Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun RSK um endurgreiðslur virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 22. janúar 2014
Tilv.: FJR12120059/16.2.5


Efni: Úrskurður um kæru vegna ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2012, um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við endurbætur á íbúðarhúsnæði.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. desember 2012, þar sem kærð er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja yður um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað vegna ráðgjafar, tilboðsöflunar, uppgjörs, skoðunar o.fl. Með framangreindum úrskurði ríkisskattstjóra var endurgreiðslufjárhæð lækkuð úr 2.279.601 kr. í 2.089.141 kr. eða um 190.460 kr. Var yður synjað um endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 6 reikningum útgefnum af [G], á þeirri forsendu að tilgreind vinna félli ekki undir endurgreiðslubæra vinnu við hönnun eða eftirlit með framkvæmdum á byggingarstað. Í bréfi yðar er tekið fram að af upplýsingum á vef ríkisskattstjóra megi ráða að endurgreiddur verði virðisaukaskattur af sérfræðiþjónustu, þ.e. vegna þjónustu verkfræðinga og arkitekta vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu íbúðar- eða frístundahúsnæðis. Styðjist heimildin við bráðabirgðaákvæði XV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum.

Með bréfi, dags. 17. desember 2012, sendi ráðuneytið ríkisskattstjóra beiðni um umsögn í málinu. Umsögn ríkisskattstjóra barst þann 22. janúar 2013. Með umsögn sinni tekur ríkisskattstjóri fram að af texta hinna framlögðu reikninga verði ekki séð að neinn þeirra liða falli undir lagaákvæðið (bráðabirgðaákvæði XV) samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. ekki verði af reikningunum ráðið að um sé að ræða hönnun eða eftirlit við nýbyggingu íbúðarhúsnæðis eða frístundahúsnæðis, þ.m.t. skoðun og gerð tilboðsgagna, sbr. úrskurði ráðuneytisins frá 20. og 27. apríl 2011.

Forsendur

Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisuakaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Fram kemur að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Á grundvelli 42. gr. var sett reglugerð nr. 449/1190, um endurgreiðslu virðiaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XV í lögum nr. 50/1988 er eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2012, gert kleift að fá endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna. Jafnframt er eigendum íbúarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2012, gert kleift að fá endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis.

Frumvarp til laga nr. 10/2009 tók breytingum í efnahags og skattaanefnd og var það jafnframt látið taka til virðisaukaskatts af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna hönnunar og eftirlits með umræddum framkvæmdum. Með lögum nr. 19/2009 var gerð breyting á bráðabirgaðaákvæði XV þar sem í stað orðanna „af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga“ í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins kom „af þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.“ Gerð var breyting á bráðabirgðaákvæði laga nr. 50/1988 af efnahags- og skattanefnd með lögum nr. 64/2009 þar sem felld voru út orðin „hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988. Í greinargerð með lögunum kemur fram að innan efnahags- og skattanefndar hafi komið fram þau sjónarmið að það skilyrði að um væri að ræða þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga væri ekki í samræmi við þann raunveruleika sem ýmsar starfsstéttir sérfræðinga í tækni- og hönnunargeiranum byggju við og væri það til þess fallið að raska samkeppni þeirra á milli.

Á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988 hefur verið sett reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði, auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitafélaga. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur jafnframt fram að endurgreiða skuli eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess sem og vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis.

Það er meginregla laga nr. 50/1988 að greiða skuli virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands af öllum stigum viðskipta, sbr. 1. gr. laganna. Af reglunni leiðir að virðisaukaskattur leggst á endanlega neytendur vöru eða þjónustu. Ljóst er að samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum ber að skýra undanþágur frá skattalögum þröngri lögskýringu. Með vísan til þessa telur ráðuneytið að líta verði á ákvæði 3. mgr. 42. gr. og bráðabirgaðaákvæði XV í lögum nr. 50/1988 sem undanþágu frá þeirri meginreglu að þeir aðilar sem ekki eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi beri að jafnaði þann virðisaukaskatt sem þeir greiða við kaup á vörum og þjónustu.

Niðurstaða

Eins og mál þetta liggur fyrir er farið fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað vegna ráðgjafar, tilboðsöflunar, uppgjörs, skoðunar ofl. á nýbyggingu íbúðarhúsnæðisins Y í landi Hests, Grímsnes- og Grafningshreppi. Samkvæmt skýru orðalagi bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988, sbr. reglugerð nr. 440/2009 er aðeins heimilt að endurgreiða eigendum virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið af vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúarhúsnæðis sem og af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis. Í máli þessu liggur fyrir að hvorki var um að ræða viðhald eða endurbætur íbúðarhúsnæðis né hönnun eða eftirlit á slíku húsnæði, skv. bráðabirgðaákvæði XV í lögm nr. 50/1988, sbr og reglugerð nr. 440/2009. Af texta reikninganna sem lagðir hafa verið fram í málinu verður ekki ráðið að neinn þeirra liða falli undir framangreind lagaákvæði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa kæranda á þjónustu vegna ráðgjafar, tilboðsöflunar, uppgjörs, skoðunar o.fl..

Úrskurðarorð

Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags, 3. desember 2012 um að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna ráðgjafar, tilboðsöflunar, uppgjörs, skoðunar o.fl. er staðfest.





Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta