Hoppa yfir valmynd
24. mars 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillaga um hertar mengunarvarnakröfur í lögsögu Íslands og 7 annarra ríkja

Tillaga verður lögð fyrir fund Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) nú í apríl um að skilgreina lögsögu Íslands og 7 annarra ríkja við norðanvert Atlantshaf sem sérstakt mengunarsvæði fyrir skip. Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnar 21. mars.

Á vegum IMO er hægt að skilgreina hafsvæði þar sem strangari reglur gilda um mengunarvarnir en almennt gerist í alþjóðasiglingum. Slík svæði (Emission Control Areas, ECA) ná nú m.a. yfir Norðursjó, Eystrasalt, Miðjarðarhaf og lögsögur Noregs, Kanada og Bandaríkjanna. Svæði af þessum toga þurfa að fá samþykki innan IMO, þar sem ríki hafa almennt vald til að setja mengunarvarnareglur innan eigin landhelgi (12 mílna), en ekki í lögsögu utan landhelgi (200 mílna) eða á alþjóðlegum siglingaleiðum.

Tillagan sem tekin verður fyrir nú í apríl er um stofnun mengunarvarnasvæðis (AtlECA) sem myndi ná til lögsögu Grænlands, Færeyja, Bretlands, Írlands, Frakklands, Spánar og Portúgal, auk Íslands (sjá kort). Reglurnar varða mengun af völdum brennisteins- og köfnunarefnissambanda. Verði tillagan samþykkt á fundinum í apríl og aftur á næsta ári munu hertar reglur um mengunarvarnir taka gildi á svæðinu árið 2027.

Mjög hefur dregið úr notkun svartolíu í íslenskum skipum á undanförnum árum og þar með líka loftmengun af völdum sóts og brennisteinssambanda. Hertar kröfur um mengun af völdum köfnunarefnissambanda kalla á notkun hvarfakúta eða annarra ráðstafana í nýjum skipum sem koma inn 2027 og síðar.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ísland hefur lengi verið framarlega meðal þjóða heims í baráttu gegn mengun hafsins. Það er ekki að ástæðulausu sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur leggur áherslu á verndun hafsvæða í stefnuyfirlýsingu sinni. Þátttaka okkar í stofnun AtlECA-svæðisins er í takti við þessa stefnu ríkisstjórnarinnar og grundvallarmál fyrir okkur sem búum hér á eyju og eigum mikið undir auðlindum sjávar. Með tilkomu svæðisins verða gerðar ríkar kröfur um mengunarvarnir í skipum í lögsögu nær allra ríkja við norðanvert Atlantshaf.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta