Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2020 Forsætisráðuneytið

Ráðherrar í ytri hring mögulegs smithóps

Ákveðið hefur verið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fari í tvöfalda skimun og viðhafi smitgát á milli eftir að nokkur kórónuveirusmit greindust í gær hjá einstaklingum sem dvöldu á Hótel Rangá. Ríkisstjórnin snæddi kvöldverð á hótelinu þriðjudaginn 18. ágúst. Fyrri skimun fer fram síðar í dag og sú síðari nk. mánudag.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar teljast til ytri hrings hins mögulega smithóps og eru því ekki hluti þess hóps sem auknar líkur eru á að hafi verið útsettur fyrir smiti. Tveir ráðherrar snæddu ekki á Hótel Rangá, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, og þurfa því ekki að undirgangast ráðstafanirnar.

Ráðstafanir sóttvarnaryfirvalda í kjölfar athugunar smitrakningarteymis skipta þeim sem höfðu viðkomu á Hótel Rangá í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn er sá sem er líklegastur til að hafa verið útsettur fyrir smiti og hefur í dag 14 daga sóttkví. Annar hópurinn er talinn minna líklegur til að hafa verið útsettur fyrir smiti og fer í eina skimun og viðhefur úrvinnslusóttkví þar til niðurstaða úr skimun berst. Þriðji hópurinn, sem ríkisstjórnin tilheyrir og er sömuleiðis minna útsettur fyrir smitum, fer í tvöfalda skimun og viðhefur smitgát á milli, sem er sú aðferð sem notuð hefur verið fyrir heilbrigðisstarfsfólk, lögreglufólk, framlínufólk í orkufyrirtækjum og lykilstarfsfólk hjá fjölmiðlum og í stjórnkerfinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta