekki sé unnt að benda á lagareglu sem heimili afturköllun á umþrættri gjaldþrotaskiptabeiðni.


Forsendur og niðurstaða:
Bréf það sem barst ráðuneytinu dags. 10. maí 2016 var undirritað af lögmanni f.h. gjaldanda, [X]. Hins vegar er [X] nú á forræði skiptastjóra bússins eftir úrskurð 26. apríl 2016 og skipun skiptastjóra með búinu. Engu að síður tekur ráðuneytið málið til úrskurðar og lítur sem svo á að kæran sé fyrir hönd fyrrum forsvarsmanna félagsins.

Krafa kærenda lýtur að því að ráðuneytið afturkalli gjaldþrotabeiðni og búinu verði skilað að nýju til gjaldanda og lagt fyrir tollstjóra að gera samkomulag um greiðsluáætlun við gjaldanda. Ekki verður séð að ráðuneytið hafi lagaheimildir til þess að afturkalla gjaldþrotabeiðni með vísan til 4. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem úrskurður hefur þegar gengið um kröfu tollstjóra um gjaldþrotaskipti.

Þá verður ekki séð annað en að embætti tollstjóra hafi farið að lögum og reglum hvað mál félagsins varðaði og eru ekki efni til að fallast á kröfu kæranda.

Úrskurðarorð:
Ekki er fallist á kröfu kæranda í máli þessu. Úrskurður tollstjóra dags. 11. apríl 2016 er staðfestur.


Fyrir hönd ráðherra







Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta