Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Stjórnsýslukæra – ákvörðun ríkisskattstjóra um útgreiðslu séreignarsparnaðar

[…]
[…]
[…]



Reykjavík 12. mars 2019
Tilv.: FJR19011201/16.2.1



Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A], kt. […], frá 28. desember 2018, þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra frá 29. september 2018, á beiðni um útgreiðslu séreignarsparnaðar frá júlí 2014 til júní 2018, til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í málinu liggur fyrir að ríkisskattstjóri féllst í ákvörðun sinni á útgreiðslu séreignarsparnaðar að hluta eða fyrir tímabilið mars 2018 til júní 2018.

Málavextir og málsástæður
Ákvörðun ríkisskattstjóra frá 29. september 2018
Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að ákvæði b-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, heimili úttekt á viðbótariðgjaldi sem greitt hefur verið frá 1. júlí 2014 og nýta til öflunar íbúðarhúsnæðis á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019. Fram kemur að skilyrði sé að rétthafi, eða aðili sem rétthafi uppfyllir skilyrði til samsköttunar með, hafi ekki verið eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin er nýtt.

Fram kemur að skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, séu skilyrði til samsköttunar að sambúð tveggja einstaklinga sé skráð, eða megi skrá, í Þjóðskrá enda eigi sambúðarfólkið barn saman eða von á barni saman eða hafi verið í samvistum í samfellt ár hið skemmsta. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá uppfylltu kærandi og [B] skilyrði samsköttunar frá og með árinu 2013.

Þá greinir að maki kæranda hafi verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem sótt er um útgreiðslu á séreignarsparnaði, allt fram til 15. mars 2018. Fram kemur að lán vegna fyrri eignar maka að [Y] hafa verið talin fram í kafla 5.2 á sameiginlegu skattframtali kæranda og maka. Í þeim kafla eigi aðeins að vera lán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og mynda lánin grundvöll til útreiknings vaxtabóta.

Með vísan til framangreinds féllst ríkisskattstjóri á útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu mars 2018 til júní 2018 en frá 1. júní 2018 hafi kærandi verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði að [X].

Stjórnsýslukæra, dags. 28. desember 2018
Í kærunni er niðurstöðu ríkisskattstjóra mótmælt og bendir kæranda á að hann hafi aldrei átt eignarhlut í íbúðarhúsnæði sambýliskonu sinnar að [Y].

Fram kemur að kærandi hafi fest kaup á sinni fyrstu íbúð, sem helmingseigandi að [X], hinn 1. júní 2018. Íbúðina keypti kærandi ásamt sambýliskonu sinni. Í kjölfarið sótti kærandi um útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð á vefsvæði ríkisskattstjóra þann 24. júlí 2018. Ríkisskattstjóri tók ákvörðun 29. september sl. þar sem fallist var á útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu mars til júní 2018, en ekki fyrir þann tíma.

Skilyrði útgreiðslu er að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem heimildin er nýtt. Telur kærandi, samkvæmt framangreindu, að hann uppfylli það skilyrði. Í kærunni greinir að í lögum nr. 40/2014 komi hvergi fram að rétthafa sé ekki heimilt að nýta séreignarsparnað sem hann hefur áunnið sér meðan hann hefur verið í sambúð með maka sem á fasteign. Kærandi telji lagagreinina skýra að þessu leyti og túlkun ríkisskattstjóra ekki samrýmast beinni orðskýringu ákvæðisins.

Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 15. febrúar 2019
Með bréfi, dags. 8. janúar sl., óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra um framkomna stjórnsýslukæru ásamt því að þau gögn sem málið kynnu að varða yrðu send ráðuneytinu. Beiðni um umsögn var ítrekuð 14. febrúar sl. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 15. febrúar sl.

Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sé fjallað um skilyrði til samsköttunar. Þá greinir að kærandi hafi samkvæmt skráningu í Þjóðskrá verið skráður í sambúð frá 12. júní 2013 með [B]. Kærandi hafi því uppfyllt skilyrði til samsköttunar frá þeim tíma. [B] hafi verið skráður eigandi fasteignarinnar að [Y] frá júlí 2008 til mars 2018 og að lán vegna þeirrar fasteignar hafi verið talin fram í kafla 5.2 á sameiginlegum skattframtölum kæranda og [B].

Fram kemur að með setningu laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, hafi komið til tvö úrræði sem heimiluðu nýtingu skattfrjáls séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis. Annars vegar er um að ræða heimild til nýtingu viðbótariðgjalds vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Hins vegar er skv. b-lið heimilt að taka út viðbótaiðgjald sem greitt hefur verið frá 1. júlí 2014 og nýta það til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019. Skilyrði fyrir ráðstöfun skv. b-lið er að rétthafi hafi ekki verið eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem heimildin er nýtt. Þannig miðar annað úrræði, skv. a-lið, við nýtingu séreignarsparnaðar til að létta undir með þeim sem eiga íbúðarhúsnæði eða hafa möguleika á hagnýtingu húsnæðis í eigu sambýlisaðila. Úrræði skv. b-lið miði við nýtingu séreignarsparnaðar til að auðvelda fyrstu húsnæðiskaup þeirra sem ekki eru eigendur að íbúðarhúsnæði á gefnu tímabili.

Að lokum vísar ríkisskattstjóri til þess að skv. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, sé heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar samanlagt að hámarki 750 þúsund krónur hjá einstaklingum sem uppfylla skilyrði samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. tekjuskattslaga. Á þeim grundvelli sé aðilum sem uppfylla skilyrði samsköttunar heimilt að ráðstafa viðbótariðgjöldum sínum inn á lán á nafni sambýlisaðila óháð því hvort einstaklingurinn er skráður eigandi fasteignarinnar eður ei. Sá möguleiki aðila að geta ráðstafað inn á lán sambýlisaðila á tilteknu tímabili girði því fyrir möguleika hans á því að ráðstafa til kaupa á fasteign í hans eigin nafni iðgjöldum sem féllu til á sama tímabilin enda sé heimild sambýlisfólks sameiginleg og lögbundin fjárhæðarmörk taki mið af því. Fram kemur að þetta sé óháð því hvort viðbótarréttur vegna viðkomandi aðila hafi í raun verið nýttur vegna húsnæðis í eigu sambýlisaðila eða ekki.

Umsögn kæranda, dags. 18. febrúar 2019
Með tölvupósti þann 18. febrúar sl., var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn ríkisskattstjóra. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með tölvupósti hinn sama dag.

Í umsögninni kemur fram að embætti ríkisskattstjóra líti svo á að þar sem að kærandi hafi átt möguleika á að nýta sér séreignarsparnað skv. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, sé honum ekki heimilt að nýta séreignarsparnað skv. b-lið 1. gr. laganna. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar skv. a-lið 1. gr. laganna. Telur kærandi þessa lögskýringu ótæka og langsótta þar sem vandséð sé að lesa megi þetta út úr lögunum. Að lokum ítrekar kærandi kröfu sína um ógildingu ákvörðunar ríkisskattstjóra frá 29. september 2018 og vísar í fyrri umfjöllun þar um.

Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort kærandi eigi rétt á að nýta uppsöfnuð viðbótariðgjöld frá 1. júlí 2014, í samræmi við ákvæði til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Með lögum nr. 40/2014, sem fela í sér tímabundin skattfrjáls úrræði, er rétthöfum séreignarsparnaðar annars vegar heimiluð nýting á viðbótariðgjöldum til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekið eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 1. mgr. a-liðar 1. gr. laganna, og hins vegar er rétthöfum heimiluð úttekt á viðbótariðgjöldum, sem safnast hafa upp yfir tiltekið tímabil, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hafi rétthafi ekki verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem lögin mæla fyrir um, sbr. 1. mgr. b-liðar 1. gr. laganna.

Í máli því sem hér um ræðir var kærandi skráður í sambúð með [B] á því tímabili sem um ræðir. Skilyrði til samsköttunar voru því uppfyllt. Fram hefur komið að [B] hafi verið skráður eigandi íbúðarhúsnæðisins. Mat kæranda er að þar sem hann var ekki eigandi íbúðarhúsnæðisins og hafi ekki ráðstafað viðbótariðgjöldum sínum, til greiðslu inn á höfuðstól lána sem hvíldu á íbúðarhúsnæðinu, eigi hann lögbundinn rétt á útgreiðslu uppsafnaðra iðgjalda vegna fasteignakaupa til eigin nota.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, með síðari breytingum, er rétthöfum séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019, til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að heimild til nýtingar á viðbótariðgjöldum á almanaksári sé mismunandi eftir því hvort um er að ræða einstakling, hjón eða einstaklinga, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Þannig er í 1. máls. 2. mgr. kveðið á um að heimild einstaklings takmarkist við samanlagt að hámarki 500 þús. kr. á almanaksári og í 2. máls. greinir að heimild hjóna og einstaklinga, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, takmarkist við samanlagt að hámarki 750 þúsund kr. á almanaksári. Í þessu felst að hjónum og einstaklingum sem uppfylla skilyrði til samsköttunar er heimilt að ráðstafa hærri fjárhæð viðbótariðgjalda inn á fasteignveðlán en einstaklingum sem ekki uppfylla skilyrði til samsköttunar. Heimildin gildir óháð því hvort einstaklingurinn er skráður eigandi fasteignarinnar líkt og gildir um rétt til útgreiðslu vaxtabóta af fasteignaveðlánum.

Með vísan til þess að skilyrði til samsköttunar var uppfyllt á því tímabili sem um ræðir var kæranda heimilt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, að ráðstafa viðbótariðgjöldum til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin voru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis sem [B] var skráður eigandi að enda var íbúðarhúsnæðið til eigin nota þeirra beggja á tímabilinu. Þá telur ráðuneytið að jafnframt beri að líta til þess að þar sem skilyrði til samsköttunar voru uppfyllt átti kærandi rétt á vaxtabótum fyrir það tímabil sem um ræðir sem og að heimild [B] til ráðstöfunar á viðbótariðgjöldum var hærri en hjá einstaklingum sem ekki uppfylltu skilyrði til samsköttunar. Það er því mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra.


Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 29. september sl., um að synja að hluta umsókn [A] um útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota, er staðfest.




Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta