Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um niðurfellingu dráttarvaxta

ADVEL lögmenn slf.
Ragnheiður Þorkelsdóttir, hdl.
Suðurlandsbraut 18
108 Reykjavík

Reykjavík 16. maí 2014
Tilv.: FJR14030008/16.2.3

Efni: Úrskurður vegna kröfu um niðurfellingu dráttarvaxta.

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 27. febrúar 2014, þar sem ákvörðun tollstjóra, dags. 10. febrúar 2014, er kærð. Í ákvörðun tollstjóra var beiðni [A], um niðurfellingu dráttarvaxta sem lagðir voru á kröfu vegna endurákvörðunar opinberra gjalda hans gjaldárið 2008, hafnað. Í kærunni er þess krafist að dráttarvextirnir verði felldir niður og tollstjóra gert að endurgreiða kæranda greidda dráttarvexti að fjárhæð 730.873 krónur.

Málavextir.
Tilefni kærumálsins er það að með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. desember 2013, voru opinber gjöld kæranda vegna gjaldársins 2008 endurákvörðuð. Við það myndaðist skuld að fjárhæð 58.834.375 millj. kr. með gjalddaga 28. desember 2013 og eindaga 30 dögum síðar. Kæranda var sendur úrskurðurinn með bréfi dagsettu þann sama dag. Faðir kæranda hafði samband við tollstjóra í byrjun janúar og veitti starfsmaður honum upplýsingar um eindaga kröfunnar. Kærandi greiddi kröfuna 31. janúar 2014 og höfðu þá myndast dráttarvextir að fjárhæð um 700 þús. kr. sem kærandi greiddi þann 11. febrúar 2014.

Með bréfi til tollstjóra, dags. 3. febrúar 2014, fór kærandi fram á niðurfellingu dráttarvaxtanna á þeim grundvelli að honum hefðu verið gefnar rangar upplýsingar um eindaga kröfunnar. Því erindi synjaði tollstjóri með bréfi, dags. 10. febrúar 2014, og er þess krafist í kæru að sú ákvörðun verði felld úr gildi og tollstjóra gert að endurgreiða kæranda greidda dráttarvexti að fjárhæð 730.873 krónur.

Málsástæður og lagarök kæranda.
Kærandi telur í fyrsta lagi að skýra beri 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á þá leið að skattkrafa til hækkunar falli í gjalddaga þegar tilkynning frá ríkisskattstjóra er komin til vitundar gjaldanda. Kærandi hafi verið erlendis þegar umrædd tilkynning hafi borist og hann hafi því ekki getað kynnt sér efni hennar fyrr en 6. janúar 2014. Eindagi kröfunnar hafi því verið 7. febrúar 2014. Því til stuðnings er vísað til 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá telur kærandi að öll meðferð málsins beri þess merki að hafa farið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga. Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. desember 2013, hafi ekki komið fram upplýsingar um gjalddaga og eindaga og veittar hafi verið rangar eða villandi upplýsingar um eindaga kröfunnar hjá tollstjóra. Hjá tollstjóra hafi kæranda verið sagt að eindagi kröfunnar væri í lok mánaðarins. Kærandi telur að tollstjóri hafi ekki gætt rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Umsögn tollstjóra.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn tollstjóra með bréfi, dags. 31. mars 2014. Í umsögn tollstjóra, dags. 6. maí 2014, er tekið fram að í 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, komi fram að séu skattar hækkaðir eftir álagningu falli viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina. Samkvæmt 1. mgr. 112. gr. leggist dráttarvextir á kröfuna sé hún ekki greidd 30 dögum frá gjalddaga. Umrædd krafa var lögð á 18. desember 2013, gjalddagi hennar var 10 dögum síðar eða 28. desember 2013 og eindagi þann 28. janúar 2014.

Þann 18. desember 2013 hafi kærandi fengið sendan úrskurð ríkisskattstjóra ásamt skattbreytingarseðli þar sem fjárhæð skattbreytingarinnar var tilgreind. Ekki sé ágreiningur um að kærandi fékk erindi ríkisskattstjóra sent á lögheimili sitt og þannig ljóst að honum var tilkynnt um skattbreytinguna í skilningi 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í skýringum með 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærandi vísi til komi fram að það sé ekki skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar aðila heldur sé nægilegt að ákvörðun sé komin þangað sem almennt má búast við að aðili geti kynnt sér hana, t.d. að bréf hafi verið afhent á heimili hans.

Tollstjóri fellst ekki á að gjalddagi kröfunnar sé sá dagur sem kærandi gat kynnt sér efni umræddrar tilkynningar. Ljóst sé að skattyfirvöldum væri mjög örðugt um vik við ákvörðun gjalddaga skattkröfu ef hann réðist af því hvenær gjaldandi hugsanlega kynnir sér efni slíkrar tilkynningar, t.d. vegna veru sinnar erlendis eins og haldið sé fram í málinu. Það sé dagsetning tilkynningar, þ.e. sá dagur sem hún er send gjaldanda og úrskurðardagur ríkisskattstjóra, sem ákvarði gjalddaga skattbreytingar skv. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Á annan veg sé ekki unnt að skýra fyrrgreint ákvæði sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 401/2007.

Í kæru sé því haldið fram að föður kæranda hafi verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar um gjalddaga umræddrar kröfu. Því hafnar tollstjóri sem röngu enda sé upplýst að viðkomandi starfsmaður greindi föður kæranda frá því að eindagi kröfunnar væri 28. janúar 2014. Því sé við að bæta að janúar mánuður beri aldrei með sér gjalddaga og eindaga þing- og sveitarsjóðsgjalda, gjaldflokk AB, nema í þeim tilvikum sem varði skattbreytingu til hækkunar á grundvelli 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Starfsmenn tollstjóra geti því ekki annað en flett upp viðkomandi kröfu til að geta svarað fyrir eindaga hennar eins og gert var í tilviki kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. mgr. 112. gr., leggist dráttarvextir á tekjuskatt sé hann ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Álagning lögbundinna dráttarvaxta sé því ekki matskennd ákvörðun tollstjóra. Samkvæmt framansögðu telur tollstjóri sig því hvorki hafa brotið meðalhófsreglu né rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Forsendur og niðurstaða.
Það er niðurstaða ráðuneytisins að unnið hafi verið eftir lögum og verklagsreglum í málinu. Óumdeilt er að kæranda var send tilkynning um skattbreytingu skv. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í samræmi við efni ákvæðisins. Áður höfðu kærandi og ríkisskattstjóri átt í bréfaskiptum um fyrirhugaða endurákvörðun frá því í apríl 2013 til desember sama ár. Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. desember 2013, er bent á að tollstjóri gefi upplýsingar um greiðslustöðu skattbreytingarinnar og meðfylgjandi er skattbreytingarseðill sem sýnir breytingu gjalda vegna gjaldársins 2008. Haft var samband við tollstjóra f.h. kæranda og viðkomandi aðila gefnar upplýsingar um eindaga kröfunnar. Í samræmi við ákvæði 112. og 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, reiknuðust dráttarvextir á umrædda kröfu þegar hún var ekki greidd á eindaga. Samkvæmt öllu framansögðu staðfestir ráðuneytið hina kærðu synjun á niðurfellingu dráttarvaxta þar sem hvergi er að finna í skattalögum heimild til að fella niður lögboðna dráttarvexti auk þess sem ráðuneytinu ber að gæta jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 10. febrúar 2014, um að hafna niðurfellingu dráttarvaxta að fjárhæð 730.873 kr. er staðfest.




Fyrir hönd ráðherra




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta