Hoppa yfir valmynd
10. september 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra styrkir forvarnastarf gegn sjálfsvígum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Píeta-samtökunum 6 milljónir króna á þessu ári til að efla forvarnastarf samtakanna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Jafnframt mun ráðherra tryggja 12 milljóna króna fjármagn fyrir stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis út næsta ár. Ákvörðun ráðherra er í samræmi við áherslur samráðsfundar embættis landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins 2. september síðastliðinn sem haldinn var með aðilum stofnana og félagasamtaka sem tengjast forvarnastarfi gegn sjálfsvígum. Alþjóðlegur forvarnadagur gegn sjálfsvígum er í dag.

Á samráðsfundinum var rætt um að erfiðleikar fólks í samfélaginu sem tengjast heimsfaraldri og heimskreppu séu vaxandi og ljóst að ástandið sé farið að hafa alvarleg áhrif á geðheilbrigði. Rannsóknir, bæði hérlendar og erlendar sýna einnig fram á þetta. Fundarmenn voru sammála um að nú væri áríðandi að grípa til aðgerða án tafar.

Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi var samþykkt í apríl 2018. Í áætluninni eru tillögur um margvíslegar aðgerðir sem mikilvægt er að hrinda í framkvæmd og fylgja eftir til að sporna við sjálfsvígum hér á landi.

Síðastliðið ár voru birtar niðurstöður starfshóps heilbrigðisráðherra um viðmið til að draga úr fordómafullri umræðu um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum. Eins og þar er bent á takast flestir á við geðrænan vanda einhvern tíma á lífsleiðinni. Þessi vandi er allt frá tímabundnum erfiðleikum yfir í langvarandi heilsufarsleg vandamál. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út að fjórðungur íbúa á Vesturlöndum upplifi einhvern tíma á ævinni einkenni er jafna megi við geðröskun. Fordómafull umræða getur valdið því að fólk með geðrænan vanda leiti sér síður hjálpar, eigi erfiðara uppdráttar, fái síður vinnu við hæfi og hafi ekki sömu tækifæri til að taka þátt í samfélaginu og aðrir. Slík umfjöllun hefur bæði áhrif á viðhorf almennings en getur einnig leitt til sjálfsfordóma hjá einstaklingum sem takast á við geðrænan vanda.

Á fyrrnefndum samráðsfundi var lögð áhersla á öll umræða um geðræn vandamál, ekki síst sjálfsvígshættu, þurfi að vera uppbyggileg með áherslu á von um bata og að það séu margar leiðir færar til að fá stuðning og aðstoð.

Upplýsingar og aðstoð fyrir almenning:

Sjá einnig:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta