Ákvörðun heilbrigðisráðuneytis vegna starfsemi Intuens Segulómunar ehf.
Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að ekki séu forsendur til að stöðva rekstur Intuens Segulómunar í ljósi þess að fyrirtækið gerði grundvallarbreytingar á starfsemi sinni í framhaldi af samskiptum sínum við ráðuneytið og embætti landlæknis. Embætti landlæknis fór þess á leit við ráðuneytið að starfsemin yrði stöðvuð í ljósi þess að fyrirtækið brást ekki við ítrekuðum erindum og tilmælum landlæknis.
Embætti landlæknis telur að með breytingum Intuens á starfsemi sinni rúmist þjónusta þess nú innan þeirra marka sem voru forsendan fyrir upphaflegri staðfestingu embættisins á rekstri fyrirtækisins, sem veitt var þann 3. nóvember sl. og tók eingöngu til heimildar um að veita myndgreiningarþjónustu á grundvelli tilvísana.