Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Kæra vegna tilkynningar ríkisskattstjóra

Juris-lögfræðiskrifstofa sf.
Hólmfríður Kristjánsdóttir, hdl.
Borgartúni 26
105 Reykjavík

Reykjavík 3. júní 2016
Tilv.: FJR16050011/16.2.1

Efni: Kæra [A], kt. […] og [B], kt. […] vegna tilkynningar ríkisskattstjóra, dags. 1. mars 2016.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vísar til kæru, dags. 29. apríl 2016, þar sem krafist er að ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 1. mars 2016, verði felld úr gildi.

Málavextir.

Tilefni kærumálsins er það að synir kærenda, þeir [A], kt. […] og [B], kt. […], fengu á árunum 2011 til 2013 fyrirframgreiddan arf frá afa sínum að fjárhæð samtals 20.000.000 kr. hvor um sig. Þar sem drengirnir voru ekki sjálfstæðir skattaðilar taldist umræddur arfur til auðlegðarskattsstofns foreldra þeirra í skattframtali 2014.

Vegna þess hversu há fjárhæðin var sem drengirnir fengu í arf féll fjárhæðin undir ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997. Sýslumaðurinn í Reykjavík fer því með yfirráð yfir umræddum fjármunum sem yfirlögráðandi og hefur sýslumaður ekki heimilað kærendum að nýta fjármuni drengjanna til að greiða auðlegðarskattinn þar sem sú ráðstöfun falli ekki undir ákvæði lögræðislaganna.

Kærendur óskuðu eftir breytingu á framtali sínu 2014 með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 31. október 2014. Ríkisskattstjóri hafnaði erindinu með úrskurði, dags. 2. desember 2014. Kærendur óskuðu eftir endurupptöku þeirrar ákvörðunar með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 8. febrúar 2016 (misritað 2015 í bréfi), á þeim grundvelli að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu heimilaði ekki að fjármunir sona þeirra væru nýttir til greiðslu auðlegðarskatts. Erindi kærenda um breytingu á stofni til auðlegðarskatts var hafnað með tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 1. mars 2016, þar sem fram kom að samkvæmt skýrum ákvæðum g-liðar bráðabirgðaákvæðis XLVII laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, skyldu eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr. laganna. Í lokamálslið g-liðar sama bráðabirgðaákvæðis kemur fram heimild til ríkisskattstjóra til að taka til greina umsókn framfæranda barns um að eignir barns, sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði og hefur ekki verið ættleitt, skuli skattlagðar hjá barninu sjálfu í samræmi við ákvæði h-liðar. Ekki varð séð að aðstæður kærenda hefðu fallið undir lokamálslið g-liðar bráðabirgðaákvæðisins.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2016, var tilkynning ríkisskattstjóra, dags. 1. mars 2016, kærð til ráðuneytisins og þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Í kærunni er þess einnig krafist að ríkisskattstjóra verði gert að taka upp ákvörðun sína og endurskoða álagningu kærenda í samræmi við röksemdir þær sem færðar eru fram í kærunni. Ráðuneytið lítur svo á að farið sé fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 1. mars 2016, verði felld úr gildi.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærendur telja álagningu auðlegðarskatts vera ranga og að synjun ríkisskattstjóra á upptöku skattframtals með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé röng. Um sé að ræða árekstur laga og stjórnsýsluaðila. Þar að auki brjóti álagning auðlegðarskatts í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar auk ákvæða lögræðislaga nr. 71/1997. Álagning auðlegðarskatts á þessum forsendum sé í hæsta máta ósanngjörn en kærendur hafi ekki umráðarétt yfir fjármunum drengjanna og sé því um hreina eignaupptöku á eignum kærenda að ræða verði þeim gert að greiða skattinn. Ekki hafi verið aflað nánari upplýsinga í málinu um uppruna fjárins og ráðstöfunarrétt kærenda yfir eignum sona þeirra.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi hafnað því að kærendur fái heimild til þess hjá yfirlögráðanda að nýta fjármuni drengjanna til greiðslu álagðs auðlegðarskatts.

Sé frumvarp það sem varð að lögum nr. 128/2009 skoðað sé ekki skýrt á nokkurn hátt hvers vegna eignir barna undir 16 ára aldri skuli telja með eignum foreldra við útreikning auðlegðarskatts og ekki hafi verið fjallað um málið í meðförum þingsins. Megi leiða að því líkum að ákvæðið sem slíkt hafi verið sett inn í lögin til að koma í veg fyrir að foreldrar færðu eignir til barna sinna til að forðast álagningu auðlegðarskatts. Í þessu tilfelli sé ekki um slíkt að ræða enda séu fjármunirnir sem málið snúist um fyrirframgreiddur arfur frá afa drengjanna. Kærendur hafi ekki af þessu skattspörun eða séu að sniðganga skattgreiðslur að neinu leyti.

Umsögn ríkisskattstjóra.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 4. maí 2016. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 24. maí 2016, kemur eftirfarandi m.a. fram:

„Ríkisskattstjóri bendir á að umrædd álagning byggir á skýrum ákvæðum g-liðar bráðabirgðaákvæðis XLVII laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 81. gr. sömu laga. Þá bendir ríkisskattstjóri á niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 726/2013 (Guðrún Helga Lárusdóttir gegn íslenska ríkinu), þar sem auðlegðarskattur var ekki talinn ganga gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar enda væri það grundvallarsjónarmið að dómstólar hafi játað löggjafanum verulegt svigrúm til að ákveða hvernig skattlagningu skuli háttað hverju sinni.

Þá bendir ríkisskattstjóri ennfremur á eldri dóm Hæstaréttar nr. 271/1985, en í niðurstöðu sinni bendir meirihluti dómsins á þá staðreynd að í íslenskri skattalöggjöf hafa um langan aldur tíðkast sérstakar reglur um framkvæmd álagningar tekju- og eignarskatts foreldra og barna þeirra.

Ríkisskattstjóri telur að ekki sé til staðar heimild í lögum um tekjuskatt til að verða við kröfum kærenda og ítrekar því niðurstöðu sína um að ekki verði annað séð en að álagning opinberra gjalda hjá kærendum gjaldárið 2014 sé í samræmi við innsend gögn og fyrirmæli laga.“

Forsendur og niðurstaða.
Ráðuneytið fær ekki séð að ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997 hafi áhrif á niðurstöðu álagningar kærenda og mun því ekki fjalla frekar um ákvæði þeirra.

Með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, voru m.a. gerðar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bráðabirgðaákvæði XXXIII í lögum nr. 128/2009 var kveðið á um álagningu auðlegðarskatts á eignir manna sem skattskyldir væru samkvæmt 1. gr. og 4.-9. tölul. 3. gr. tekjuskattslaga. Álagning auðlegðarskatts skyldi fara fram árin 2010, 2011, 2012, 2013 og 2014. Stofn til auðlegðarskatts voru framtalsskyldar eignir, sbr. 72. gr. laga nr. 90/2003, að frádregnum skuldum, svo sem nánar er rakið í a. og c. lið bráðabirgðaákvæðisins. Auðlegðarskatt skyldi miða við auðlegðarskattsstofn skattaðila í árslok.

Frá því að bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga nr. XXXIII í lögum nr. 128/2009 tók gildi hafa tvö önnur bráðabirgðaákvæði verið lögfest. Þetta eru bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga nr. XXXIX í lögum nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og nr. XLVII í lögum nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í báðum tilfellum var um að ræða breytingar á fríeignamarki auðlegðarskatts og skatthlutfalli en í síðara tilfellinu var skatturinn auk þess framlengdur til ársins 2014.

Í g-lið bráðabirgðaákvæðis XLVII er sérstaklega tekið fram að eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr. tekjuskattslaga, teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr. laganna. Gilda ákvæði 78. gr. laganna einnig um þar greindar eignir barns. Ríkisskattstjóri má taka til greina umsókn framfæranda barns um að eignir barns, sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði og hefur ekki verið ættleitt, skuli skattlagðar hjá barninu sjálfu í samræmi við ákvæði h-liðar bráðabirgðaákvæðisins.

Samkvæmt 6. gr. tekjuskattslaga er það ein meginregla laganna að barn, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, er ekki sjálfstæður skattaðili sé það á framfæri foreldra sinna (þar með taldir kjörforeldrar, stjúpforeldrar og fósturforeldrar). Þó skulu þær tekjur barns sem um ræðir í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna skattlagðar sérstaklega, s.s. launatekjur, styrkir og hlunnindi.

Þá er auk þess kveðið á um það í 81. gr. tekjuskattslaga að eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr. laganna, teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr. laganna.

Álagning auðlegðarskatts í máli kærenda er í samræmi við skýr ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og fær ráðuneytið ekki séð að um sé að ræða árekstur laga og stjórnsýsluaðila enda ber þeim að fara eftir lögunum. Samkvæmt stjórnarskránni skal skattamálum skipað með lögum og má ekki fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Þá hafa ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997 engin áhrif á niðurstöðu álagningar kærenda.

Þá bendir ráðuneytið á eldri dóm Hæstaréttar nr. 271/1985, sem varðaði skattlagningu eigna barna hjá foreldrum, en í niðurstöðu sinni bendir meirihluti dómsins á þá staðreynd að í íslenskri skattalöggjöf hafa um langan aldur tíðkast sérstakar reglur um framkvæmd álagningar tekju- og eignarskatts foreldra og barna þeirra.

Að því er varðar þá málsástæðu kærenda að álagning auðlegðarskattsins sé ósanngjörn og brjóti gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem um hreina eignaupptöku sé að ræða vísar ráðuneytið til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 726/2013, Guðrún Helga Lárusdóttir gegn íslenska ríkinu. Í málinu komst fimm manna dómur að þeirri niðurstöðu að álagning auðlegðarskatts og viðbótarauðlegðarskatts bryti ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í dómnum var tekið fram að í dómaframkvæmd hafi löggjafinn verið talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattlagningu, jafnvel þó slík ákvörðun feli í sér eignaskerðingu. Skilyrði sé þó ávallt að hún byggist á almennum efnislegum mælikvarða og að gætt sé jafnræðisreglna. Í þessu sambandi sé einnig litið til skatthlutfalls og þess gildistíma sem lögunum sé ætlaður. Taldi dómurinn að sá hópur skattaðila sem þurfti að sæta auðlegðarskatti hafi ekki verið svo fámennur að farið hafi í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Það sé almenn og viðurkennd regla í skattarétti að löggjafanum er heimilað að taka tillit til fjárhags- og eignastöðu skattaðila í þeim tilgangi að jafna skattbyrði á milli manna ef byggt er á málefnalegum grundvelli og hlutlægum viðmiðunum. Taldi dómurinn að þeim skilyrðum hefði verið fullnægt við setningu laga um auðlegðarskatt.

Skattaðilar sem hlut eiga að máli verða þannig að sætta sig við skerðingu, þjóni hún lögmætu markmiði, gangi ekki lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af því markmiði og hafi nægilega heimild í settum lögum. Brýn þörf var til að afla ríkissjóði viðbótartekna til þess að gera það kleift að draga úr fyrirliggjandi fjárlagahalla og koma á jafnvægi í ríkisfjármálum.

Sömu niðurstöðu er að finna í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-4048/2014: Db. Ragnhildar Skeoch gegn íslenska ríkinu þar sem íslenska ríkið var sýknað af öllum kröfum stefnanda.

Það er niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að álagning auðlegðarskatts hjá kærendum gjaldárið 2014 sé í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Úrskurðarorð.

Kröfu um að ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 1. mars 2016, verði felld úr gildi er hafnað.

Fyrir hönd ráðherra









Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta