Félagsleg einangrun er mun algengari en fólk grunar
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur ýtt úr vör vitundarvakningu um félagslega einangrun. Verkefnið ber heitið Tölum saman og með því vill ráðuneytið vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni.
Allir geta lent í því að einangrast félagslega
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.
Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið.
Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt. Í tengslum við vitundarvakninguna hafa gagnlegar upplýsingar verið teknar saman á island.is/felagsleg-einangrun. Þar má til dæmis finna ráðleggingar við spurningum á borð við:
- Hefurðu nýlega upplifað missi, skilnað eða starfslok?
- Hefurðu nýlega lent í félagslegum áföllum eða átökum sem hafa valdið kulnun eða félagskvíða?
- Treystirðu mikið á samfélagsmiðla til að fylgjast með kunningjum eða heiminum í heild?
- Hefur nágranni þinn eða ættingi í auknum mæli „horfið inn í skelina“?
- Eru vísbendingar í umhverfi sem gefa í skyn minnkandi virkni?
Í netspjalli og hjálparsíma Rauða krossins 1717 má síðan fá upplýsingar og ráðgjöf allan sólarhringinn.
„Virkjum samfélagið“
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra segir að markmið vitundavakningarinnar sé að opna augu fólks fyrir félagslegri einangrun í samfélaginu og vekja athygli á samfélagslegri ábyrgð okkar allra.
„Sem ráðherra félags- og öldrunarmála þá er það eitt af mínum hjartans málum að vinna gegn þeirri þöglu ógn sem einmanaleiki og félagsleg einangrun eru,“ segir hún.
Ráðherra segir að heimsfaraldurinn hafi sýnt okkur hve skaðleg félagsleg einangrun geti verið. „Valin sveitarfélög fengu styrki til að ráða tengiráðgjafa, en þeirra hlutverk er að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa. Þeir nálgast þá sem eru félagslega einangraðir eða í hættu á að einangrast, meðal annars með símtölum og heimsóknum. Tengiráðgjafarnir hafa yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti viðkvæmra hópa.“
Inga Sæland segir að samhliða sé unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum sem ætlað sé að draga úr félagslegri einangrun fólks.
„Nú vil ég hins vegar virkja samfélagið og opna augu fólks fyrir því að hugsanlega sé einhver einangraður og einmana í næsta nágrenni sem við höfum ekki áttað okkur á. Við getum hjálpað með því að láta okkur ekki standa á sama heldur mæta viðkomandi þar sem hann er með vinskap, hlýju og virðingu. Ég hvet okkur öll til að tala saman og halda sambandi.“
- Tölum saman - bæklingur á íslensku (pdf)
- Let's talk – bæklingur á ensku (pdf)
- Porozmawiajmy - bæklingur á pólsku (pdf)
Hvað eru einmanaleiki og félagsleg einangrun?
Einmanaleiki er huglæg, óvelkomin tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum samskipum. Fólk er í eðli sínu félagsverur og því er nauðsynlegt að eiga í félagslegum samskiptum við annað fólk. Einmanaleiki er tilfinning sem getur komið og farið.
Félagsleg einangrun er hins vegar lítil eða engin félagsleg tengsl. Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi. Nær allar mannverur hafa þörf fyrir tengsl og einhvers konar nánd. Það að vera „út af fyrir sig“ og að einangrast félagslega er ekki það sama.