Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun RSK um endurgreiðslu virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 3. júlí 2013
Tilv.: FJR13060109/16.2.1

Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna kæru á synjun ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 3. júní 2013, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 6. mars 2013. Í ákvörðun ríkisskattstjóra er beiðni yðar um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við pípulagnir hafnað þar sem réttur til endurgreiðslu væri fallinn úr gildi annars vegar og hins vegar þar sem ekki hefði verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að þeir reikningar sem endurgeiðslukrafa byggði á hefðu í raun og veru verið greiddir.

Málavextir og málsástæður
Þann 5. júní 2013 móttók ráðuneytið kæru yðar vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 6. mars 2013. Í kærunni er farið fram á að umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna tilgreindra reikninga frá árunum 2007 og 2008 verði tekin til greina. Ekki er gerð athugasemd vegna synjunar ríkisskattstjóra á endurgreiðslu vegna reikninga frá árinu 2006.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 6. mars 2013, kemur fram að honum hafi borist beiðni um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af vinnu við pípulagnir í húsnæði yðar. Ríkisskattstjóri hafnaði endurgreiðslu vegna framlagðra reikninga þar sem ekki fylgdi nein staðfesting um greiðslu þeirra. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990 sé það skilyrði til endurgreiðslu virðisaukaskatts að reikningar hafi verið greiddir. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að endurgreiðsla virðisaukaskatts tæki einungis til vinnu manna sem unnin er á byggingarstað íbúðarhúsnæðis eða frístundahúsnæðis á grundvelli frumrits löglegra reikninga og sýna þurfi fram á að búið sé að greiða reikningana. Þar sem ekki lágu fyrir nein gögn um greiðslu reikninganna var beiðni yðar hafnað.

Með kæru til ráðuneytisins fylgdu engin ný gögn um staðfestingu greiðslu reikninga en þess óskað að umsóknin um endurgreiðslu virðisaukaskatts verði tekin til greina. Ekki væri hægt að bæta úr þeim ágalla að hafa ekki kvittanir í höndum vegna ágreinings sem upp hafi komið við seljanda þjónustunnar. Fram kom að þér hefðuð greitt reikningana með reiðufé án þess að kvittað væri sérstaklega fyrir þeim greiðslum auk þess sem að hluta til hafi verið greitt fyrir vinnuna með bifreið.

Með umsögn ríkisskattstjóra er barst ráðuneytinu þann 24. júní 2013, telur ríkisskattstjóri að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.


Forsendur og niðurstaða
Í XIII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Fram kemur að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslna. Á grundvelli 42. gr. var sett reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XV í lögum nr. 50/1988 er eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2014, gert kleift að fá endurgreiddan 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna.

Kveðið er á um heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbyggingar, endurbóta og viðhalds í reglugerð nr. 449/1990 sbr. einnig reglugerð nr. 440/2009. Ber því að líta til þeirra ákvæða sem þar eiga við í máli þessu, sbr. 3 gr. reglugerðar nr. 449/1990. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar tekur endurgreiðsla sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna við endurbætur og viðhald þess til allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis.

Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að greiðsla framlagðra reikninga hafi átt sér stað, engin staðfesting útgefanda liggur fyrir og hvorki hafa verið lögð fram bankayfirlit né kvittanir sem sýnt gætu fram á greiðslu reikninga. Fullyrðingar yðar um greiðslu í reiðufé og afhendingu bifreiðar duga ekki einar og sér enda koma ekki fram neinar staðfestingar eða upplýsingar um fjárhæðir því til staðfestingar. Þá kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 19. júní 2013, að þér hafið látið hjá líða að senda húsbyggingarskýrslu með skattframtali þrátt fyrir áskilnað samkvæmt ákvæði 3. málsl. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að ekki hafi verið sýnt fram á að þeir reikningar hafi verið greiddir sem endurgreiðslukrafa er byggð á. Ber því að staðfesta ákvörðun ríkisskattstjóra.

Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 6. mars 2013 um að hafna beiðni yðar um endurgreiðslu virðisaukaskatts með vísan til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990 er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta