Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun sýslumanns í Hafnarfirði um

Lögmál ehf.
Ásgeir Þór Árnason
Skólavörðustíg 12
101 Reykjavík

Reykjavík 7. nóvember 2014
Tilv.: FJR14100063/16.2.3


Efni: Endurupptaka máls vegna greiðslu [X] á stimpilgjaldi.

Vísað er til erindis yðar, dags. 15. október 2014, f.h. umbjóðanda yðar [X], kt. […], [Z], Reykjavík, þar sem þess er farið á leit við ráðuneytið að það taki upp mál [Y] og ógildi þá ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 18. janúar 2012 að krefja umbjóðanda yðar um 754.554 krónur í stimpilgjald. Þá er krafist innheimtuþóknunar skv. gjaldskrá Lögmáls ehf.

Málavextir
Á stjórnarfundi [X] 27. september 2011 var ákveðið að skipta félaginu að hluta í samræmi við 107. gr. a laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Skiptingin fór þannig fram að hluta félagsins var skipt út og rann inn í annað félag, [Y]. Skiptingar- og samrunaáætlun félaganna var undirrituð á stjórnarfundum og síðan samþykkt af hluthöfum beggja félaga þann 9. desember 2011. Í kjölfarið var sýslumanninum í Hafnarfirði send tilkynning, dags. 9. desember 2011, um nýjan eiganda nokkurra fasteigna vegna skiptingar og samruna.

Sýslumaður taldi rétt að greitt yrði 0,4% stimpilgjald sem af fasteignamati eignanna en féllst á að lækka stimpilgjaldið að kröfu kæranda í hlutfalli við eignaaukningu hluthafa [X]. í [Y] sem var 59% með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 38/1978 um stimpilgjald. [X] greiddi því 41% af 0,4% stimpilgjalds eða kr. 754.554 þann 18. janúar 2012 með fyrirvara um lögmæti innheimtunnar.

[X] kærði ákvörðun sýslumanns til ráðuneytisins dags. 21. maí 2012 og fór fram á að álagning gjaldsins yrði ógilt og það endurgreitt. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun sýslumanns þann 19. október 2012 með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 38/1978 um stimpilgjald.

Þann 11. mars 2013 kvartaði [X] yfir úrskurði ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis og byggði m.a. á því að lagaheimild hafi skort fyrir því að leggja stimpilgjald á skráningarbreytingu á þeim fastiegnum sem fluttust milli framangreindra félaga. Þann 6. október 2014 veitti umboðsmaður álit sitt í tilefni kvörtunarinnar (mál nr. 7404/2013) og komst að þeirri niðurstöðu að úrskurður fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 19. október 2012 í máli [X] hafi ekki verið byggður á réttum grundvelli. Mæltist umboðsmaður Alþingis til þess að ráðuneytið tæki málið upp kæmi fram beiðni þess efnis frá [X] og leysti úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem umboðsmaður gerði grein fyrir í áliti sínu. Með bréfi dags. 15. október 2014 óskuðuð þér eftir endurupptöku málsins fyrir hönd [X] með vísan til álits umboðsmanns Alþingis og hefur ráðuneytið ákveðið að verða við því.

Forsendur og niðurstaða
Þegar atvik þessa máls áttu sér stað voru í gildi lög nr. 36/1978 um stimpilgjald sem nú hafa verið felld úr gildi með lögum nr. 138/2013 um sama efni. Ráðuneytið byggði í úrskurði sínum á 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga nr. 36/1978 en ákvæðið var bundið við þau tilvik þegar eigandi fasteignar gerist eignaraðili að hlutafélagi eða sameignarfélagi sem fasteign er afsalað til eða eykur eignarhlut sinn í því félagi.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 19. október 2012 virðist byggt á þeim málsatvikum að [X] hafi afsalað [Y] umræddum fasteignum. Því var vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 36/1978 og stimpilgjaldið lækkað sem nam auknum eignarhlut hluthafa [X] í [Y]. [X] afsalaði hins vegar engu heldur var skipt og rann hluti þess saman við [Y] samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög. Hluthafar [X] fengu þannig hlut í [Y] sem endurgjald fyrir það að [X] varð verðminna við að fasteignir voru færðar úr félaginu til [Y] með skiptingu og samruna. [X] sem var upphaflegur eigandi fasteignanna eignaðist hins vegar ekkert í [Y] enda afsalaði [X] engu. Ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald átti því ekki við í þessu tilviki.

Samkvæmt lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald var tilkynningin/afsalið ekki stimpilskylt, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. janúar 2005 í máli nr. 306/2004 þar sem kveðið var á um að raunveruleg eignayfirfærsla á fasteign eigi sér ekki stað við félagaréttarlegan samruna. Umskráning fasteigna í kjölfar skiptingar og samruna var því ekki stimpilskyld í tíð eldri laga um stimpilgjald. Þannig skorti lagaheimild fyrir innheimtu stimpilgjaldsins og ber sýslumanninum í Hafnarfirði að endurgreiða [X] stimpilgjaldið að fjárhæð kr. 754.554 ásamt vöxtum.

Úrskurðarorð
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði endurgreiði [X], kt. […], [Z], Reykjavík, kr. 754.554 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. janúar 2012 til 21. maí 2012 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.


Fyrir hönd ráðherra













Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta