Hoppa yfir valmynd
30. september 2024 Dómsmálaráðuneytið

Eyvindur G. Gunnarsson settur í embætti dómara við Landsrétt

Dómsmálaráðherra hefur sett Eyvind G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, í embætti dómara við Landsrétt frá og með 1. október 2024 til og með 28. febrúar 2029.

Eyvindur G. Gunnarsson lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1996 og meistaraprófi í lögum frá Duke háskóla í Bandaríkjunum 1998. Þá öðlaðist hann réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1997 og leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands árið 2006.

Að námi loknu starfaði Eyvindur um skeið í umhverfisráðuneytinu og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sem og sem aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Árin 2000-2006 var Eyvindur sjálfstætt starfandi lögmaður en hefur frá þeim tíma starfað við lagadeild Háskóla Íslands, þar af sem prófessor frá árinu 2013 og sem forseti deildarinnar 2013-2016. Eyvindur hefur jafnframt verið dómandi við Endurupptökudóm frá 2021 og tekið sæti sem varadómari í Hæstarétti í tíu málum.

Þá hefur Eyvindur átt sæti í stjórnsýslunefndum og stjórnum opinberra stofnana, þar á meðal í ráðgjafanefnd Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, stjórn Samkeppniseftirlitsins og stjórn Happdrættis Háskóla Íslands. Eyvindur hefur að auki ritað fjölda fræðirita- og greina á sviði lögfræði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum