Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Stjórnsýslukæra vegna tafa á afgreiðslu endurgreiðslubeiðni

[…]
[…]
[…]
[…]

Reykjavík 24. nóvember 2017
Tilv.: FJR17040005/16.2.5

Efni: Kæra […], húsfélags vegna tafa á afgreiðslu endurgreiðslubeiðni virðisaukaskatts vegna viðhalds íbúðarhúsnæðis og skorts á skýringum.

Málavextir og málsástæður kæranda.
Með erindi dags. 3. apríl 2017 kærði […], húsfélag, kt.[…], (hér á eftir nefndur ,,kærandi“) óhóflegan drátt og skort á svörum vegna máls nr. 20110902067 hjá ríkisskattstjóra sem laut að endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds íbúðarhúsnæðisins að […], […]. Nánar tiltekið var þess krafist að fjármála- og efnahagsráðuneytið, (hér á eftir nefnt ,,ráðuneytið“), léti uppi álit sitt á því hvort að fimm ára biðtími eftir úrskurði án nokkurra skýringa samræmdist góðum stjórnsýsluháttum. Þá var þess krafist að ráðuneytið upplýsti kæranda um afdrif og aðgerðir í málinu frá 10. júlí 2012 til dagsins í dag. Loks var þess krafist að ráðuneytið upplýsti kæranda um til hvaða aðgerða hefði verið gripið til gagnvart því starfsfólki sem kom að vinnu málsins og þá hvort að fyrir lægi að vinnubrögðum og verkferlum yrði breytt í ljósi málsmeðferðar málsins. Til stuðnings kröfugerðinni var vísað til samskipta við embætti ríkisskattstjóra og annarra gagna til stuðnings á kröfum kæranda.


Þann 17. maí sl. óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra í málinu. Veittur var frestur til 29. maí sl. til að skila ráðuneytinu umsögn í málinu. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst sl. barst ráðuneytinu umsögn ríkisskattstjóra. Í umsögninni kom m.a. fram að gögn í málinu hefðu af óskýranlegum ástæðum mislagst og væri það fyrst þegar óskað væri umsagnar í málinu að uppvíst væri að beiðni um endurupptöku ásamt verkseðli og skýringum hafi verið móttökustimpluð/móttekin hjá ríkisskattstjóra þann 19. september 2011 og legið óafgreidd af framangreindum ástæðum. Í ljósi þessa hefði verið stefnt að því að afgreiðslu í málinu lyki fyrir 31. ágúst sl.

Í ljósi kærunnar og út frá upplýsingum frá kæranda þess efnis að niðurstaða í máli kæranda lægi ekki fyrir í máli hans hjá ríkisskattstjóra sendi ráðuneytið tölvupóst til ríkisskattstjóra þann 17. október sl. og óskaði eftir afriti af úrskurði ríkisskattstjóra í málinu. Erindi ráðuneytisins til ríkisskattstjóra var ítrekað þann 26. október sl.

Þann 27. október sl. barst ráðuneytinu svar frá embætti ríkisskattstjóra þar sem fram kom að málið væri enn í vinnslu hjá embættinu, en að tafir hefðu átt sér stað, m.a. vegna gagnaöflunar. Hins vegar væri stefnt á að málalyktir í málinu yrðu í vikunni eftir, þ.e. 30. október- 3. nóvember sl. Þann 16. nóvember sl. ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um afrit af úrskurði ríkisskattstjóra í málinu frá 17. október sl.


Þann 17. nóvember sl. barst ráðuneytinu afrit af úrskurði ríkisskattstjóra í málinu vegna beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á skiptingu kæranda á milli vélavinnu og vinnu með höndum, að undanskildum þeim dögum þar sem að vélavinna var tilgreind 0 klst. Með vísan til þess hækkaði ríkisskattstjóri stofn kæranda til endurgreiðslu um 509.250 kr. og virðisaukaskatt af fjárhæðinni um 129.859 kr. Endurgreiddur virðisaukaskattur hækkaði því úr 341.381 kr. í 471.240 kr, eða um 129.859 kr.

Forsendur og niðurstaða.
Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í samræmi við ákvæði 26. gr. laganna og almennum reglum stjórnsýsluréttar er þannig gert ráð fyrir að æðra sett stjórnvald geti vísað máli frá, fellt ákvörðun lægra setts stjórnvalds úr gildi eða eftir atvikum breytt ákvörðun eða tekið nýja ákvörðun í málum, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1107/1994.

Í sérstökum athugasemdum við 26. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/1993 segir m.a.:
Með lögfestingu hinnar óskráðu meginreglu í 26. gr. er ekki ætlunin að þrengja kæruheimild frá því sem verið hefur ef frá er talið ákvæðið í 2. mgr. Þar kemur fram að svonefndar formákvarðanir, sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, verði ekki kærðar fyrr en máli hefur verið ráðið til lykta. Þar sem meðferð mála á fyrsta stjórnsýslustigi tekur almennt mjög skamman tíma er talið óheppilegt að þau séu dregin á langinn með því að kæra slíkar ákvarðanir. Nægjanlegt öryggi ætti að felast í því að hægt sé að kæra þvílíkar ákvarðanir eftir að efnissákvörðun hefur verið tekin í málinu.
Af framangreindum skýringum við 26. gr. laga nr. 37/1993 liggur fyrir að kæruheimild 26. gr. laga nr. 37/1993 nær aðeins til ákvarðana um rétt eða skyldu manna skv. 1. gr. laganna, þ.e. svokallaðra stjórnvaldsákvarðana, en ekki til ákvarðana um málsmeðferð. Meðal skilgreiningaratriða stjórnvaldsákvörðunar eru að slík ákvörðun bindi enda á stjórnsýslumál og henni sé beint út á við að borgurunum.

Fyrir liggur að ríkisskattstjóri hefur nú kveðið upp úrskurð í máli kæranda, dags. 17. nóvember sl., þar sem fram kemur að ríkisskattstjóri hefur ákvarðað um hækkun kæranda á stofni til endurgreiðslu virðisaukaskatts og þar með hækkun á endurgreiddum virðisaukaskatti til kæranda. Með 23. gr. laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, var nýrri málsgrein bætt við 43. gr. A, svohljóðandi: ,,Ákvörðun ríkisskattstjóra um sérstaka endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. XIII kafla og ákvæðum til bráðabirgða í lögum þessum má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd“. Breytingin tók gildi þann 1. janúar 2016. Að framangreindu virtu liggur því fyrir að frá og með þeim tíma er kæruheimild vegna sérstakra endurgreiðsla til yfirskattanefndar en ekki til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 125/2015 kom fram að í breytingunni fælist m.a. að ákvarðanir um endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna nýbygginga eða endurbóta á íbúðarhúsnæði samkvæmt reglugerð nr. 449/1990, yrðu kæranlegar til yfirskattanefndar og ætti það sama við um aðrar endurgreiðslur samkvæmt XIII. kafla laganna og ákvæðum til bráðabirgða í lögunum.

Fyrir liggur að fullnaðarúrskurður liggur nú fyrir hjá ríkisskattstjóra í máli kæranda. Kærufrestur á úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar eru þrír mánuðir frá dagsetningu þess úrskurðar. Að framangreindu virtu leiðir að það fellur utan valdmarka ráðuneytisins að taka kröfu kæranda til kærumeðferðar, sbr. móttekin kæra, dags. 3. apríl sl.



Úrskurðarorð.
Kröfu […], húsfélags til ráðuneytisins, dags. 3. apríl sl., er vísað frá.


Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta