Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2025 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ný stjórn Menntasjóðs námsmanna og spretthópur um LÍN

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur skipað fjóra fulltrúa í stjórn Menntasjóðs námsmanna. Samhliða nýrri skipun stjórnarinnar hefur ráðherra sett af stað spretthóp um endurskoðun reglna um endurgreiðslu námslána í námslánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, forvera Menntasjóðsins.

Hlutverk stjórnar Menntasjóðs námsmanna er m.a. að móta áherslur í starfi sjóðsins, hafa eftirlit með starfsemi og fjárreiðum hans, gera tillögur til ráðherra að úthlutunarreglum og skera úr um vafamál. Lögum samkvæmt skipar nýr ráðherra málaflokksins fjóra fulltrúa í stjórn Menntasjóðsins og taka þeir sæti þeirra fulltrúa sem fyrri ráðherra skipaði án tilnefningar, en núverandi stjórn situr til 30. júní 2026.

Upplýsingar um fulltrúa í stjórn Menntasjóðs námsmanna má nálgast með því að smella hér. 

Spretthópur um endurskoðun reglna LÍN

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur jafnframt skipað þrjá fulltrúa í spretthóp um endurskoðun reglna um endurgreiðslu námslána í námslánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Í tengslum við kjarasamninga vorið 2024 gaf þáverandi ríkisstjórn út yfirlýsingu þar sem hún hét því að ráðast í breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Markmiðið væri að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Skyldu breytingarnar gagnast þeim sem hófu lánshæft nám eftir 2020 (H-Ián).

Til að tryggja jafnræði á milli greiðenda eldri lána LÍN og H-Iána ákváðu þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að settur yrði á fót starfshópur sem fengi það verkefni að kortleggja áhrif endurgreiðslufyrirkomulags eldri lána LÍN með tilliti til áhrifa á ævitekjur. Markmið breytinga sem gerðar voru við stofnun Menntasjóðs námsmanna á sínum tíma var að tryggja að endurgreiðslu námslána Iyki fyrir eftirlaunaaldur sem á ekki við um fyrra kerfi LÍN og því mikilvægt að skoða samræmi þar á milli. Starfshópnum yrði sérstaklega falið að skoða áhrif mögulegra afskrifta í tengslum við eftirlaunaaldur og stöðu lántakenda með hæstu lánin.

Ráðherra hefur ákveðið að koma fyrrgreindum áformum í framkvæmd og setja af stað spretthóp um endurskoðun reglna um endurgreiðslu námslána í námslánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Starfstímabil spretthópsins skal vera þrír mánuðir og ber honum að skila niðurstöðum sínum og tillögum, ef einhverjar eru, eigi síðar en 12. maí nk.

Í spretthópnum sitja:

  • Sveinn Andri Matthíasson, formaður, án tilnefningar
  • Sigrún Brynjarsdóttir, tilnefnd af Bandalagi háskólamanna
  • Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta