Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2025 Matvælaráðuneytið

Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2024-2025

Almennum byggðakvóta er úthlutað til 42 byggðarlaga í 25 sveitarfélögum á fiskveiðiárinu 2024-2025. Atvinnuvegaráðherra er heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstaka tegunda. Heildarráðstöfun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu nemur alls 3.807 þorskígildistonnum. Heildarúthlutun kvóta dregst saman um 1.022 þorskígildistonn milli ára og verða breytingar á magni úthlutaðra þorskígildistonna til einstakra byggðarlaga í samræmi við það.

Heildarúthlutun byggðakvóta til byggðarlaga er samkvæmt ráðstöfun sem tilgreind er í reglugerð.nr. 817/2024, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2024/2025 og almanaksárið 2025. Úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024/2025 byggir á ákvæðum reglugerðar nr. 818/2024, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga.

Byggðalög með færri en 400 íbúa fá 2.259 þorskígildistonnum úthlutað og byggðarlög með fleiri en 400 íbúa fá úthlutað 1.548 þorskígildistonnum. Alls fá ellefu byggðalög lágmarksúthlutun upp á 15 þorskígildistonn og þrjú byggðalög fá hámarksúthlutun 285 þorskígildistonna.

  • Úthlutun almenns byggðakvóta fiskveiðiársins 2024-2025 er eftir landshlutum:

  • Austurland - 435 tonn

  • Norðurland eystra - 1.064 tonn

  • Norðurland vestra – 345 tonn

  • Suðurland - 30 tonn

  • Suðurnes - 145 tonn

  • Vestfirðir - 1.593 tonn

  • Vesturland - 195 tonn

     Samtals: 3.807 tonn

Nánari sundurliðun á úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðarlaga 2024-2025.

Til viðbótar við þá úthlutun sem er á fiskveiðiárinu 2024/2025 koma eftirstöðvar frá fyrra ári einnig til ráðstöfunar í þeim byggðarlögum sem slíkt á við. Alls nemur flutningur almenns byggðakvóta milli ára nær 1.038 þorksígildistonnum.

Úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í einstökum byggðarlögum á fiskveiðiárinu 2024-2025 byggir á ákvæðum reglugerðar nr. 819/2024, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025. Sveitarstjórnum verður tilkynnt um úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðarlaga í dag og mun ráðuneytið þá leita eftir afstöðu viðkomandi sveitarstjórna hvort þær óski eftir að setja sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflamarksins innan einstakra byggðarlaga. Sveitarstjórnum er veittur frestur til 21. febrúar n.k. til að senda ráðuneytinu tillögur sínar.

Innsendar tillögur sveitarstjórna verða til kynningar á vef ráðuneytisins eigi skemur en í sjö daga áður en tekin verður afstaða til þeirra.

Komi ekki fram óskir um sérreglur mun ráðuneytið beina því til Fiskistofu að auglýsa byggðakvóta fyrir viðkomandi byggðarlög til umsóknar eins fljótt og auðið er.

Almennum byggðakvóta er ráðstafað til stuðnings byggðarlögum á hverju fiskveiðiári á grundvelli ákvæða 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þannig er almennum byggðakvóta ráðstafað til (a) minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski og (b) til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í viðkomandi byggðarlögunum.

Byggðarlög, skv. 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2024.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta