Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna kæru þrotabús - staðfesting riftunaryfirlýsinga

Lögvík ehf
Guðmundína Ragnarsdóttir
Borgartúni 30
105 Reykjavík

Reykjavík 27. nóvember 2013
Tilv.: FJR13080047/16.2.2


Efni: Úrskurður vegna kæru þrotabús [X].

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 15. ágúst 2013, þar sem kærð er ákvörðun tollstjóra, dags. 19. júní 2013, um að fallast ekki á kröfu yðar sem skiptastjóra þrotabús [X] um riftun og endurgreiðslu vegna þrotabúsins. Í kærunni er gerð krafa um staðfestingu á riftunaryfirlýsingum þrotabúsins og að tollstjóra verði gert að endurgreiða þrotabúinu umræddar greiðslur ásamt dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar kröfu.

Málavextir og málsástæður
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 18. febrúar 2013, var bú [X] ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og Guðmundína Ragnarsdóttir, hdl. skipuð skiptastjóri búsins. Frestdagur var 19. nóvember 2012. Í kærunni kemur fram að athugun skiptastjóra á þrotabúinu hafi leitt í ljós að tollstjóri hafði skuldajafnað inneignum félagsins fimm sinnum á síðustu 6 mánuðum fyrir frestdag, tvisvar sinnum eftir frestdag og þar af einu sinni eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Skiptastjóri hafi sent tollstjóra riftunaryfirlýsingu með bréfi dags. 30. maí 2013 og krafist endurgreiðslu þeirra fjármuna sem tollstjóri skuldajafnaði upp í vangreidd opinber gjöld hins gjaldþrota félags. Endurgreiðslufjárhæðin nemur kr. 1.735.252.

Ákvörðun tollstjóra, dags. 19. júní 2013
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 19. júní 2013, kemur fram að í þeim 7 tilvikum sem tollstjóri hafi ráðstafað innskatti til greiðslu vangoldinna opinberra gjalda og skatta dánarbúsins hafi verið um að ræða innskatt vegna tímabila sem féllu til fyrir úrskurðardag gjaldþrots félagsins. Fram komi í 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að opinberum innheimtumönnum sé skylt að skuldajafna endurgreiðslu á innskatti ef það eru til staðar vanskil á opinberum gjöldum og sköttum. Tollstjóri telji að í ljósi lagaskyldu til skuldajafnaðar og fordæma Hæstaréttar að riftunarreglur gjaldþrotalaga geti ekki átt við um þær ráðstafanir sem gerðar voru með inneign þá sem myndaðist hjá félaginu. Með vísan til þess féllst tollstjóri ekki á kröfu um riftun og endurgreiðslu.

Með bréfi tollstjóra, dags. 4. júlí 2013, kom fram að tollstjóri taldi það mega leiða af Hæstaréttardómi nr. 102/1988 að lagaskylda til að skuldajafna inneignum sé til staðar fram til þess dags þegar bú er tekið til skipta. Einnig megi leiða af dómi Hæstaréttar nr. 173/200 að ákvæði skattalaga gangi framar ákvæðum gjaldþrotalaga.

Kæra, dags. 15. ágúst 2013
Í kærunni kemur fram að skiptastjóri telur að tollstjóra hafi verið óheimilt að skuldajafna innskatti þrotabúsins sem til varð eftir frestdag, sbr. skilyrði skuldajafnaðar sem fram komi í 1. mgr. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Skiptastjóri mótmælir þeirri skoðun tollstjóra að leiða megi af dómi Hæstaréttar nr. 173/2000 að ákvæði skattalaga gangi framar ákvæðum gjaldþrotalaga. Í málinu hafi verið deilt um inneign sem hafi orðið til vegna leiðréttingar á skattframtölum og virðisaukaskattskilum einstaklings vegna áranna 1996 og 1997 og skuldajöfnun inneigna sem þá hafi myndast í nóvember 1998 eftir skattbreytingu og endurálagningu. Kröfur aðila hafi þannig orðið til löngu fyrir þau tímamörk sem um geti í 1. mgr. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.

Í kærunni er vísað í dóm Hæstaréttar nr. 102/1998 þar sem héraðsdómari taldi að skuldajöfnunarákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 25/1988, um virðisaukaskatt, ættu að víkja fyrir ákvæðum gjaldþrotalaga um skuldajöfnum en þar hafi krafa þrotabúsins orðið til eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Skiptastjóri telur að það sama eigi við um skuldajöfnuð í þessu tilviki þ.e. að skilyrðið um krafan hafi orðið til fyrir frestdag sé ekki uppfyllt.

Þá telur skiptastjóri að tollstjóri hafi vitað eða mátt vita að þrotamaðurinn hafi ekki átt fyrir skuldum í langan tíma fyrir gjaldþrotið. Tollstjóri hljóti að hafa verið grandsamur eða a.m.k. mátt vera það þar sem meðal annars var tvívegis gert árangurslaust fjárnám hjá þrotabúinu í nóvember 2011. Tollstjóri mátti vita að þetta benti til ógjaldfærni félagsins og því hljóti tollstjóri að teljast grandsamur og hafi ekki tekið við greiðslum í góðri trú. Þá hafi greiðslurnar skert greiðslugetu þrotabúsins verulega og að þær hafi verið ríkissjóði til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa, sbt. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.

Skiptastjóri telur því að tollstjóra beri að endurgreiða féð í samræmi við ákvæði 134., 136., 139. og 141. gr. galdþrotaskiptalaga. Ákvörðun tollstjóra sé andstæð áralangri venju í þessum efnum þar sem ríkisjóður endurgreiðir fjármuni til þrotabúa ef ljóst sé að greiðslur skerði greiðslugetu verulega eins og hagi í þessu tilviki.

Umsögn tollstjóra, dags. 12. nóvember 2013
Með bréfi, dags. 23. ágúst 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra um málið. Í umsögn tollstjóra, dags. 12. nóvember 2013, kemur fram að inneignum í virðisaukaskatti hafi verið skuldajafnað inn á gjaldfallnar kröfur í staðgreiðslu launagreiðanda tímabilin 2011-08,09,10 og 11 og þing- og sveitarsjóðsgjöld tímabilin 2011-06 og 2012-11. Um sé að ræða sjö færslur að upphæð kr. 1.735.252 vegna síðasta virðisaukaskattstímabils 2011 og allra tímabila 2012.

- skuldajöfnuður
Tollstjóri hafnar kröfu um riftun skuldajafnaðar. Bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2013. Við töku bús til gjaldþrotaskipta verði til lögpersóna, þrotabú, sem taki við öllum fjárhagslegum réttindum sem skuldari átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 72. gr. gjaldþrotaskiptalaga og á því tímamarki taki þrotabúið við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þrotamanni, sbr. 2. mgr. 72. gr. sömu laga. Inneignir þær sem um er deilt hafi myndast vegna tímabila fyrir töku búsins til gjaldþrotaskipta og á virðisaukaskattsnúmeri félagsins en ekki vegna ráðstafana þrotabúsins á virðisaukaskattsnúmeri þess sem stofnað hafi verið 18. febrúar 2013.

Í umsögninni segir að inneignir sem myndist í tímabilum virðisaukaskatts fyrir töku bús til gjaldþrotaskipta séu ekki á forræði skiptastjóra. Skiptastjóri hafi tekið við réttindum og skyldum félagsins 18. febrúar 2013 eða eftir lok umræddra tímabila og beri tollstjóra skylda samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 til að skuldajafna þeim á móti opinberum sköttum og gjöldum sem voru í vanskilum á sama tíma. Hér sé því ekki um sambærileg tilvik að ræða og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 102/1998 þar sem deilt var um inneignir sem mynduðust í tímabilum eftir töku bús til gjaldþrotaskipta.

Þá kemur fram hjá tollstjóra að þrátt fyrir áskilnað 1. mgr. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga verði að telja í máli þessu að ákvæðið víki fyrir 3. mgr. 25. gr. virðisaukaskattslaganna sem verði að teljast sérlagaákvæði gagnvart almennum ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna. Dómafordæmi séu fyrir því að þrotabú geti ekki hagnast á mismun á endurgreiðslu innskatts og útskatts sem félagið átti ekki áður lögvarða kröfu til. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 173/2000 sé staðfest fyrri dómaframkvæmd m.a. með vísan til forsendna í dómum Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 2582 og 1997, bls. 591. Í þeim dómum hafi verið talið að réttur skattaðila til endurgreiðslu skv. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, nú 1. mgr. 25. gr., ætti ekki að verða ríkari við það að hann hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar og staðfestan nauðasamning. Ákvæðið hafi verið túlkað svo að lögvarin krafa til endurgreiðslu hafi ekki stofnast á meðan skattaðili væri í þeirri skuld við ríkissjóð sem lýst sé í ákvæðinu.

Í umsögninni er tekið fram varðandi vísun kæranda í Hæstaréttardóm nr. 102/1998 um forgangskröfur að í þessu máli sé deilt um heimild til skuldajafnaðar en ekki stöðu krafna í kröfuröð við úthlutun úr þrotabúi. Bent er á lagabreytingu sem gerð hafi verið á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu, sbr. 4. gr. laga nr. 135/2002, þar sem sem skuldajafnaðarheimildir laganna hafi verið rýmkaðar í þá veru að inneignum í staðgreiðslu opinberra gjaldi skuli skuldajafnað á móti öllum sköttum til ríkis og sveitarfélaga í stað einungis þinggjalda og sveitarsjóðsgjalda.

-grundvöllur riftunarkrafna
Þá kemur fram í umsögninni að tollstjóra þyki rétt að benda á að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Ákvæðið kveði á um riftun skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sem sé 19. nóvember 2012 í þessu máli. Kærandi krefjist riftunar skuldajafnaðar sem gerður hafi verið 9. maí 2012 og 14. febrúar 2012 en í báðum tilvikunum hafi hann verið gerður áður en sex mánuðir voru til frestdags. Þær kröfur komi því ekki til álita í málinu. Upphæð skuldajafnaðar sem kærandi geti mögulega byggt riftun á á grundvelli ákvæðisins nemi kr. 514.415 en lýstar kröfur í búið hafi numið kr. 21.846.535. Sé vandséð og því hafnað að skuldajöfnuður um hálfa milljón króna hafi skert greiðslugetu félagsins verulega, sbr. dóm Héraðsdóm Reykjavíkur uppkveðnum 29. maí 2012 í máli nr. E-2387/2011.

Hvað varði skilyrði 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga vegna riftunarkröfu skuldajafnaðar sem gerður var eftir frestdag þann 28. desember 2012 bendi tollstjóri á að hann hafi ekki verið gerðarbeiðandi og heldur hann því fram að skilyrði ákvæðisins um grandsemi um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti sé ekki uppfyllt. Upplýst sé að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá félaginu 23. nóvember 2011 að beiðni tollstjóra en ekki hafi verið fram á gjaldþrotaskipti á grundvelli þess í kjölfarið. Ekki sé hægt að halda því fram að tveimur árum seinna hafi tollstjóri átt að vera grandsamur um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti.

Þá staðhæfir tollstjóri að skilyrði ákvæðis 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga um ógjaldfærni gerðarþola sé ekki uppfyllt og vísar nánar til umfjöllunar um 134. gr. gjaldþrot

Með vísan til ofangreinds telur tollstjóri að hafna beri öllum riftunarkröfum þrotabúsins. Þrotabúið eigi ekki lögvarða kröfu til að fá umræddar inneignir til úthlutunar úr búinu. Skuldajöfnuðurinn sé lögmæltur og hafi verið rakið að dómafordæmi segi að þrotabúið eigi ekki að eiga betri rétt til endurgreiðslu inneignar vegna mismunar innskatts og útskatts en félagið hefði haft hefði það ekki orðið gjaldþrota. Að lokum biðst tollstjóri velvirðingar á því hve dróst að svara umsagnarbeiðninni.

Forsendur og niðurstaða

Fyrir liggur að kröfur þær sem inneignir í virðisaukaskatti þrotabús [X] voru notaðar til að greiða urðu til áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota. Nánar tiltekið voru þessar kröfur tilkomnar vegna gjaldfallinnar staðgreiðslu launagreiðanda á tímabilunum 2011-08,09,10 og 11 og gjaldfallinna þing- og sveitarsjóðsgjalda tímabilin 2011-06 og 2012-11.

Inneignir þrotabúsins í virðisaukaskatti sem notaðar voru til skuldajafnaðar voru vegna síðasta virðisaukaskattstímabils 2011 og allra tímabila ársins 2012. Um var að ræða sjö færslur til skuldajafnaðar. Bæði inneignir þrotabúsins og ógreiddu kröfurnar voru til komnar vegna umsvifa félagsins áður en það varð gjaldþrota og meðan virðisaukaskattsnúmer félagsins var opið. Virðisaukaskattsnúmeri félagsins var lokað fljótlega eftir gjaldþrotaúrskurð og nýtt númer stofnað fyrir þrotabúið. Gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld vegna tímabilsins 2012-11

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skuldajafna endurgreiðslu samkvæmt lögunum á móti kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum. Heimild til að skuldajafna innskatti virðisaukaskatts liggur því fyrir.

Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., kemur fram að hver sá, sem skuldar þrotabúi, geti dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Samkvæmt ákvæðinu er því heimilt að skuldajafna kröfu á hendur þrotabúi á móti kröfu frá þrotabúi hafi krafa þrotabúsins orðið til fyrir frestdag.

Skuldajöfnun inneignar fyrir frestdag
Frestdagur í þessu máli var 19. nóvember 2012. Fyrir liggur að kröfur ríkissjóðs á hendur þrotabúinu voru allar tilkomnar fyrir frestdag. Í fimm tilvikum af sjö var inneignum þrotabúsins í virðisaukaskatti skuldajafnað á móti kröfunum fyrir frestdag. Ráðuneytið telur óumdeilt að þær skuldajafnananir séu heimilar þar sem þær voru gerðar fyrir frestdag.

Tilvísun í dóm Hæstaréttar nr. 102/1998 telur ráðuneytið ekki eiga við í málinu þar sem í því máli hafði inneign sú sem notuð var til skuldajöfnuðar myndast vegna ráðstafana þrotabúsins eftir að það var tekið til gjaldþrotaskipta.

Skuldajöfnun inneignar eftir frestdag

Í dómi Hæstaréttar nr. 173/2000 var skuldajöfnuður talinn lögmæltur vegna ógreiddra opinberra gjalda þótt skuldajöfnuðurinn hafi verið gerður eftir frestdag. Í dómnum er vísað til tveggja dóma Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 2582 og 1997, bls. 591. Í dómnum segir að þar hafi reynt á ákvæði, sem nú sé að finna í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum, en með því sé kveðið á um að kröfum um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skuli skuldajafna á móti endurgreiðslu samkvæmt lögunum. Hafi ákvæðið verið skýrt svo að lögvarin krafa til endurgreiðslu stofnaðist ekki á meðan gjaldandi væri í slíkri skuld við ríkissjóð. Jafnframt sé slegið föstu í dómunum að ætlun löggjafans með IV. kafla laga nr. 21/1991 hafi ekki verið að skapa skuldunaut ríkissjóðs rétt til greiðslu úr ríkissjóði, sem hann átti ekki áður lögvarða kröfu til. Með síðarnefnda dóminum hafi ekki verið fallist á að skuldajöfnuður samkvæmt núgildandi 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 hafi verið óheimill eftir staðfestingu nauðasamings. Í því tilviki hafi inneign vegna virðisaukaskatts verið skuldajafnað við vangoldið tryggingagjald og afdregna staðgreiðslu skatta.

Með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar þar sem ákvæði 3. mgr. 25. gr. virðisaukaskattslaganna er skýrt svo að lögvarin krafa til endurgreiðslu stofnist ekki meðan gjaldandi skuldi opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs telur ráðuneytið að tollstjóra hafi verið heimilt að skuldajafna inneignum í virðisaukaskatti sem mynduðust eftir frestdag við kröfur um opinber gjöld þrotabúsins. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. virðisaukaskattslaganna er þannig sérlagaákvæði sem gengur framar almennu ákvæði 1. mgr. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Það hefur því ekki þýðingu að þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrir tímabilið 2012-11 gjaldféllu eftir að 3 mánuðir voru til frestdags.

Ráðuneytið telur skilyrði 134., 136., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. til riftunar ekki vera fyrir hendi og hugleiðingar um forgangskröfur telur ráðuneytið ekki skipta máli í samhengi þessa máls.



Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 19. júní 2013, um að hafna kröfu um riftun og endurgreiðslu að fjárhæð kr. 1.735.252 er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta