Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Stjórnsýslukæra - ákvörðun RSK um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Lögsýslan ehf.
Hlöðver Kjartansson
Bæjarhrauni 8
220 Hafnarfjörður

Reykjavík 14. mars 2017
Tilv.: FJR16100075/16.2.1

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru yðar frá 24. október 2016, f.h. [A] og [B], þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra frá 13. júlí 2016, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Málavextir og málsástæður
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 13. júlí 2016.
Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að einstaklingum hafi verið heimilað skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, að sækja um leiðréttingu á lánum sem lögin tóku til. Umsóknartímabil vegna leiðréttingar á verðtryggðum fasteignaveðlánum hafi verið frá 15. maí til 1. september 2014 skv. 1. mgr. 4. gr. sömu laga og bar einstaklingum að beina umsókn sinni til ríkisskattstjóra á rafrænu formi í gegnum þjónustusíðuna leidretting.is. Fram kemur að leiðrétting lána hafi byggst á því að einstaklingar sem eftir henni óskuðu áttu að eiga frumkvæði að því að koma þeirri ósk á framfæri við ríkisskattstjóra með þeim hætti sem umrædd lög og útfærsla þeirra kvað á um og innan lögfestra tímamarka.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra er umsóknarferilinn rakinn. Þar greinir að innskráning á þjónustusíðuna leidretting.is hafi hvort tveggja verið möguleg með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænum skilríkjum. Í ferlinu hafi einstaklingar einnig þurft að veita upplýsingar um tölvupóstfang sitt. Á forsíðu þjónustusíðunnar hafi einstaklingar getað sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána, ráðstöfun á séreignarsparnaði eða bæði úrræðin. Fram kemur að við umsókn um leiðréttingu hafi einstaklingar átt kost á að yfirfara þær upplýsingar sem lagðar yrðu til grundvallar við afgreiðslu umsókna þeirra. Þá greinir að til þess að umsókn yrði gild og skil á henni ætti sér stað þurftu einstaklingar annars vegar að staðfesta að viðkomandi lánveitendum væri heimilað að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra og hins vegar að velja að senda umsókn. Hins vegar hafi kærendur ekki sótt um leiðréttingu með ofangreindum hætti og innan hins lögákveðna umsóknartímabils.

Fram kemur að kærendur höfðu samband við ríkisskattsjóra hinn 19. ágúst 2014 þar sem lýst var yfir áhyggjum af skráningu húsnæðislána í umsókn á vef embættisins. Þær leiðbeiningar sem kærendum voru gefnar af stafsmanni embættisins voru að senda umsóknina þar sem unnt væri að gera breytingar á henni eftir að hún var send. Hins vegar hafi kærendur ekki lokið umsóknarferlinu með þeim hætti sem þeim var leiðbeint um og því hafi gild umsókn um leiðréttingu ekki verið send. Af þeim sökum hafi ekki verið sótt um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2014.

Stjórnsýslukæra, móttekin 24. október 2016.
Í kærunni greinir að kærendur hafi ætlað að ljúka við rafræna umsókn um leiðréttingu hinn 19. ágúst 2014 en hafi óttast að gera misstök við sendingu hennar. [B] hafi því haft samband símleiðis við embætti ríkisskattstjóra þar sem henni var tjáð að hún skyldi engar áhyggjur hafa heldur ljúka við að senda umsókn. Fram kemur að kærendur telji að ríkisskattstjóri hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að hafa ekki veitt þeim þá nauðsynlegu aðstoð og leiðbeiningar við gerð og innsendingu umsóknar þeirra sem honum bar þannig að umsókn um leiðréttingu skilaði sér með lögformlegum hætti. Fram kemur að [B] hafi gert starfsmanni ríkisskattstjóra ljóst að um umsókn vegna leiðréttingu fasteignaveðlána var að ræða. Þá greinir að starfsmanninum hafi borið að hafa hagsmuni kærenda í fyrirrúmi og gæta að því að umsókn kærenda bærist og gera [B]u viðvart um að umsókn hefði ekki borist heldur aðeins umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Kærendur telja að vanræksla ríkisskattstjóra á leiðbeiningarskyldu sé slík að hún leiði til ógildingar á ákvörðun ríkisskattsjóra og að fallast eigi á að umsókn kærenda um leiðréttingu fasteignaveðlána hafi verið fullnægjandi eða að úr henni fáist bætt.

Þá greinir að kærendur telji sig eiga lögvarða kröfu á því að fá rökstudda úrlausn á því hvort að ríkisskattstjóri hafi fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni gangvart þeim. Í þeim efnum benda kærendur á nauðsyn þess að öll aðstoð stjórnvalda sem veita átti umsækjendum við að ganga frá rafrænum umsóknum væri vönduð og fullnægjandi vegna hinna íþyngjandi skilyrða um að umsókn skyldi skila rafrænt. Fram kemur að kærendur hafi ekki fengið slíka aðstoð og kenna verði um vanrækslu ríkisskattstjóra á leiðbeiningarskyldu að kærendur hafi ekki sótt um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils. Kærendur hafi mátt treysta því að umsókn þeirra um leiðréttingu myndi skila sér til ríkisskattsjóra ef þau lykju „því umsagnarferli sem hún var að vinna í á meðan hún ræddi við starfsmanninn og fékk greindar leiðbeiningar um og staðfestingu í símtalinu“.. Að lokum er þess krafist að kærendum verði látið í té endurrit af umræddu samtali við starfsmann ríkisskattstjóra.

Fram kemur að ekki sé að finna í ákvörðun ríkisskattstjóra rökstuðning um hvernig eða með hvaða hætti starfsmaður embættisins rækti aðstoðar- og leiðbeiningarskyldu sína við [B]. Að kærunni má ráða að meta verði aðstæður í máli kærenda sérstaklega þar sem það samrýmist ekki lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að afgreiða erindi þeirra á þann hátt að lagaheimild standi ekki til þess að fallast á umsókn þeirra burtséð frá atvikum málsins enda um að kenna vanrækslu ríkisskattstjóra á aðstoð og leiðbeiningum þar um.

Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 17. nóvember 2016.
Með bréfi, dags. 2. nóvember sl., óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattsjóra um framkomna stjórnsýslukæru ásamt því að þau gögn sem málið kynnu að varða yrðu send ráðuneytinu. Umsögn og gögn bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 17. nóvember sl.

Í umsögn ríkisskattstjóra greinir að þann 21. maí 2014 hafi átt sér stað innskráning á vefsíðuna leidretting.is á kennitölu kæranda, [A], með veflykli. Við innskráninguna hafi kærandi komið inn á síðu þar sem krafist er skráningar á netfangi. Lokið hafi verið við skráningu þeirra upplýsinga og umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlán opnuð. Fram kemur að ekki hafi verið lokið við umsóknarferlið með því að senda umsókn. Næsta hreyfing á umsóknavef kærenda hafi farið fram hinn 19. ágúst 2014 á kennitölu [A], umsókn skoðuð en ekki lokið við hana og vefnum lokað. Stuttu síðar þann dag hafi að nýju átt sér stað innskráning á kennitölu [A]. Þá hafi umsókn um leiðréttingu fyrst verið skoðuð en stuttu síðar hafi umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar verið opnuð og henni skilað. Aðeins nokkrum mínútum eftir að umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar var send hafi átt sér að nýju stað innskráning inn á vefinn og nú á kennitölu Ingibjargar eftir að hún hafi í tvígang reynt að skrá sig inn á vefinn með röngum veflykli. Fram kemur að eftir innskráninguna hafi hún gefið upplýsingar um netfang og að því loknu hafi umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar verið opnuð og henni skilað. Næsta innskráning á umsóknavef kærenda hafi verið þann 11. nóvember 2014, fyrst á kennitölu [A] og aftur stuttu síðar á kennitölu Ingibjargar.

Fram kemur að [B] hafi haft samband við ríkisskattsjóra hinn 19. ágúst 2014 þar sem hún hafði áhyggjur af skráningu húsnæðislána á umsókn sinni. Henni hafi verið leiðbeint um að senda umsókn um leiðréttingu því unnt væri að gera breytingar á henni eftir að hún hefði verið send, líkt og fram komi í kærunni. Þá greinir að treysta hefði mátt svörum starfsmanns ríkisskattstjóra og því að umsóknin kæmist til skila ef lokið væri við umsóknarferlið. Þá er því hafnað að starfsmaður ríkisskattstjóra hafi brugðist ranglega við innkomnu símtali og ekki sinnt leiðbeiningarskyldu. Ennfremur greinir að fram komi í málflutningi kærenda að þeim hafi verið leiðbeint um að senda umsókn þar sem unnt væri að laga annmarka eftir að hún hafi verið send en senda hafi þurft umsókn til þess að hún teldist gild. Hins vegar komi ekki fram í skráningum í atvikaskráningarkerfi ríkisskattstjóra og gagnaskilakerfi leiðréttingarinnar að umsóknarferlinu hafi verið lokið með þeim hætti að umsókn hafi verið send. Þá er ekki fallist á að kærendur hafi verið í vandræðum við að senda umsóknina vegna tæknikunnáttu og vísað til þess að lokið hafi verið við umsóknir beggja kærenda um ráðstöfun séreignarsparnaðar á stuttu millibili sem var tæknilega mun flóknara en umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Að lokum greinir í umsögn ríkisskattstjóra að umbeðið endurrit af símtali Ingibjargar við starfsmann embættisins sé ekki lengur til og hafi ekki verið til hinn 26. mars 2016 þegar beiðni um endurritun barst enda séu hljóðritanir af þessu tagi aðeins varðveittar í skamman tíma.

Viðbótarumsögn ríkisskattstjóra, dags. 29. nóvember 2016.
Með bréfi, dags. 29. nóvember sl., móttók ráðuneytið viðbótarumsögn frá ríkisskattstjóra. Þar greinir að það hafi verið viðtekin venja hjá starfsmönnum ríkisskattstjóra, þar sem umsóknartímabil vegna leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána hafi verið lögbundið, að leiðbeina einstaklingum að ljúka við umsókn á þjónustusíðu sinni þrátt fyrir að þeir hefðu athugasemdir. Unnt hafi verið að koma á framfæri athugasemdum og gera leiðréttingar eftir að umsókn var send.

Umsögn kærenda, dags. 9. desember 2016.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. nóvember og 2. desember sl., var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um umsagnir ríkisskattsjóra. Þá var jafnframt óskað eftir því að tekin yrði afstaða til þess hvort að kærufrestur í málinu kynni að hafa verið liðinn þegar kæra barst ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hvort að í málinu kynnu að vera til staðar einhverjar þær ástæður sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 28. gr. sömu laga. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með bréfi hinn 13. desember sl.

Að því er kærufrestinn varðar greinir að kærendum hafi ekki verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar um kærufrestinn þar sem tímamark kæruheimildar hafi ekki hafi verið tilgreint í ákvörðun ríkisskattstjóra. Þá mæli veigamiklar ástæður fyrir því að kæran verði tekin til meðferðar og er þar einkum vísað til þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir kærendur.

Í umsögninni greinir að af háttsemi [B] verði ráðið að vilji hafi staðið til að sækja um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Tilefni símtals hennar hafi verið sá að hún hafi verið í erfiðleikum með að ljúka við gerð umsóknarinnar og hafi óttast að gera mistök við að senda hana. Fram kemur að leggja verði til grundvallar við úrlausn málsins þá staðhæfingu starfsmanns ríkisskattstjóra að umsókn kærenda myndi finnast í kerfum embættisins. Því einu verði um kennt að hún treysti þeim leiðbeiningum sem hún fékk hjá starfsmanni ríkisskattstjóra.

Þá greinir að þó að það hafi verið viðtekin venja hjá starfsmönnum ríkisskattstjóra að leiðbeina einstaklingum að senda umsókn þrátt fyrir að þeir hefðu athugasemdir við það sem fram kom á síðunni hafi slíkar leiðbeiningar ekki verið fullnægjandi í tilviki kærenda og embættið hafi látið „í léttu rúmi liggja“ áhyggjur um að fullnægjandi umsókn kæmist til skila.“

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu er deilt um hvort að kærendur hafi sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána innan lögbundins umsóknartímabils og um leiðbeiningarskyldu ríkisskattstjóra í því sambandi. Þá er jafnframt til skoðunar hvort að kærufrestur í málinu kunni að hafa verið liðinn þegar kæra barst ráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hvort að til staðar séu einhverjar þær ástæður sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 28. gr. sömu laga.

Ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um almenna heimild aðila máls til þess að bera undir æðra stjórnvald stjórnvaldsákvörðun sem lægra sett stjórnvald hefur tekið. Í 27. gr. laganna er lögfestur almennur þriggja mánaða kærufrestur til æðra stjórnvalds.

Í máli því sem hér um ræðir ákvarðaði ríkisskattstjóri í málinu með bréfi, dags. 13. júlí 2016, sem ætla má að hafi borist kærendum og umboðsmanni þeirra, sem sent var afrit af ákvörðunni, um einum til tveimur dögum síðar. Stjórnsýslukæra kærenda er dagsett 24. október 2016 og móttekin hjá ráðuneytinu hinn 25. október eða að kærufresti liðnum. Ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga kveður m.a. á um að kæra teljist nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en kærufresturinn er liðinn. Ákvæði 28. gr. laganna mælir síðan fyrir um afleiðingar þess að kæra berist að liðnum kærufresti. Almenna reglan er sú að æðra stjórnvaldi ber að vísa kæru frá berist hún að kærufresti liðnum nema undantekningar þær sem ákvæðið kveður á um eigi við.

Það er mat ráðuneytisins að ekki verði ráðið af málsatvikum eða gögnum málsins að afsakanlegt verði talið að stjórnsýslukæran hafi borist ráðuneytinu að kærufresti liðnum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið fellst ekki á að skort hafi á leiðbeiningarskyldu ríkisskattstjóra í ákvörðunarorði um lengd kærufrests til ráðuneytisins. Í því sambandi er nægilegt að að líta til þess að kærufrestur er lögbundinn auk þess sem umboðsmaður kærenda er löglærður. Hins vegar felst ráðuneytið á þau sjónarmið að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. laganna, vegna hagsmuna kærenda.

Í málinu hefur komið fram að í atvikaskráningu ríkisskattstjóra sjáist ekki að lokið hafi verið við umsókn um höfuðstólsleiðréttingu og ekki verði annað ráðið en að hin sjálfvirka atvikaskráning sé rétt. Ráðuneytinu er kunnugt um að allar upplýsingar varðandi umsóknir um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána á vefnum leidretting.is hafi verið sóttar til umsóknarkerfis leiðréttingarinnar með vefþjónustum og að allar færslur á vefnum hafi verið skráðar af umsjónarkerfinu. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingar framkvæmdu á vefnum verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins af vefnum sjálfum ásamt því að hafa verið skráðar í umsóknarkerfið sem lagði til upplýsingarnar. Því hafi verið til staðar tvöföld atvikaskráning til viðbótar við vistun á viðeigandi gögnum í gagnagrunni. Allar tilraunir einstaklinga til auðkenningar/innskráningar hafi verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins hvort sem þær báru árangur eða ekki. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingur framkvæmdi á vefnum eftir að hann auðkenndi sig verið skráðar með sama hætti.

Líkt og fram hefur komið var umsóknarferill leiðréttingarinnar með þeim hætti að einstaklingar skráðu sig inn á þjónustusíðuna leidretting.is annað hvort með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænum skilríkjum. Í ferlinu veittu einstaklingar upplýsingar um tölvupóstfang sitt. Á forsíðu þjónustusíðunnar gátu einstaklingar sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána, ráðstöfun á séreignarsparnaði eða bæði úrræðin. Við umsókn um leiðréttingu hafi einstaklingar átt kost á að yfirfara þær upplýsingar sem lagðar yrðu til grundvallar við afgreiðslu umsókna þeirra og til að skil ættu sér stað þurftu einstaklingar að staðfesta miðlun upplýsinga og senda umsókn. Umsóknarferill ráðstöfunar séreignasparnaðar er mun flóknara ferli þar sem umsækjendur þurfa að velja þau lán sem ráðstafa á inn á, velja vörsluaðila og eftir atvikum að skipta á milli sín ráðstöfunarfjárhæð. Ítarlegt kynningarmyndband var að finna á síðunni leidretting.is um umsóknarferlið í heild sinni.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 35/2014 var umsóknartímabil fyrir leiðréttingu verðtryggða fasteignaveðlána frá 15. maí til 1. september 2014. Í 2. mgr. greinarinnar er tilgreint hverjum er heimilt að sækja um leiðréttingu verðtryggra fasteignaveðlána og í 3. mgr. er tilgreint að umsókn skuli beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og að málsmeðferðin skuli vera rafræn. Þá eigi umsækjandi að staðfesta að hann heimili viðkomandi lánveitanda að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra um viðkomandi fasteignaveðlán. Loks er í 5. mgr. tilgreint að ef umsækjandi veitir ekki þær upplýsingar eða leggur ekki fram þau gögn sem óskað er eftir í rafrænu umsóknarferli skuli hafna umsókn.

Með lögunum var ríkisskattstjóra falið að annast móttöku umsókna um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og afgreiðslu þeirra. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána er undirstrikað að framkvæmd leiðréttingar skuli háð frumkvæði einstaklinganna sjálfra. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra birtist umsækjendum sem sóttu um leiðréttingu tilkynning þess efnis að umsókn hefði verið móttekin um leið og ýtt hafði verið á hnappinn „Senda umsókn“. Jafnframt var hægt að nálgast staðfestingu undir flipanum „Samskipti“ á vefsvæði umsækjenda á leidretting.is.

Með hliðsjón af málatilbúnaði öllum verður að telja óumdeilt að kærendur hafi fengið leiðbeiningar frá ríkisskattstjóra um að þau skyldu senda umsókn og unnt væri að gera leiðréttingar á umsókn eftir að hún var send. Ekki verður þó séð að kærendur hafi sent umsóknina en í málatilbúnaði kærenda hefur komið fram að þau töldu sig vera að sækja um leiðréttingu fasteignaveðlána þegar þau í raun sóttu um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Í því sambandi vísast m.a. til ódagsetts minnisblaðs kærenda sem fylgdi umsögn þeirra frá 9. desember sl. Þar kemur fram að [B] hafi ætlað að sækja um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána hinn 19. ágúst 2014 en raunin hafi orðið sú að kærendur hafi bæði þann sama dag sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar.

Ráðuneytið telur atvik máls ekki vera með þeim hætti að viðmóti þjónustusíðunnar verði um kennt enda var greinilegur munur á umsóknarferli leiðréttingarinnar og ráðstöfunar séreignarsparnaðar. Þá er það mat ráðuneytisins að ekki hafi skort á leiðbeiningarskyldu ríkisskattsjóra.

Fyrir liggur að ríkisskattstjóri móttók ekki umsókn um leiðréttingu frá kærendum og því voru forsendur til leiðréttingar ekki til staðar. Ráðuneytið telur ljóst að ef kærendur hefðu sent umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána eða ef villa hefði komið upp við að senda umsóknina væri þá aðgerð að finna í skráningarkerfum ríkisskattstjóra auk þess sem kærendum hefði átt að berast tilkynning um móttöku umsóknar.

Líkt og áður greinir voru skil umsóknar um leiðréttingu á ábyrgð og forræði einstaklinganna sjálfra. Ráðuneytið telur að sú krafa verði ekki gerð til ríkisskattstjóra á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga að starfsmenn embættisins gengju á eftir því að umleitanir allra þeirra sem höfðu samband við embættið skiluðu sér á endanum sem umsóknir. Hin lögbundnu skilyrði sem tilgreind eru m.a. í 4. gr. laga nr. 35/2014 eru ófrávíkjanleg og einstaklingar sem ekki sóttu sannanlega um leiðréttingu á vef ríkisskattstjóra innan þess umsóknartímabils sem lögin kveða á um teljast ekki eiga rétt á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Með vísan til framangreinds er það því mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu erindisins.


Úrskurðarorð:

Ákvörðun ríkisskattstjóra er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta