Lokið |
Framvinda verkefnisins
Geðheilsuteymi hafa verið sett á fót í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og starfa í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Þrjú ný geðheilsuteymi hafa tekið til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, geðheilsuteymi fangelsanna, geðheilsuteymi fjölskylduvernd og geðheilsuteymi fyrir fólk með þroskaraskanir og annan geðrænan vanda.
Til þess að bregðast við neikvæðum afleiðingum af heimsfaraldri COVID-19 og heimskreppu var farið út í sérstakar aðgerðir til þess að efla geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Sálfræðingum var fjölgað á heilsugæslum um land allt, tíu stöðugildi á höfuðborgarsvæðinu og eitt í hverju heilbrigðisumdæmi. Geðheilsuteymi um land allt voru styrkt með þremur stöðugildum á höfuðborgarsvæðinu og einu stöðugildi í hverju heilbrigðisumdæmi. Einnig voru teymin styrkt um þrjú stöðugildi geðlækna.
Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu var falið að útbúa fræðsluefni um geðheilbrigði fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila, fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda og geðræktarefni fyrir börn í skólum. Einnig var Þróunarmiðstöðin styrkt til þess að samræma og samhæfa þjónustu og þekkingu á milli heilsugæslustöðva í landinu.
Heilbrigðisstofnanir Vesturlands, Norðurlands og Suðurlands fengu styrki til þess að efla fjarheilbrigðisþjónustu.
Afeitrunardeild ólögráða ungmenna var opnuð á Landspítala 2. júní 2020. Starfshópur sem rýndi í það lagaumhverfi sem snýr að meðferð ólögráða ungmenna skilaði skýrslu til heilbrigðisráðherra haustið 2020. Starfshópur um heildarskipulag heilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu með tillögum sínum í júní 2021 og hefur hún verið birt til umsagnar í samráðsgátt. Ákveðið hefur verið að ráðast í heildarúttekt á þjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Stefnt er að því að heildarúttektinni verði lokið í nóvember 2021.
SÁÁ hefur verið veittur styrkur á fjáraukalögum til að styrkja göngudeildarþjónustu. Rótinni var sömuleiðis veittur styrkur til að byggja upp þjónustu við konur sem glíma við neyslu- og fíknivanda og Frú Ragnheiði var einnig veittur styrkur til áframhaldandi skaðaminnkunar.
Aðgengi fólks um allt land að þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu hefur aukist og heilsugæslan eflst.
Ábyrgð
Heilbrigðisráðuneytið
Kafli
Sterkt samfélag