Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 4. júlí 2014
Tilv.: FJR14060106/16.2.3

Ráðuneytið vísar til kæru sem dagsett er 20. júní 2014. Kærandi er [A], kt. […].
Kærð er ákvörðun embættis Tollstjóra þess efnis að hafna beiðni kæranda um að fjárnámsbeiðni Tollstjóra verði afturkölluð og að gerð verði greiðsluáætlun við kæranda áður en fjárnámsgerð er lokið. Kærandi krefst þess að gengið verði tafarlaust til samninga um skattskuld hans eigi síðar en 23. júní 2014 og fjárnámsbeiðni aflýst. Þá krefst kærandi persónulegrar afsökunar [B] starfsmanns Tollstjóra og útskýringa á því hvers vegna embætti Tollstjóra komst yfir nafn og kennitölu hans.

Málavextir og málsástæður
Þann 18. júní 2014 fór kærandi fram á það við starfsmenn embættis Tollstjóra að fjárnámsbeiðni þess á hendur honum vegna vangoldinna skatta yrði afturkölluð og að gerð yrði greiðsluáætlun við hann um gjaldfallnar kröfur á hendur honum. Með fjárnámsbeiðni dags. 31. mars 2014 fór embætti Tollstjóra fram á að sýslumaðurinn í Reykjavík gerði fjárnám hjá kæranda vegna ógreiddra skatta hans að fjárhæð 2.131.317,- vegna álagðra þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð voru á við lögboðna álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013. Þann 19. júní 2014 var beiðni kæranda um afturköllun fjárnámsbeiðninnar og gerð greiðsluáætlunar hafnað.
Þann 20. júní 2014 barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu stjórnsýslukæra kæranda þar sem farið er fram á að gengið verði tafarlaust til samninga um skattskuld kæranda og fjárnámsbeiðni aflýst. Einnig var farið fram á persónulega afsökunarbeiðni frá starfsmanni Tollstjóra til kæranda og útskýringa á því hvers vegna embætti Tollstjóra bjó yfir upplýsingum um nafn og kennitölu kæranda. Í kæru segir að ekki verði séð að lýðveldið Ísland hafi fjárnámsaðgengi í lögsögu Reykjavíkur. Starfsmenn embættis Tollstjóra og fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafi því tekið sér vald sem þeir ekki hafa með því að hafna samningi við kæranda. Þá telur kærandi embætti sýslumannsins í Reykjavík vera aðildarlausa stofnun og að þar sem embætti borgarfógetans í Reykjavík hafi verið lagt niður 1. júlí 1992 hafi enginn leyfi til fjárnáms á einstaklinga sem búa í lögsögu Reykjavíkur.

Forsendur
Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 skal það vera stefna við innheimtu á tekjuskatti að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, hljóti sams konar meðferð.

Til þess að tryggja samræmt verklag innheimtumanna ríkissjóðs við innheimtu opinberra gjalda og tryggja að gjaldendur í mismunandi innheimtuumdæmum hljóti sams konar afgreiðslu í sambærilegum tilvikum hefur embætti Tollstjóra sett sér verklagsreglur um fjárnám. Samkvæmt 7.0 gr. verklagsreglnanna er óheimilt að fresta fjárnámi eftir að krafa um aðför vegna opinberra gjalda hefur verið send sýslumanni. Ekki skal gera greinarmun við fjárnámsaðgerð á því hvort hún fer fram vegna krafna sem byggjast á áætlun skattstjóra eða framtali gerðarþola. Að lokinni fjárnámsgerð er heimilt að gera greiðsluáætlun í samræmi við verklagsreglur um greiðsluáætlanir eða nauðungasölur eftir því sem við á hverju sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 fer embætti Tollstjóra með innheimtu opinberra gjalda.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að heimilt er að kæra stjórnsýsluákvarðanir. Ráðuneytið mun aðeins úrskurða um þá ákvörðun embættis Tollstjóra að hafna beiðni kæranda um að fjárnámsbeiðni Tollstjóra verði afturkölluð og að gerð verði greiðsluáætlun við kæranda áður en fjárnámsgerð er lokið. Aðrir þættir í kæru teljast ekki til stjórnvaldsákvarðana.
Ráðuneytið hafnar því að embætti Tollstjóra sé ekki bært til þess að senda fjárnámsbeiðni vegna ógreiddra gjalda með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.
Jafnræðisregla stjórnsýslulaga í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felur í sér að sambærileg tilvik skuli hljóta sams konar meðferð. Þannig er tryggt að allir gjaldendur sitji við sama borð. Til þess að fullnægja því skilyrði hefur embætti Tollstjóra sett verklagsreglur um fjárnám og var ákvörðun um fjárnámsbeiðni tekin á grundvelli þeirra. Ráðuneytið telur enga ástæðu til þess að ekki skuli farið eftir almennum verklagsreglum í máli kæranda. Kærandi á þann kost að gera greiðsluáætlun um vangoldin gjöld og komast hjá skráningu á vanskilaskrá að fjárnámsgerð lokinni ef hún er án árangurs líkt og aðrir gjaldendur.

Úrskurðarorð

Ákvörðun embættis Tollstjóra um að hafna beiðni kæranda um að fjárnámsbeiðni Tollstjóra verði afturkölluð og að gerð verði greiðsluáætlun við kæranda áður en fjárnámsgerð er lokið er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra









Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta