Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna kæru- lög um virðisaukaskatt

Juris-lögfræðiskrifstofa sf.
Halldór Jónsson
Borgartúni 26
105 Reykjavík

 

Reykjavík 27. nóvember 2013
Tilv.: FJR13050091/16.2.2


Efni: Úrskurður vegna kæru [X] og [Y].

Vísað er til erindis yðar, dags. 17. apríl 2014, þar sem þess er óskað að ráðuneytið endurskoði úrskurð sinn frá 27. nóvember 2013 vegna kæru [X] og [Y] Í erindinu kemur fram að upphafleg kæra til fjármálaráðuneytisins einskorðist við álitaefni sem tengjast ákvæðum 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Líta verður á erindið sem kröfu um endurupptöku sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málavextir og málsástæður
Úrskurðir yfirskattanefndar nr. 163/2011 og 165/2011 leiddu til breytinga á skattskilum hjá kærendum og endurreiknaði tollstjóri opinber gjöld [X] og [Y]. Í niðurstöðu tollstjóra fólst að [X] var krafin um dráttarvexti kr. 25.601.318 en inneignarvextir [Y] námu kr. 9.437.953. Umbjóðendur yðar kærðu niðurstöðu tollstjóra til ráðuneytisins og kröfðust endurgreiðslu vaxtamunarsins sem nam kr. 16.163.365. Að fengnum umsögnum frá tollstjóra og ríkisskattstjóra úrskurðaði ráðuneytið í málinu þann 27. nóvember 2013 á þann veg að ákvörðun tollstjóra, dags. 4. mars 2013, um að hafna því að endurgreiða [X] kr. 16.163.365 og til vara [Y] var staðfest.

Í framhaldi af því senduð þér ráðuneytinu erindi dags. 17. apríl 2014, þar sem farið var fram á endurupptöku ráðuneytisins á úrskurðinum með vísan til þess að ekki hafi verið fjallað efnislega um 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt í úrskurðinum en skattyfirvöld hafi átt að leiðbeina kærendum um að koma að leiðréttingu með vísan til 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá segir í upphaflegri kæru að "erindi þetta einskorðist við greiðslur milli [X] og [Y]."

Ráðuneytið óskaði þá á nýjan leik eftir umsögn frá tollstjóra og ríkisskattstjóra um erindið og þær málsástæður kæranda sem færðar hafa verið fram. Umsögn tollstjóra barst ráðuneytinu þann 27. maí 2014 og barst umsögn ríkisskattstjóra þann 27. október 2014.

Í umsögn tollstjóra frá 27. maí 2014 er ákvæði 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt rakið en samkvæmt því mega þeir sem undanþegnir eru skattskyldu hvorki tilgreina á reikningum sínum né gefa á annan hátt til kynna á þeim að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð. Í 3. mgr. 22. gr. laganna segir svo að þeir sem þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. tilgreini að virðisaukaskattur sé innifalinn í heildarfjárhæð skulu skila skattinum í ríkissjóð. Í síðasta málslið 3. mgr. er síðan tekið fram að verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda falli skilaskyldan samkvæmt málsgreininni niður. Tollstjóri telur ljóst af dómi Hæstaréttar í máli nr. 319/2001 að leiðréttingu skv. lokamálslið 3. mgr. 22. gr. vskl. beri að gera af ríkisskattstjóra sem álagningaraðila ef tilefni er til. Tollstjóri ítrekar að lokum þá afstöðu sína sem kom fram í bréfi embættisins dags. 4. mars 2013 að lögum samkvæmt beri endurálagning umrædds virðisaukaskatts dráttarvexti frá þeim tíma sem [X] bar að standa skil á skattinum.

Í umsögn ríkisskattstjóra frá 27. október 2014, eru athugasemdir með frumvarpinu við þau ákvæði sem urðu að 1. og 3. mgr. 22. gr. laga um virðisaukaskatt raktar. Í athugasemdunum varðandi þessi ákvæði kemur fram að með þeim sé lagt bann við því að þeir sem undanþegnir séu virðisaukaskattskyldu tilgreini á reikningum sínum virðisaukaskatt. Þetta bann sé ekki einungis nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að fyrirtæki innheimti ranglega virðisaukaskatt sem ekki er skilað í ríkissjóð, heldur einnig til þess að koma í veg fyrir að skráður viðskiptamaður slíks fyrirtækis fái óréttmæta frádrátt vegna innskatts sem seljandi skili ekki sem útskatti í ríkissjóð. Þá er það álit ríkisskattstjóra að þegar þannig háttar til að leiðrétting af þeim toga sem um ræðir í 3. mgr. 22. gr. nefndra laga fer fram fyrir milligöngu ríkissjóðs hafi það engin áhrif á það hvort aðili skuli sæta álagi samkvæmt 27. gr. laganna. Þá telur ríkisskattstjóri að telja verði miðað við tilgang ákvæða 1. og 3. mgr. 22. gr. nefndra laga nr. 50/1988 og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 319/2001 að þau taki einungis til álagningar eða endurálagningar virðisaukaskatts, þ.e. höfuðstóls skattkröfu í málum af þessum toga. Í þessu sambandi bendir ríkisskattstjóri á að í úrskurði skattstjóra frá 28. apríl 2009 í máli [X] var enn fremur kveðið á um álag vegna endurákvörðunar virðisaukaskatts fyrir tekjuárin 2004, 2005 og 2006 og verður ekki séð að yfirskattanefnd geri athugasemdir við það í úrskurði sínum. Þá gerði yfirskattanefnd ekki athugasemdir við að leiðrétting hafi ekki farið fram samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Forsendur og niðurstaða
Fjárhæðin sem kærandi krefst endurgreiðslu á er til komin vegna breytinga á skattskilum í kjölfar úrskurða yfirskattanefndar nr. 163/2011 og 165/2011. Þar sem kærandi byggir kröfu sína um endurupptöku á 22. gr. virðisaukaskattslaga þarf að skoða sérstaklega hvort 22. gr. laganna breyti niðurstöðu málsins. Í 22. gr. laga um virðisaukaskatt er lagt bann við því að þeir sem undanþegnir eru virðisaukaskattskyldu tilgreini á reikningnum sínum virðisaukaskatt. Eins og ríkisskattstjóri bendir á þá taldi löggjafinn þetta bann ekki einungis nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að fyrirtæki innheimti ranglega virðisaukaskatt sem ekki er skilað í ríkissjóð, heldur einnig til þess að koma í veg fyrir að skráður viðskiptamaður slíks fyrirtækis fái óréttmæta frádrátt vegna innskatts sem seljandi skili ekki sem útskatti í ríkissjóð. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 165/2011 er fjallað um virðisaukaskattskil [X] og staðfesti yfirskattanefnd niðurstöðu skattstjóra varðandi breytingar á virðisaukaskattskattskilum hennar. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að "að því er virðisaukaskattsþátt málsins varðar leiðir af niðurstöðunni að innskattsfrádrætti er ekki til að dreifa, sbr. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988." Því gætu virðisaukaskattskil [X] ekki staðið óbreytt. Þar sem innskattsfrádrætti var ekki til að dreifa bar [X] að endurgreiða þann innskatt sem félagið nýtti til frádráttar á árunum 2004,2005 og 2006.

Samkvæmt 27. gr. laga um virðisaukaskatt skal aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr., sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla skv. 25. gr. laganna hefur verið of há. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt ber endurálagning virðisaukaskatts ennfremur dráttarvexti frá þeim tíma sem ber að standa skila á skattinum. Þá kemur fram í 6. mgr. 29. gr. laga um virðisaukaskatt að deila um skattskyldu fresti ekki gjalddaga skattsins né leysi undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Lög standa því ekki til annars en að reikna vexti og álag af vangoldnum virðisaukaskatti enda hefðu skattaðilar annars takmarkaðan hvata til að standa rétt að virðisaukaskattskilum sínum. Þá er ekki hægt að fallast á þær röksemdir kærenda að málið snerti að engu leyti virðisaukaskatt, þvert á móti er ljóst í málinu að kærandi nýtti sér innskatt til frádráttarútskatti sem ekki reyndist lagaheimild fyrir og ber því að endurgreiða með dráttarvöxtum. Ákvæði 22. gr. virðisaukaskattslaga breytir þessu ekki og færir ekki ábyrgðina á réttum skattskilum skattaðila yfir á ríkisskattstjóra, þrátt fyrir að ríkissjóður skuli hafa milligöngu um leiðréttingu verði henni ekki við komið fyrir lok uppgjörstímabils, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 319/2001. Jafnframt er það álit ráðuneytisins að yfirskattanefnd hafi m.a. tekið afstöðu til þess hvernig lögum um virðisaukaskatt skyldi beitt í tilviki kærenda í úrskurðum sínum.

Samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda bera ofteknir skattar og gjöld skattgreiðenda hjá ríkissjóði inneignarvexti sbr. 2. gr. laganna, þar til að endurgreiðslu þeirra hefur sannanlega verið krafist en að þeim tíma liðnum ber krafan dráttarvexti. Það er því ljóst að lög gera ráð fyrir að vextir af inneign hjá ríkissjóði og skattskuld geta á einhverjum tíma borið ólíka vexti. Ráðuneytið telur í ljósi alls framanritaðs að farið hafi verið að lögum við útreikning vaxta í kjölfar úrskurða yfirskattanefndar nr. 163/2011 og 165/2011. Þá hafi úrskurður ráðuneytisins ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kröfu kærenda um endurupptöku úrskurðar ráðuneytisins, dags. 27. nóvember 2013, er því hafnað.

Úrskurðarorð

Kröfu kærenda um endurupptöku úrskurðar ráðuneytisins, dags. 27. nóvember 2013, er hafnað.

Fyrir hönd ráðherra









Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta