Hoppa yfir valmynd
Lokið

Framvinda verkefnisins

Sérstöku fjármagni hefur verið veitt til að koma á fót heilsueflandi móttökum á heilsugæslustöðvum í öllum heilbrigðisumdæmum landins til að tryggja sem best heilsuvernd aldraðra og þverfaglega og heildræna heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda. 

Árið 2020 var fjárframlag til heimahjúkrunar aukið með sérstökum samningi við Reykjavíkurborg um sérhæfða heimahjúkrun með áherslu á velferðartækni og bætta þjónustu við veika aldraða með stofnun sérhæfðs öldrunarteymis.
Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem sett var á fót árið 2018 er ætlað stórt hlutverk á landsvísu. Þar vegur þungt að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum. Þjónusta Þróunarmiðstöðvarinnar hefur verið efld enn frekar frá því hún tók til starfa.

Þróun Heilsuveru heldur áfram þar sem miðlað er upplýsingum um heilbrigðisþjónustu og veittur aðgangur að heilbrigðisupplýsingum og tiltekinni þjónustu á ,,Mínum síðum." Sú þróun hefur tekið stórstígum framförum og haft áhrif á skipulag þjónustunnar, meðal annars í tengslum við COVID 19. 

Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var falið að fella þá þjónustu sem áður var veitt af Miðstöð foreldra og barna inn í þjónustumódel sitt sem nýtt geðheilsuteymi fjölskylduverndar og hefur sú yfirfærsla gengið vel. 

Heilbrigðisþjónusta við fanga hefur verið aukin og bætt um allt land, m.a. með samningi Sjúkratrygginga Íslands við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsinu á Hólmsheiði. Í desember 2019 var stofnað sérstakt geðheilsuteymi fangelsanna sem er til húsa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en veitir öllum föngum landsins almenna og sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu í samvinnu við önnur heilbrigðisþjónustustig. 
Geðheilsuteymi hafa verið sett á fót í öllum heilbrigðisumdæmum í samræmi við stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru einnig sett á fót geðheilsuteymi í fjölskylduvernd og geðheilsuteymi fyrir fólk með þroskaraskanir og annan geðrænan vanda.

Til þess að bregðast við neikvæðum afleiðingum af heimsfaraldri COVID-19 og heimskreppu var farið út í aðgerðir til þess að efla enn frekar geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Sálfræðingum var fjölgað á heilsugæslum um land allt og eðheilsuteymin um allt land styrkt með fleiri stöðugildum, m.a. stöðugildum geðlækna. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu var falið að útbúa fræðsluefni um geðheilbrigði fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila, fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda og geðræktarefni fyrir börn í skólum. Einnig var Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu styrkt til þess að samræma og samhæfa þjónustu og þekkingu á milli heilsugæslustöðva í landinu. 

Áhersla er lögð á að bæta aðbúnað og efla innviði heilsugæslunnar. Sett voru ný viðmið um skipulag húsnæðis fyrir starfsemi stærri heilsugæslustöðva. Vinna er í gangi við uppbyggingu og/eða endurbætur á húsnæði ýmissa heilsugæslustöðva.

Unnið hefur verið að því að auka gegnsæi og jafnræði við fjármögnun á verkefnum heilsugæslunnar. Í því skyni hefur verið innleitt sérstakt fjármögnunarlíkan á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og innleiðing þess er hafin á heilsugæslum á landsbyggðinni. 

Aukin áhersla hefur verið lögð á að kynna þjónustu heilsugæslunnar um allt land. 

Fagstéttum hefur fjölgað innan heilsugæslunnar, þjónustan er fjölþættari, teymisvinna hefur aukist, þjónustukaup eru skilvirkari og staða heilsugæslunnar sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu hefur styrkst í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Ábyrgð

Heilbrigðisráðuneytið

Kafli

Sterkt samfélag

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta