Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022
Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna voru kynntar í gær, á alþjóðlegum degi kennara. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og ungmennum.
Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum; fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennara og framúrskarandi þróunarverkefni og framúrskarandi iðn- eða verkmenntun sem er nýr flokkur í ár. Þá verða að auki veitt hvatningarverðlaun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Tilnefningar hljóta að þessu sinni:
Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Þessir skólar eru tilnefndir:
- Allegro – Suzuki tónlistarskóli
- Leikskólinn Akrasel
- Leikskólinn Rauðhóll
- Tæknimenntaskóli Tækniskólans.
Framúrskarandi kennari
Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr. Tilnefndir eru þessir kennarar:
- Ásta Kristjana Guðjónsdóttir, kennari við Reykholtsskóla í Bláskógabyggð
- Elísabet Ragnarsdóttir, leikskólanum Heiðarborg í Reykjavík
- Guðríður Sveinsdóttir, kennari við Giljaskóla á Akureyri
- Mikael Marinó Rivera, kennari við Rimaskóla í Reykjavík
- Valdimar Helgason, kennari við Réttarholtsskóla í Reykjavík.
Framúrskarandi þróunarverkefni
Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ýtrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Eftirfarandi verkefni eru tilnefnd:
- Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar
- Skrekkur, hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur
- Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi leikskólabarna. Ásthildur Bj. Snorradóttir og Menntamálastofnun.
Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun
Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar. Tilnefningar fá:
- Málarabraut Byggingartækniskóla Tækniskólans
- Hársnyrtibraut Verkmenntaskólans á Akureyri
- Átaksverkefnið #kvennastarf – Tækniskólinn í samstarfi við iðn- og verkmenntaskóla.